Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hélt að Baggalútur hefði verið fyndinn, en svo ...

Ég hló mikið að Baggalút í dag www.baggalutur.is en svo var þetta bara í kvöldfréttunum á öllum stöðvum, að vísu aðeins annar flokkur sem náði ekki að skila inn, en samt! Veit ekki hvort það er fyndið lengur, en tilhugsunin um að frétt Baggaluts væri rétt var óneitanlega alveg ómótstæðileg.

Fréttaþrunginn dagur: Samningur til varnar fylgis Framsóknar? Impregilo og heilbrigðið, Jóhannesi Geir sparkað, Prestum stillt upp við vegg og Austurstræti Lundúna brennur

Þetta er meiri fréttadagurinn. Sumt byrjaði reyndar í fyrr, svo sem hið grímulausa Impregilo mál, annað er rétt að skella á, það er stórbruni í London. En eitt af öðru: 

1. Ég skil ekki alveg hvað er að gerast milli stjórnarflokkanna í hermálunum, svo virðist sem Framsókn vilji endilega ná sér í skrautfjöður í hattinn (lítil prýði í henni að mínu mati) en Geir hafi nappað af henni hattinum. Blaðamenn í Noregi og á Íslandi spyrja um krónur og aura og hernarðarandstæðingar beggja landa (ég er i þeim hópi) telur að hér sé verið að stíga óþarfa hernaðarbröltsskref. Greinilega fátt um slíka innan Samfylkingarinnar.

2. Sorglega sápulausa óperan Kárahnjúkar heldur áfram. Núna er Impregilo komið með sjúkraskýrsluígildi (heimild: landlæknir) í hendurnar þvert ofan í lög og reglur. Og er það virkilega svo að enginn geti sagt neitt? Nógu skítt er það að bera vitandi ábyrgð á tjóni á heilsu starfsmanna sinna, hart að sjá að nú eigi að gera sem flesta þeirra tortryggilega og veikindi þeirra, því í þá átt virðist deilan vera að þróast.

3. Jóhannes Geir! Jamm, taugatirtringurinn inna Framsóknar tekur á sig ólíklegustu myndir. Sem betur fer skil ég ekki Framsókn. Heyri nú í fréttum að þetta tengist mögulega einkavæðingu Landsvirkjunar. Með þá bjargföstu trú að lengi geti vont versnað þá finnst mér að ef einkavæða ætti Landsvirkjun yrði hún jafnvel enn háskalegri náttúru landsins, og nógu slæm er hún þó fyrir.

4.  Á ég að trúa því að það hafi breytt niðurstöðu prestanna um vígslu samkynhneigða að ekki fékkst leynileg atkvæðagreiðsla um málið? Skil það þannig að fleiri hefðu þorað að leggjast gegn vígslunni undir nafnleynd. Mér finnst þetta sorgleg, ef satt er.

5. Austurstræti þeirra í London er að brenna, sumum Íslendingum er Oxford street jafn kunnuglegt og Austurstrætið. Þarna á milli Regent street og Tottenham Court Road eru m.a. góðar tónlistarverslanir, en þessi bruni er líklega hinu megin við götuna. Háreistari hús en við Lækjartorgið en þetta hús gæti alveg verið gamalt líka.


Er nokkuð að renna upp fyrir mönnum vinstri grænt ljós?

Skilaboðin hafa verið skýr í hverri könnuninni á fætur annarri, fylgið hefur verið að síga yfir á vinstri græna vænginn.Við sem fögnum höfum verið gætin í tali, aðrir bent á að þetta sé að snúast, ef fylgið sígur niður í 2,5 falt kosningafylgi í stað þrefalds. En kannski er að renna upp fyrir okkur öllum, mér líka, að þetta er líklega hætt að vera tilviljun. Ég hef aldrei efast um að við ættum fylgið skilð, en hins vegar skilið efann sem af og til kom upp í vinstri græna hjartanu.

Kosninganóttin hlýtur að verða spennandi, og já, ég ætla líka að horfa á Eurovision, vona að okkar maður verði þar meðal annarra Evrópustjarna, en það fáum við væntanlega bara að heyra skömmu áður. Annars þarf maður að fara að finna út með hverjum á að halda, alla vega ekki tékknesku Lordi-stælingunni. Eins og ég er bæði hrifin af Tékkum og þungarokki þá er þessi blanda herfileg!

Annars hef ég verið í tiltektum í kvöld, eitt hornið á stofunni hefur ekki vitað hvað það ætlar að verða þegar það verður (aftur) stórt, en er nú orðið hin ljúfasta líkamsræktaraðstaða, með skásýn á sjónvarpið. Og málverkin mín, sem hafa verið bak við skerm allt of lengi eru loksins komin í ljós aftur. Batnandi fjölskyldu er best að lifa.


mbl.is VG bætir við sig í Reykjavík suður samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsemi og skipulagsslys

Eins og við var að búast koma einhverjir spekingar og heimta að háhýsi verði reist á litla reitnum þar sem miðbæjarbruninn varð. Þvílík skammsýni, ég ætla að vona að skynsemin ráði ferð, og er reyndar bjartsýn á að svo verði, bæði af viðbrögðum borgarstjóra, borgarfulltrúa, góðri umræðu að frumkvæði VG og ekki síst skemmtilegu viðtali við Pétur Ármannsson arkitekt, í fréttatíma í gærkvöldi. Pétur benti á tvennt sem mér finnst einkum áhugavert, uppbygging húsanna má alveg vera í anda þess besta sem gerðist í ævisögu hvors um sig, og þarna er best að hafa mannlífsauðgandi starfsemi, Pétur brosti svolítið í kampinn þegar hann var spurður hvort það væri ekki fínt að setja safn þarna og benti hæglátlega á að það væri miklu betra að starfsemin væri meira lifandi, benti á IÐU húsið sem gott fordæmi. Pétur klikkar ekki.

Þar sem Pétur á ættir að rekja á Álftanesið höfum við verið svo lánsöm að njóta leiðsagnar hans í áttina að þeirri farsælu lendingu sem náðist í skipulagsmálum miðbæjarins okkar. Það er lausn sem þegar er farin að vekja nokkurn áhuga út í frá og fjölmiðlamenn hafa verið að spyrja hvort hér sé kannski komin fyrirmynd af fleiri miðbæjum. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þessar hugmyndir sem eru niðurstaða úr arkitektasamkeppni (sigurvegarar Gassa) geta alltaf kíkt á www.alftanes.is - en rauði þráðurinn í þessum hugmyndum er grænn (!) með bílastæði neðanjarðar og grasi grónar gangstéttarhelllur (grassteina).


Verðmæti felast í góðum hugmyndum, góðri úrvinnslu og þekkingu - ekki nýjum álverum

Hugbúnaðarfyrirtæki hér á landi hafa sum hver náð mjög góðum árangri en búa mörg hver við erfið starfsskilyrði. Það er eins og ráðamönnum hafi enn ekki skilist hvað er að skila mestum arði nú orðið og jafnframt hvar breyttar áherslur í rekstri fyrirtækja eru hvað blómlegastar, með aukinni þátttöku starfsfólks og sveigjanlegra vinnufyrirkomulagi, og hreinlega skemmtilegri vinnustöðum. Það er alveg tímabært að fara að hugsa upp á nýtt hver framtíðin á að vera í atvinnumálum hér á landi og byrja kannski að því að hlúa betur að sportafyrirtækjunum okkar, sum eiga góðan vöxt fyrir höndum með góðu atlæti.
mbl.is Google orðið verðmætasta vörumerki heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afstætt fylgi

Fyndið að fylgjast með fjölmiðlum þegar kannanirnar streyma inn sem aldrei fyrr. Framsókn að ,,sækja í sig veðrið" þegar möguleikinn á að komast upp í HÁLFT síðasta kosningafylgi er í sjónmáli og VG ,,dalar" niður í tvöfalt fylgi miðað við síðustu kosningar. viðmælendur vita betur og því var Jónína Bjartmars ekkert að hrópa húrra yfir þessum tölum í kosningaþætti í dag en Kolbrún Halldórs var bara kát. Sjálfstæðismenn vara sitt fólk óspart við að trúa hagstæðum fylgistölum og Samfylkingin reynir að fullvissa sína kjósendur um að þeirra fylgi verði meira á kjördag. Merkilegt! Stóra skoðanakönnunin aðeins í þriggja vikna fjarlægð og ég er frekar spennt fyrir þeim degi og finnst bara gaman af öllum þeim sveiflum sem við höfum verið að horfa uppá og staldra ekki við nema þegar ein og ein könnun sýnir eitthvað allt annað en allar hinar. Vantrúaður vinur minn var óspar á að minna mann á að skoðanakannanir sýndu ,,ekkert nema skoðanir þeirra sem spurðir eru á þeirri stundu sem þeir eru spurðir"  en eins og þorri þjóðarinnar bíð ég yfirleitt spennt eftir hverri nýrri könnun, og það er ekki bara af því VG hefur verið í þessari áberandi uppsveiflu. Á meðan ekki er beinlínis verið að reyna að afvegaleiða fólk með fylgiskönnunum held ég að þær geri ekkert nema drepa tímann fram að kosningum. 

Ef ríkisstjórnin héldi velli ...

Getur einhver hugsað þá hugsun til enda, ef ríkisstjórnin héldi nú velli og eftir kosningar yrði allt óbreytt. Framsókn og Sjálfstæðismenn skiptu kannski aðeins öðru vísi með sér verkum, Sjálfstæðismenn hafa jú lýst yfir vilja til að taka við heilbrigðisráðuneytinu og einhverja þarf Framsókn að hafa eftir til að manna nokkrar nefndir, en þetta er möguleiki. Mig grunar að jafnvel sumir Sjálfstæðismenn fái hroll núna, en nái stjórnarflokkarnir meirihluta þá er þetta líklegasta (og leiðinlegasta) niðurstaðan. Leiðinleg=vekur leiða, ekki bara óhressileik, heldur meira í ætti við hryggð í þessu tilfelli. Hugsið! Og kjósið VG til að vera viss. 

Ómissandi fólk (stígur upp úr flensu)

Ég veit að Maggi Eiríks syngur um að kirkjugarðar heimsins fylli ómissandi fólk, en allt í einu í dag fannst mér ég eitthvað svo ómissandi, þrátt fyrir pestina, svo ég skrapp í vinnuna, til að fullvissa mig um að allt væri í lagi. Enginn er ómissandi, en þessi skrepputúr endaði sem fullar átta stundir, þannig að ég kom bara ótrúlega miklu í verk og er í frekar skemmtilegum verkefnum þessa dagana, þar að auki.

Ótrúlegar fréttir, ef Penzínið, sem Ari hefur alltaf viljað kaupa, þótt við séum ekkert krem-fólk, á nú að fara að gagnast við öllu frá fuglaflensu til hversdagslegs kvefs. Klínískar tilraunir munu eflaust taka sinni síma, en miðað við pestakvótann minn þá ætti ég að vera á þriðju seinustu flensunni minni núna, eftir það verður þetta bara penzínið og ég, og hægt að vera enn meira ómissandi, að eigin áliti að minnsta kosti.


Veglegir, frumlegir, fallegir og frábærir vinningar

Bjarkey Gunnarsdóttir bloggaði um ómótstæðilega vinninga í kosningahappdrætti Vinstri grænna, oft hefur verið boðið vel en aldrei eins og núna. Sjáið þetta: http://www.vg.is/kosningar/happdraetti/ - ég gæti vel hugsað mér nánast alla vinningana, þannig að ég ætla alla vega að fá mér nokkra miða. Hér eru nokkur (allt of fá) dæmi um gersamlega frábæra vinninga, sem eru bæði veglegir, frumlegir, fallegir og frábærir í alla staði:

5. Skák og ...: Kvöldstund við taflborðið með Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Manngangur kenndur, ef þarf. Léttar, hjartastyrkjandi veitingar. 50.000 kr.

11. Að lífið sé skjálfandi ...: Svarfaðardalur sóttur heim í boði Ingibjargar Hjartardóttur og Ragnars Stefánssonar. Kvöldverður að svarfdælskum hætti. Gisting. Fyrir fimm. 75.000 kr.

17. Í upphafi var orðið ...: Hlynur Hallsson spreyjar vel valin slagorð á vegg. 100.000 kr.

19. Fröken Reykjavík ...: Óræðar slóðir miðborgarinnar þræddar með Birnu Þórðardóttur. Hressing á leiðinni og besta lasagne norðan Modena í lokin! Fyrir sex. 60.000 kr. (þetta með lasagne er engin lygi)

23. Helgardvöl fyrir fjölskyldu í gestahúsi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði. Frjáls afnot af hestum, fiskibáti og öðrum afþreyingarmöguleikum, þar með talinn fjallajeppi. Í boði Steingríms J. Sigfússonar og ábúenda. 75.000 kr.

26. Í sátt við skattmann ...: Drífa Snædal gengur frá skattframtölum fimm einstaklinga. 60.000 kr.

Það er eiginlega alveg nauðsynlegt að fara á síðu VG og skoða allan listann - annars get ég ekki hætt. Smella hér.

 


Notalegt síðdegi þrátt fyrir Forrest Gump í fertugasta sinn og engar skítkaldar skrúðgöngur

Það er hálf mislukkað að liggja í pest á sumardaginn fyrsta. Fjölskyldumeðlimir eru að horfa á Forrest Gump í fertugasta sinn, en ég er ekkert sérlega hrifin af því, músíkin er samt OK. Var reyndar að frétta það að í bókinni færi Forrest Gump líka út í geiminn, hmm, það verður alltaf að sleppa einhverju í kvikmyndaútgáfunni. En alla vega er maður ekki á rölti í einhverjum skítköldum skrúðgöngum, það eru víst ennþá skrúðgöngur en þær eru vonandi ekki eins skítkaldar og skrúðgöngur æsku minnar. 

Svona löglegir letidagar hafa samt alltaf ákveðinn sjarma. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband