Færsluflokkur: Lífstíll
MR72 - myndir og minningar - með smá framkvæmdapistli
10.6.2007 | 18:20
Það var ótrúlega ljúft að vakna á Þingvöllum í morgun, en við Ari erum farin að kunna að meta að gista í Valhöll þegar stúdentaafmæli eru haldin á Þingvöllum. Sandey stóð á höfði í stillunni í hádeginu þegar við renndum í bæinn til að koma hurðunum upp heima á háalofti. Reyndar bíður það betri dags, vegna þess að timbursalan er lokuð hjá Byko á sunnudögum og gerektið reyndist of mjótt, vegna þess að við veggþykktina bætist nefnilega veggklæðningin. En allt er klárt til að halda áfram seinna í vikunni og við notuðum stillurnar til að fara með fyrstu jeppakerruna af drasli af byggingasvæðinu í Sorpu. Á milli hef ég verið að tína inn myndir frá því í gærkvöldi og vona að skólasystkini mín og aðrir vinir geti afritað myndirnar eftir þörfum. Hér eru nokkrar góðar frá fögnuðinum:
Við vorum að velta því fyrir okkur yfir morgunverðinum í morgun, (seint í morgun), hvers vegna þetta hefði verið svona sérlega notalegt. Mætingin var ekkert sérlega góð, kannski náði fólk betur að komast yfir að spjalla saman vegna þess? Var það stuðið í hljómsveitinni? Góða veðrið?
Miklu fleiri myndir í myndaalbúmi MR72. Skoðið, njótið og afritið. Og takk fyrir skemmtunina.

Grasofnæmi og andúð sumra á köttum
7.6.2007 | 20:29
Þegar við Ari minn ákváðum, barnung, að byggja okkur hús hér á Álftanesi, þá létum við burðinni í þakinu miðast við níðþungt torfþak. Síðan kom í ljós að dóttir okkar með er heiftarlegt grasofnæmi og sonur okkar með heyofnæmi, þannig að horfið var frá því snarlega. Hins vegar er tún fyrir utan húsið og svo slatti af öðrum mis-vingjarnlegum jurtum, nokkuð villt allt saman. Gráa beltið kringum húsið hrekkur skammt, enda ekki nema 1-3 metra fyrir utan malbikaða planið okkar. Þannig að við erum á mjög gráu (les grænu) svæði heilsufarslega fyrir krakkana okkar.
En það er segin saga, ef fréttist af ofnæminu þá eru fyrstu viðbrögð svo óskaplega margra: Verið þið þá ekki að losa ykkur við köttinn? (áður kettina). Nei, ekkert frekar en hneturnar í eldhússkápnum! Allt of margir nota ofnæmi sem skálkaskjól til að hata ketti og ég hef bara aldrei skilið það. Fjölbýlishúsalögin hafa verið freklega misnotuð af fólki sem skákar í skjóli ofnæmissjúklinga til að skipta sér að lífsstíl annarra. Eitt sinn lenti ég í því að þurfa að svara ofstækisfullri manneskju sem vildi gera ketti útlæga úr öllum fjölbýlishúsum vegna mögulegs ofnæmis og ég sagði sama aðila að ég væri til í að skrifa undir það um leið og grasi yrði útrýmt með öllu. Ég ber fulla virðingu fyrir ofnæmi og vil síst af öllu stuðla að því, en þetta er nokkuð sem fólk lærir að lifa með, krakkarnir mínir sem aðrir, ekki auðvelt, en þau reyna ekki að umbylta lífsstíl allra annarra.
Þegar hundabann var í Reykjavík (man það vel) þá var einn afbrotahundur í eigu fólksins á móti á Nýlendugötunni. Hann bjó á fjórðu hæð og fór aldrei út nema undir styrkri stjórn eigenda sinna, meðal annarra unglingsstráks sem seinna varð þekktur í tónlistarheimi landsins. Það var aldrei ónæði af hundinum en iðulega var hins vegar hópur geltandi barna fyrir neðan gluggann sem ullu verulegu ónæði fyrir mig og ungbörnin á heimilinu, en í glugganum á fjórðu hæð sat hundurinn og horfði með fyrirlitningarsvip á börnin sem geltu frá sér allt vit.
Afmæli
4.6.2007 | 17:48
Framkvæmdir helgarinnar - flot taka 2
3.6.2007 | 23:13
Gestir sem koma á bestu eða verstu stundu
31.5.2007 | 20:17
Merkilegt hvað sumir gestir (vinir og vandamenn meðtaldir) hafa lag á að koma þegar síst skyldi, þegar allt er á hvolfi hjá manni, einhver rosalega upptekinn og þar fram eftir götunum.
En merkilegt nokk, það er líka til fólk sem er alger andstæða þessa, kemur bara þegar vel stendur á. Bróðir minn er einn þessara manna sem betur fer stundum frekar óvænt í heimsókn, en það merkilega er, helst ekki nema mjög vel standi á. Held hann hafi aldrei komið þegar við erum rétt að þjóta út úr dyrunum, þegar tíminn er að hlaupa frá manni í einhverju verkefni, og reyndar vill yfirelitt svo til að ég er rétt búin að gera einhverja (minni háttar) lagfæringu eða tiltekt heima fyrir þegar hann birtist. Um helgina vorum við loksins að ryðja það sem eftir er af efri hæðinni og flota, og einmitt í gærkvöldi þegar við vorum ekki með neitt planað í framkvæmdum vegna praktískra mála, þá dúkkaði Georg bróðir upp ásamt yngri dóttur sinni. Ekki nóg með það, ég var nýbúin að vinna mig í gegnum hrúgu sem hafði safnast smátt og smátt fyrir á eldhúsborðinu og koma fyrir fallegum dúk og skálum á borðinu í staðinn. Merkilegt. Vissulega margt ógert hér á byggingasvæðinu, en þetta bara klikkar ekki!
Flot, flot, flott
28.5.2007 | 22:12
Ekki hefði ég trúað því að mér þætti þriðjungur úr flotuðu gólfi svona fagur. Það er greinilega mikið verk að flota 50 fermetra og ekki tókst að ljúka verkinu um helgina, en mikill áfangi að rýma til fyrir framkvæmdum. Við erum öll búin að vera hrikalega dugleg um helgina (já, ég verð bara að viðurkenna það) og Simbi er ekki (ennþá alla vega) búinn að svína allt út og setja steinsteypt kattarspor út um allt. Þannig að þótt enn sé verk að vinna þá erum við búin með meginhluta þess. Þreytt eftir góða helgi, og svo lentum við auðvitað í þvílíkri matarveislu með tengdamömmu og sænskum gestum í gær, að ljúfa lífið hefur heldur ekki verið vanrækt.
Helgi húsbyggjenda
28.5.2007 | 12:38


Hálfnað verk þá hafið er ... og beðið eftir myrkrinu (ef það kemur)
26.5.2007 | 19:22
Hvítasunnan - ný verkefni bætast við
26.5.2007 | 13:48
Spurði fyrir tveimur dögum hvað ætti að gera um Hvítasunnuna og svaraði sjálf: ,,Blogga um nýju ríkisstjórnina? Flota gólfið á efri hæðinni? Glápa á sjónvarpið? Fara upp í sumarbústað? Slappa af? Vinna í lokaverkefninu sínu? Alla vega get ég svarað fyrir mig, ég ætla að reyna að gera þetta allt, en ekki allt í einu þó." Þetta var áður en ég vissi að Ari þurfti að fara á undirbúningsfund fyrir hestaferð, vinnutengdan hádegismat á hvítasunnudag og við bæði í matarboð um kvöldið (líka vinnutengt), auk þess sem við þurftum að taka allt timbrið sem var út um allt tún eftir framkvæmdir vetrarins og taka niður stillasa af sömu ástæðu. Nema hvað, þetta bætist þá bara við listann.
- Þrjú til fögur atriði eru þegar framkvæmd:
- Túnið er tómt og tilbúið til sláttar
- Ari er á hestaferðarfundinum einmitt núna
- Við erum búin að slappa smá af (mikill svefn í gærkvöldi)
- Sjónvarp hefur verið skoðað lítillega í bland við svefn og hvíld
Hópspennufall
23.5.2007 | 23:54
Cesar er död, Napoleon er död og selv föler jeg mig faktisk lidt sloj, sagði í gömlum brandara. Hálf dösuð þessa stundina, vinnan hefur verið óvenju lýjandi, stjórnmálin reynt á þolrifin, alla vega réttlætiskenndina og svo er þetta svikavor ekki alveg við minn smekk. Ég kann miklu betur við sól og blíoðu, og þá meina ég logn og hlýju. Mér finnst ég skynja svipað víða í kringum mig. Í vinnunni eru auðvitað ýmsir á sama bát, talsvert álag þessa dagana, þannig að það er engin furða, bloggvinir fagrir eru í sömu súpunni og ég, einhverjir fagna ákaft, en fleiri finnst mér hálf hugsi. Og öll þjóðin heyrist mér vera meira og minna öskuill út í verðurguðina, svona eftir því sem hún þorir.
Ég er að upplifa í annað sinn að skuldinni er skellt á rangan aðila, nefndi um daginn hvernig Kvennalistakonum var kennt um að þær lentu ekki í stjórn á sínum tíma, þótt þeim væri ætlað að hanga með upp á vonlaus býti, og eins finnst mér núna að Steingrímur J. sé gerður að blóraböggli að ósekju fyrir að hafa talað hreinskilnislega um hvernig honum þætti réttast að standa að stjórnarmyndunarviðræðum og hvers konar stjórn hann teldi helst í anda kosningaúrslitanna. Það var hreinlega ekki stjórn með Framsókn innanborðs, skýr skilaboð kjósenda, en það var heldur ekki stjórnin sem nú hefur verið mynduð. En vitanlega lokaði hann aldrei á neina leið, það vita allir sem hlustuðu á hann og aðra málsvara Vinstri grænna.
Sannarlega vona ég að stjórnin reynist farsæl en skynja ákveðna ábyrgð og alls ekki þakklátt hlutverk Vinstri grænna í sögulegri stjórnarandstæðu.