Færsluflokkur: Lífstíll
Jökulsárlón
25.7.2012 | 22:40
Einn af mínum uppáhaldsstöðum á Íslandi er Jökulsárlón. Það er einhver galdur við það og dramatísk örlagasaga liggur í loftinu, mun það verða áfram til eða ekki, á að reyna að viðhalda því? Í fyrra ætlaði ég að sýna systurdóttur minni, Anne, og fjölskyldu hennar lónið, en þá kom eldgos og ég þurfti að útskýra fyrir þessari hálfamerísku fjölskyldu að í fyrsta lagi væri ófært vegna öskublindu þangað austur (og ég nennti ekki að keyra norðurleiðina) og svo væri ísinn drulluskítugur. En eflaust hefur hann verið fallegur í þeim búningi eins og öðrum. Þess í stað sáu þau gosmökkinn og ætluðu varða að trúa sínum eigin augum þegar hann var að nálgast Reykjavík en við að koma ofan úr Borgarfirði.
Í sumar komst ég að lóninu, enn eina ferðina, og nú bar svo við að þrátt fyrir 15-20 stiga hita allt um kring voru aðeins 5 gráður við lónið, en blankalogn og alls ekki kalt. Á leiðinni yfir brúna sáum við ferðafélagarnir að rauk upp úr jörðinni, þannig að væntanlega hefur verið mun hlýrra fyrr um daginn og var þó varla komið nema rétt yfir hádegið. Ég hef séð lónið í logni og blíðu, sól og skýjuðu, siglt um það í þoku, sem var magnað, og í ágætu veðri. Aðrir fjölskyldumeðlimir þekkja lónið enn betur án þess að ég fari nánar út í þá sálma. Þótt krökkt sé af túristum við lónið seinni árin, þá þarf ekki að ganga langt til að vera ótrúlega einn í þessu undarlega umhverfi. Við erum ljónheppin, Íslendingar, að eiga þessa merkilegu náttúruperlu.
Viðbót kl. 23:24: Fann ágæta frétt af öskusvörtum jökum til samanburðar:
Snjórinn og skáldin
29.12.2011 | 18:30
Jóla, jóla ...
22.12.2011 | 16:26
Hótelherbergi
31.10.2011 | 12:25
Pólitíska bloggið mitt er í öðrum farvegi þessa dagana, að því leyti sem ég tjái mig um pólitík á þessum deiglutímum. Þess vegna ætla ég að skrifa um hótelherbergi og gera játningu: Ég kann vel við mig á hótelherbergjum.
Af og til ,,lendi" ég í því að vera ein að þvælast og gisti þá gjarnan á mjög mismunandi hótelherbergjum, öllum nothæfum og sumum bara æði góðum. Elti tilboð og tékka á netinu áður en ég bóka mig, ég veit þetta reddaðist allt fyrir tilkomu netsins, en mikið lifandis ósköp er mikið þægilegra að leita á netinu, kíkja á umsagnir og bóka svo. En það er ekki endilega ytri umgjörðin sem gerir dvöl á hótelherbergjum að því sem hún er. Yfirleitt er aðeins brot af ferðinni þar, önnur erindi en hótelhangs hreinlega brýnni. En ef baðvatnið er ekki kalt og herbergið snyrtilegt hefur það alltaf ákveðna kosti. Gott næði til að gera eitthvað gagnlegt og lítið ytra áreiti er eitt af því sem heillar mig. Stundum hef ég komist í magnað vinnustuð á hótelherbergjum, sem aðeins tímaskortur hefur heft. Oft er hægt að hita sér kaffi og/eða minibar sem sparar veitingahúsaferð og dugar mér alla vega yfirleitt ágætlega eftir langan ferða- eða annríkisdag. Duftkaffi og kex (!) eða Pepsi Max/bjór með hnetupoka. Brilljant kvöldverður og eykur líkur á að ég vakni tímanlega í skyldur morgundagsins, svöng.
Kíkja á fréttir í sjónvarpi, fátt annað spennandi, þó er hægt að lenda á furðulega skemmtilegu efni og óvæntu. Þannig horfði ég á 3 mismunandi leikara leika Wallander á norsku hótelherbergi sem ég hékk á í hitteðfyrra af því ég þurfti að mæta snemma á fundi alla dagana. 2 lönd, 3 stöðvar, 3 Wallanderar. Annars hefði ég líklega ekki komist að því að Kenneth Brannagh hefur gert Wallander glettilega góð skil og kynnt hann fyrir anti-skandinavísku-talandi fjölskyldumeðlimum [nú er ég heppin að vera búin að slökkva á athugasemdakerfinu, annars fengi ég vísast athugasemd á þessa skilgreiningu, en hún er rétt.
Fyrir kemur að útsýni er fróðlegt út um glugga hótelanna, Akureyri er til að mynda gullfalleg, svo og strætislíf í miðri London, en oftar eru það port með dúfum, tunnum og alls konar sviðsmyndum, eða umferðargötum.
Nú orðið er alls staðar stutt á net og ég ber með mér sífellt léttari tölvur, allt frá því ég fór með vinnu(far)tölvuna með mér til Ástralínu 1993. Stundum er netið á herberginu, stundum þráðlaust, ég hef yfirleitt með mér snúru ef það er beintengt. Stundum í setustofu eða lobby og í sumar var ég í viku á hóteli í Eastbourne með ókeypis neti, en bara á næst-næst-næsta hóteli. Það var líka ágætt. Okkar hótel var með góðan veitingastað og hótelbar, systurhótelið aðallega með netið. Næst verður kannski búið að víxla þessu, hver veit?
14-2
15.9.2011 | 18:26
Þegar danskar kosningar eru í fréttum (og vinstri sveifla loks að eiga sér stað) þá hvarflar hugurinn að Danmörku og dönskum hversdags- og furðuheimum. Danska blóðið mitt fer að ólga, þótt ég kannist ekki sérlega mikið við það, lít á dönsku t.d. sem erfðagalla en ekki tungumál, mál sem þó jaðrara við að ég geti talað að gagni.
Samt er svo margt, ef að er gáð, sem er alveg einstakt við Dani og Danmörku: Land, þar sem hægri flokkur heitir Venstre og miðflokkurinn Radikale Venstre, hvað segir maður um það? Þar sem bærinn ,,Næstved" er til. Fátt er flottara en Svantes lykkliga dag, ,,om lidt er kaffen klar" og gruk Piet Hein eru ,,dejlig" ef eitthvað er það. Samt finnst mér Danir stundum hryssingslegir, hrokafullir (arfur nýlenduherra) og síreykjandi og sjaldan eins ljúfir og af er látið (nema Sússa frænka). Aldrei skilgreint mig sem sérstakan Dana-vin en hins vegar full aðdáunar á Bretum, þótt ég eigi yndislegar danskar vinkonur (Helle og Helle) en frómt frá sagt ekki lengur neinar enskar, sem ég man eftir. Ótal skemmtilegar stundir í Kaupmannahöfn, frá því að ég var sjö ára, fimmtán ára og fullorðinsárum, samt er það London sem alltaf togar.
Ætli þetta sé eitthvert 14-2 syndrome (heilkenni)?
Haustið sem ekki kom ...
5.11.2010 | 01:04
Eins og það var gaman að halda hásumrinu fram í miðjan október, þá er ég hálfpartinn óhress með að fá veturinn beint í andlitið. Ekki svo að skilja að það hafi ekki verið fallegt að sjá snjóinn á trjágreinunum í Fossvogskirkjugarði í dag, það var fallegt. En snjó og frosti fylgir stundum hálka og mér er meinilla við hana. Sömuleiðis er ég orðin eldheitur aðdáandi langra daga og þurra eftir að ég féll fyrir golfinu, þannig að skammdegið er ekki nærri eins spennandi eins og á árunum um tvítugt þegar það var miklu lógískara að koma af balli út í náttmyrkrið heldur en koma úr reykmettuðum og skuggsýnum sölum sveitaballanna á sumrin og út í sólskin og blíðu (uppúr klukkan tvö að nóttu, því þá voru böllin ekki lengri). Vissulega verður gaman að sjá jólaskreytingarnar sem fyrr en varir verða komnar upp, en samt, hvar eru haustlaufin, mildu haustdagarnir, aðlögunin?
Það hefði verið svo upplagt að hafa haust fram í miðjan desember, en snögg ferð á Snæfellsnesið í 10 stiga hita og haustlitum í upphafi október reddaði haustlitunum þetta árið, vegna anna var sumarbústaðurinn vanræktur eftir að haustlitirnir fóru í alvöru að njóta sín. En það kemur haust í stað þessa týnda hausts og ég ætla mér ekki að missa af því.
Endingargott sumar - á ýmsa vegu
29.8.2010 | 18:01
Um allmargra ára skeið hef ég farið í sumarfrí á veturna frekar en á sumrin, en samt tekið einhverja frídaga eða frítíma á sumrin. Þetta sumar og hið síðasta hafa verið einstaklega veðurblíð og sennilega næstu sumur á undan líka. Meðan ég var að vinna í lausamennsku, aðallega við skriftir, gat ég setið á pallinum fyrir utan sumarbústaðinn og skrifað. Núna, þegar ég ákvað að fara aftur að vinna sem tölvunarfræðingur, er ég að vísu mjög ánægð með svalirnar á hæðinni okkar, þangað út tek ég tölvuna stundum ef ég er að vinna í verkefnum sem ekki útheimta tvo skjái. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja á sig til að elta sólina. Þess í stað hef ég notið útivistar með því að skipta sumarleyfisdögum í smáhluta og elt góðar sólarstundir þegar tími hefur unnist til, án þess að skerða sumarfríið sem ég ætla að taka í vetur neitt voðalega. Ekki spillir að oft hafa helgarnar verið góðar. Hlýindin framundan, þótt þeim fylgi einhver væta, eru til þess fallin að gera sumarið endingarbetra en ella væri. Það sem þó hefur mest áhrif á lengd sumarsins er að vera fallin fyrir íþrótt sem dregur mann út á golfvöll í tíma og ótíma, ótrúlegt hvað það gerir sumarið mikið lengra að njóta þess úti við. Sem sagt, nokkuð endingargott sumar, hingað til alla vega ...
Ólesnar spennusögur – Kindle og pappír
22.7.2010 | 19:43
Það er fátt sem gerir mig órólega og mér leiðist sjaldan, ef nokkrun tíma. En hins vegar verð ég að játa að ég finn fyrir smá ókyrrð og öryggisleysi er ég á ekki alla vega 2-3 ólesnar spennusögur innan seilingar. Fátt tæmir hugann eins vel og að lesa spennusögu fyrir svefninn og svo þjónar þessi iðja einnig því hlutverki að ýta gáfulegum hugsunum og geggjuðum hugmyndum á brott, en það er auðvitað valkvætt hvað hver og einn vill gera við svoleiðis lagað. Einstaka sinnum tek ég óskrifuðu minnisbókina framyfir spennusöguna á náttborðinu og krota hjá mér allar þessar hugsanir og hugmyndir. Það má stundum moða úr því að morgni.
Engu að síður er alveg nauðsynlegt að eiga svona slökkvilið við hendina og geta svæft allt hugarflug með góðri spennu fyrir svefninn. Um helgar má svo stundum grípa í bókina líka í vakningaferlinu, sofna aftur eða detta inn í spennuna sem góð spennusaga þarf að bjóða upp á og lesa sér til óbóta.
Nú er ég búin að baktryggja mig. Hlaða niður ókeypis forriti á tölvuna mína sem gerir að sumu leyti sama gagn og hið allt of dýra Kindle-lestól, að ég tali nú ekki um iPad-inn sem er enn dýrari. Hvort tveggja of dýrt til þess að ég hafi þurft að taka hina afdrifaríku ákvörðun um hvort henti mér betur. En nú get ég keypt og átt í tölvunni minni varasafn af spennusögum, þannig að strangt til tekið þá þarf ég aldrei að verða uppiskroppa með spennusögur fyrir svefninn. Til þess hefur ekki komið enn, en óneitanlega er þessi kostur betri en sá að renna út í Hagkaup (opin allan sólarhringinn í GB og Skeifunni) með stýrurnar í augunum eftir nýrri spennusögu. Það hef ég heldur ekki gert, en allur er varinn góður, er það ekki?
Afmæli á ,,ösku"degi og ,,hinir" sem áttu afmæli 4. júní
5.6.2010 | 01:09
Það er alltaf jafn gaman að eiga afmæli en ég held samt að ytri umgerð þessa nýliðna afmælisdags míns hafi verið ein hin undarlegasta. Við á höfuðborgarsvæðinu höfum lítið þurft að finna fyrir öskufallinu til þessa, þótt ferðaáætlanir sumra okkar hafi raskast nokkuð, þá er það vegna ösku sem stödd hefur verið uppi í lofti en ekki verið að falla niður á bílana okkar. Hugurinn hefur vissulega leitað af og til austur í fallegu Fljótshlíðina mína, þar sem ég var í sveit í sex sumur, og vissulega væri það forvitnilegt að starfa við grasræktartilraunir á tilraunastöðinni á Sámsstöðum við þessar aðstæður eins og ég gerði þessi sumur, en aðeins forvitnilegt, ekki skemmtilegt og sannarlega önugt fyrir konu með linsur í augunum, eins og ég er með.
Í dag fengum við hænufetsskammt af því sem fólkið fyrir austan má búa við og það var stórundarlegt að upplifa öskudag í sumarbyrjun. Kannski verður þetta sumar svolítið undarlegt. Tékkaði auðvitað á vefmyndavélinni í Borgarnesi (á menntaskólanum) og sá að þangað fór askan líka, litlu síðar en sú sem kom til okkar.
Hvernig ætli okkur hér, sem fáum smáskammtana, væri innanbrjósts ef við ættum lífsafkomuna undir búskap og byggjum við margfaldan þennan skammt?
Um áramót, á afmælisdögum og öðrum tímamótum er alltaf gaman að velta fyrir sér lífinu og tilverunni og þó ég hafi það ekki að lífsstarfi eins og tveir af þeim sem deila með mér afmælisdegi, Gunnar Dal og Páll Skúlason heimspekingar. Við sem eigum afmæli á þessum degi, 4. júní, erum reyndar úr öllum áttum, auk heimspekinganna tveggja deili ég afmælisdegi með jafn ólíku fólki og geggjaranum Russel Brand, Angelinu Jolie og Gyðu Guðmundsdóttur sem var önnur af stofnendum McDonalds á Íslandi.
Óbærilega spennandi tímar (og bókin sem á jafn mikið í mér og ég í henni)
14.11.2009 | 02:27
Það er margt sem hefur haldið spennustiginu í lífi mínu uppi í þessum mánuði.Nóvember er alltaf svolítið spennandi mánuður, í fyrra var það heimkoma úr hitanum í kreppuna og aftur í hitann í frostinu á Austurvelli. Minnist margra spennandi nóvembermánuða, sem yfirleitt hafa verið mun meira afgerandi mánuðir í minni tilveru en október, einhverra hluta vegna. Man það yfirleitt vel að frá og með afmælisdeginum hans pabba (3. nóvember), þegar ég reyni yfirleitt að láta loga á kerti á leiðinu hans í Fossvogi veit ég að það er góður mánuður framundan, en oft óþarflega viðburðaríkur.
Útkoma ævisögu Elfu Gísla verður án efa hápunkturinn, en hún kemur einmitt út í lok mánaðarins. Finn hvað það skiptir mig miklu máli að sem flestir kynnist ævintýralegri sögu hennar sem svo sannarlega er töluvert ólík því sem mig grunar að fólk eigi von á. En ekki minna spennandi, því get ég lofað. Gerði mitt besta til þess að skrifa hana af trúmennsku við Elfu en auðvitað á ég heilmikið í bókinni og hún reyndar enn meira í mér.
Svo er ég að breyta um kúrs í tilverunni, eins og ég geri af og til, og er talsvert spennt að botn komist í það nákvæmlega hvert það muni leiða mig. Enginn vafi á því hvert ég er að stefna en hvaða leið nákvæmlega ég fer er að skýrast þessa dagana.
Ofan á þetta stökk ég inn í verkefni fyrir mín ágætu samtök Heimssýn skömmu fyrir seinustu mánaðarmót og þar hefur okkur Reyni félaga mínum tekist að undirbúa aðalfund samtakanna og skipuleggja þrjá frábæra fundi nýrra Heimssýnarfélaga, í Húnavatnssýslum, Þingeyjarsýslu (ágæt kona segir að báðar sýslurnar saman séu engu að síður eintala og trúi ég henni) og svo á Suðurnesjum. Í leiðinni höfum við haldið skrifstofunni ágætlega gangandi þótt enn eigi eftir að skrá inn nýjustu félaga og sum verkefnin bíði næstu viku.
- Allir á aðalfund Heimssýnar á sunnudag kl. 13:30 í sal Þjóðminjasafnsins!