Færsluflokkur: Lífstíll

Bílaþvottur fyrir byrjendur

Þegar ég eignaðist frekar nýjan, svartan bíl þá fann ég, kannski í fyrsta sinn á ævinni, hjá mér þörf til að þvo hann svolítið, ekki oft, ekki mikið, en meira en oftast áður. Þetta er samt meira en að segja það. Gamli rauði var að vísu í þjónustusamningi hjá mér á tímabili, en hvort tveggja er að hann er bæði hávaxnari en ég og kústurinn samanlagt (eða þannig) og svo eltist hann smátt og smátt. Var einu sinni settur í Löður, en þoldi ekki atganginn og miðstöðin varð aldrei söm eftir það, né heldur tókst að loka bensínlokinu fyrr en tveimur dögum seinna. Í sumar, meðan veðrið var hlýrra og skárra, þá var þetta lítið mál með svarta Volvo-inn, en svo var farið að vera með moldroksframkvæmdir við Álftanesveginn og frekar fúlt að aka á nýþvegnum bíl gegnum fíngert moldrokið.

CarwashNú, svo kom vetur, ekkert gaman að þvo bíla við svoleiðis aðstæður. Ég er enn ekki orðin hagavön annars staðar en á þvottaplönum, en hef rennt hýru auga til einhverra bílaþvottastöðva þar sem maður mætir og fær sápu og svoleiðis með því að borga í einhvern stöðumæli. Íhuga það. 

En alla vega, ég kom við á bílaþvottaplani í dag áður en ég verslaði í matinn. Við erum óvenjumörg í mat í kvöld, þannig að ég þurfti að sleppa mjög síðboðuðu kvennaboði í fjölskyldunni, það er ekki hægt að vera alls staðar. Ætlaði ,,rétt að skola af bílnum" í leiðinni eins og ég segi oft svo hæversklega. Það merkir yfirleitt að ég sé ekki grábrúnu blettina sem verða eftir fyrr en bíllinn er orðinn nokkuð þurr. Það merkir líka að ég skola mjög lauslega af dekkjunum. Sennilega hef ég þó gert það betur núna en oft áður, því ég varð skelfingu lostin þegar ég áttaði mig á því að það snarrauk gufa frá framdekkjunum, bremsudiskar, mun vera eðlilegt (ég ætla rétt að vona að svo sé)!

CarwashNema hvað, ævintýrin voru á næsta leiti, fyrst þurfti ég að renna upp úlpunni og setja á mig hettuna, þar sem maðurinn á næsta bás gekk mjög hart fram í sínum bílaþvotti. Annars mjög krúttlegt hvernig hann spreyjaði á örlítið lausa og hangandi lista sem héngu utan á bílnum hans og pússaði þá af natni, sem minnti óþægilega mikið á fyrstu fimm bílana mína af aldri og útliti að sjá. Og pússaði mjög vafasama hliðar bílsins, sem ég var dauðhrædd um að létu undan. 

Mórallinn í sögunni er: Það er greinilega vor í lofti! Þegar ég kom úr búðinni og sá hvaða hlutar bílsins höfðu sloppið við mjúkar strokur kústsins skrapp ég á tvö plön og þau voru bæði sneisafull af fólki í sömu erindagjörðum, þannig að ég varð frá að hverja með hann Flekk minn. En núna er dóttirin komin með bílinn í lán og smá hint um að það megi ljúka þessu verki. Hún lofaði engu, en það er aldrei að vita. 


Múðralúsík

Ekki láta heitið á pistlinum rugla ykkur. Ég held að þetta heiti sé ættað frá móðurafa mínum, sem ég man ekkert eftir, en heyri oft af. Datt þetta bara í hug af því helgin fram til þessa hefur verið svolítið rugluð, en ósköp góð samt. Slatti af misskilningi og uppákomum, sú besta þegar sími eins heimilismeðlims fékk að fljóta með uppi á húddinu á bílnum mínum og út í Skátakot, yfir 5 hraðahindranir. En bóndinn kom heim með enn einn verðlaunapeninginn úr Bakkareið hér á nesinu, hörð samkeppni, þannig að hann var sáttur við sætið, þótt hann hafi stundum farið ofar.

En sem sagt, svo fór ég á lúðrasveitartónleika að hlusta á systursyni mína tvo, sem búa á næsta nesi til hægri (eða vinstri, eftir því hvernig maður snýr). Þeir eru hvor í sinni sveitinni, Sveinn Rúnar yngri og í þeirri með yngri börnunum, en Kjartan í eldri barna/unglinga-lúðrasveitinni, sem ég hef heyrt í áður og er alltaf að verða betri og betri. Heyrði þar meðal annars í fyrsta sinn lag eftir Tómas R. sem heitir eftir ágætum kokteil, Dakiri og nú er ég alveg ákveðin í að leita að þessu lagi á netlendum, vona að það hafi verið hljóðritað. Krakkarnir spiluðu það líka flott. Reyni svo að finna tíma til að skutla inn myndum og kannski tón- og myndbroti á morgun, þó ekki væri nema fyrir Magga frænda ;-)


Skemmtilegur skottúr í sumarbústaðinn

Í dag fórum við í skemmtilegan skottúr upp í Borgarfjörð að kíkja á sumarbústaðinn okkar, sem ófært hefur verið að talsverðan hluta vetrarins. Enn eru þar skaflar á veginum, en allt vel fært jeppum alla vega.  Allt var í himnalagi uppi í bústað, hafði reyndar verið tékkað á honum fyrr í vetur þegar góður kafli komi í veðráttuna, svo það kom ekki á óvart. Hins vegar alveg merkilegt hvað það grípur okkur mikil værð og notalegheit um leið og komið er þangað.

Fallegur dagur í Borgarfirði í dag eins og þessar myndir sýna:

Falleg fjallasýn í Borgarfirðinum í dag

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Alltaf fallegt að horfa upp með Gljúfurá


Gleðilega páska! ... og ef þið fenguð góðan málshátt, þá er alltaf gaman að heyra

Gleðilega páska öll! Vona að þið hafið það gott. Það er alltaf gaman að heyra hvaða málshættir slæðast inn í páskaeggin ykkar. Ég fær aldrei uppáhaldið mitt, enda kaupi ég ekki Lennon-páskaegg: Life is what happens to you when you're busy making other plans.

En ég fékk alveg nothæfan málshátt núna: Ekki er hægt að selja kúna og drekka úr henni mjólkina. Þetta hljómar eins og þýðing úr einhverju öðru tungumáli, er auðvitað háþróaðri útgáfa af: You can't keep the cake and eat it (mjólkin úr kúnni endurnýjanlegri, en úff, vesenið að gefa, mjólka og reka kýrnar í haga á sumrin, en það er önnur saga).

 


Föstudagurinn laaaaaaaaannnnnngggggiiiiiiiii

Stillti á rás 1 á útvarpinu til að hlusta á hádegisfréttirnar og núna er ég sem sagt farin að hlusta á gömul Passíusálmalög. Rifjar upp þegar ég tók viðtal við Smára Ólason þá (og kannski nú) organista í Mosó um að Passíusálmarnir hefðu verið sungnir, en það var einhvern tíma saga til næsta bæjar. Alla vega, hann á einhvern heiður af því sem við erum að hlusta á núna. Og einhvern veginn svo vel við hæfi að hlusta á þessa dagskrá frekar en aðeins meira léttmeti á mörgu hinna stöðvanna. jcsReyndar skapaðist sú hefð einhvern tíma heima að Ólafur fóstri minn, sem alla jafnan hlustaði ekki á tónlist, vildi heyra sinn Jesus Christ Superstar á föstudaginn langa. Það var bara skemmtilegur siður, enda var stef úr því verki við útför hans, mig minnir í eftirspili. Séra Örn Bárður átti heiðurinn af því eftir ábendingu, hann var næmur á hvað átti við.

Annars var skemmtileg umræða hér á blogginu fyrir skömmu um hvað ,,mætti" og hvað mætti ekki á föstudaginn langa. Bingó er bannað, bara ef einhver skyldi vera búinn að gleyma því eftir mikla umræðu á blogginu hennar Jennýjar Önnu. Man eftir löngum föstudögum þegar ekki var hægt að fara í búð og er enn hálf feimin við að fara í búð á föstudaginn langa (en læt það ekki stoppa mig ef ég þarf set bara upp feimnissvipinn og treysti því að krakkarnir í 10-11 séu með helgidagaálag).

Svo tókum við upp á það eitt sinn í skúlptúrhópnum mínum að steypa á föstudaginn langa, einkar heppilegt af því maður hleypur ekki frá steypu og dagurinn hvort sem er svo langur. Í það skiptið björguðu afgangarnir úr fermingarveislunni hans Óla alveg öllum máltíðum dagsins. Þetta krefst skýringar. Við fermingu Hönnu dóttur minnar tveimur árum fyrr tóku vinir og ættingjar alveg að sér að sjá um veitingar, þar sem ég var í miðri kosningabaráttu (nokkuð sem dóttir mín fór þegar að hafa áhyggjur af þegar hún var 9 ára og sagði: Mamma, svo veistu að þú verður að ferma í næstu kosningabaráttu! - sem kannski er ástæðan fyrir því að upplýsingahópur Kvennalistans var meðal þeirra sem lögðu til veisluföng). En fyrir ferminguna hans Óla taldi ég ekki nokkra þörf á hjálp annarra og mjög kát að geta séð um veisluföng sjálf. Hmmm, vinir og ættingjar hafa trúað því mátulega því eftir sem áður var komið með veitingar í aðra veislu í viðbót. Og þar sem okkar veislur með nánustu ættingjum og vinum eru jafnan næstum hundrað manna þá gat skúlptúrhópurinn minn lifað góðu lífi á brauðréttum og tertum frá klukkan 11 að morgni til miðnættis þennan föstudaginn langa. 

Metið í föstudögum löngum held ég þó að dóttir mín eigi, sem var að kryfja lík á seinasta föstudaginn langa (meðan ég hafði það gott hjá Nínu systur í Portales í New Mexico). Það er ekki læknadeildin hér sem fer svona með nemendur sína heldur læknadeildin í Debrecen í Ungverjalandi, en þar er slatti af Íslendingum við nám. Ég hélt reyndar að hún yrði að kryfja í dag, en það leiðréttist hér með.  


Hvítt, hvítt, hvítt ...

Mér finnst hvítt fallegt en of mikið má af öllu fá, tek til baka allar yfirlýsingar mínar um fegurð vetrarins, þótt ég ætli ekki að svo stöddu að fjarlægja vetrarfegurðar-myndirnar úr myndaalbúminu. Ef fram fer sem horfir mun ég þó íhuga það. Þar sem ég hef ekki sinnt skíðaíþróttinni síðan norræna skíðagangan fór fram á Melavellinum þá sé ég engan tilgang í öllum þessum snjó. Hálka er hættuleg og snjórinn löngu búinn að koma sér á framfæri svo vel að endist út öldina. Enn kyngir niður snjó og spárnar lofa meiri snjó. Á einhver önnur ráð við þessu en að sættast við breiddargráðuna sem við búum á (er ekki til viðræðu um það ennþá alla vega)? Að öðru leyti er þetta bara allt gott, betra bak og skemmtileg vinna, indæl fjölskylda, góðir vinir ... æ, nú er ég komin á Pollýönnustigið, þetta átti að vera geðvonskupistill ;-)

Bak-tak

Árstími alls konar kvilla og þess konar. Búin að vera með tak í bakinu, á gamla staðnum þar sem ég lenti í hryggbroti endur fyrir löngu eftir byltu í hestamennsku. Frekar fúlt, en fer samt frekar skánandi. Ólíkt því sem var þegar ég braut mig um árið þá er skást að sitja en verra að standa upp. Eftir hryggbrotið um árið gat ég nefnilega ekki setið, heldur bara legið eða staðið, sem var mjög ópraktíkst, einkum þar sem krakkarnir voru litlir og ég þurfti að fara í stúdentaafmæli. Það er í eina skiptið sem ég hef staðið til borðs í sameiginlegu borðhaldi ;-) Stefni að því að verða skárri á morgun, þetta stoppar mig sem betur fer ekki af í einu eða neinu, nema ég myndi líklega hvorki fara í minigolf, skvass eða tennis, og þaðan af síður í golf, þessa dagana. Ekki mikill fórnarkostnaður.

 


Af hverju fást ekki sítrónugosdrykkir á Íslandi?

Alltaf þegar ég kem úr fríi erlendis frá þá er ég staðráðin í að kaupa mér annað hvort Fanta lemon eða Schweppers lemon drykki. Og gríp jafnharðan í tómt. Þótt sódavatn sé vissulega aðaldrykkurinn minn í útlöndum þá finnst mér hressandi að fá mér sítrónudrykki líka og svo verð ég alltaf jafn undrandi að finna þá ekki hér heima. Ef einhverjir búa yfir upplýsingum um þetta stórundarlega mál, vinsamlegast látið mig vita. Kranavatnið er fínt en stundum þarf að breyta um bragð og sítrónubragðið er einfaldlega mjög gott. Hef reynt að blanda sítrónusafa og sódavatni saman og það er bara ekki að virka!

Myndbrot af karnivali

Set inn smá myndbrot frá Karnivali á Kanarí. Auk þess hef ég sett inn nokkuð af myndum á myndasíðurnar mínar frá Kanarí.


Í sólarfríi á Kanarí

Himneskt hér á Kanarí, sól og skemmtilegheit upp á hvern dag. Óli okkar og Simbi heima í snjónum og passa heimilid sem er gód tilfinning, vonandi njóta allir vedursins, hver á sínum stad. Okkar stadur á veturna (2-3 vikur) er hér. Sólarkvedjur, fréttir seinna.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband