Færsluflokkur: Lífstíll
Hugsjónafólk
3.2.2008 | 19:29
Vetrarfegurð enn og aftur og mjög ,,selectívt" minni
30.1.2008 | 16:37
Er svolítið heilluð af því hversu fallegur þessi vetur ætlar að verða, þessa fáu stilludaga sem við höfum fengið. Gleymast stormar og leiðindabálviðri, sem ég hef reyndar lítið þurft að ögra þar sem aðalvinnustaðurinn minn er háaloftið heima. Þetta kallast víst að hafa ,,selectívt" minni, svo ég brjóti nú allar reglur um að grauta ekki saman enskri og íslenskri stafsetningu. Það er notalegt að skrifa stundum á þessum afslappaða bloggvettvangi, þar sem ég hef áskilið mér rétt til að nota ritað talmál.
Langt síðan ég hef heillast svona mikið af fannfergi og vetrarham, en samt hlakka ég til að komast til Kanarí og geta farið í langar gönguferðir í sól og hita smá tíma.
Hér eru svipmyndir dagsins, sem urðu til á leiðinni úr prentsmiðjunni (Álftanes - Oddi - Prentmet - Álftanes verður rúnturinn hjá mér á næstu mánuðum).
Flestir koma að Bessastöðum úr hinni áttinni, en þessi er ,,álftanesísk".
Vetrarbirtan er dularfull. Horft yfir lítt snortinn hluta Norðurnessins.
Og af því ég á svona falleg blóm í vasa í vetrarlitum fylgja þau með ...
Aðfangatímabil, úrvinnslutímabil og uppskeruhátíðir (með viðkomu í matreiðslutíma)
30.1.2008 | 00:48
Hef einhvern tíma rætt það hér á blogginu - eða gamla blogginu mínu - hvað tímabil tilverunnar virðast skiptast í aðfanga- og úrvinnslutímabil. Alla vega er það reyndin hjá mér sem hef unnið bæði við blaðamennsku, sagnfræðirannsóknir og -ritun, hugbúnaðargerð og jafnvel pólitík. Og nú er ég sem sagt stödd á þessu mikla aðfangatímabili, að taka viðtöl, grúska í heimildum, gera áætlanir, fletta upp á netinu, tína saman efni og úr þessu á ég svo eftir að vinna, sumu fljótlega og öðru þegar meiri heimildir liggja fyrir. Oft er erfiðara að sjá eitthvað eftir sig á meðan á aðfangatímabili stendur, úrvinnslan er þakklátara verk, svo maður tali nú ekki um uppskeruhátíðir ;-)
En engin uppskeruhátíð er haldin og engin úrvinnsla er möguleg án þess að fyrst sé safnað saman öllu sem til heyrir. Mér fannst alltaf hálf asnalegt þegar ég var í matreiðslu í Melaskóla að við vorum látnar (strákarnir fengu ekki að fara í matreiðslu á þeim tíma) taka til allt hráefni fyrst, mig minnir á einhverja litla smjörpappírsbleðla, áður en hafist var handa. En núna sé ég hvað þessi vinnubrögð voru skrambi skynsamleg. Við sluppum samt við að fara út í búð og versla ...
Himnesk vetrarfegurð!
20.1.2008 | 17:12
Dagurinn í dag er einn sá fallegasti í vetur og þar sem veðrið var líka yndislegt þá var ekki hægt að standast þá freistingu að fara í langa og góða gönguferð um nesið mitt bjarta. Leit við í hesthúsunum og hitti Snorra og Gunna vini mína, og svo kom hann Ari minn og búinn að járna einn hest í viðbót. En myndir segja meira en nokkur orð.
Sagnfræðisukk og stærðfræðispenna
14.1.2008 | 15:50
Lífið snýst um sagnfræðisukk og stærðfræðispennu þessa dagana. Ég þarf að taka eitt sjúkrapróf (á laugardaginn) vegna pestarinnar fyrir jólin og finnst hálf fúlt að þurfa að láta trufla mig í þessu fína sagnfræðisukki sem ég er dottin í. Hver hefði trúað því að nýliðin fortíð væri svona spennandi? Allt sem ég er að safna efni í er svo spennandi, þótt úrvinnslustigið sé venjulega enn skemmtilegra. Kosturinn við að skrifa um tiltölulega nýliðna sögu, eins og ég er að fara að gera, er að það er til svo rosalega mikið af heimildum og yfirleitt mjög gott myndefni. Það er líka ögrandi að takmarka sig, reyna að sjá stóru línurnar.
En á vissan hátt er gott að grípa í stærðfræðina á milli, það er ekki laust við að það agi hugann aðeins, og slíkt er auðvitað alltaf gott. Þetta er allt gott hvað með öðru. Á meðan á þessari törn stendur ætla ég að skera niður allt annað, svo sem félagslíf og sjónvarpsáhorf (lítil fórn), ætli ég horfi á mikið meira en Stephen Fry í kvöld, Grays Anatomy á miðvikudag og Útsvar á föstudag. Ef ég verð rosa dugleg fæ ég House í verðlaun á fimmtudaginn, það væri auðvitað gaman. Bloggvirkni fer eftir pásuþörf og fleiru, ótímabært að hafa skoðun á því máli.
Aðeins persónulegri upprifjun á liðnu ári
4.1.2008 | 13:36
Árið 2007 var gott ár að mörgu leyti í lífi okkar í fjölskyldunni við Blátún. Við vorum á ferð og flugi, kenndi þar ýmissa grasa innan lands og utan. Áttum líka notalegar stundir heima - og nokkrar aðeins vinnusamari. Þetta er allt gott í bland. Ef ég lít til baka og sé af handahófi hvað er minnisstætt þá kemur þetta upp í hugann:
- Góðar stundir í sumarbústaðnum, þar sem við bjuggum á tímabili í sumar, heiti potturinn kemst í gagnið.
- Ótrúleg steypuafrek feðganna Ara og Óla uppi á lofti í vor.
- Verkstjórnandinn Jóhanna (sem varð þrítug á árinu) töfrar fram kraftaverk í verklegum framkvæmdum fyrir jól og milli jóla og nýárs svo við endurheimtum heimilið úr kössunum.
- Ameríkuferð með Elísabetu systur að heimsækja Nínu systur.
- Nína systir flytur heim til Íslands.
- Fráfall vinar míns Jóns Ásgeirs Sigurðssonar og stuðningurinn sem gömlu vinnufélagarnir á Vikunni veittu hver öðrum á þeim tíma.
- Námið mitt er loksins (nánast) í höfn og ég hlakka bara til að binda endahnútinn á það.
- Vel heppnuð fölskylduferð með tengdafjölskyldunni til Barcelona.
- Fjölskyldustemmning þegar föðurfólkið mitt ásamt mömmu hittist upp í bústað hjá okkur Ara í sumar.
- Eftir næstum sjö ár í tölvubransanum gerist ég sagnfræðingur á nýjan leik, alla vega í eitt til tvö ár.
- Góðar VG stundir.
Ný könnun um áramótaheit og úrslit seinustu könnunar
28.12.2007 | 23:57
Nú er komin ný könnun á síðuna mína og ég hvet ykkur til að taka þátt. Kannski finnið þið ekki ,,alveg" rétta svarið ykkar, þannig að athugasemdakerfið getur dugað, en best er auðvitað að nýta sér þessa valkosti sem ég setti inn.
Seinasta könnun fór þannig að um fjórðungur þátttakenda, sem voru óvenju margir, ætluðu ekki að breyta lífsháttums ínum fyrir jól, fimmtungur var að fara í próf og skreytingar og meðlimir rétttrúnaðarkirkjunnar komu fast á eftir. Hmmm ... en alla vega ætluðu fáir að eyða tímanum fram til jóla í tiltektir. Einhver gæti mögulega hafað svindlað ;-) - annars voru liðirnir ótrúlega jafnir, nema efsti og neðsti.
Ljúfu jól - fjölskyldan, bækurnar, framtíðin og framkvæmdirnar
27.12.2007 | 01:18
Þessi jól fara vel með okkur. Góðar samverustundir með fjölskyldunni, vorum í boði hjá nánustu tengdafjölskyldunni minni, sem er líklega innan við 50 manns (ef taldir eru þeir sem eru á landinu núna). Meira að segja Kristín amma í Borgarnesi kom við með Önnu Mæju dóttur sinni, hún er töffari á tíræðisaldri. Mamma var hjá okkur á aðfangadagskvöld og jóladag, en vegna veðurs frestuðum við kertaferðum í kirkjugarðana um stund. Afskaplega notalegt allt saman. Svo vorum við fjölskyldan að spila í nótt (Draumalandið held ég það heiti) og ég datt aftur í smá spilamennsku í dag (Bíóspilið) með nokkrum í tengdafjölskyldunni. Mikið fjör þar til eftirréttir voru bornir fram, þá leystist þetta upp, það var líka samkeppni um athyglina við börn fjölskyldunnar, sem dró úr einbeitingu á köflum (góð afsökun ;-) - já þetta eru góð fjölskyldujól.
Og bókajól líka, las spennusöguna Hníf Abrahams fram á rauðan morgun og er búin að lesa alla bestu kaflana í ævisögu Guðna og byrjuð á nýrri spennusögu, Gurrí mín takk! Enn eimir eftir af áralöngu menningarbindindi og ég les mest spennusögur með stærðfræðinni. Ætla samt að ráðast á endurheimtu bókahillurnar og endurlesa Doris Lessing við tækifæri, elska hana. Og þegar ég kemst í þann fasa les ég venjulega líka eitthvað í Iris Murdoch. Við erum líka búin að horfa smá á sjónvarp og bíó, þetta er fín upphitun fyrir næsta framkvæmdafasa, sem verður mun vægari en sá næsti fyrir jól.
Kláruðum parkettið uppi fyrir jól, sem var ótrúlega gaman (og pínulítið erfitt), og erum búin að endurheimta stofuna okkar eftir 11 mánaða bráðbirgða-staðsetningu bókahilla á miðju borðstofugólfi (bækurnar farnar upp og sumar bíða þess að fleiri bókahillur verði settar upp - og nú er alla vega hægt að FINNA bækurnar sem mig langar að lesa, láta aðra lesa eða gefa).
Áramótin verða að vanda með fjölskyldu, venjulega kemur Georg bróðir og hans krakkar til okkar kringum áramótin, mamma og stundum tengdamamma. Meira um það seinna.
Hlakka til allra verkefna og næsta árs, gaman að vera farin að vinna við sagnfræðina aftur og eiga svona lítið í land til að ljúka MS-inu í tölvunarfræðinni. Líka búin að bóka óvenju stutt ,,sumarfrí" í febrúar á Kanarí, þar sem vinna og verkefni kallar á okkur bæði. Bætum það vonandi upp á öðrum tíma ársins.
Óhefðbundið jólaskap (fyrirfram)
21.12.2007 | 00:37
Það sem kemur mér í jólaskap fyrir jól er eftirfarandi:
- Framkvæmdirnar sem hafa setið á hakanum í húsinu en á nú að klára fyrir jól (og tekst oft furðu vel)
- Fíflagangur og jólastress í vinnunni
- Próflok
- Leitin að jólaskrautinu
- Einstaka jólalag - Baggalútslögin koma sterk inn nú eins og undanfarin ár
- Innpökkun jólagjafa
- Tiltekir (já, mesta furða)
- Harðsperrur á nýjum stöðum (óvenjulegar hreyfingar í tiltekt og parketlögn til dæmis)
- ... og ýmislegt fleira, sem ég man ekki núna
Flest af þessu á við núna, einkum það fyrstnefnda, sem hefur elt okkur síðastliðin þrenn jól, merkilegt nokk aðallega til ánægju. Fyrir jólin í fyrra náðum við að koma herbergjum krakkanna okkar í gagnið, sem eru nýsmíði á efri hæðinni, núna erum við að ljúka mestöllum frágangi á sameiginlega rýminu uppi, sem hefur reyndar þjónað ágætlega sem vinnuaðstaða fyrir ýmislegt, þar málaði sonur okkar heila brúðargjöf og ég lærði fyrir erfiða prófið mitt. En frá seinustu jólum hefur gólfið uppi verið flotað að minnsta kosti 10 sinnum og er nú orðið þokkalega slétt (fyrri umferð og 9 ,,seinni" umferðir).
Sökum pestar hef ég verið frekar hæg í gang núna, en tók góðan sprett í kvöld og er hreinlega búin. En svona ímyndaðir skilafrestir eins og jólin, geta gert alveg ótrúleg kraftaverk, kannski það lygilegasta þegar við tættum niður eldhúsinnréttinguna rétt fyrir jólin í hitteðfyrra og rústuðum baðherbergið en tókst að koma hvoru tveggja í nothæft ástand fyrir jólin. Frágangur hefur reyndar beðið síðan, því þar hangir margt á sömu spýtunni, meðal annars að ljúka verkinu uppi til að koma fyrir bókum sem nú eru í rými sem deilir gólffleti með eldhúsinu. Flókið mál - ástæðulaust að fjölyrða um það.
Um jólin eru það aðrir og kannski enn jólalegri hlutir sem kveikja jólaskapið. Fara með kerti á leiði ástvinanna, bjöllurnar sem hringja inn jólin klukkan sex á aðfangadag og hin klassíska kveðja: Gleðileg jól í Ríkisútvarpinu, Heimsumból (þegar að því kemur) þvottalyktin af rúmfötunum þegar hangið er yfir jólabókunum fram eftir nóttu - og svo bara þetta óskilgreinanlega sem ég þykist enn finna fyrir.
Jólin munu koma *
19.12.2007 | 23:20
Gerði þessa ágætu uppgötvun, jólin munu koma. Og þau munu koma, hvort sem við leggjumst í pest eða ekki rétt fyrir jól, hvort sem það er búið að gera allt sem þarf eða ekki, hvort sem prófin klárast fyrir jól eða ekki. Jólin munu koma og það er bara þannig. Fyrir flesta er það yndislegt, við erum í hópi þeirra lánsömu sem búum okkur undir gleðileg jól í hópi ástvina. Vona að aðrir sem kvíða jólunum muni finna leiðina til að njóta þeirra og ef hjálpar er þörf rati sú hjálp til þeirra.
Pestin er enn á sínum stað, núna vona ég heitast að ég hafi ekki smitað Hönnu mína. Feðgarnir virðast frískir en til öryggis ber ég í tré. Prófið frestast aðeins stutta stund fram á næsta ár. Verkefnamálin mín eru að skýrast mjög og ég er að leggja línurnar í næstu verkefnum svona á milli þess að ég fikra mig út í tiltektina, það er ótrúlegt að hægt sé að svitna af því að þurrka af - sitjandi! Því miður er ég búin með spennusöguna sem hefur séð um að svæfa mig að undanförnu og stærðfræðiblöðin (fyrir næsta próf) eru því miður skemmtilegri en svo að ég sofni yfir þeim. Þannig að kannski verð ég búin að bæta upp ólesið efni fyrir áramót, sem væri svo sem allt í lagi.
Byrjuð að senda út jólapóstinn, hef vanrækt jólakort að mestu seinustu árin en útbjó þess í stað smá fjölskyldusögu frá síðasta ári sem fer að fara í dreifingu. Vonandi hef ég sem minnstan tíma til að blogga til jóla. en það er alltaf gaman að grípa í það á milli. Njótið aðventunnar!