Færsluflokkur: Lífstíll

Góða veðrið, golf og óspilað tennis

Veðurblíðan hér í Borgarfirðinum er búin að vera með eindæmum og á mánudag þegar ég átti erindi í bæinn ætlaði ég aldrei að koma mér af stað, því veðrið var svo rosalega gott. Missti fyrir vikið af fyrsta tennistímanum sem ég ætlaði að taka, en mér skilst að kvennatímar séu í nýju tennishöllinni á mánudagskvöldum. Tékka næsta mánudag ef ég verð í bænum. Í staðinn fór ég í golf í fyrsta sinn á árinu, ég er mjög léleg í golfi, mun verri en í tennisíþróttinni, en það spillir ánægjunni ekkert. Stafalogn á Álftanesi, öldugjálfrið við völlinn í Haukshúsum alveg yndislegt og miðnætursólin heillandi. Þótt ég fyndi ekki fjórðu holu fyrr en ég var að fara heim, þá var þetta rosalega skemmtilegt kvöld.

Núna er sól og blíða hér í Borgarfirðinum, við Nína erum að flatmaga í sólinni og vinna á milli, og leiðin liggur í bæinn í kvöld. Eigum báðar erindi í bæinn, Nína reyndar að eyða seinustu dögunum í bili hér heima á Íslandi, en vonandi verður hún komin hingað alkomin eftir hálft ár eða ár. Við ætlum að koma við á æfingasvæðinu á Hamarsvellinum á leiðinni í bæinn, Nína hefur áhuga á að læra golf og undir venjulegum kringumstæðum hefði verið golfkennari á svæðinu en nú eru ,,jólin" hjá þeim á Hamarsvellinum, aðalmót sumarsins og mikið fjör skilst, mér, eða eins og indælis maður sem ég talaði við sagði: Nú eru jólin! og þá eru auðvitað allir í þeim fagnaði. En við getum alla vega slegið nokkrar kúlur á æfingasvæðinu þar, sem er bara mjög gott.


Heitur pottur og kaldur gustur ...

... eru góð blanda. Nú er potturinn okkar góði kominn á fulla ferð aftur, eftir hefðbundna byrjunarerfiðleika, en hann er alveg himneskur. Gusturinn í dag er lúmskur og hitastigið enn með lægra móti, þannig að það er kjörumhverfi fyrir notkun heitra potta. Á eftir er gott að vefja sig inn í góðan slopp, setja ullarsokkana á fæturna og fara í sólbað! Eftir smá tíma er nógu hlýtt til að sloppsins er ekki lengur þörf og svo er hægt að endurtaka hringinn eftir vild. Tengdamamma var sannarlega sæt að eftirláta okkur þennan eðalpott, hann verður áreiðanlega í mikilli notkun í sumar.

Brjáluð blíða í Borgarfirði - og Spánn að sigra!

Hætti við áætlanir dagsins að áeggjan mömmu og ákvað að njóta sólarinnar. Fór upp í búðstað og sé ekki eftir því, himneskt veður og sólin nær óstöðvandi og þræddi sína leið milli nokkurra skýja sem voru stödd á himninum. Eftir smá legu í sólinni tók ég smá rispu í að bera á hús og pall, það er mjög ánægjulegt verk í sólinni. Núna voru Spánverjar að skora þriðja markið og ég ætla ekki að láta sem ekkert sé, en sendi ykkur fallegar myndir úr bústaðnum með sumarkveðju!

CIMG2787

 

 

 

 

 

 

 

CIMG2779

 

 

 

 

 

 

 

CIMG2783


Endurvinnsluæði

Skrýtið að koma heim. Þegar ég fór hafði ég verið í stanslausri keyrslu í margar vikur, ef ekki mánuði. Svo nokkrum klukkutímum eftir að þeirri keyrslu lauk var ég komin upp í flugvél og farin til Ungverjalands í ferð sem tók 23 daga og um leið og ég kom heim fór ég upp i sumarbústað (eftir nokkurra klukkutíma svefn). Núna þegar ég er allt í einu komin heim þá sé ég að ýmislegt hefur setið á hakanum og margt má fara í endurvinnslu. Byrjaði á að ráðast á fataskápa og búin að fylla 2 poka sem mega fara til Hjálpræðishersins og vonandi munu einhverjir njóta gömlu fatanna minna. Á nokkur erindi í bæinn, meðal annars að sækja útskriftarskírteinið mitt, sem er bara skemmtileg skylda. Svo vona ég að mér endist móðurinn og hendi þeim pappír sem ekki er hægt að endurnýta hér heima út í gám með kvöldinu. Það er gagnlegt að fara aðeins frá, þá sér maður svo vel hvað má laga og af nógu að taka á heimili á nettu byggingastigi.

19. júní til hamingju allar konur, til hamingju með afmælið, mamma, til hamingju með prófið Hanna og frábær ferð til Hortobágy og Rúmeníu, það síðastnefnda eftir hálf fjögur í dag

Mikill hátíðisdagur. Sól og blíða. Fór að heiman um ellefu leytið í morgun, eftir að hafa vaknaði snemma í morgunsólina á svölunum. Hitti Hönnu niðri í bæ og við fórum og sóttum bíl á bílaleigu, sem við ætlum að nota til að koma okkur til Budapest í flug og rúnta um þangað til. En fyrst skyldi bíða eftir einkunnunum hennar Hönnu í einu erfiðasta prófinu hennar og því seinasta sem hún tekur í þessari törn. Einkunnir áttu að koma um tvö-leytið (hér er einkunnum sko skila samdægurs, hvað sem tautar og raular), en það dregst yfirleitt. Prófið gekk vel, þannig að einn erfiðasti áfanginn er að baki núna.

Þannig að um hálf fjögur-leytið lögðum við í'ann, fórum fyrst til Hortobagy, sem er lítið þorp hér rétt hjá með landsfrægum markaði, þangað sem fólk kemur alla leið frá Budapest, sem er í þriggja tíma fjarlægð. Hann stóð svo sannarlega undir væntingum og þarna er besta gúllassúpan á svæðinu, spilað fallega á fiðlu, kontrabassa og eitthvert ásláttarhljóðfæri undir. Reyni að henda inn smá videóskoti, ef það hefur heppnast, svo og myndum. Svo var farið til baka hingað til Debrecen og í smá bíltúr (eftir hálfsex) til Rúmeníu, hún er hér innan seilingar. Tókum smá hring inn í landið, stoppuðum svo sem ekkert að þessu sinni, heldur tók ég myndir í gríð og erg út um gluggann, sumar eflaust frekar lélegar. Náði engri af flísalögðu húsunum, sem eru samt mjög flott, það var farið að skyggja of mikið þegar við renndum í gegnum þau þorp og ekki mikið af þessum húsum, en þau eru flott.

Núna á eftir ætlum við að hringja úr tölvusímanum hennar Hönnu (enn betra system en Skype) í mömmu og óska henni til hamingju með afmælið. Hún er svo góð að eiga afmæli á kvenréttindadaginn!


17. júní í Ungverjalandi

Lítið er um hátíðarhöld meðal námsmanna hér í Ungverjalandi, prófatörnin í geysilegu hámarki, margir illa stressaðir og ekki vert að reyna að halda upp á daginn nema í mesta lagi með því að hafa eitthvað gott í matinn. Svona er líf íslensku læknastúdentanna hér og gaman að taka þátt í því þótt maður sleppi stressinu.

Friður helst ekki með valdi. Aðeins er hægt að öðlast hann með skilningi.

Sit löngum stundum hér í lærdómsherberginu hennar Hönnu hér í Debrecen undir flottu plakati af Albert Einstein og á því stendur: ,,Peace cannot be kept by force. It can only be achieved by understanding." Þetta plakat fylgdi íbúðinni og fer henni vel. Ég horfi sem sagt á þessi spöku orð á hverjum degi og skil ekkert í því hvers vegna það eru ekki allir sammála þessu.

Fyrri myndin er frá því að Hanna fluttist í þessa íbúð fyrir næstum tveimur árum og sú seinni sýnir hversu þétt setinn bekkurinn er stundum, lappar í röðum og alls konar nytjahlutir sem tilheyra tæknivæddri tilveru íslensks námsmanns í útlöndum með nördinn móður sína í heimsókn.

Og aftur í daglega lífið: Við fórum á indælan veitingastað í kvöld, til að halda upp á útskriftina mína, og ég fékk meira að segja forláta Parker penna í útskriftargjöf frá fjölskyldunni minni, ég elska góða penna. Staðurinn sem við fórum á heitir Wasabi og þar kom ég fyrst í haust og varð heilluð. Varúð, farið svöng á þennan stað. Meðfram borðunum liðast ýmsir réttir á teinum og eru hver öðrum flottari. Svo er bara að fá sér. Japanskur stíll á innréttingum en sambland af ýmsum asískum línum í matargerð. Við fórum á meiri gourmet stað um daginn en þessi stendur fyrir sínu. Hér er ódýrt að fara út að borða en við gerum ekki mikið af því núna vegna náms og starfa.

Lærdómsherbergið og gestaherbergið

CIMG2457


Próf í skyldu-valgreinum og knallrauðar buxur

Dóttur minni finnst ekki allt smekklegt í klæðaburði Ungverja, aðeins of litaglaðir fyrir hennar smekk. Að mörgu leyti get ég tekið undir það, en eitt heillar mig þó upp úr skónum, það eru knallrauðar katie_blog_11gallabuxur sem ég sé mikið af hér. Og þegar ég skrapp í Tesco um kvöldmatarleytið að kaupa í matinn þá fann ég þessar fínu, knallrauðu buxur, og smellti mér umsvifalaust á þær, enda ekki amalegt á 2.200 krónur íslenskrar (ágætis efni í þeim ... hef einu sinni áður keypt flík í Tesco og hún hefur reynst ótrúlega vel). Ég mundi reyndar eftir að kaupa matinn og allt það líka. Ég hef þó lofað að mæta ekki í þeim þegar við Hanna lendum á Íslandi, það eru mannúðarsjónarmið sem ráða því, maður fær næstum ofbirtu í augun. Meðfylgjandi mynd er sem betur fer ekki af mér, því þá væri ég bæði í Vísindakirkjunni og gift Tom Cruise og hvort tveggja þætti mér óásættanlegt. En liturinn er réttur og mínar eru líkar þröngar, samt ekki svoooooona.

Prófatörnin er þvílík á þeim Hönnu og Söru að það hálfa væri nóg. Hanna er reyndar alveg á fullu, fór í próf í morgun í fagi sem sem flokkast undir skyldu-valgrein (ég er ekki að grínast) og flestir sleppa. Það þarf sem sagt að taka próf í 75% af valgreinunum og þessi er ekki sérlega vinsæl, þykir erfið og leiðinleg. Hún var ekkert vongóð þegar ég heyrði í henni eftir prófið, en einkunnirnar komu kl. 16 og þá hafði hún náð prófinu nokkuð örugglega. Flott miðað við að hún hafði lítinn tíma til að lesa fyrir það, annað miklu erfiðara og stærra á morgun og það verður auðvitað þrautin þyngri. En þannig er þessi prófatími og kerfið hér nokkuð sniðugt, mikill sveigjanleiki í því hvenær fólk tekur prófin, þau eru keyrð vikulega á öllu prófatímabilinu og þrír sjansar. Hún er að taka þetta í fyrsta sinn (minnir mig) á morgun og mjög gætin í bjartsýninni. En hún er búin að ná þremur af fjórum prófum til þessa í fyrstu tilraun, þannig að þetta gæti alveg verið verra.

Hér eru allir hálf skjálfandi og gefa fjölskyldum sínum mjög loðin svör þegar spurt er hvenær þeir séu væntanlegir heim. ,,Það fer eftir ýmsu," býst ég við að algengasta svarið sé. Prófatímabilinu lýkur í lok mánaðarins og það er eina dagsetningin sem er örugg. Svo er alltaf spurning hversu lengi er hægt að keyra sig áfram, það eru komnar ansi margar vikur síðan prófin byrjuðu, mig minnir að það hafi verið 19. maí. Sumir eru að fara í sín fyrstu próf á morgun, þannig að þetta er alla vega ansi margbreytilegt allt saman og fróðlegt að fylgjast með.


Hálslausar styttur, vatnaliljur, barneignafrí og alls staðar námsmenn að læra

Þá er ég búin að bæta nokkrum myndum héðan frá Debrecen í albúm og ætla að bæta fleirum við er færi gefst. Hér í bæ er allt vaðandi styttum og sumar ekkert voðalega sætar. Eina hérumbil hálslausa fundum við Hanna úti í skógi:

CIMG2429Ég ákvað auðvitað að sýna þessum ókunna (og eflaust fræga) manni samstöðu og vera hálslaus líka.

 

 

 

 

 

 

 

Annars er þessi skógur, sem er rétt hjá okkur og kallast stóri skógur (án þess að vera ýkja stór) alveg einstakur. Vatnaliljurnar eru þær fallegustu sem ég hef séð:

CIMG2436

 

 

 

 

 

 

 

En reyndar er fátt sem einkennir borgina meira þessa dagana en sá urmull námsmanna sem eru að lesa út um allt, sumir úti í skógi og aðrir uppi á fimmtu hæð.

CIMG2453

 

 

 

 

 

 

 

CIMG2454

Það er Sara, vinkona Hönnu, sem hefur komið sér vel fyrir á fimmtu hæðinni hjá okkur, en hún á rúmlega ársgamla tvíbura sem eru í góðum höndum pabba síns hér í nágrenninu meðan hún streða við próflesturinn. Hún er töffari sem kom aftur hingað út eftir að hafa átt sína tvíbura heima og verið með þá í níu mánuði heima á Íslandi.

 

 

Annars komum við Hanna við um daginn hjá konunni á leigumiðluninni til að borga leigu fram í tímann og hún er með eitt nýfætt heima hjá sér, það fjórða. Hún segir að fólk nenni lítið að eiga börn en stjórnvöld hvetja mjög til barneigna, enda Ungverjum að fækka. Hér er hreinlega besta barneignafrí í Evrópu, tvö ár á kaupi og það þriðja með styrk, auk þess sem barnabætur eru þokkalegar, einkum þegar börnum fer fjölgandi. Forvitnilegt.

Svo er ég búin að rekast á fleiri samstúdenta Hönnu, við lentum á kjaftatörn á Palma um daginn við Svenna þann sem samdi uppáhalds Eurovision-lagið mitt, Ég les í lófa þínum. Hann hefur mörg járn í eldinum og var með rússneskri samstarfskonu sinni. Mikið fjör. Það var hann sem sagði okkur gúllas söguna.

Lýkur þá fréttapistli frá Debrecen að sinni.

 

 


Nú verður aftur hlýtt og bjart um bæinn ...

Sólin er farin að skína aftur á okkur hér í Ungverjalandi, eftir smá rigningarrispu þegar hitinn datt niður í 20 gráður og jafnvel 16 á nóttunni (þegar við sváfum reyndar vært). Meira hvað sólin er skemmtilegur félagi. Ágætis spá framundan, skin og skúrir og sæmilega hlýtt, alla vega allt fyrir ofan 20. Vinna og nám (annarra) gengur sinn vanagang.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband