Ekki klikka, Hafnfirðingar

Nú styttist í uppgjörið mikla, þegar gert verður út um hvort við sitjum uppi við risastórt álver í túnfæti höfuðborgarsvæðisins eða ekki. Framvinda þessa máls er í höndum Hafnfirðinga og það er út af fyrir sig skref í rétta átt að kosið skuli lýðræðislega um þetta mál. Hins vegar finnst mér þetta vera mál sem varðar fleiri, en get alveg sætt við mig þau rök að þetta mál varði Hafnfirðinga mest, ég hef reyndar trú á að þetta brenni mest á þeim og þess vegna segi ég: Ekki klikka, Hafnfirðingar! Við hin treystum á ykkur!

Hef lesið fínar hugleiðingar hér á blogginu og vona að þær séu vísbending, einhverjir hafa reyndar hreytt í mig ónotum líka, ef ég hef vogað mér að hafa skoðun á málinu, en það er við því að búast séu málefnin heit. Hins vegar þykir mér frekar ógeðfellt að þessi atkvæðagreiðsla skuli fara fram undir ákveðnum hótunum um að því ágætla fólki sem vinnur hjá álverinu verði hent út á guð og gaddinn kjósi fólk ekki ,,rétt". Hef litla trú að álverið sé að fara að loka og enn minni trú á því að ef eða þegar að því kemur muni það valda þeim búsifjum sem reynt er að magna upp orðróm um. Ég bý nógu nálægt Hafnarfirði til að heyra óminn af þessu og vona að enginn láti blekkjast. Atvinnuöryggi er hvorki meira né minna í þessum atvinnuvegi en öðrum, aðrir búa við kvótasölu, einkavæðingu, sameiningu og sundrungu fyrirtækja og jafnan fylgir slíku talsvert umrót. Leikir að tölum um hagnað og/eða tekjutap eru líka orðnir æði fjölbreyttir. En Hafnfirðingar, við horfum öll til ykkar, vongóð.


mbl.is Stefnir í tvísýnar álverskosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég tel reyndar að umhverfismál geti ekki verið á hendi eins bæjarfélags að taka ákvörðun um.  Umhverfismál eru landamæralaus en skársti kosturinn væri þó að láta alla íslendinga kjósa um stækkun eða ekki.  Ég get þó skilið röksemdafærsluna að baki þessu fyrirkomulagi.  Ég ætla rétt að vona að Hafnfirðingar kjósi ekki yfir sig stækkun.  Þessi hræðsluáróður er svipaður og var stundaður hér um árafjöld gagnvart mögulegu brotthvarfi setuliðsins héðan.  Þegar þeir svo fóru opnuðust himnarnir ekki, fjöllin sprungu ekki og jörðin er enn óklofin. Iss

Jenný Anna Baldursdóttir, 26.3.2007 kl. 20:29

2 identicon

Tek undir áskorun þína nafna, ég vona að Hafnfirðingar beri gæfu til að segja nei við álversstækkun.

Anna Ólafsdóttir (anno) 26.3.2007 kl. 20:30

3 identicon

Í mínum huga þá verður það áfall fyrir umhverfismál á Íslandi ef meirihluti Hafnfirðinga kýs með því að álverið verði stækkað. Mér líður eiginlega svolítið "núna eða aldrei".

Sl. laugardag sat ég fund hjá grasrótarsamtökunum sem öll kenna sig við sólina (man ekki hvað þau heita). Meðal margra góðra ræðumanna var Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur. Fyrir utan hvað hún er stórkostlegur ræðusnillingur (hreif alla með sér) þá var hún að kynna stórkostleg hugmynd, þ.e. eldfjallagarð á Reykjanesi.

Fyrirmyndin er sótt til Hawaii. Þar er eldfjallagarður frá því á 4. áratug síðustu aldar og hann hefur verið á minjaskrá Sameinuðu þjóðanna í áratugi. Hann veitir öllum eyjarbúum vinnu (þúsundir vinna í garðinum sjálfum við leiðsögn, umhverfistúlkun, vísindastörf o.m.fl. og mörgum sinnum fleiri vinna störf sem skapast vegna garðsins utan hans). Ef menn bera nú gæfu til að stofnsetja hér eldfjallagarð á Reykjanesi þá verður hann ekki minna stórkostlegur en þessi. Reykjanesið á allt sem sá hawaiiíski á, nema að hér eru ekki hrauntaumar að renna til sjávar árið um kring.

Mikið væri gaman ef fólk kynnti sér hugmynd Ástu um eldfjallagarð. Trúi ekki öðru en margir falli í stafi.

Treysti því að Hafnfirðingar marki nú stefnuna á laugardag - nei, við stækkun álversins og förum að nýta alla þá fjölmörgu möguleika sem hægt er að gera að veruleika til að skapa störf í sátt við náttúruna.

Almáttugur, hvað þetta er orðið langt.  Stundum bara liggur mér svo mikið á hjarta. Bestu kveðjur og Hafnfirðingar, ekki láta hræða ykkur með atvinnuleysi.  HG

HG 26.3.2007 kl. 23:11

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ég hreifst líka af hugmyndinni um eldfjallagarðinn þótt ég hafi ekki hitt Ástu, ábyggilega mjög grípandi, heyrist mér á þér að hlusta á hana kynna málið, svo ekki er það verra. Maður er varla pikkfær með alla þessa krossuðu fingur til að reyna að særa Hafnfirðinga til að taka rétta ákvörðun fyrir hönd okkar allra.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 26.3.2007 kl. 23:31

5 identicon

Kæra Anna og Benedikt
Ég skal skrifa undir þetta með náttúruvernd sem forgangsverkefni. En hvað er náttúruvernd?
Ef þið skoðið kröfur hins almenna Íslendings til náttúruauðlinda þá komist þið að því að þessar kröfur eru langt frá því að vera sjálfbærar.
Drögum úr eigin neyslu eða sættum okkur við fleiri álver!

Kveðja
Gaui

Gudjon I. Gudjonsson 27.3.2007 kl. 07:31

6 Smámynd: Ólafur Als

Vona Hafnfirðingum til handa að nýtt aðalskipulag verði samþykkt.

Ólafur Als, 27.3.2007 kl. 08:37

7 identicon

það er svo sannarlega nú eða aldrei! og ég skal ekki klikka því lofa ég!

kveðja frá Hafnarfirði

Gyða Gunnarsdóttir 27.3.2007 kl. 14:14

8 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Þessi stækkun má ekki veða að veruleika.  Þessi hótun alcan um að menn muni missa vinnuna ef ekki er stækkað er rugl.  Það er ekki verið að kjósa um lokun alcan heldur stækkun.  Þau störf sem ekki eru til í dag geta ekki verið í hættu og þar með er einginn að missa þau.  Ég er Hafnfirðingur og vona að aðrir Hafnfirðigar láti ekki blekjast.  Mér finnst slæmt að geta ekki kosið á laugardaginn þar sem ég flutti út á land í vetur og hef því ekki kosningarétt í Hafnrfirði. 

Þórður Ingi Bjarnason, 27.3.2007 kl. 15:16

9 identicon

Hefurðu tekið eftir því, Anna, þegar þú skokkar milli bloggsíðna hvað margir umhverfissinnaðir bloggarar skreyta síðurnar sínar með sætum kisumyndum? Þykist vita að kisuskorturinn hér stafar af annríki bloggarans.  HG (alveg sannfærð um að kettir þessa lands vilja ekki stækkun álversins í Hafnarfirði - og alls engin ný).

HG 27.3.2007 kl. 16:36

10 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Kettir þessa lands eru réttsýnir og állausir. Eini kötturinn sem ég get lagt í púkkið er grafíski kisinn minn ;-) en Simbi er að sjálfsögðu sammála. Kettir bíta gras á vissum árstímum og vilja sitt gras ómengað!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 27.3.2007 kl. 22:58

11 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Vonandi ber Hafnfirðingum gæfa til að samþykkja stækkun álversins í Straumsvík.Hugmynd Ástu Þorleifsdóttur um eldfjallagarð er vel framkvæmanleg, þó að stækkun verði og hlutdeild Hafn-firðinga í slíkri framkvæmd yrði meiri með tilkomu stóraukinna tekna frá Alcan.Látum af þessum smásálarlega hugsunarhætti, sem einkennir málflutning andstæðinga álversins og drífum í að rétta Alcan framrétta sáttarhönd um helgina. Með góðri kveðju, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 28.3.2007 kl. 10:03

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband