Færsluflokkur: Lífstíll

Kröftum safnað fyrir næstu törn - og hálfkalt, enda bara 20 stiga hiti

Þá er búið að safna kröftum fyrir næstu törn, sem byrjar í dag. Lítið unnið og lesið í gær, þó tókst Hönnu að lesa eitthvað meðan ég verslaði í matinn og gerði verðkönnun á prenturum. Hér er hægt að fá einfalda svarthvíta prentara niður í 3.500 krónur og okkur vantar einmitt einn slíkan (splæsum eflaust í 5000 króna prentara). Litaprentarinn hennar Hönnu er orðinn ansi lúinn, svona svipað og minn gamli heima, en getur samt séð um skann og myndaprentun með ágætum og í raun allt nema prentun af því tagi sem ég þarf stundum að grípa til við mín verkefni. Ekki reynt á það enn, enda bara búin að vera hér í viku.

Eins og í góðum ferðum til útlanda hefur tíminn flogið hratt en samt margt búið að gerast í hversdagslífinu. Er reyndar hrifnust af því hvað það er gott vinnuandrúmsloft hér, miðað við tilgang ferðarinnar. Og hitt sem er hagstætt er afburðagott gönguveður, nema rétt þegar við lendum í úrfelli,en það hefur bara gerst einu sinni. Hálf-kalt núna, bara um 20 stiga hiti, en það batnar aftur fljótlega. Þangað til er bara að klæða sig vel.


Í æðislegu afmælisveðri

Þetta er frekar fallegur afmælisdagur hér í Debrecen. Sólin skín skærar en fyrr og við ætlum að skreppa á fallegan stað, Palma, hér rétt hjá í hádeginu, Hanna og ég. Fékk afmælishringingu og sms frá Ara og Óla í gærkvöldi, yndislegt allt. Segi meira af þessu seinna.

Smábrot frá sólinni

Skrapp í göngutúr í dag, búin að setja mér þá viðmiðunarreglu að fara ekki nema annan hvern dag í langan göngutúr, þar sem hér er margt sem glepur og auðvelt að týna sér heilt síðdegi, en það stendur ekki til. Í dag var ég líka sannur Íslendingur og gerði ráð fyrir að þessi dagur yrði seinasti almennilegi sólardagurinn (veðurspáin á weather.com er síbreytileg og svartsýni veðurfræðingurinn er greinilega á vakt). 34 stiga hiti, gola og bara alveg mátulegt gönguveður. Gekk í allt kannski álíka og á sunnudaginn en meira svona hingað og þangað. Fann einu búðina sem selur þjóðlega vöru hér í Debrecen, en við Hanna erum búnar að leita mikið og hún er held ég nýbúin að finna þessa.

Smábrot frá því í dag og á sunnudag:

Svartstakkar á ferð á sunnudegi, hægriöfgamennirnir sem við sáum í Budapest eru líka hér í þessari friðsælu borg. Á næsta horni eru afrískir söngvarar með trommur og fara í broddi fylkingar gegn hugri í heiminum. Andstæðurnar eru hrópandi.

Ég fór niður á endastöð trammans til að kaupa mér trammakort. Mjög gaman að rölta niðureftir og fjölbreytt mannlíf í trammanum. Mér voru kenndir allir klækir og hvenær eftirlitið er á ferð, en lgg undir grun um að hafa ekki viljað nýta mér þá og fór því ekki í trammann fyrr en ég var búin að ná mér í mánaðarkort. Þarf ekki margar ferðir til að það borgi sig. Í trammanum sá ég hvar tvær konur komu inn og trammastjórinn vatt sér fram, hmmm hugsaði ég, hvað ætlar hann að gera? Jú, andlitið á honum lifnaði við og hann knúskyssti konurnar í bak og fyrir.

Leiðin frá trammanum liggur um skjólsæla götu þar sem lítil umferð er. Nema hvað ég er tvisvar búin að mæta konunni með ör-hundinn (hann er eins og hundur nema smækkaður tífalt) - litlir hundar á Íslandi komast ekki með tærnar þar sem þessi hefur bæði tærnar og hælana.

Maðurinn í lottósölunni vildi alls ekki selja mér pappír í prentarann, þótt hann selji bæði stílabækur og aðra pappírsvöru. En svo fann ég tölvuvöruverslunina hinu megin við hornið og skil þetta betur.


Ann-ríki

Vegna ann-ríkis er kannski best að gera smá blogghlé í bili og halda sig við það sem þarf að gera á næstu dögum (sá fyrri upptalningu). Þannig að hafið það bara gott á meðan.


Til hvers er best að nota fallega sumardaga?

Fallegur sumardagur og sunnudagur, sem merkir að það er hægt að velja um ýmislegt. Fara upp í sumarbústað var ofarlega á blaði, þar er gott að vinna í hinum ýmsu verkefnum, en eftir mjög langa íþróttakeppni Sóta í gær var lítið að gera annað en fleygja sér fyrir framan sjónvarpið og horfa á Eurovision. Svo eru hestarnir ekki komnir upp í Borgarfjörð enn en þar verða þeir í sumarbeit rétt hjá bústaðnum með aðstöðu þar (við erum með hektara). Auk þess var Ari eitthvað að tala um að hann langaði að henda meirSumarbústaðurinn á sínum staðu af byggingadóti sem hefur safnast upp eftir seinustu framkvæmdir, og svoleiðis stoppar maður auðvitað ekki Wink.

Við tókum rispu á því um hádegisbilið (góð útivistar- og hreyfingarrispa) og ein kerra enn farin í Sorpu og önnur að fyllast. Útreiðatúr dagsins á dagskrá núna (hjá Ara) og á meðan mun ég eflaust reyna að ljúka einu af smærri verkefnunum mínum, því sem ég get ekki klárað í Ungverjalandi. Svo þarf ég að fara að flokka pappírana sem ég þarf að hafa með mér þangað. Þannig að sumarbústaðurinn bíður í bili, sé að veðurspáin fyrir miðvikudaginn hrópar á sumarbústaðarvinnu, en kannski er betra að vera í bænum svona daginn fyrir útskriftarfyrirlesturinn minn, sjáum til með það. Annars verðum við áreiðanlega mikið uppi í bústað í sumar, þannig að ein helgi til eða frá breytir ekki öllu.

Mórallinn í sögunni er: Vinna smá, snyrta smá í kringum sig og njóta góða veðursins. Ég er meira að segja hætt að líta á sérhvern góðviðrisdag sem seinasta sumardaginn, eins og nokkur léleg sumur geta fengið mann til að gera.

 

 


Skemmtilegt andsvar við fréttum og fordómum

Litháar á Íslandi eru að stofna samtök, svona eins og öll Íslendingafélögin í útlöndum. Þeir eiga þó aukaverkefni fyrir höndum, og það er að kynna menningu og þjóð sína fyrir Íslendingum sem eru því miður vanir að heyra af fámennum hópi Litháa, sem kemst í kast við lögin, í fjölmiðlum. Hlakka til að fylgjast með félaginu. Það var líka athyglisvert að þessu félagi er ætlað að vera vettvangur kynna milli Litháa hér á landi, sem margir hafa verið tortryggnir í garð landa sinna, einmitt út af þessum fáu skúrkum sem hrakist hafa frá landinu og leitað til Íslands.

Æsispennandi vor - og ekki dregur veðrið úr ánægjunni - skrifstofufárviðri - og meira um sveigjanlegan vinnutíma

Þegar svona viðrar finn ég vel fyrir því hvað það á vel við mig að vinna hjá sjálfri mér. Þótt ég haldi því blakalt fram að enginn húsmóðir/húsbóndi sé erfiðari en við sjálf, aldrei gefið almennilegt frí, þá fann ég vel fyrir frelsinu í dag. Var að vinna til 5:15 í morgun, vaknaði upp úr 10 og var mætt á fund í hádeginu, en eftir það gat ég líka farið heim (með viðkomu í Rúmfatalagernum að endurnýja ónýta plastlegubekkinn) og lagst út á svalir í sólinni og klárað nætursvefinn þar. Búin að vera að afgreiða brýnustu mál núna og tek ekki þungan vinnudag í dag, nema ef ég fæ viðtalið sem ég er að bíða eftir sent áður en ég sofna. Nóg af verkefnum en allt ,,undir control".

Hef lengi verið geysilega hlynnt sveigjanlegum vinnutíma. Ég er hlynnt mun meiri sveigjanleika en að mæting sé milli 8 og 10 og svo unnið í átta tímana (með matarhléi). Það er alveg hægt að koma í veg fyrir skrifstofufárviðri í mörgum störfum (góðviðrisdaga sem maður virðir fyrir sér út um gluggann á vinnunni) með því að setja þungamiðju vinnunnar á annan tíma en þessa yndislegu góðviðrisdaga sem öskra á okkur að vera úti. Ef ég hef tekið góðan vinnusprett nóttina áður, eins og oft gerist, finnst mér bara fínt að sofna úti í sólinni, lítil hætta á sólsting hér á landi og svo eru til hattar, en svo þegar um fer að hægjast þá er hægt að skreppa út á golfvöll þegar vel viðrað og vinna á kvöldin eða nóttunni. Óska sem flestum sama frjálsræðis og ég nýt, þótt það sé ekki ótakmarkað þá er það mikið og mikilvægt.


Jákvæðni og neikvæðni í hæfilegum skömmtum

Fyndið hvað fólk sér hlutina mismunandi augum. Ein manneskja, sem mér þykir reyndar mjög vænt um, er með þeim ósköpum gerð að sjá alltaf einhverja neikvæða hlið á öllum málum. Ef ekið er framhjá fallegu landslagi rifjast upp eitthvert rifrildi sem átti sér stað einhvers staðar í nágrenninu, manneskja nefnd, æjá, það er þessi sem átti frændann sem lenti í veseninu um árið. Verst er að þetta snertir í rauninni ekki nema þann sem á þessar vondu minningar eða hugrenningar.

Svo er það Pollýönnu-syndrómið, það er vissulega skárra en getur samt tekið á sig fáránlegar myndir. Veðrið er ömurlegt: - Já, en þá er bara að syngja í rigningunni (og svo er sprettur tekinn úr Singing in the rain) eða þessi er búinn að setja allt í klessu: Já, en mamma hans er svo góð ... !

Hmm, kannski er hinn gullni meðalvegur bestur, hafa glasið hvorki hálffullt né hálftómt, heldur bara svona passlegt. En ég held nú samt svolítið með Pollýönnu.


Góðviðrisdagur og Hillary heldur áfram

Einstakur góðviðrisdagur í dag. Ströng vinnutörn í gangi og ekkert hægt að slaka á eða njóta góða veðursins í óhófi, en ósköp gaman að taka smá rispu. Myndataka milli eitt og tvö vegna viðtals sem ég var að taka og kærkomið tækifæri til að njóta góða veðursins af því tilefni. Held líka að myndirnar verði flottar, þótt mitt hlutverk hafi ekki verið annað en að hafa smá skoðanir og halda við tæki ljósmyndarans, þar sem ég reyndar gleymdi mér andartak og var næstum búin að slátra hans flotta búnaði. Hjúkk, það slapp fyrir horn.

Hélt því opnu að komast í gönguna geng umferðarslysum, en það passaði ekki inn í verkáætlun og ég þarf að halda ansi vel á spöðunum núna.

Af heimsfréttunum er auðvitað margt að frétta og hver og einn sem getur svo sem sett sig inn í það. Engar stórfréttir að Hillary ætlar að halda áfram baráttunni, ég er ánægð með það en ekki eins vongóð og ég var áður um að hún verði útnefnd fyrir demókrata, bara ekki nein skýr skilaboð um það og verður erfitt fyrir ofurfulltrúana að ganga gegn þeirri tilhneigingu sem hefur verið, reyndar þrátt fyrir að það sé mjög mjótt á mununum og stóru fylkin, Flórída og Michigan (minnir mig að sé hitt fylkið) séu ekki með í dæminu, en þar er gengið út frá því að Hillary eigi góðan stuðning. Þeir fóru ekki eftir reglunum og þar af leiðandi er ekki talið með.

Jæja, best að halda í törnina framundan, bara gaman, en ég er búin að setja mér ákveðið verkplan sem ég þarf að halda mig við.


Bilaður heimasími

Hrikalega ljóti norski heimasíminn okkar hefur verið bilaður í um 10 daga en annríki heimilisfólks, próf og fleira, hefur komið í veg fyrir að við ýttum á eftir því að fá nauðsynlegar lagfæringar. Upphaflega er asimi.jpgtengingin okkar bæði fyrir ADSL og ISDN en nú er sú síðarnefndar bæði orðin óþörf og úrelt og mál til komið að fá sér aðra símatengingu með tilheyrandi smáveseni og kannski fallegri síma. Þannig að ef einhver reynir að ná okkur í heimasíma þá er þetta skýringin. Lagast þegar um hægist.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband