Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Elska landið, verra með veðrið
16.4.2007 | 21:00
Fórum aðeins upp í Borgarfjörð um helgina og gat ekki hætt að dást að fegurð landsins og náttúrunnar. Hins vegar hefur ástar/haturssamband mitt við veðrið ekkert skánað, aðallega nettur fjandskapur við kulda, trekk, rok, slyddu og hálku. Mér er ekki illa við snjó ef það er ekki of mikið rok og kuldi og ég elska 25 stiga hita á Þingvöllum eða Borgarfirði, sem ég hef oft upplifað einkum í ágústbyrjun. Rok og rigning getur meira að segja verið í lagi ef hlýtt er í veðri, en því miður er ekki of mikið um slíkt.
Nú er að vanda alveg ágætis kuldaspá fyrir ,,sumardaginn fyrsta" sem er auðvitað geggjað fyrirbæri, og ekki er síðri þjóðtrúin um að það viti á gott sumar ef sumar og vetur frjósa saman (!). Þetta er auðvitað með merkilegri markaðssetningarfrösum Íslandssögunnar. Hver fann þetta eiginlega upp?
En svo koma svona fallegir dagar eins og sunnudagurinn og út um bíl- og sumarbústaðarglugga og maður gleymir öllu. Við erum æði rík af orðum sem lýsa ekki bara veðri heldur líka samfélagsástandi, gluggaveður, grjótfok og uppáhaldið mitt: Skrifstofufárviðri, sem á við þessa örfáu virkilega góðu sumardaga sem við fáum.
Þessi hugleiðing sem hömruð inn á tölvuna í tilefni sumarkomunnar og fallega sunnudagsins sem er nýliðinn og ég vona að Ari segi ekki eins og hann sagði um árið: Vona að þetta verði snjólétt sumar, því það var einmitt árið sem Jónsmessuhretið kom og nágrannar okkar urðu veðurtepptir í tjaldi í Víkurskarði og komust ekki til byggða á sumardekkjunum, sama árið og tengdapabbi lýsti hestaferð um Kaldadal þannig að allir hefðu hallað sér fram í vindinn eins og þeir væru á mótorhjólum og enginn hefði komist af baki (nema kannski einu sinni) vegna veðurs þótt þeir þyrftu að létta af sér. Og þetta sumar tók Gunna vinkona fyrir norðan myndir af fénu sínu vaðandi snjó upp á kvið, sem betur fór voru lömbin orðin meira en mánaðargömul.
Í einhverjum annál sagði eitthvað á þessa leið: Þetta ár kom sumarið ekki. Og þegar maður les slíkt skammast maður sín auðvitað fyrir nöldrið, ég vildi ekki búa í torfbæ (þeir geta orðið furðu kaldir) eða vera háð því að rölta út til að gefa skepnum án góðra og hlýrra vetrarklæða, eins og mig grunar að formæður okkar og -feður hafi þurft að gera. En það er heldur ekki gott að gera illt verra með því að ógna því bláþráðarjafnvægi sem veðrátta heimsins er nú þegar í. Þannig að í guðanna bænum, við verðum að hætta að taka frekari sjens á veðráttunni, ef við ætlum að geta notið náttúrunnar öðru vísi en út um gluggann. Þess vegna er svo nauðsynlegt að vera hæfilega grænn og ekki of hrifinn af vondu veðri. Hvernig sem veðrið mun þróast með auknum áhrifum gróðurhúsaloftslagsins þá er eitt alla vega víst, það skánar ekki. Danirnir sem klæddust havaískyrtum og fóru í gríngöngu hér um árið og spreyjuðu úr úðabrúsum til að heimta aukinn hita með gróðurhúsaveðráttunni vour bara að djóka! og þeir vissu það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.4.2007 kl. 11:03 | Slóð | Facebook
Sprungið á þriðja hjólinu
15.4.2007 | 21:28
Og víkur þá sögunni aftur að stjórnmálum ...
13.4.2007 | 23:37
Eftir páskafrí er tími til kominn að setja sig í gírinn fyrir lokaslaginn í kosningabaráttunni. Óli er eini heimilismeðlimurinn sem er á fullu með þetta vorið, í hinum og þessum pólitískum stjórnum og hagsmunafélögum og vel virkur í því öllu. Mér finnst önnur kynslóðin frá okkur vera að lofa ansi góðu, Hanna búin að vera vel virk hér heima á nesinu og í skátunum og Stebbi frændi nýkominn í baráttuna, eftir frækilega frammistöðu í Hafnarfjarðarkosningunum, sem ég held að þegar fram líða stundir verði mun meira stefnumarkandi en fólk gerði sér grein fyrir í fyrstu, bæði varðandi aðferðarfræði í beinu lýðræði og ekki síður vegna þess hvers eðlis baráttan var. Það er vel orðið tímabært að fara að skoða betur hvernig ákvarðanir í stefnumarkandi málum eru teknar.
Það er óneitanlega hressandi að koma heim og sjá að VG er enn á þessu fína flugi, þrátt fyrir hrakspár og ákveðna óskhyggju á þá leið að Íslandshreyfingin steli bara fylgi af okkur VG-ingum. Vera má að einhverju sé stolið en jafnframt hélt ég að hreyfingin myndi ná smá fótfestu fyrir þá sem mega ekki heyra vinstri en eru grænir, já þeir eru til ;-) - mig langar reyndar mikið að vita hvenær það var sem Salome Þorkelsdóttir las næstum alla bókina (ef ekki alla) Raddir vorsins þagna, í efri deild á alþingi í málþófi sem Sjálfstæðismenn héldu þá uppi. Skyldu þeir hafa verið að vinna gegn stofun umhverfisráðuneytis - sem var upphaflega frumkvæði Kvennalistans þegar umhverfismál voru í 7-8 ráðuneytum (þetta var enn einn kaflinn í ,,þetta sagði ég þér"). Alla vega, minnir að það hafi verið hin fínasta bók, svo ég vona að Salome hafi verið í einhverju verðugra verkefni þegar hún stóð í þessu málþófi, sem hún sagði mér sjálf frá, pínulítið feimin en aðallega stolt.
Íslandshreyfingin mun úr þessu ekki ná flugi, það er ljóst. Ég hélt að það væri kannski ákveðinn fælingarmáttur Jakobs Frímanns, sem virðist vera staðreynd hvar í flokki sem hann er. Mér er hins vegar sagt að ástæðan sé mun margslungnari og jafnvel Ómar, sem hefur margt mjög vel gert á undanförnum árum, hafi ekki komið nógu vel út í umræðunni. Margrét, sem ég enn og aftur ítreka að hefði gert Frjálslynda flokknum mikið gagn, hefði hún verið sett á þar, hefur greinilega heldur ekki náð eyrum þjóðarinnar, enda kannski ekki í réttum málaflokkum. Þannig að vilji grænir ná virkilegum slagkrafti eiga þeir aðeins einn valkost, velja vinstri og vera grænir!
Ferðasagan í myndum - og ekki orð um geggjaða flugþjóninn
12.4.2007 | 17:27
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.4.2007 kl. 17:33 | Slóð | Facebook
Snjór í sumarveðri og kuldaskræfur frá Íslandi
7.4.2007 | 16:29
Hér í New Mexico hefur verið sumarveður að undanförnu, öll tré í fullum blóma og apríkósutrén slá fallegu kirsuberjatrjánum næstum við í fegurð. En hmmm, hér erum við systurnar samankomnar um páskana og úti er snjór og frost. Ferðinni til Santa Fe hefur verið frestað um dag vegna hálku. Við höfum það hins vegar yndislegt á heimili Nínu systur okkar hér í Portales. Hér var fjöldi vina hennar og Anniear systurdóttur okkar í gærkvöldi, rosalega skemmtilegt fólk. Öllum finnst mjög fyndið hvað íslensku systurnar eru miklar kuldaskræfur ;-) en hér kunna ALLIR brandarann um að Ísland ætti að heita Grænland og öfugt.
Hér spyr fólkið eins og á Íslandi: How do you like Portales? En þá er líka búist við því að við svörum: Hriklalega ljót, þvi öllum hér finnst Portales mjög ljótur bær. Þetta er 12 þúsund manna háskólabær og Nína var búin að vara okkur við að bærinn væri með afbrigðum ljótur, og satt að segja er ég ekki frá því eftir smá rúnta hér, að hún hafi rétt fyrir sér. Allir brosa hringinn þegar maður segir varlega: Mér finnst háskólasvæðið fínt og húsið hjá Nínu! Og svo er bara talað um ljótleika bæjarins. Skrýtið! En við höfum það afskaplega gott hér í í flatneskjunni og hlökkum til að komast til hinnar gullfallegu borgar Santa Fe þar sem okkar bíður indjánapartí.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.4.2007 kl. 17:28 | Slóð | Facebook
Skemmtilega sakleysislegt komment - um blakmót lesbía
4.4.2007 | 12:10
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook
Og ég sem hélt þetta væri búið - í bili alla vega
2.4.2007 | 23:39
Var aðeins of fljót að skrifa um sunnudaginn eftir kosningar. Gleymdi þessu með mánudaginn, þegar plottin byrja og sá fær stjórnarmyndunarumboðið sem ekki sigraði. Í þessu tilfelli hreinlega möguleikann á að fara eftir sínu höfði. Ef jákvæðir andstæðingar álvers hefðu tapað hefði áreiðanlega verið sagt eitthvað ef:
a) ... þeir hefðu sagt: En við ætlum samt að hindra stækkun
b) ... af því við töpuðum þá ætlum við að gera alla aðra tortryggilega, meira að segja að fetta fingur út í nýaðflutta Hafnfirðinga.
En mér finnst eins og það þyki bara sjálfsagt að fyrst að kosningarnar fóru ekki eins og sumir kusu, eigi þeir SAMT að fá að ráða. Mér finnst það ekki sjálfsagt.
![]() |
Stækkun álversins rúmast innan núverandi deiliskipulags |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Í tilefni af væntanlegri Ameríkuferð - smá tóndæmi
2.4.2007 | 11:46
Ekki bara græn ...
2.4.2007 | 01:17
Af gefnu tilefni vil ég taka það fram að ég er ekki bara græn, heldur líka vinstri. Græna slagsíðan hefur verið áberandi að undanförnu vegna ótal atburða í samfélaginu sem hafa gefið tilefni til. Baráttan í Hafnarfirði var ekki bara barátta fyrir hreinna umhverfi, heldur líka fyrir því að láta ekki auðmagn stórfyrirtækja ráða skoðunum manna í krafti fjármagns og þeirra taka sem þau hafa á umhverfi sínu, fyrirtækjum sem þjónusta þau og því ágæta fólki sem hjá þeim vinnur.
En ég hef stundum sagt að ég væri meira vinstri en græn, ekki vegna þess að ég unni ekki umhverfinu, var alin upp sem eldheitur umhverfissinni og æskuminningarnar eru barátta fyrir verndun Þjórsárvera á sjöunda áratugnum. Hins vegar eru svo mörg réttlætismál sem hafa verið borin uppi af vinstra fólki, barátta fyrir meiri jöfnuði í samfélaginu, fyrir sjálfsögðum mannréttindum á borð við atvinnuleysistryggingar, hærri og jafnari laun, fyrir bættum hag aldraðra og öryrkja, meðan enginn hafði áhuga á slíku, sem sagnfræðingur get ég ekki annað en horft á söguilegt hlutverk okkar vinstra fólksins með ákveðinni ábyrgðartilfinningu. Í Kvennalistnum vorum við hver úr sinni áttinni, ég kom frá vinstri til liðs við konur alls staðar að úr samfélaginu, og þegar hreyfingunni minni var stýrt í einn pólitískan farveg kaus ég að fara til baka þangað sem ég hafði áður verið, munaðarlaus um hríð, en þegar VG var stofnað, þá var ég með, þetta var minn heimavöllur. Og þar er ég enn, bæði vinstri og græn.
Og svo er ég auðvitað ansi bleik líka ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:21 | Slóð | Facebook
Enginn tími fyrir spennufall
2.4.2007 | 00:12
Enginn tími hefur gefist til að fara í spennufall eftir æsispennandi kosningakvöld í gærkvöldi. Tvær fermingar í dag, sem betur fer bara ein veisla, Snædís og Sigga Lóa föðursystir hennar (já, alveg rétt) fermdust og haldin var glæsileg veisla í Vonarholti hjá tengdamömmu. Síðan var haldið í smá endurskipulagningu á heimilinu sem lyktaði með mikilli páskavæðingu, þar sem við vorum að eignast forkunnarfagran páskagulan sófa, sem mamma var að láta okkur fá og í tilefni af því var auðvitað settur upp páskadúkur og páskaliljur í vasa á borðstofuborðið. Smá svipmynd úr símanum mínum:
Ég þarf nefnilega að taka forskot á páskana (fengum okkur páskaegg nr. 1 í kvöld til að fá sinn málsháttinn hvert). Á miðvikudaginn fljúgum við Elísabet systir til Ameríku til Nínu systur, enda ekki seinna vænna að heimsækja hana, þar sem hún hyggur á heimflutning til Íslands. Hún átti góðar stundir við kennslu í Háskóla Íslands fyrir rúmum tveimur árum og langar heim. Við höfum trú á því að það sé þörf á konu með doktorspróf í amerískum bókmenntum, mikinn feminista, sem hefur m.a. kennt bókmenntir indjána við Háskóla Íslands og fleira spennandi. Það hlýtur að bíða hennar spennandi staða hér heima, en það verður að vera hér á höfuðborgarsvæðinu því við erum búin að vera nógu lengi aðskilin systkinin. Nenni ekki að útskýra það í þaula, það myndi taka ca. tvo hæðarmetra af bloggi.
En alla vega páskar í Santa Fe, þar sem Nína er viss um að okkur þyki skemmtilegra þar en í Portales, litla háskólabænum þar sem hún býr. Hún gaf mér þvílíkt yndislega bók frá Santa Fe fyrir tveimur árum að ég bíð spennt. Svo skilst mér líka að þar séu falleg, bleik hús (þótt fleiri séu Santa Fe blá, eins og hurðirnar í sumarbústaðnum okkar). Fyrir þá sem ekki vita þá mun ég einn góðan veðurdag afhjúpa verkið mitt, bleik hús. Ykkur verður öllum boðið á opnunina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:02 | Slóð | Facebook