Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þrjár spár um úrslit kosninganna, sem þið sjáið ekki annars staðar

Flestar spár um úrslit kosninganna þessa dagana byggjast á úrslitum úr skoðanakönnunum. Einhverjir hafa verið að vitna í Völvu Vikunnar, og það finnst mér út af fyrir sig gaman að sjá, því ég hóf blaðamannaferil minn á því ágæta blaði fyrir 27 árum. En nú ætla ég að leyfa mér að leika mér og koma með þrjár spár um úrslit kosninganna, sem þið munuð ekki sjá neins staðar annars staðar, þótt einhverjar líkar tölur muni eflaust koma upp. Tek á móti leiðréttingum ef samtölur standast ekki (ég er sífiktandi í þessu og leiðrétti kannski ekki allar tölur). 

1. Fyrsta spáin er ,,raunsæ" óskaspá mín, það er að segja ekki draumaniðurstaðan, heldur það sem ég leyfi mér að vona í ljósi hagstæðustu skoðanakannana og kosningaspáa. 

VG 28% - 18 þingmenn

Samfylking 25 % - 16 þingmenn

Sjálfstæðisflokkur 34 % - 22 þingmenn

Framsóknarflokkur 8 % - 4 þingmenn

Íslandshreyfingin 5 % - 3 þingmenn

Frjálslyndir 1 % - 0 þingmenn

 

2. Önnur spáin er sú raunverulega raunsæja, hvernig ég held að kosningarnar muni fara í raun og veru, þar sem ég er raunverulega bjartsýn manneskja.

VG 24 % - 16 þingmenn

Samfylking 24 % - 15 þingmenn

Sjálfstæðisflokkur 37 % - 25 þingmenn

Framsókn 10 % - 5 þingmenn

Íslandshreyfingin 2 % - 0 þingmenn 

Frjálslyndir 5 % - 2 þingmenn 

 

3.  Í þriðju spánni nota ég aðstoð, það er í rauninni alveg sama hvað maður notar, ég er vönust tarotspilum, en þetta gæti alveg eins verið telauf, kaffidropar eða krystalskúla, skiptir ekki máli. Spádómar eru eldgömul hefð, einkum hefð kvenna, og ég ber fulla virðingu fyrir þeim, en vara eindregið við að nokkur láti spádóma stjórna lífi sínu. Það er stórháskalegt að mínu mati.  Hins vegar finnst mér alltaf gaman að sjá hvort eitthvað óvænt kemur upp í spilunum (sem ég ef ekki snert í hartnær tvö ár) og hvort þetta óvænta er í einhverri líkingu við það sem raunverulega gerist. Ég kem úr sterkum vinkvennahópi þar sem sumar eru raunverulega rammgöldróttar. Átti líka ömmu sem var nokkuð slyng í kaffibollaspám, og gleymi ekki þegar miðaldra fyrrverandi ráðherra kom einhvern tíma og sagði mér feimnislega frá því þegar amma spáði fyrir honum og fleiri úr vinahópi móðursystur minnar.  

VG - gengur vel, mjög frjósamur jarðvegur fyrir hugmyndirnar

Samfylking - breytingar í vændum, þarf að nota visku og vera hófstillt og ekki gefa allt upp

Sjálfstæðisflokkur - gerjun, leggur (eða þarf að leggja) áherslu á kvenlegu þættina í flokknum

Framsókn - góð samvinna og forysta gefur ýmsa möguleika, þarf að gæta sín á hégómagirnd

Íslandshreyfingin - sameining eða samstarf leiðir til hamingju - eitthvað gott gerist

Frjálslyndir - einn maður yfirskyggir alla hina - áhrif hans á aðra en samherja eru óljós

 

Hmmm, allir fengu þokkaleg spil, sem er merkilegt því í rauninni eru álíka mörg ,,góð" og ,,vond" spil í bunkanum. Mér finnst þetta lykta af umræðuþætti þegar fyrstu tölur liggja fyrir, allir hafa unnið! Átti ekki von á þessu, en ég svindla ekki, þannig að þetta eru niðurstöðurnar, hvor t sem mér líkar betur eða verr . Eitt merkilegt kom upp, það er eins og laufið (stafirnir) séu ríkjandi. Vona að það viti á græna stjórn ;-)
 

 


Ég trúi á líf eftir kosningar

Spurningin er bara hvers konar líf munum við kjósa? Ekki biðja um jafnrétti, kjóstu jafnrétti, segir á frábæru barmmerki ungra vinstri grænna. Ennþá er hægt að kjósa sér líf eftir kosningar og eftir þennan 1. maí get ég ekki skilið annað en að krafa þorra fólks sé aukinn jöfnuður og að útrýma skuli fátækt hér á landi. Ekki ósanngjarnt, en staðreyndin er sú að þetta hefur ekki verið gert. Og nú er hreyfing í boði sem ekki aðeins segist muni breyta þessu, held að enginn efist um að þessi hreyfing MUNI breyta þessu, komist hún til valda. Vinstri hreyfingin - grænt framboð. 

Ríkjandi stjórnarflokkar hafa mikið gert úr því hversu góð starfsskilyrði þeir hafa búið fyrirtækjum. Þessu eru stjórnendur ýmissa hugbúnaðarfyrirtækja allsendis ekki sammála! Sum telja sig þurfa að flæmast úr landi, önnur reyna að þrauka, þau hafa lagt fram vel mótaðar hugmyndir um úrbætur fyrir þessa blómlegu atvinnugrein, en það hefur ekkert gerst! Á meðan er mulið undir aðrar starfsstéttir. og það er undarleg byggðastefna að segja að það þurfi annars konar atvinnutækifæri utan Suðvesturhornsins, þungaiðnað og frumvinnslu svo sem ál og olíu, eins og fólk geti ekki stundað hugbúnaðarstörf utan þéttbýlis. Hvar er eiginlega þekking þeirra sem svo tala?

Ég trúi á líf eftir kosningar, en mig langar að það verði vit í því lífi sem við lifum þá.  


Liverpool vann!

Þetta var flottur leikur og Liverpool vann verðskuldaðan sigur. Ekkert meira um það að segja.

Áfram Liverpool!

Gott að EiðurSmári er ekki lengur með Chelsea, þá er hægt að halda með Liverpool ótruflaður. Enda lítil ástæða til að bakka upp hrokagikkinn hann Mouriniho. Þrátt fyrir leikræna hæfileika Drogba og efasemdir íslensku komment-aranna þá er þetta nú staðan og gleður mitt Pool-ska hjarta.
mbl.is Agger kemur Liverpool yfir gegn Chelsea
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1. maí - rykið dustað af reiðinni

1. maí er skrýtinn og merkilegur frídagur. Í rauninni er verið að gefa frí til að dusta rykið af reiðinni, reiði yfir misrétti í launamálum. Alla jafna er ég ekki hrifin af reiði, en sú reiði sem fylgir 1. maí er réttlát reiði yfir að við skulum enn líða það að greidd sé laun fyrir fulla vinnu sem hvergi nærri duga til framfærslu. Að við skulum enn líða launamun sem byggir ekki á öðru en kynferði. Og svo er mín einkareiði, yfir því að við skulum enn vinna lengsta vinnudag allra þjóða, alla vega í Norður Evrópu og að við skulum ekki vera búin að finna ráð til að gera vinnutíma sveigjanlegri en raun ber vitni. Þetta síðastnefnda þekki ég af eigin raun, hef bæði unnið sveigjanlegan vinnutíma eins og nú og fastnegldan (sem er auðvitað stundum nauðsynlegt, eins og t.d. í kennslu) - en ég líki því ekki saman hversu miklu meiri lífsgæði eru í því fólgin að geta tekið langt hádegi og bætt það upp með lengri viðveru, ef þannig stendur á, eða geta sofið lengur eftir langt kvöld, flest mín eru reyndar þannig ;-) og auðvitað vil ég að sem flestir njóti þess sama. 

Dagurinn er reyndar oft kallaður Hátíðisdagur verkalýðsins, en enn er langt í land að við getum farið í einhverjar hátíðarstellingar og fagnað sjálfstæði, frá fátækt, fagnað fæðingu réttlátara samfélags, upprisu jafnréttis í launamálum eða farið á ærlegt djamm eins og um verslunarmannahelgina, til að halda upp á skuldbindingalaust frí.  Æska landsins hefur reyndar lært að halda upp á 1. maí með próflestri og á því ekki endilega svo góðar minningar um daginn, þetta veldur því líka að við erum ekki að ala upp nýjar kynslóðir meðvitaðar um boðskap dagsins. Nei, kósínus og franskar sagnir eru miklu líklegri til að sitja eftir í minningunni um daginn fram eftir ævi en kröfugöngur og frelsandi hugsun. Ég hef valið þá leið til að finna þessum hugsjónamálum fraveg að velja Vinstri grænt og vona að við getum fagnað næsta 1. maí. Vona að sem flestir geri það, svo ekki verði hægt að ganga framhjá VG við næstu stjórnarmyndun. 


Þessar ,,kvenna"konur

Á 10 ára afmæli kvennafrídagsins var mælst til þess að konur fengju frí til að taka þátt í hátíðarhöldum. Trúnaðarmaður í einu fyrirtæki í Hafnarfirði sagði með mikilli fyrirlitingu að hún væri orðin hundleið á þessum ,,kvenna"konum! þegar grennslaðist fyrir því hvort rétt væri að ekki væri gefið frí á hennar vinnustað.

Frábærar konur á kvennakvöldi VG

Ég komst í góðan félagsskap svona ,,kvenna"kvenna í gær á konukvöldi VG í Kópavogi. Rosalega hefur trúnaðarkonan í Hafnarfirði farið mikils á mis, ef hún er sama sinnis og forðum að leggja ekki lag sitt við svona ,,kvenna"konur.

Skelli kannski nokkrum myndum frá kvennakvöldinu ef þær sem ég tók í gær eru skikkanlegar. 

 


Varúð, ríkisstjórin gæti haldið velli

Ríkisstjórnin gæti haldið velli, samkvæmt nýjustu könnunum. Yfirleitt með minnsta mögulegum meiri hluta, en samt, hvað gera menn ekki til að halda í stólana sína. Magnús Jónsson ráðherra frá Mel (Sjálfstæðismaður) sagði einhverju sinni að það væri erfitt að fá menn til að segja skilið við stólana sína, ,,Þeim þykir svo vænt um þá!"

Og þetta getur gerst:

  • Þrátt fyrir að VG, aðalandspyrnuflokkur ríkisstjórnarinnar, sé með blússandi fylgi.
  • Þrátt fyrir að stefnumál ríkisstjórnarinnar hafi fengið falleinkun, eitt af öðru.
  • Þrátt fyrir að hagur aldraðra og öryrkja sé að dragast langt aftur úr kjörum annarra.
  • Þrátt fyrir að ofurlaun séu búin að misbjóða siðgæðisvitund flestra.
  • Þrátt fyrir óafturkræf  umhverfisspjöll í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Á góðum degi gæti ríkisstjórnin engu að síður fallið. En við megum ekki láta eintóma heppni ráða. Ef VG verður ótvíræður sigurvegari kosninganna verður erfitt að ganga framhjá þeirri staðreynd þegar stjórnarmyndunarumboðinu verður úthlutað. Þaö er eina færa leiðin, og bara býsna góð líka.

 


Málmfríður og ótrúleg ferð norður í land

Var að byrja að segja frá því í gær hvað ég hefði verið hundheppin að kynnast henni Málmfríði Sigurðardóttur fyrir meira en tuttugu árum síðan. Fór sem sagt á Málþing Möllu sem VG fyrir norðan hélt í dag. Ég er greinilega ekki ein um þá skoðun að kynni við hana séu sérstök forréttindi, því málþing Möllu á Akureyri í dag var ein sú einlægasta samkoma sem ég hef komið á. Það sem var öllum efst í huga var að koma því til skila hvaða áhrif Málmfríður hefur haft á samtíma sinn, og ég gæti ekki verið meira sammála. Steingrímur J. færði Málmfríði blóm frá VGEftir þingið átti ég lausan næstum klukkutíma áður en vélin átti að fara í bæinn og eyddi honum heima hjá Möllu og hún var bæði hrærð og hugsandi yfir því sem sagt hafði verið um hana, og hrædd um að það væri kannski allt of mikið lof. - En allir töluðu af mikilli einlægni, ertu ekki sammála því? spurði ég hana, og jú, það leyndi sér svo sannarlega ekki. Enda veit ég það að allir sem hafa verið svo lánsamir að kynnast Málmfríði vita að það verður seint hægt að oflofa hana. Sem betur fer stöldruðu margir við húmorinn hennar ekkert síður en þann hafsjó af fróðleik sem hún er, og auðvitað, eins og Jón Hjaltason benti á bæði greind, gáfuð og vitur. Jón er vænn maður en gaf aðeins færi á sér með athugasemdum á ystu nöf, þannig að þegar Málmfríður gekk að honum eftir ávarpið og hvíslaði einhverju að honum, þá lá allt í hlátri næst þeim. Fundarstjóri stóð sig í stykkinu og bað Málmfríði að endurtaka það sem hún hefði sagt við Jón og hún gall við hátt og snjallt: Ég sagði Jóni bara að ég hefði aldrei sagt að hann væri hálfviti!

Þakkarávarp Málmfríðar

Takk Vinstri græn fyrir norðan, þetta var vel til fundið og frábærlega heppnað! Og mikið var gaman að hitta fullt af VG fólki, urmul af gömlum Kvennalistavinkonum og öðru góðu fólki. Smá Reunion tilfinning í leiðinni, það var heldur ekki amalegt. Og ekki má gleyma fjölskyldunni hennar Möllu, sem ég hef bæði notið gistivináttu hjá og hitt af ýmsum tilefnum hér og þar. Framlag þeirra til dagskrárinnar var mjög vel heppnað, eins og bara öll atriðin.

 

 Fegurð dagsins á leiðinni heim var ólýsanleg eins og dagurinn allur.

28. apríl 2007 4.

 


Málþing Möllu á morgun og Guðfríður Lilja á sunnudagskvöldið

Stefnir í ótrúlega vinstri græna kvennahelgi. Á morgun ætla ég að kíkja á málþing á Akureyri sem VG heldur til heiðurs Málmfríði vinkonu minni og stórstjörnu úr kvennabaráttunni og VG veröldinni, auk margra annarra afreka hennar á lífsleiðinni. Málmfríður er ein allra skemmtilegasta kona sem ég hef kynnst, eftir fyrstu kosningarnar sem Kvennalistinn tók þátt í, sátum við næturlangt ásamt fleiri kvennalistakonum á Selfossi og sungum saman íslensk sönglög milli þess sem við rifjuðum upp svona 50-100 uppáhalds ljóðin okkar. Ég varð uppnumin af því að kynnast þessari skemmtilegu konu þá og er enn þakklát fyrir að leiðir okkar lágu saman gegnum kvennabaráttuna.

Síðar vorum við saman á þingi um hríð og fyrsta haustið mitt fórum við einmitt um kjördæmið hennar, þar sem hún þekkti alla og ég meira að segja suma, enda alin upp annars vegar með mömmu og fóstra mínum á kúasýningum og hins vegar með pabba og stjúpu minni á Seyðisfirði, en leiðin lá einmitt um núverandi Norðausturkjördæmi. Gleymi aldrei deginum þegar við keyrðum frá Þorshöfn um Melrakkasléttu með viðkomu á Raufarhöfn, sáum heim til Oddstaða, þar sem ættbálkur vinkonu minnar hefur aðsetur á sumrin, hittum síðan Pétur skólastjóra á Kópaskeri sem var með hörkusamstarf norrænna skóla gegnum tölvusamskipti og smitaði mig af eldmóði sínum, en í ljósi þess að þetta var haustið 1989 (!) þá var það auðvitað rosalegt að skipuleggja internetsamskipti án internets, en Pétur kallaði barnið sitt Imbu. Þeir sem vilja vita meira geta fundið það á þessum link (innsetning linka er óvirk, þannig að hér er slóðin): http://www.ismennt.is/main.asp?id=1&uid=1 Málmfríður var án efa ein af þeim sem hvatti Pétur hvað mest áfram í þessu frábæra starfi. 

En alla vega, dagurinn var ekki hálfnaður,  viðtalstími á Húsavík, sýna mér Ásbyrgi, smá heimsókn heim í Reykjadalinn og svo var brunað á Akureyri því þar var fundur kl. 21. Malla hvatti mig áfram á bílaleigu-Subaru-num eins og staðan klár, en einhvern veginn hafðist þetta. Mikið óskaplega var þetta skemmtileg ferð og allir sem Malla þekkti á leiðinni, allt sem hún vildi sýna mér, gerði ferðina ógleymanlega og í leiðinni vorum við auðvitað líka að sinna kvennapólitíkinni. Ég hlakka til að fara á málþingið á morgun, húrra VG að standa fyrir því.

Meira seinna um sunnudagskvöldið, en þá verður Guðfríður Lilja gestgjafi fyrir VG konurnar í Kraganum (kl. 20 í Hamraborg 1) og ég hlakka mikið til þess kvölds. Það er svo indælt að sjá allar þessar snilldarkonur koma til liðs við VG, fyrr og nú. Meira um það seinna.  

VGkonur


Hinar kosningarnar: Blúsinn er bestur

Sit og spjalla á msn, hálf furðulegt dæmi. Er með samnorræna kjaftaþáttinn um Eurovision í bakgrunni, að spjalla á msn til Ungverjalands og dóttir mín sem situr þar, er að hlusta á þáttinn í tölvunni, en er líklega svona hálfum þætti á eftir mér. Þannig að þegar ég raknkaði allt í einu við mér í miðri veisluskipulagningu, og heyrði þetta líka snilldar blúslag (í Eurovison!!!!) þá var hún auðvitað ekki með á nótunum. En þetta var sem sagt ungverska framlagið. Kjósum Ungverjaland (af því við getum ekki kosið Eirík sjálfan).

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband