Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gleðilegt sumar!

Það er svo skrýtið að halda upp á sumardaginn fyrsta í þessu landi okkar, sem aldrei er almennilega búið að ákveða hvernig veðrið verður þennan daginn, vikuna, mánuðinn, misserið eða árið. En gleðilegt sumar og vonandi verður það veðurblítt líka.

Konur, ritskoðun og lífskjör í Íran

Yfirleitt fyllist ég (oft ástæðulausri) tortryggni þegar ég sé að erlendir dagskrárgerðarmenn eru að gera þætti um ástandið í framandi heimshlutum (myndi þó ekki hika við að slást í hóp þeirra ef ég væri í þessum bransa, en það er önnur saga). En ég datt inn í þátt sem mér fannst býsna góður á ríkissjónvarpinu í kvöld. Sem sagt þátt sem enskur dagskrárgerðarmaður gerði um Íran, þar sem hann tók sér fyrir hendur að skrifa grein fyrir tímarit sem höfðar til ungs fólks í Íran, efnisval hans og leiðina til að fá greinina birta, sem minnst fyrirframritskoðaða. Honum tókst að gera þáttinn þannig úr garði að örlög fólksins sem hann fjallaði um urðu síður en svo léttvæg og hann kynnti okkur fyrir fólki af holdi og blóði (og sál) sem manni var síður en svo sama um. Smá brot af starfi fyrrverandi fíkla til að halda sér frá efnunum, brot úr sögu nokkurra kvenna og Einar Bárða þeirra Írana eru minnisstæðir karakterar. Framákona með mannaforráð komst að skemmtilegri niðurstöðu um hvers vegna hún vildi frekar konur í vinnu hjá sér, frekar en karla. Sjáum til, ef hún réð konu þá reddaði hún sé sjálf kaffi, ljósritaði og faxaði fyrir sjálfa sig, en karl í sömu stöðu þyrfti ritara, þernu og símadömu. Ójá, hún sagði það. Svo sá maður að photoshop er notað í fleira en að gera fyrirsætur sléttar og grannar, bannað hár og bert hold (handleggi) má einnig fela. 

Veturinn kveður með óþarfa hvelli

Þessi vetur er að kveðja okkur Íslendinga með óþarfa hvelli, eldur og vatn hafa sagt til sín og spurning hvort jörðin og himininn eiga eftir að blanda sér í málið. Indjánarnir í New Mexico (og eflaust víðar) vitna reyndar frekar til fjóreykisins jarðar, vinds, elds og vatns, sem sagt loftið er vindurinn, sem er svo sem næsti bær við. Við höfum reyndar nóg haft af vindi (foki) og jörð (skriðum) að undanförnu, sbr. Sauðarkrók um daginn og fleiri atburði að undanförnu. Ég held upp á árstíðaskiptin með því að leggjast í pestina sem ég ætlaði ekki að láta hafa af mér þennan seinasta vetrardag, og svo vona ég bara að þessi hálf veikindalegi vetur sé að baki og allt það vesen sem honum hefur fylgt, eftir smá tíma mun ég hvort sem er bara muna þetta skemmtilega sem gerðist í vetur, sumarfríið á Kanarí og Ameríkuferðina, frábær jól og áramót, skautaferð, VG uppsveifluna miklu en þó ekki síst bara þægilegar og notalegar stundir heima með fjölskyldunni. Þetta hefur verið köflóttur vetur en eins og alltaf er minnið þegar farið að grisja þetta leiðinlegra frá og magna upp það besta. Vonandi verður það saman raunin í Reykjavík og á Króknum, Laugarvegurinn hreinn og fínn eftir þvottinn og endurbyggingin norðan og sunnan heiða til fyrirmyndar.

Blessað kjördæmið mitt - VG rokkar enn

Þá eru að koma nýjar skoðanakannanir og enn staðfestist sókn Vinstri grænna, tveir þingmenn inni hjá okkur hér. Ekkert smá glæsilegir fulltrúar sem við eigum, Ögmundur og Guðfríður Lilja, hún verður að haldast inni, ég skora á ykkur! Og það eru konurnar sem stýra þessum breytingum.

Óviðráðanleg þörf fyrir að hrósa borgarstjóra

Heyrði í sjónvarpi áðan frá borgarstjóra (vonandi rétt eftir haft) að hann leggi áherslu á að halda þeirri heildstæðu götumynd sem var á horni Austurstrætis og Lækjargötu þar sem enn brennur. Skil hann svo að hann muni vilja láta endurbyggja húsin í sinni upprunalegu mynd, frá því um 1800. Ég skora á hann að standa við þessi orð með fullri sæmd. Það er hægt að endurbyggja með miklum sóma, t.d. er fallegt dæmi um það í gamla bænum í Varsjá og reyndar miklu víðar.

Vetur án kvefs?

Nú er hafið æðisgengið kapphlaup við veturinn, ég er staðráðin í að láta kvef ekki leggja mig að velli núna í vetur, og núna þegar ég er farin að snýta mér og reyna að láta linsurnar fljóta rétt í uppfullum augunum þarf ég bara að harka af mér í rúman sólarhring í viðbót til að lifa heilan vetur án kvefs! Verðugt verkefni, ekki satt? Yfirleitt hef ég líka verið hraust, ekkert átakanlega kvefsækin miðað við þau ár sem börnin voru á leikskóla og í skóla þar sem þau pikkuðu upp allar pestir. Reyndar smá viðvörun í vetur varðandi heilsuna, en það er allt komið í farveg, þannig að ég get aftur farið að láta kvef fara í taugarnar á mér. Mikil forréttindi meðan það er ekkert alvarlegra. Atsjú! Pinch


Æsispennandi framhaldssaga um vottun á launajafnrétti - 2. kafli

Búin að finna meira um það sem ég heyrði í hádegisfréttum. Fann þetta á síðu 4 í mogganum í dag (pappírsútgáfunni). Sem sagt, fjölmörg fyrirtæki hafa lýst yfir áhuga á tillögum samráðshóps félagsmálaráðherra um vottun á jafnlaunastefnu og fjögur vilja fá svona vottun þegar í stað - bæði opinber og einkafyrirtæki! Þetta verður gæðastimpillinn þeirra. Glæsilegt. Mér finnast þetta vera stórfréttir! Félagsmálaráðherra var að kynna málið í gær ásamt fólki frá Háskólunum í Reykjavík og á Bifröst. 

Þá þarf bara að ráðast að launaleyndinni, sjá kafla 3. í þessari æsispennandi framhaldssögu. Ég vona að hann verði birtur sem allra fyrst. VG eru líklegastir til að gera eitthvað í því máli og ég held að stór hluti Samfylkingarinnar eigi samleið með okkur hvað það varðar, vona alla vega að hægri armurinn hjá þeim sé ekki of stór, nei é g hef tröllatrú á þetta gæti gerst á næstu árum komist réttir flokkar til valda. 

 


Uppsveiflan á Suðurlandi og ástæður skiptingar

Nú eru kjördæmin að tínast inn í sundurliðuðum könnunum. Ítarleg könnun í Suðurlandskjördæmi sýndi hvar fylgisaukningin lá, og hún var að vanda mest hjá Vinstri grænum. Mér fannst sérstaklega vænt um að heyra skýringu einstaklings á Höfn í Hornafirði sem var spurður hvers vegna Vinstri græn hefðu svona mikið fylgi í austaverður Suðulandskjördæmi sem raun ber vitni. Ætli það sé ekki af því við höfum svo fallega náttúru hérna og kunnum svo vel að meta hana, eitthvað á þá leiðina var svarið. Næstum feimnislegt, en bara svo falleg skýring og ég er alveg til í að kaupa hana. 

Vottun um launajafnrétti hjá fyrirtækjum?

Rétt náði í skottið á frétt um vottun á launajafnrétti hjá fyrirtækjum og finnst þetta bara sniðug hugmynd, hafi ég skilið hana rétt. Hlakka til að heyra meira, sé ennþá ekkert um þetta á vefnum.

Stattu við þetta Bjarni!

Ein athyglisverðasta yfirlýsing helgarinnar kom frá bankastjóra, Bjarna Ármannssyni, þess efnis að hann væri jákvæður fyrir því að aflétta launaleynd. Nú hefur hann þokkaleg mannaforráð svo ég vona bara að hann stígi næsta skref og geri þetta á hinum stóra vinnustað sem hann stendur fyrir. Áhrif þeirrar aðgerðar yrði að mínu mati alveg gríðarleg. Ekki sársaukalaus, en áhrifarík. Vissulega munu menn koma og segja, þá fer bara launamisréttið niður fyrir borðið, með alls konar sporslum sem aðeins kæmu til karla. Ekki hafa áhyggjur, sporslurnar eru þarna nú þegar og reyndar held ég að afnám launaleyndar gæti alveg náð til þeirra líka. Flott sagt og enn glæsilegra ef þetta verður gert. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband