Færsluflokkur: Lífstíll
Fjölskyldusamvera
14.8.2007 | 21:57
Þeim fer fækkandi dögunum á árinu sem öll fjölskyldan er saman komin, en þessa dagana njótum við þess þó. Hanna fer innan skamms aftur til Ungverjalands, Óli hefur verið á ferð og flugi eins og við og fer fljótlega í heimsókn til Annie frænku sinnar í Ameríku, þá verðum við aftur þrjú í kotinu. Gaman að hafa nokkra daga saman núna fyrir haustið, þótt þeir séu vissulega erilsamir hjá okkur öllum.
Óli eftir erilsama steypuvinnu á háaloftinu
Hanna á Jamboree á Englandi ásamt vinum
Myndir frá fallegu sumri
14.8.2007 | 19:03
Nú er ég að byrja að tína inn smávegis af myndum frá þessu einstaklega fallega sumri, sem vonandi er nóg eftir af. Sólarlag í sumarbústaðnum og svipmyndir frá Helsinki og sænska skerjagarðinum svona til að byrja með og svo kemur meira eftir því sem ég get og nenni.
Blíðan í Borgarfirði
Helsinki er full af ummerkjum um Sibelius
Á skútunni hans Sigga í skerjagarðinum
Skrapp frá í viku ásamt Ara mínum og hef ekki einu sinni litið á netið á meðan, þótt með smá tilfæringum hefði það átt að vera hægt. Eyddi verslunarmannahelginni á ráðstefnu í Helsinki en ráðstefnuhaldararnir sáu til þess að við vorum einn og hálfan dag af þremur í skoðunarferðum. Frekar vel með okkur farið. Finnst líklegt að ég eigi eftir að segja eitthvað frá þessari ráðstefnu á næstunni hér á blogginu.
Svo var haldið til Sigga vinar okkar í Svíþjóð og Cillu konunnar hans. Þau búa í miðjum sænska skerjagarðinum svo nú erum við búin að sigla nánast linnulaust síðan á mánudaginn, fyrst með Stokkhólmsferjunni í 17 stundir frá Helsinki, þá beint um borð í strætóbát í þrjá og hálfan tíma. Á þriðjudag var það heljar löng skútusigling um skerjagarðinn sem gladdi geð, eina sem vantaði var meiri vindur, svo í búð með 60 ára gamla eikarbátnum hennar Cillu, í gær fórum með í styttri ferð (3-4 tíma) með eikarbátnum en í morgun var gamli vélbáturinn tekinn fram og keyrt á eyjuna þar sem bíllinn er geymdur, og þaðan keyrt upp á land og beint á Arlanda. Lentum fyrir rétt rúmum tveimur tímnum og þegar búin að fara í vinnuna með Ara að heilsa upp á soninn, skreppa í bað og spjalla við Nínu systur, sem er nýflutt heim frá Ameríku, kom hingað í gærmorgun, vonandi til varanlegrar dvalar.
Í kvöld er það heimboð hjá tengdamömmu því Freyr mágur minn sem býr í Barcelona er á landinu og fer á morgun. Fjölskylda á ferð og flugi.
NEI tónleikarnir
31.7.2007 | 00:31
Fallegt orð NEI, þegar það er í réttu samhengi. Minni bara á NEI-tónleika karlahóps feministafélagsins miðvikudaginn 1. ágúst kl. 20:00 á Grand Rokk. Meðal margra góðra atriða eru Lay Low, Pétur Ben, Ólöf Arnalds, Dikta og Sprengjuhöllin.
Meiri upplýsingar hérna: http://karlarsegjanei.net/
Pottormar á ferð og flugi - og hve lengi verður hægt að kjósa fegursta orð íslenskrar tungu?
18.7.2007 | 08:30
Við Ari erum orðin hálfgerðir pottormar - sem er reyndar flott orð - núna vegur maður og metur hvert orð ;-) - Þannig er nefnilega mál með vexti að fyrir ári gaf tengdamamma okkur æðislegan heitan pott, sem upphaflega hafði verið ætlað annað hlutverk og hafði því staðið í sennilega eitt til tvö ár. Nú er búið að yfirfara hann og byggja inn í sumarbústaðarpallinn okkar en þá vill ekki betur til en að straumurinn í bústaðinn okkar megnar ekki að hita hann upp í upphafshita. Þannig að við höfum búið uppi í bústað frá því um helgina til að reyna að finna út úr þessu og sótt vinnu í bæinn og mættum svo með rafstöð í gær (sem bjargaði okkur alveg þar til við fengum rafmagn í bústaðinn fyrir einu og hálfu ári). En fyrst passaði ekki klóin á rafmagnskapalinn í pottinn og síðan gaf rafstöðin engan straum :-( - mjög furðulegt mál.
Þannig að það er spurning hvenær við flytjum heim aftur, ef við gerum það. Það er yndislegt uppi í bústað, en mig er farið að langa til að hitta hana dóttur mína sem kom frá Ungverjalandi fyrir 2 vikum! Ýmist hefur hún verið í útilegu eða uppi í bústað eða við uppi í bústað og ótrúlega fáar stundir gefist til að spjalla saman. Hún var að vísu að hugga mig á því í gærkvöldi að hún hefði verið með eindæmum upptekin að undanförnu þannig að þótt við hefðum verið í sama kjördæmi hefði það litlu breytt. Við höfum líka verið að reyna að véla son okkar til að vera með okkur uppfrá, bara upp á samveruna, og hann hefur reyndar stundum verið á sama tíma og við, en oftar einn síns liðs eða með sínum vinum. Á þessu stigi málins ætti ég kannski að upplýsa að ,,börnin" okkar eru 28 og 30 ára.
Eins og ljóst má vera hef ég verið mjög upptekin af íslenskri tungu að undanförnu. Meðan þátttaka er enn góð í atkvæðagreiðslunni verður hægt að kjósa hér á síðunni um það hvert þessara 12 orða hér á vinstri hönd verður valið fegursta orð íslenskrar tungu. Þegar atkvæðum fer að fækka verulega, dag hvern, þá auglýsi ég þriggja daga lokafrest til að taka þátt. Síðan verður sigurvegarinn kynntur með pompi og pragt.
Í yndislegri, sólríkri orðleysisveröld
16.7.2007 | 09:19
Helgin var yndisleg, sambland af dugnaði, hvíld, einveru og félagsskap og umgjörðin fegurð Borgarfjarðar og sólin sem hefur sannarlega glatt okkur þetta sumarið, frá og með því að það kom. Við náðum í hestana hans Ara upp á Kjalarnes snemma á laugardagsmorgun og komum þeim í Skorradalinn til Halla sem verður ferðafélagi Ara í hestaferð eftir tvær vikur. Buðum nokkrum hestamönnum í miðdegismat á laugardaginn, og einkum var nú gleði hjá meðfylgjandi hundum sem fengu beinin úr hryggnum til áts og afnota á eftir. Svo fóru hestamennirnir að æfa sig og hestana, stutt á laugardeginum og miklu lengri ferð á sunnudeginum, en farið hægt yfir til að þreyta ekki hestana um of.
Heiti potturinn okkar sýnir nú hetjulega tilburði eftir nokkra byrjunarerfiðleika og í morgun, þegar við slitum okkur nauðug frá Borgarfirðinum, til að fara til vinnu, var hitinn kominn í 30 gráður að mati Ara. Þannig að eftir vinnu skal farið með vatnshitamælinn sem gleymdist aftur uppeftir. Þótt maður þurfi að vakna aðeins fyrr í vinnuna með því að búa uppfrá, þá er það vel þess virði. Kjartan vinnufélagi minn, sem hefur staðið í ströngu í ýmsum verkefnum með mér að undanförnu, kom í smá heimsókn úr næsta sumarbústaðahverfi í gærkvöldi, ásamt Berglindi sinni og Tinnu litlu og tíkinni Emily.
En mestalla helgina hef ég sleikt sólina, pikkað aðeins á tölvuna og lesið smá lokaverkefnisefni, á vindsæng á neðri pallinum í bústaðnum. Eftir að hafa lifað í heimi orða að undanförnu eru þessi orðlausu síðdegi skemmtileg tilbreyting. Vel hvíld og sólbrún er ég afskaplega sæl, en auðvitað kemur að því að við fáum okkur nettenginu í bústaðinn líka, en allt hefur sinn tíma.
Ég held að krökkunum okkar þyki alveg ágætt að hafa hitt heimilið út af fyrir sig á meðan foreldrarnir eru hálf fluttir upp í bústað, en svo er skipt um vaktir af og til og þau hafa átti sína góðu spretti uppfrá líka, Óli fyrr í sumar og Hanna núna í seinustu viku, þannig að það er með ólíkindum hvað einn sumarbústaður nýtist vel ;-)
Undarlegt hvað nokkrir sólardagar geta breytt manni ...
3.7.2007 | 01:23
Yndisleg helgi, sólarlandaferð í bústaðinn okkar í Borgarfirði, þar sem við höfðum það gott og bárum viðarvörn á neðri pallinn, svona til að finna að við værum að gera eitthvað gagn í leiiðinni. Erfitt að trappa sig niður eftir alla flotvinnuna.
Föstudagurinn var partídagurinn okkar, fyrst afmæli hjá Andrési Snorrasyni og síðan INNN partí hjá Sigrúnu. Hvort tveggja rosalega vel lukkað í veðurblíðunni.
Svo þegar við vorum að keyra Álftanesveginn ofan úr bústað hringdi sonur okkar, sem hefur smátt og smátt tekið yfir eldamennskuna yfir á heimilinu, til að láta okkur vita að maturinn væri tilbúinn. Okkar beið fínasta veisla, nautaspjót með alls konar grænmeti og ostum, ekkert smá gott og ómótstæðileg súkkulaðikaka í eftirrétt. Ég verði eiginlega að kalla hann listakokk. Þetta er reyndar ekki eina listin sem hann sinnti um helgina, því á meðan við foreldrarnir vorum að mála neðri pallinn var hann líka í málningapælingum á eilítið meiri alvörulistarnótum. Hann hefur reyndar þegar sannað sig á listasviðinu, þótt hann hafi ekki lagt myndlist fyrir sig í alvöru (enn) en samt hætti ég ekki að vera hissa á því hvað hann á létt með að fara á nýjar slóðir í myndlist. Held ég verði að taka undir með mömmu sem vill ólm að hann fari meira út á þetta svið, enda sjálf að taka upp þráðinn í myndlistinni og vel meðvituð um þessa hæfileika dóttursonarins.
Skin og skúrir (eða él)
27.6.2007 | 19:58
Merkilegt að búa á Íslandi. Ekki verður þetta snjólétt sumar, morgunfréttirnar sögðu frá vetrarfærð á Hellisheiði eystri og krapa á Fjarðarheiði. Það er val að fara Hellisheiði eystri en Fjarðarheiði, er ekki Norræna að leggja að bryggju alla miðvikudaga, eða hefur það breyst? En við hverju er að búast í landi sem á orð eins og Jónsmessuhret og grjótfok?
En svo lýstist allt upp þegar ég fékk bæði í sms og á msn að vita að stelpan mín hefði massað stóra efnafræðiprófið sitt, langhæst á prófinu í dag en fyrr í morgun sagði hún á msn að hún bara tryði ekki öðru en að þetta hefði gengið vel. Þetta er skrambi erfitt nám, sem hún valdi sér, læknanám í Ungverjalandi, þar sem hún er ásamt hátt í 40 öðrum löndum sem hafa fundið sér griðastað korteri frá Rúmeníu og klukkutíma frá Úrkraínu. Ég hef oft ástæðu til að vera stolt af krökkunum mínum og þetta er einn af þeim góðu dögum.
Dóttur minni brá aðeins ...
25.6.2007 | 00:34
... þegar ég fór að tala um bleika þvottavél hér í fyrri pistli. Hún trúði því alveg að ég hefði spreyjað þvottavélina bleika. Mér fannst það nú alveg óþarfa áhyggjuefni, þangað til ég mundi allt í einu eftir því þegar ég fékk nóg af plastfurueldhúsinnréttingunni okkar, sem hékk til bráðabirgða í eldhúsinu í yfir tuttugu ár. Eina nóttina tók ég rúllu af sjálflímandi plasti og límdi yfir allar hurðarnar á eldhúsinnréttingunni, bleikt, nema ein hurðin fékk að vera lillablá. Mjög stolt af þessu og dóttir mágkonu minnar var líka hrifin af framtakinu. Hmmm já, það held ég hafi verið allt og sumt af hrifningu. Ætli það hafi ekki verið að næturþeli nokkrum árum síðar sem dóttir mín tók að rífa þetta aftur af og þegar ég lauk verkinu fannst mér plastfuran bara ágæt. En núna er loksins komin alvöru eldhúsinnrétting.
Og eins og höfundurinn segir í hinni frábæru bók Litli prinsinn: ,,Börn, varið ykkur á baóbabtrjánum" þá segi ég: ,,Börn, varið ykkur á húsbyggingum." Við byggðum barnung og blönk og erum enn að endurbyggja, laga og bæta það sem gert var af vanefnum. En stundum er það reyndar bara gaman, eins og í kvöld, þegar við tókum enn eina ,,seinustu" steypu af flotinu uppi á lofti. Við héldum að þessi væri raunverulega sú seinasta. En sennilega þurfum við bara að taka eina litla bunu á þriðjudag til að klára. Sennilega.