Færsluflokkur: Lífstíll
Fimm jökla sýn úr sumarbústaðnum
12.6.2009 | 19:47
Við höfum útsýni yfir fimm jökla héðan úr sumarbústaðnum, Eiríksjökul, Langjökul, Geitlandsjökul, Þórisjökul og Okið (sem hermenn kölluðu víst Ókei hér í eina tíð og er að mestu búið að týna jökulhettunni sinni). Óvenju góð sýn á þá í dag þegar ég renndi upp í bústað að sinna ýmsum verkefnum.
Skortur á kvikindisskap og fréttir frá Kanarí
7.2.2009 | 00:13
Fékk sms áðan úr númer sem ég þekkti ekki. Það var efnislega svona: ,,Á ég að kaupa bangsa handa NN í fríhöfninni? amma" Ef ég væri almennilega kvikindisleg þá hefði ég auðvitað svarað: ,,Nei" og blessað barnið, NN, hefði ekki fengið neinn bangsa. En ég er ekki nógu mikið kvikindi, og svaraði því til baka að ég héldi að þetta hefði ratað í vitlaust símanúmer. Sem var auðvitað alveg rétt, en hins vegar var þetta nú ekki eins langt frá mér og ég hélt, því í ljós kom að Inga vinkona mín sem ég hef oft verið með á Kanarí, var höfundur sms-ins. Og upphófust smá sms-skrif um mini-golf, hitastigið og fámennið (og góðmennið) sem er á Kanarí núna. Það hlýtur að vera skrýtið að vera þarna núna, ekki er hægt að kenna kreppunni um hversu kalt er núna, en hins vegar um flest annað, ekki þó allt, fleira hefur breyst og mér finnst svo skrýtið að vera ekki þarna, hálfpartinn eins og ég sé að skrópa, þó það sé fjarri lagi. Eins og ég hafði lengi ranghugmyndir um Kanaríferðir (sem eiga ekki mikið skylt við venjuleg ferðalög) þá hafa þær verið mjög sérstakur þáttur í lífi okkar það sem af er öld, alla vega þar til nú, með því súra og sæta sem þeim hefur fylgt, aðallega sætu.
Þó það sé ekki hlýtt þarna á Kanarí núna (13-17 gráðu hiti), er sólríkt (já, ég hef verið að lauma mér í að skoða 10-daga spána að undanförnu, þótt ég sjái alls ekki fram á að vera á leiðinni í sólina sem ég elska svo heitt). Rosalega gaman að heyra í þeim vinum okkar í kvöld og ég sakna þess sérstaklega að vera ekki þarna á sama tíma og þau, við höfum átt svo góðar stundir svo oft.
Nafnleynd barnsins og smáatriði um bangsann eru máð út úr þessari færslu ef ske kynni að það væri æskilegt.
Köflóttur dagur
19.1.2009 | 20:39
Notaleg nótt yfir sokkaprjóni og þrjár rómantískar gamanmyndir
10.1.2009 | 01:43
Frjáls vinnutími hefur ýmsa kosti, þótt stöku morgnar detti inn í vinnutímann, svo sem morguninn í morgun, þegar ég var búin að bóka mjög fróðlegt viðtal tengt vinnunni minni. En þegar þannig stendur á getur verið gott að geta leyft sér að bæta úr smá bráðræði, svo sem þvotti á risasokki sem prýðir gifsklæddan fót eiginmannsins þessa dagana. Þvottur á þessum ullarsokki endaði með ósköpum og undarlega smáu og þykku eintaki, vel þæfðu. Þannig að upp voru teknir prjónar, rómantísk gamanmynd sett í tölvuna og byrjað að prjóna annan sokk í stað þess sem ég hafði prjónað daginn eftir að Ari minn braut sig. Það tekur næstum þrjár rómantískar gamanmyndir að prjóna einn hnéháan risasokk á fimm prjóna. Náði að klára áður en Ari vaknaði, árla að vanda, og var vel stolt yfir unnu verki og vel mett af rómantískum gamanmyndum í bili alla vega. Gaman að geta einstaka sinnum leyft sér svona lagað, gagn og gaman.
Listin að mála (stærðfræðiformúlur á bolla, endurvinna módelmyndir og klína út veggi)
5.1.2009 | 23:51
Málaði samtals í sjö og hálfan tíma í dag, bæði veggi og ofn í þágu hugsjónarinnar og einnig var ég greinilega komin með svolítið fráhvarf frá myndlistinni. Skil eiginlega ekkert í því hvað ég hef verið róleg þessar 3 vikur sem ég var í fríi frá myndlistinni. Línan á veggnum sem ég var að klára ,,fínmálningu" á var ekki neitt til að hrópa húrra fyrir, en ég er svolítið ánægð (ennþá alla vega) með myndirnar sem ég var að vinna í. Ein fær að flakka með, þetta er svona endurvinnsla, hef verið að flokka stórar módelmyndi, henda sumum, taka myndir af sumum og stafla þeim sem á að geyma.
Þá er sagan sögð til hálfs, því svo er að troða þessum risastóru myndum á lítinn og sætan striga. Þá vandast málið stundum, en stundum er ég sátt. Hvort myndin hér til hliðar er búin eða ekki hef ég reyndar ekki hugmynd um, hún er nýkomin á strigann. Svo er ég reyndar að mála stærðfræðiformúlur og gömul dæmi úr RRR (Reiknirit, rökfræði og reiknanleiki) á bolla (myndir af bollum) - pínulitlar myndir - en gleymdi að taka myndir af því dæmi.
Góða helgi öll, annríki og mögulegt bloggfrí
19.9.2008 | 23:30
19 stiga hiti í dag á Tjörnesi - enn er von!
17.9.2008 | 22:44
Mannbætandi umhverfi, myndlistin aftur í forgang og ,,bíb
4.9.2008 | 00:50
Hef ekkert komist upp í sumarbústað að undanförnu vegna annríkis og pestar. En í dag var ég að vinna í skjölum uppi á Skaga og þá var auðvitað svo stutt í Borgarfjörðinn að það var tilvalið að skjótast aðeins um kvöldmatarleytið og taka salatið, sem ég var viss um að væri farið að skemmast, úr ísskápnum. Það var sem betur fer ekki farið að valda neinni mengun í skápnum, ekki einu sinni smá lykt, en gott að henda því áður en til þess kom, ásamt öðrum útrunnum matarleifum, sem betur fór ekki miklum. Um leið og ég kom uppeftir fann eg hvað ég var farin að sakna þessa ótrúlega umhverfis. Það er eins og hellist yfir mig friður og vinnugleði í þessu umhverfi og náttúrufegurðin var ótrúleg, en það sem ég fann líka, var hvað við erum búin að koma okkur þægilega fyrir þarna í paradísinni okkar. Timburlyktin í bústaðnum er svo ljómandi góð og minnir á góða daga uppi í bústað hjá Betu frænku og skemmtilega tíma á Úlfljótsvatni í skátasumarbúðunum forðum daga. Mikið lán að hafa rekist á þennan stað og haft bolmagn til að útbúa sér svolítið hreiður þarna.
Eftirreitur pestarinnar og tilheyrandi orkuleysi hvarf eins og dögg fyrir sólu og batteríin hlóðust í þessari stuttu heimsókn í paradísina okkar. Náttúrufegurðin báðar leiðir var alveg ólýsanleg, allt frá sólríkri aðkomunni til sólarlagsins sem tók á móti mér þegar ég renndi út á Álftanesið, sem líka er alveg yndislegt. Tíminn hér í bæjarjaðrinum hefur hins vegar tilhneigingu til að vera tættari vegna ýmissa anna sem hlaðast á svoleiðis daga, en ég segi bara ,,bíb" við því öllu.
Og svo er það myndlistin. Ég hef verið að væflast með það hvernig ég kem mér aftur í gang eftir óvenju langa pásu. Gerði það sem ég geri stundum, skráði mig á námskeið í myndlistarskóla, ég hef alltaf gagn af tilsögn, það er engin spurning, en fyrst og fremst er gott að taka frá ákveðinn tíma í viku sem fer ekki í annað. Að þessu sinni fer ég í Myndlistarskóla Kópavogs, þangað eru svo margir af vinum mínum úr Myndlistarskólanum í Reykjavík komnir og svo er heldur styttra þangað en lengst vestur í bæ. Tók kúrs sem er mjög frjáls og gefur möguleika á aukamætingu og talsvert af sjálfstæðri vinnu. Hlakka ekkert smá til að fara að glíma á ný við myndlistina. Við hæfi að setja haustlitamynd með þessum orðum.
Blágresið festir rætur
15.8.2008 | 01:19
Nei, þetta er ekki pólitísk frétt. Þannig er mál með vexti að ég hef verið að reyna að koma blágresi til hér fyrir aftan sumarbústaðinn, og nú sé ég að blágresið sem ég flutti af baklóðinni okkar í Blátúninu á Álftanesi er búið að skjóta góðum rótum hér í Borgarfirðinum og virðist ætla að lifa góðu lífi hér. Veit hins vegar ekki hvernig verður með blágresisfræin mín, sem ég setti niður fyrr í sumar. Það verður allt að koma í ljós. Eftir þennan frekar fúla dag í sögu borgarinnar er þó alltaf gott að geta fjallað um eitthvað skemmtilegt sem er bæði blátt og grænt, og þá á ég sannarlega ekki um sjallana og framsókn.
Hann Trausti, fyrrverandi nágranni minn, mikill og einlægur kommi, sagði við mig, þegar ég varð með óbeinum hætti til þess að gatan okkar var skírð Blátún: Anna, hvernig gastu gert mér þetta? Mér til málsbóta get ég sagt að ég er hrifin af mörgum litum en verð að viðurkenna að orðið Blátún hafði sérstakan sess í huga mér frá því ég horfði yfir á fallega húsið Blátún við Kapaskjólsveg af fjórðu hæðinni í blokkinni minni þegar ég var lítil. Þannig að þegar við byggðum úti á Álftanesi þá fékk ég leyfi eins afkomandans í Blátúni til að nota nafnið á húsið okkar og það var síðan yfirfært á götuna. Í bakgarðinum er að sjálfsögðu góð blágresisbreiða og fleiri falleg bleik og blá blóm blómstrandi, en blágresinu ánetjaðist ég í sveitinni minni á Sámsstöðum í fljótshlíð.
Blátúnsblogg
12.7.2008 | 12:13
Þeir sem ekki þola væmið blogg ættu að vara sig áður en þeir lesa lengra. Allar aðstæður ýta undir að þetta blogg verði einstaklega væmið.
Dagurinn í gær var sérstakur. Var komin í bæinn seint á fimmtudagskvöld í tvennum tilgangi, að heilsa upp á mitt heittelskaða áður en hann færi í langa hestaferð, um Eyfirðingaleið norður Sprengisand með einhverju krúsindúlluívafi. Hins vegar var ég að fara í jarðarför ömmusystur minnar, Hullu (Huldar Árnadóttur) sem var mikil sómakona og dó sátt við sig og sína í hárri elli, án þess að verða nokkurn tíma gömul. Einn bróðir úr þessu stóra systkinahópi lifir enn og lét sig ekki muna um að rölta með stuðningi af göngugrind alla leið með okkur niður að leiði Hullu. Mér fannst ég nú brött að rölta þetta á himinháu hælunum á stígvélunum mínum, en hann Friðjón frændi minn sló mér allrækilega við. Mér líður alltaf svo vel í Fossvogskirkjugarð, þar hvílir svo margt gott fólk sem var mér náið, meðal annarra pabbi minn og Dolinda, konan hans seinustu árin hans, og svo Magga frænka mín, systir Hullu, sem mamma passar alltaf uppá að sé með falleg sumarblóm á leiði hennar og Þórs sonar hennar sem dó ungur úr hvítblæði. Hún dó eftir áratuga dvöl á Nýja-Sjálandi en við tókum á móti duftkerfinu hennar svo hún fengi að hvíla hjá syni sínum. Margir í þessari fjölskyldu sem eiga sér merkilega sögu.
Þegar ég kom heim biðu mín skilaboð um að hið árlega götugrill hér í Blátúni væri framundan, en það var einmitt í gærkvöldi og fram á rauða nótt. Mikið eigum við yndislega nágranna í þessu litla samfélagi okkar í Blátúni á Álftanesi. Hef misst af grillinu að undanförnu vegna fjarvista á sumrin en sem betur fór ekki í ár. Ari minn var auðvitað fjarri góðu gamni, og Hanna var að aðstoða hann fyrsta spölinn og komst ekki heldur. Óli var tvíbókaður og þar að auki að ná úr sér pest, þannig að ég varð ein fjölskyldumeðlima fram yfir þrjú í nótt að spjalla og skála við nágrannana, sem hafa auðvitað fyrir löngu skotið veðurguðum ref fyrir rass og byggt skýli yfir götuna sem dugar alveg ef dropar koma úr lofti, eins og vottaði fyrir, einkum er fór að líða fram yfir miðnætti í nótt. Gróðurinn efst í götunni, þar sem grillið er jafnan haldið, er orðinn svo allumlykjandi og fallegur að það jók enn á stemmninguna. Hefði reyndar viljað spjalla meira við nýja fólkið í Blátúni 4, en geri það seinna, þau virka indæl. Ég þurfti bara svo mikið að bæta upp vanrækslu undanfarinna ára að ég komst ekki yfir að spjalla við fleiri en gömlu vinina hér í Blátúninu.
Ég saknaði þess reyndar að taka ekki þátt í Blátúnsleikunum, sem byrjuðu klukkan fimm í gær, sem er eina tækifæri mitt í tilverunni til að rifja upp gamla takta frá Ungmennafélagsárunum í spjótkasti. Aðrir sáu um spjótkastið þetta árið. En ég var búin að raða nokkuð þétt á daginn og naut veðurblíðunnar niðri í bæ með vinkonum mínum og óvæntum leynigesti, þýskum vini okkar, Kristoff frá Berlín. En Borghildur og Guðný vinkonur mínar gerðu daginn að algerum draumadegi. Guðný er æskuvinkona mín og við höfum nýverið endurnýjað sið sem við vorum búnar að koma okkur upp, að hittast svona um það bil mánaðarlega og spjalla saman, jafnvel um hluti sem skipta máli. Borghildi hitti ég reglubundnar, en þó sjaldnar nú en fyrr, við erum gamlir vinnufélagar og úr vinkvennahópi sem er alveg rosalega skemmtilegur (og inniheldur ekki bara kvenfólk!). Svo þegar Borghildur var farin og við Guðný á fullu að kjafta, hringdi Borghildur og dreif okkur með sér á opnun á myndum Stórvals. Það var sannarlega óvænt ánægja sem dró alveg rosalega skemmtilegan dilk á eftir sér, hvað mig varðar. Svo kíkti ég aðeins við hjá mömmu áður en ég fór í götugrillið og hún var eins og oftar búin að finna eitthvað bitastætt fyrir mig að kíkja á fyrir Álftanessöguna.
Og nú fá trén mín uppi í Borgarfirði loksins almennilega vökvun. Krafturinn (eða skorturinn á honum) á kalda vatninu gerði það að verkum að vökvunartilburðir mínir, með gulu gúmmíslöngunni, hafa verið hálf máttleyisislegir og ég er ofursátt við framlag veðurguðanna í þessum efnum. Ef þessari úrkomu verður stillt í hóf, er hún líka kærkomin fyrir hestamennina, sem annars þyrftu að ríða norður á bóginn í miklum reykjarmekki.