Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Biðstaða í samfélaginu

Þótt ég sé að reyna að vera ekki þátttakandi í samfélaginu á meðan á prófatörn stendur, þá verður auðvitað ekki hjá því komist. Verðbréfafall kemur reyndar ekki við mig persónulega, en hins vegar finnst mér andrúmsloftið í samfélaginu einkennast af biðstöðu:

- Hvað ef hlutabréf halda áfram að falla? - Er þetta bara að gerast vegna alþjóðlegs vanda? - Hvað ef ríku náungarnir taka einhverja með sér niður? Hverja? - Geta þeir kannski fallið af stallinum án þess að fleiri gjaldi? - Eða er þetta úlfur, úlfur, eitthvað sem Íslandshatararnir á Jótlandspóstinum hafa fundið upp? Eigum við bara að bannfæra Jótlandspóstinn?

En það eru jafnvel enn mikilvægari spurningar í biðstöðu:

- Hvað er ekkert verður gert vegna þróunarinnar í húsnæðismálum? - Hvað ef alvarleg verðbólga skellur á (sum okkar muna hana)? - Hvað ef ekki verður gert í að jafna lífskjörin? - Hverjir fá næstu kjarabætur, ef einhverjir? - Verður eitthvað af viti gert fyrir aldraða eða öryrkja eða er þetta (sem við erum að heyra núna) allt og sumt? - Dregur úr þenslu, stoppa framkvæmdir eða verður allt á fullu áfram?

Spurning hvaða áhrif þetta ástand mun hafa á enn stærri mál, aðgerðir gegn loftslagsbreytingar og fleira slíkt.

Ég spái því að jólaverslunin verði aðeins hóflegri núna en undanfarin ár, en janúarútsölurnar líflegar. Að sveiflur verði áfram á verðbréfamörkuðum erlendis meira en hérlendis. Að ekkert merkilegt verði gert í loftslagsmálum, ef frá er talið að Ástralir eru að fá skilningsríkari stjórnvöld.

Og þá er þetta frá og ég get farið að snúa mér að skólabókunum á nýjan leik. Einsgott, en þetta bara varð að komast inn í umræðuna.


Já - og krosssaumsmynd eftir óleystri stærðfræðigátu.

Nú er ég farin að finna fyrir þessari ánægjutilfinningu sem oft (alls ekki alltaf) gerir vart við sig í upplestrarfríum. Þegar ég les (eða glími við dæmi og verkefni) og hugsa: Aha, svona er þetta já, hmmm hlýtur að vera að hægt að vinna með það. Hins vegar er ég vel meðvituð um að ég er að fara í hrikalega erfitt próf í erfiðu námsefni 11. desember. Og þótt hitt prófið sé mun léttara þá er námsefnið alveg ofboðslega mikið og ég þarf líka að ná að hækka mig um heila þrjá í því fagi (á lélega einkunn en náði prófinu þó á fyrsta ári eftir að Stebbi bróðursonur minn var búinn að ýta mér áfram með mikilli elju). Þetta er til að lappa upp á meðaleinkunnina í þeim fögum sem ég er EKKI að taka til MS prófs (tek 21 viðbótareiningu við MS námið í forkröfur). Einhvern veginn gleymdi ég mér og fékk eiginlega bara góðar einkunnir í MS-fögunum og þess vegna þarf ég að hækka mig í forkröfunum.

Þannig að þótt þetta ,,Aha" sé komið þá er ekki allt í höfn, síður en svo. En óneitanlega gaman að vera farin að njóta próflestarins, gera uppgötvanir og sjá fram úr að komast yfir námsefnið (fyrir fyrra prófið). 

Svo þegar ég er þreytt gríp ég í saumaskap, sem er fíkn, sem blossar af og til upp. Er að sauma krosssaumsmynd eftir óleystri stærðfræðigátu. Ekki við hæfi að sauma annað núna.


No comment

Uppi á lofti að læra


Farin í upplestrarfrí (með smá vinnutengdum verkefnum á milli)

Þá er loksins að komast á smá næði til upplestrar, má ekki seinna vera. Nokkur vinnutengd verkefni munu troða sér inn á milli, eins og gengur. Blogg mun fara eftir lestrarhörku.

Gleðipopp

Það er svo gaman að gramsa á YouTube. Eftir að ég gróf upp eitt af mínum gömlu uppáhaldslögum, Lazy Sunday Afternoon, með Small Faces, þá varð ég auðvitað að sækja gleðipopp-stuðlag allra tíma. Hér er það. 

Itchycoo Park

og fékk þá auðvitað smá áhyggileysis- gleði og hamingjupoppkast. Þetta er örugglega eitthvað sálrænt, kannski af því að ég er að byrja í próflestri. En alla vega hér er hitt eða kæruleysis-gleðipopplagið sem ég elska.

Even the bad times are good.

Og svo auðvitað eitt enn aðeins nýrra, sem kemur mér alltaf í gott skap:

Blister in the sun.


Að lifa í ,,nú"-inu

Þegar letilegur sunnudagur skellur á, farið er að rökkva, Ari minn steinsofnaður eftir að hafa farið á fund í morgun, Óli minn dottandi í sófanum yfir fínu Discovery efni, þá er auðvitað ekki hægt annað en hugsa til lagsins ,,Lazy Sunday Afternoon-a" sem var sixtís eða snemmbært seventís lag. Ég er að hugsa um allt sem er framundan, eftir mánuð verður komið nýtt ár, Hanna mín kemur eftir tæplega tvær vikur, próf eftir rúma viku og annað viku síðar, þetta er víst ekki að lífa í nú-inu, eða hvað?

(Búin að reyna að setja inn lagið, en þið fáið bara linkinn í staðinn á YouTube, Lazy Sunday Afternoon).  

Í óvæntu partíi hér á nesinu í gær brast á með frekar miklum bernskuminningum. Byrjaði sakleysislega með umræðum um skautasvell og möguleika á að endurreisa mikla skautahefð hér á nesinu. Og auðvitað fórum við að rifja upp sæla skautadaga á Bessastaðatjörn sem voru heldur betur skemmtilegir, á meðan tjörnina lagði almennilega, en það gerist sárasjaldan nú orðið. Hins vegar eru komnar margar góðar hugmyndir um hvernig megi redda góðu svelli hér. Fór nefnilega á skauta í fyrra, með krökkunum í vinnunni, og það var ekkert smá gaman. Svo kom auðvitað í ljós að einn félagi okkar hér á nesinu er úr sömu blokk og ég í vesturbænum. Sá sjötti úr þessari 24 íbúða blokk sem dúkkar upp hér á nesinu (af þeim sem bjuggu í blokkinni á árunum 1958-1965). Sem er auðvitað alveg stórmerkilegt. Ég held það sé stórlega ofmetið að lifa í nú-inu, fortíðin og framtíðin eru alveg ljómandi líka. Þannig að annað hvort fer ég að leggja mig núna (til að byggja upp framtíðina) eða læra (til að bæta fyrir fortíðarvanrækslu og búa í haginn fyrir framtíðarpróf). Nú eða pjóna, það er reyndar rosalega mikið ,,nú" - en verður jafnframt peysa í framtíðinni, sem núna er bara grár hringur.  

Dagskrá um Bessastaðaskóla - já, það var gaman

Ég gleymdi alveg að reka áróður fyrir því hér á blogginu að fólk drifi sig út á Álftanes og hlustaði á dagskrá um Bessastaðaskóla. ,,Freudian slip" eða frekar skortur á því, ef Freudian slip er að minnast óvart á það sem er ofarlega í huga þá er skortur á því að minnast EKKI á það sem er ofarlega í huga. Að undanförnu, hef ég ásamt stærðfræði og lestri Sandgerðskra fundagerða, einkum verið að vinna í erindi sem ég hélt um áhrif Bessastaðaskóla (1805-1846) á mannlífið hérna á nesinu. Hér var í dag heljarmikil dagskrá helguð Bessastaðaskóla og stofnaður áhugahópur um sögu hans. Þessi dagskrá heppnaðist óskaplega vel, ekki síst var notalegt að sjá gömlu kennarana mína úr Menntó (MR) mæta vel, enda er MR beinn arftaki Bessastaðaskóla.

En þótt ég hafi ,,gleymt" að plögga, þá verða alla vega erindin varðveitt og eflaust gefin út einhvern tíma. Dagskráin var tekin upp og vonandi aðgengileg í heild fyrir þá sem áhuga hafa. Við erum svo moldrík hér á nesinu að eiga eðal skáld og tónskáld, og Karólína Eiríksdóttir, sem býr hérna uppi á 6 (númer sex í minni götu) samdi yndislega tónlist við texta úr ,,Njólu" sem er stórmerkilegt heimspekirit og ljóðabálkur um stjörnukerfið og alheiminn, hvorki meira né minna, eftir Björn Gunnlaugsson sem bjó hér í Sviðholti á meðan hann kenndi í Bessastaðaskóla. Sviðholt var NB aðal partístaðurinn fyrir Jónas Hallgrímsson og aðra skólapilta í Bessastaðaskóla ;-)

Já, við fengum líka erindi um Jónas, sem stóð í lærðum deilum við strákinn í efri kojunni. Það var sem sagt ekkert nema gaman að taka þátt í þessari dagskrá og krakkarnir í kórnum voru eins og englar þegar þeir sungu ljóðið eftir Þórarin Eldjárn um Sveinbjörn Egilsson: ,, ... þá var öldin önnur, er Sveinbjörn stökk á stöng, þá var ei til Bessastaða leiðin löng." Flottur kór í flottum lopapeysum. En nú ætla ég að fara að horfa á Gurrí mala Hafnarfjörð í Útsvari.


Leiðarvísir um sjónvarpsáhorf

Þegar við komum heim af fyrsta (og eina, held ég) jólahlaðborðinu okkar í kvöld, þá var um tvennt að ræða: Horfa á Gurrí mala mótherjana í Útsvari á netinu (eftir að hafa kíkt á netið OG fengið lýsingu hjá syninum OG fullvissað mig um að hún hefði unnið) - eða bíða eftir endursýningunni á morgun. Áttaði mig allt í einu að það var ekkert fútt í að setja á sig headphone og setjast með lappann í fangið og horfa ein. Stundum er sjónvarpsgláp félagsleg athöfn, stundum upplýsingaöflun, stundum dægrastytting einstaklings, stundum dægrastytting fleiri og stundum hópefli. Og jafnvel blanda af fleiru en einu. Þannig að ég hef útbúið leiðarvísi um sjónvarpsáhorf:

1. Ef bara vantar upplýsingar, til dæmis úr fréttum er í lagi að horfa ein á fréttir, upptökur af fréttum á netinu eða, það sem best er, hlusta á sjónvarpsfréttir og gera eitthvað nytsamlegt í leiðinni.

2. Ef þú vilt drepa tímann og nennir ekkert að hafa samskipti við aðra þá er bara að horfa ein, þögul eða á upptökur af eldri þáttum.

3. Ef eitthvað rosalega skemmtilegt hefur verið sýnt í sjónvarpi, til dæmis Ho. ho, ho, skaltu draga alla sem þú treystir til að hafa sama húmor og þú, að tölvunni þinni og sýna herlegheitin með viðeigandi athugasemdum eins og: Fylgstu nú vel með (Barði dissar alla) eða bíddu, heyrðu þetta: (Erpur reynir að dissa Barða) eða:Sjáðððððu núna! (Gilzenegger ber einbeittur á hljómborð með einum putta, hljómborðssóló dauðans).

4. Ef eitthvað rosalega spennandi er að gerast í rauntíma, eins og til dæmis Álftanes eða Akranes að keppa í Útsvari, þá á að safna saman fólki sem kann að fagna og kveljast (engjast) og horfa á í rauntíma. Athugasemdir, klapp, öskur, læti, hlaupa út grátandi, þora ekki að hlusta á svarið og þykjast skreppa á klósettið, allt er þetta hluti af fjörinu, en hentugt að láta fögnuð sinn eða sálarangist í ljós á þann hátt að enginn missi af neinu mikilvægu.  

5. Ef horfa á á einhverja tímamótamynd (algengt er að einn hafi séð hana og VITI að hún er snilld) þá er gott að nokkrir vel valdir sitji saman, dauðþegjandi, haldi niðri í sér andanum þegar magnaðar senur koma. Sú sem hefur séð myndina gýtur kannski augum á hina, samt helst þannig að ekki sjáist, til að athuga hvort fólkið er þess verðugt að horfa á.

6. Ef horfa skal á léttvægt efni, þá er best að vera í góðum hóp, kjafta smá, kommentera óspart á það sem kann að virðast ómerkilegt en getur orðið skemmtilegt eða spennandi, eins og: Hefurðu tekið eftir kæknum sem X er með (í uppáhaldsþættinum) eða: Núna munu þau ábyggilega hætta við að hætta saman.

7. Ef horft er á rómantíska gamanmynd saman er best að koma sér vel fyrir uppi í sófa og bara njóta, kjafta kannski smá, en aðallega njóta.

8. Ef myndin sem þú vilt horfa á er grunuð um að vera frábær, með geggjaðri tónlist, spennu, drama, kappakstri, snilldarleik: Farðu í bíó! 

 

Viðbætur og ábendingar vel þegnar en leiðréttingar eru illa séðar.  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband