Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagurinn eftir kosningar

Sunnudagurinn eftir kosningar er alltaf svolítið merkilegur dagur. Allt hfeur verið á fullu, hjá sumum verður spennufall, mígreinfólk verður að trappa sig hægt niður til að fá ekki mígrenikast, stundum er allt fullt af fundum, tiltekt, plotti, þegar við á þreifingum eða jafnvel stjórnarmyndunarviðræðum. Sé á moggavefnum að þeir sem voru í forsvari fyrir Sól í Straumi ætla að bera saman bækur sínar eftir kosningar, hvaða lærdóm má draga af baráttunni, hvað mætti gera öðru vísi, t.d. varðandi kosningar á kjördag. Það kemur mér eiginlega ekkert á óvart. Það er ekki hægt að hætta bara hérna, búið spil. Í gærkvöldi var fagnað verðskuldað og innilega, í dag er .... sunnudagurinn eftir kosningar! Og hann er alltaf spes, þótt ekki sé verið að mynda ríkisstjórn, bæjarstjórn eða neitt af því tagi, þetta er dagur vangaveltna og uppgjörs. 

Ein barátta að baki og önnur framundan

Þá er ein baráttan að baki og næsta framundan. Sú er ekki síður merkileg en álverskosningarnar, því ein ríkisstjórn getur tekið svo margar afdrifaríkar ákvarðanir, ekki síður en þá sem bæjarstjórnin í Hafnarfirði fól bæjarbúum að taka. Spár lofa góðu en ef til vill hrökkva einhverjir gamlir Framsóknarmenn aftur á básana sína áður en kosið verður, sú hefur oft verið raunin. Varla koma þeir frá VG, þannig að það sem máli skiptir er að sjá þau mynstur sem verða möguleg í stjórnarsamstarfi. Mig grunar að flækjustigið eftir kosningar muni koma á óvart. 

Sagði að þetta yrði tæpt - en þetta hafðist!

Óttaðist að þetta yrði tæpt en nú liggur niðurstaða fyrir og þetta hafðist! Aðrar kosningarnar í röð sé ég rosalegan hræðisluáróður og aðrar kosningar í röð er niðurstaðan ánægjuleg. Hvert einasta atkvæði telur, aldrei að gleyma því. Og takk, Hafnfirðingar, þið stóðust raunina. Takk Stebbi frændi og til hamingju, þú og félagar þínir hafa staðið ykkur vel!


Óbærileg spenna aðrar kosningarnar í röð

Í fyrra fórum við Ari í gönguferð þegar spennand var orðin óbærileg á kosningaskrifstofu Álftaneshreyfingarinnar. Verst að það er ekki neitt himneskt gönguferðaveður núna, því heldur betur ætlar þetta kosningakvöld að verða spennandi líka. Ég hef aldrei skilið þann sið sem mér finnst aðeins vera ríkjandi í Hafnarfirði að rúnna af niðurstöðutölur. Held það sé of mikil tilviljun að staðan eftir fyrstu tölur sé 2950 - 3000 þannig að núna veit ég ekki hvort þetta er afrúnnun á 2974 - 2976 eða 2926 - 3024 eða eitthvað þar á milli! Úff, stefnir í spennandi kosningakvöld, óbærilega spennu, því þetta er alvarlega mjótt á munum.

Stóra (m)álið!

Afsakið, en ég bara get ekki hætt að hugsa um kosningarnar á morgun. Þegar álverið var reist á sínum tíma þá var ég nýlega flutt á Álftanesið og það sveið í augum að hafa þetta risaálver sem manni þótti þá, á leið af Álftanesinu. Sem betur fer hefur það ekki verið í sjónlínu að heiman síðan Álftanesskóli var reistur. Vissulega voru aðstæður aðrar þá, mikið atvinnuleysi, síður en svo þensla, en það er ekki rétt að umhverfismál hafi ekki verið komin á dagskrá, þau voru það þá eins og nú, en núna er reyndar miklu meiri vakning. Skoðanakönnun um fylgi flokkanna sýnir sterka stöðu umhverfismála með samanlögðu fylgi VG og Í upp á um það bil 30% en reyndar má bæta öðru eins samkvæmt daðurskvóta annarra flokka við þennan málaflokk. Í bili er það þó álið sem er stóra málið.

Lesið blöðin - líka Fjarðarpóstinn!

Mér finnst mjög fróðlegt að lesa þá umræðu sem er að stigmagnast vegna álverskosninganna nú um helgina. Sé ekki betur en að hún nái ákveðnu hámarki í Fjarðarpóstinum sem var borinn út í dag til okkar útvalinna, Hafnfirðinga og Álftnesinga (sem ekki fá að kjósa um álverið). Umfjöllunin þar er mjög fróðleg enda er blaðið nánast allt helgað þessu stóra máli, þökk sé forsvarsmönnum blaðsins. Fyrir þá sem vilja skoða umfjöllunina vil ég sérstaklega benda á linkinn:

http://www.fjardarposturinn.is/ 

Það eru líka að detta inn greinar og fréttir í öðrum fjölmiðlum, en vilja kannski týnast meira innan um annað efni, sem von er. En ég vildi bara endilega benda á þennan link fyrir ykkur sem ekki fáið þetta ágæta héraðsfréttablað inn um lúguna hjá ykkur. Auðvitað varðar þetta mál okkur öll, en það verða Hafnfirðingar sem bera þá ábyrgð að kjósa fyrir hönd þjóðarinnar um málið. ,,Vona að þeir láti ekki kaupa sig," sagði ein frekar svartsýn við mig í kvöld. ,,Ég hef góða tilfinningu fyrir málinu," svaraði ég og meina það, og ætla rétt að vona að ég reynist sannspá. Hef trú á að þetta hafist, en það gæti orðið tæpt, minni enn og aftur á atkvæðin þrjú sem skiptu sköpum hér á Álftanesi í fyrra! 

 


Don't know, don't care

Af og til fréttir maður af bröndurum sem ,,óvart" hafa komist í umferð frá einhverjum forriturum, og ein slík er einmitt hér í fyrirsögninni (Don't know, don't care). Einhver forritarinn setti þetta hreinskilnislega komment undir hjálp við einhverjum hremmingum í forritinu sem um var að ræða. Annað frægt dæmi er reyndar nokkuð sem ég hélt alltaf að væri bara brandari en ekki veruleiki, en er bara hreinlega dagsatt, lenti ítrekað í því. Í einhverri gamalli Windows útgáfu gerðist það nefnilega að stýrikerfið fann ekki lyklaborðið og bað fólk vinsamlegast að ýta á F2 takkann til að redda málunum! Eða var þetta kannski ekki brandari?

Vinnufélagi minn rakst síðan á enn einn sannan brandarann á map.google.com - þegar hann var að fletta upp ráðlagðri leið milli Bandaríkjanna og Evrópu: Þarna komu mjög ítarlegar upplýsingar um leggi á leiðinni en allt í einu rakst hann á eftirfarandi:

Swim across the Atlantic Ocean3,462 mi


Beðið eftir jólunum ...

Það er komin í mig óþreyja, svona eins og þegar ég var lítil og beið eftir jólunum, hmm kannski einskorðast það ekki við ,,þegar ég var lítil". Ég hlakka svo til kosninganna og þeirra tíðinda sem hljóta að verða í kjölfarið. Svo mikið hefur breyst síðan áskriftarflokkarnir stimpluðu sig inn í seinustu þrjár ríkisstjórnir. Það liggja tíðindi í loftinu, spurningin er bara hvort það er mögulegt að klúðra þessu sögulega tækifæri. Ég sé nokkur stjórnarmynstur sem ég gæti ekki hugsað mér, en sem betur fer fleiri sem gætu gefið góða raun. Versta staðan væri líklega núverandi stjórn með hækju, en sem betur fer er það yfirlýst stefna Sjálfstæðisflokksins að fara ekki í þriggja flokka ríkisstjórn, og eins gott að það haldi nú sem endranær. Zero Framsókn, er það ekki sjálfgefið? (Þetta er ekki einelti!). Svo sem ekki endilega, en líklegt. Bestu kostirnir eru í rauninni allar ríkisstjórnir sem VG hefði mikil áhrif í og stefnumál hreyfingarinnar næðu fram að ganga. Já, það skyldu þó aldrei verða jól í vor? Í fyrra upplifðum við hér á Álftanesi alveg ótrúlega kosninganótt, engri líka. Þá dugðu 3 atkvæði til að fella Sjálfstæðismeirihlutann sem var búinn að ríkja hér allt of lengi, og við tók Álftaneshreyfingin undir forystu vinstri græningjans Sigurðar Magnússonar. Og hér er allt að breytast, grænka! Hér er svipmynd frá kosninganóttinni í fyrra, vona að ég fái tækifæri til að upplifa aðra eins nú í maí. Þá verða sko jólin!

sigur


Hver fær stjórnarmyndunarumboðið og hvers vegna?

Enn eru nokkrar vikur til kosninga en það er greinilega farið að setja saman ýmsar stjórnir á ýmsum bloggsiðum. Mitt hógværa framlag er ný skoðanakönnun sem er fullkomlega óvísindaleg, en hefur í besta falli smá fróðleiksgildi um hverjir koma á síðuna mína. Líta ber á þessa könnun sem dægradvöl með forspárgildi ef staðan eftir kosningar verður sú sem kemur fram í könnuninni. 

Ekki klikka, Hafnfirðingar

Nú styttist í uppgjörið mikla, þegar gert verður út um hvort við sitjum uppi við risastórt álver í túnfæti höfuðborgarsvæðisins eða ekki. Framvinda þessa máls er í höndum Hafnfirðinga og það er út af fyrir sig skref í rétta átt að kosið skuli lýðræðislega um þetta mál. Hins vegar finnst mér þetta vera mál sem varðar fleiri, en get alveg sætt við mig þau rök að þetta mál varði Hafnfirðinga mest, ég hef reyndar trú á að þetta brenni mest á þeim og þess vegna segi ég: Ekki klikka, Hafnfirðingar! Við hin treystum á ykkur!

Hef lesið fínar hugleiðingar hér á blogginu og vona að þær séu vísbending, einhverjir hafa reyndar hreytt í mig ónotum líka, ef ég hef vogað mér að hafa skoðun á málinu, en það er við því að búast séu málefnin heit. Hins vegar þykir mér frekar ógeðfellt að þessi atkvæðagreiðsla skuli fara fram undir ákveðnum hótunum um að því ágætla fólki sem vinnur hjá álverinu verði hent út á guð og gaddinn kjósi fólk ekki ,,rétt". Hef litla trú að álverið sé að fara að loka og enn minni trú á því að ef eða þegar að því kemur muni það valda þeim búsifjum sem reynt er að magna upp orðróm um. Ég bý nógu nálægt Hafnarfirði til að heyra óminn af þessu og vona að enginn láti blekkjast. Atvinnuöryggi er hvorki meira né minna í þessum atvinnuvegi en öðrum, aðrir búa við kvótasölu, einkavæðingu, sameiningu og sundrungu fyrirtækja og jafnan fylgir slíku talsvert umrót. Leikir að tölum um hagnað og/eða tekjutap eru líka orðnir æði fjölbreyttir. En Hafnfirðingar, við horfum öll til ykkar, vongóð.


mbl.is Stefnir í tvísýnar álverskosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband