Færsluflokkur: Lífstíll
Sólarlandaferð í Borgarfjörðinn og mis-mishæðótt gólf
24.6.2007 | 19:41
Eftir flotið á föstudagskvöldið vorum við búin að vinna okkur inn sólarlandaferð í sumarbústaðinn í Borgarfirði. Hreinn draumur, því neðri pallurinn okkar var alveg rok-laus og þar lá ég eins og sleggja í sólbaði allan laugardagseftirmiðdaginn, en um morguninn vorum við í hestastússi, hestarnir þurfa nýtt vatn og það tók smá tíma að koma öllu í stand, en allt gekk vel að lokum.
Á laugardagskvöldið fórum við að kíkja á Halla, væntanlegan ferðafélaga Ara í hestaferð kringum Langjökul í næsta mánuði, en hann hefur verið að gera upp eldgamalt höfuðból fjölskyldu sinnar í Borgarfirði. Mishæðótt gólf eru bara flísalögð eins og þau koma af skepnunni og ekkert smá flott. Ég fór að hugleiða hvort við værum ekki of orthodox heima í leit að sléttum gólfum. En alla vega, við erum búin að flota svo mikið að ein sletta í viðbót gerir ekkert til. Svo fórum við í nágrannabústað þar sem systir Halla, Inger Anna var með fjölskyldu sinni, og þau tóku yndislega á móti okkur, þótt við kæmum sem óvæntir gestir. Áttum frábært kvöld með þeim og húmorslausa hundinum þeirra, henni Regínu, sem er ógnarsæt. Inger hefur ekki staðið í minni stórræðum og búin að mála bústaðinn yndislega djúprauða, liturinn er hreinlega ávanabindandi.
Í dag þrifum við heita pottinn uppi í bústað, ég var bara fegin að sólin var ekki eins mikil og í gær, því það var nóg komið í bili. Heiti potturinn sem Sæja, tengdamóðir mín, gaf okkur er enn ekki komin í gagnið, vegna leka, sem innflytjandi pottins er alltaf ,,alveg" að fara að láta gera við. Við eltum hann reyndar uppi á Kanaríeyjum og það var mjög undrandi maður sem gaf okkur símanúmer píparans sem átti að vera búinn að gera við þetta. Yourright! Alla vega þá verður allt gott sem endar vel, við létum fara vel um okkur í vatnslausum pottinum þegar við vorum búin að þrífa hann. Skil ekkert í okkur að hafa ekki tekist að koma þessu í lag í fyrra, en við höfum verið í öðrum framkvæmdum, vissulega, þetta var fyrir 2 pöllum, stiga og 3 herbergjum síðan! Þannig að enn eru verkefni framundan áður en maður fer að færa út kvíarnar í öðrum landshlutum, fyrir norðan til dæmis
Sjaldan hef ég flotinu neitað
22.6.2007 | 23:01
Bleik þvottavél
22.6.2007 | 20:10
Tóm steypa
22.6.2007 | 18:58
17. júní á Álftanesi eins og risastórt ættarmót og nunnur á víkingahátíð
17.6.2007 | 19:41
17. júní er alltaf góður og það átti svo sannarlega við í dag sem aðra daga. Milt og fallegt veður, hátíðarstemmning á Álftanesi, kvenfélagsgarðurinn er orðinn svo flottur og hátíðarstemmningin var alveg yndisleg. Á 17 júni mæta allir Álftnesingar sem vettlingi geta valdið í kvenfélagsgarðinn þar sem hátíðardagskráin er alltaf vel þegin. Núna slógu unglingarnir í Acid við og fyrsti bæjarlistamaðurinn var valinn, Sveinbjörn I. Baldvinsson, sem var valinn í þessum mikla listamannabæ okkar, þar sem við eigum eiginlega svo marga góða listamenn að helst þyrftum við að úthluta fimm manns bæjarlistamannatitli svo allir lifi að ná þeim heiðir sem skilið eiga. En þetta er auðvitað var okkar ríkidæmi. Hannes Pétursson og Helga Ingólfsdóttir voru líka heiðruð sérstaklega og vel að því komin.
Svo mættu ALLIR í kvenfélagskaffið, og þegar ég segi ,,allir" þá er það svo sannarlega rétt, rétt um lokun kláruðust birgðir kvenfélagsins sem hefði átt að duga í fermingarveislur heils árgangs. Þessar trakteringar eru löngu orðnar landsfrægar, enda foreldrar og frændfólk margra Álftnesinga mættir á staðinn, þeirra á meðal stór hópur úr minni tengdafjölskyldu, foreldra nágrannakonunnar, einn vinstri grænn úr Vogunum, bróðir mannsins á næsta borði, ég veit ekki hvað ég á að hætta. Ég held ég vitni í orð eins Kópavogsbúa sem var orðinn tíður gestur á þorrablótunum okkar: Ég held þið ættuð að fara að skipuleggja helgarferðir á Álftanes! Eftir hátíðarhöldin á nesinu ákváðum við mamma að skjótast í bíltúr og enduðum á víkingahátíðinni í Hafnarfirði.
Mikið rosalega kom hún skemmtilega á óvart, svo flott handverk og frábært mannlíf. Alþjóðlegt yfirbragð og skemmtileg stemmning. Þarna var Jörmundur Ingi að gefa saman hjón, alls konar elddansar og fleiri atriði voru til skemmtunar og eldsmiðir að störfum ásamt ótal öðrum handverksmönnum.
Og ekkert smá krúttlegt að rekast á nokkar nunnur á Víkingahátíð! Lifi margbeytileikinn, þarna voru krakkar að leika sér, vinnufélagar í fullum víkingaklæðum og hátíðarstemmning sem sannar það sem ég hef heyrt svo marga segja: Þessi víkingahátíð hlýtur að vera komin til að vera.
Endurnýting
16.6.2007 | 23:39
Rosalega höfum við verið heppin varðandi sumarbústaðinn okkar, við höfum fengið meira og minna heilt innbú í hann án þess að þurfa að kaupa eiginlega neitt. Þetta dettur mér nú í hug af þvi við vorum að fá fallegt hornsófasett gefins sem smellpassar svona í bústaðinn okkar, og ekki nóg með að vinir og ættingjar hugsi til okkar (og viti að við erum rosalega endurnýtin) heldur er þetta alltaf svo fallegt sem okkur áskotnast.
Þegar ég lít í kringum mig heima, þá er í rauninni sömu sögu að segja, fyrir utan nokkrar bókahillur, þá lítið af innbúinu aðkeypt, nema hvað við enduðum með að kaupa okkur sófasett fyrir 6-7 árum, eftir að sófasettið sem við keyptum notað 1979 og ég hafði margsaumað utan um, hreinlega dó. Jú, einn fallegan, háan skáp fengum við okkur í millibilsástandinu þegar við vorum búin að rífa út gömllu bráðabirgðaeldhúsinnréttinguna en ekki setja hina upp. Það olli því reyndar að þegar jólamáltíðin var að verða tilbúin uppgötvaðist allt í einu að allir diskarnir voru enn inni í skápnum og ýmsum hafði verið raðað fyrir hann, enda var þá (endur)byggingartímabil hússins rétt að byrja.
Þarna eru borðstofugömlu stólarnir sem mamma átti, hún var eflaust þriðji eigandi og af því þeir eru bara 5 þá eigum við líka einn Louis Ghost við, kaupum kannski fleiri því stofuborðið hennar ömmu er stækkanlegt, þarna er líka skápurinn sem mamma og pabbi keyptu sér um 1950, og ,,danish modern" ruggustóllinn kauptu þau líka (þarfnast yfirdekkingar - sé hann fyrir mér knallrauðan). Sófaborðið er hurð með grind undir sem smíðuð var í stíl vil gluggana okkar, Britannica í fallegum skáp, sem dagaði uppi frá tengdaforeldrum mínum, gullfallegt og gagnlegt ennþá, mamma er byrjuð að lauma að mér antíkhlutum sem hún þykist hafa keypt fyrir sjálfa sig, ég fékk líka gamla dúnkofastólinn, sem reyndist vera í stíl Arts and Crafts og þannig mætti lengi telja. Eins og sakir standa ægir öllu saman, enda húsið að hluta enn á (endur)byggingarstigi, en ég er að verða spennt að endurraða þessum fallegu hlutum sem við höfum fengið úr ýmsum áttum. Samræmi mun ég aldrei geta lofað, en áhugavert, já, ekki spurning ;-)
Ég á ágæta vinkonu sem líka er dugleg að endurnýta og eftir að hafa grúskað á antíksölum í London lengi vel og halað inn ýmislegt þar fluttist hún heim til Íslands og uppgötvaði góða hirðinn. Á fimmtugsafmælinu hennar héldu systkini hennar, sem eru greinilega ekki eins endurnýtingarsinnuð, ræðu sem mér fannst reyndar á mörkunum, en þeim fyrirgefst af því þau eru svo rosalega skemmtileg. Þau kölluðu nefnilega innbúið hennar ,,haugana heim". Hvað á ég þá að kalla okkar innbú? Kannski ,,háaloftin heim"?
Yndislegur skreppitúr í bústaðinn, útskriftarveisla og tveir undanlega ólíkir umferðardagar
16.6.2007 | 19:05
Trú veðurspánni ákvaðum við að skjótast upp í sumarbústað um miðjan dag í gær, en ég hafði einmitt mætti allt of snemma í vinnuna til að losna snemma. Það reyndist mikið heillaákvörðun því umferðin um vesturlandsveg var skapleg, skapgóð og afskaplega þægileg. Það var ekkert smá yndislegt að komast í bústaðinn okkar góða, veðrið afskaplega fallegt og bústaðurinn auðvitað alltaf jafn yndislegur. Hlóðum batteríin vel, sváfum mikið og höfðum það í alla staði ljúft. Vorum að endurskipuleggja stpfuna með tilliti til nýrra endurvinnsluhúsgagna (kannski skrifa ég bráðum um endurvinnsluhúsgögnin sem oftar en ekki enda sögu sína hjá okkur). Það var skemmtileg törn og maður svitnaði mátulega í húsgagnaburði. Óli var hálf hissa þegar hann kom um 9-leytið uppeftir til okkar.
Í dag var síðan Oddrún vinkona okkar að útskrifast úr Kennaraháskólanum og við í bæinn í útskriftarveislu. Veislan afskaplega ljúf, en umferðin í bæinn var einhvers konar vígvöllur umskiptinga. Spurning hvort nú hafi verið á ferð fullt af geðvonskupúkum sem komust ekki af stað í gærkvöldi og létu það bitna á okkur hinum, eða kannski þeir sem eru orðnir svo aldraðir að þeir komust ekki af þeim sökum úr stað í gær. Alla vega tel ég okkur ljónheppin að hafa lifað af þrjár morðtilraunir (þar af eina alvarlega) og einn aldinn heiðursmann sem stefndi harðákveðinn beint á okkur á miðjum örmjóum Álftanesveginum þar til Ari neyddist til að nauðhemla og við ískrið úr hemlunum okkar hefur sá gamli greinilega vaknað og vippaði sér á réttan vegarhelming. Öllu alvarlegri var morðtilraunin hjá ökumanni flotta svarta bílsins rétt sunnan við Borgarfjarðarbrú, en þegar við vorum rétt að mæta bíl þar, tók sá svarti sauður sig til og ákvað að blússa framúr bílnum sem við mættum, og hætti ekkert við þótt við kæmum á móti. Ef vegurinn þarna hefði verið jafn mjór og Álftanesvegurinn værum við steindauð, slíkur var hraðinn á fíflinu. En vegurinn er breiður og með því að Ari keyrði alveg út í blákantinn dó enginn. Ef þið heyrið af banaslysi á leiðinni norður eða til baka um helgina er ég hálf hrædd um að annar bílanna sé svartur, dýr og með afskaplega hættulegan mann undir stýri.
Og enn horfi ég á nýja veðurspá helgarinnar, allt öðru vísi en þá sem ég treysti um miðjan dag í gær. Spennan magnast.
Sumardagurinn EINI
15.6.2007 | 16:21
Samkvæmt öllum langtímaveðurspám er sumardagurinn EINI á morgun, hér á suðvesturhorninu. Þess vegna er brýnt að nota sólina og vera dugleg að njóta góða veðursins. Ekki hægt að treysta því að fleiri svona dagar komi. Gleðilegt sumar!
Hjónabönd fólks af gagnstæðu kyni bönnuð - hvað?
12.6.2007 | 10:02
Oft gaman að hlusta á morgunútvarpið á leiðinni í vinnuna. Stundum eins og menn séu ekki alveg vaknaðir. Þannig heyrði ég í upprifjun á sögu dagsins að X. ár væru síðan lög sem bönnuðu hjónabönd fólks af gagnstæðu kyni (!) hefði verið samþykkt einmitt á þessum degi.
Samhengið leiddi síðan í ljós, eins og hægt var að giska á, að það sem bannað var átti við fólk af gagnstæðum kynþætti, ekki gagnstæðu kyni. Og eitt annað úr sama morgunútvarpi, Richard Thompson og lagið Dad's gonna kill me, alger snilld.
Umferðarharmleikir
12.6.2007 | 00:23
Það kemur alltaf illa við mann að heyra af alvarlegum slysum í umferðinni og sýnu verst þegar um háskaakstur er að ræða. Það er hreinlega vitað hvaða afleiðingar slíkur akstur getur haft í för með sér og sorglegt að það skuli ekki ná að stoppa alla af. Langflestir haga sér reyndar ágætlega í umferðinni, en það dugar bara ekki. Og afleiðingarnar geta orðið svo óskaplegar, fjölmiðlar fylgja stöku sinnum eftir þeim slysum sem ekki leiða til dauða, og það er alltaf þörf áminning.
Það eru liðin meira en 30 ár síðan ég lenti í því að verða fyrir bíl, á gangbraut reyndar, og eftir á að hyggja þá hefur sú lífsreynsla breytt talsverðu í minni tilveru, bæði til hins verra og hins betra. Tryggvi Þorsteinsson læknir, hlýr og góður maður, sem giftur er frænku minni, kom á öðrum eða þriðja degi til mín þar sem hann hafði frétt að ég lægi á Borgarspítalanum, sem þá var og hét, og hafi skoðað skýrslur um slysið og áverkana og sagði mér að strangt til tekið ætti ég að vera steindauð. Það þarf reyndar mjög sérstakan mann til að geta sagt manni svona lagað þannig að maður finnur bara fyrir þakklæti en engu öðru, en það er líklega galdur sem Tryggvi kann. Sennilega hefur þetta raskað náminu hjá mér til lengri tíma litið, en ég var í tvöföldu listaskóla og háskólanámi þegar þetta var, og í sjálfu sér var ekkert gott við að mölbrotna á tveimur stöðum, en aðrar afleiðingar hafa verið þrálátari og hvimleiðari.
Mér verður alltaf þegar ég les um ný slys hugsað til þessa litla andartaks, þegar kurteis leigubílsstjóri stoppaði fyrir mér á gangbraut, en annar, ógætinn í augnablik, kom og ,,náði mér". Ég er ein af þessum heppnu. Röð af góðum tilviljunum urðu til að ég fór ekki verr. Vinir mínir og fjölskylda gerðu mér lífið sannarlega auðvelt á meðan ég var uppi á spítala og heima að jafna mig, sem tók drjúgt langan tíma. Ekki síst vinkona mín í Myndlista- og handíðaskólanum, sem kom með vélritaðar glósur handa mér. Og svo kynntist ég manninum mínum þegar hann skutlaði vinum mínum í sjúkraheimsókn. En ég veit það ósköp vel að það eru ekki allir svona heppnir.
Við vorum að ræða þetta í vinnunni í dag og vinnufélagi minn undraðist að ekki væru til sérstök afmörkuð og örugg svæði þar sem fólk gæti fengið útrás fyrir löngun sína til hraðaksturs (án þess að tilheyra akstursíþróttahópi). Þótt það myndi sjálfsagt ekki koma í veg fyrir öll tilvik hraðaksturs, þá gæti það verið vel þess virði að reyna það. Kostnaðarlega gæti það ekki komið út öðru vísi en í plús, ef eitthvað drægi úr vondum slysum. Einhvers staðar á Reykjanesi er að vísu einhver spyrnubraut, ef ég man rétt, en það sem hann var að tala um var annars eðlis og ég held að þetta sé eldsnjöll hugmynd.