Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Ég vissi ekki að Dagur væri svona mikill húmoristi
1.2.2008 | 14:20
Núna biðlar Dagur Eggertsson stíft til Gísla Marteins vegna ummæla hans um uppbyggingu byggðar á flugvallarsvæðinu. Ummæla sem vel endurspegla veikan grunn núverandi meirihluta. Það sem gæti vakað fyrir Degi er:
1. Að vilja sprengja núverandi meirihluta og mynda annan um flugvallarmálið með ,,til í allt án Villa" klúbbnum. Ekki líklegt, þar sem flestum ætti að vera ljóst að borgarbúar eru búnir að fá sig fullsadda á klækjaliðinu og eini meirihluti sem gæti átt von til að sátt ríkti um núna væri Tjarnarkvartettinn, sem er bara tríó núna.
2. Að reyna að hafa áhrif á núverandi meirihluta. Ekki líklegt, þar sem hann var að sögn, myndaður um breytingu á flugvallaráherslunum og sumir innan hans hafa ofurtrú á því að láta ,,verkin tala" í þeim efnum með því að gera ekki neitt.
3. Að stríða nýja meirihlutanum. Dagur virkar mjög hrekklaus, en er greinilega laumustríðinn, svona í anda ,,salt í sárin" skopstefnunnar. Hallast að þessari skýringu.
Breytt og bætt samfélagsumræða
1.2.2008 | 01:31
Ophra og Kennedy-frændgarður með Obama og/eða á móti Hillary
29.1.2008 | 05:55
Edward Kennedy, sem ekki ætlaði að taka afstöðu í forkosningum demókrata, hefur lýst yrir stuðningi við Barack Obama, líkt og Ophra nýverið. Obama fékk mikla sveiflu með sér eftir yfirlýsingu Ophru. Caroline frænka Edwards og dóttir Johns F. Kennedy hefur líkt Obama við föður sinn. Nú er stutt í 5. febrúar þegar stóri forkosningadagurinn rennur upp og mögulega mun þessi yfirlýsing hafa áhrif, reyndar hef ég meiri áhyggjur af ummælum Caronline en stuðning frænda hennar, en þó fylgir fregnum að hann sé mikill áhrifamaður (ennþá) meðal demókrata. Svolítið kaldhæðnislegt allt, þar sem öllum var það ljóst að (vonandi) verðandi forsetaeiginmaður, Bill Clinton, leit á Kennedy sem sína fyrirmynd, kannski í of mörgum efnum ;-)
Ég hef reyndar enga ástæðu til að ætla að þessar yfirlýsingar séu gegn Hillary með beinum hætti, en samt er ég sannfærð um að Edward Kennedy er ekki boðberi kvenfrelsisafla í Bandaríkjunum. Hugsandi yfir Caroline og Ophru. Ophra er auðvitað stórveldi og á þann hátt hefur hún verið góð fyrirmynd fyrir konur í Bandaríkjunum, en stundum sýp ég hveljur yfir þáttunum hennar, það eru svo blendin skilaboð til kvenna og svo grímulaus skilaboð um að vera sætar alla vega, kannski að halda kjafti líka (svo ég vitni í góðan bókatitil frá fyrri árum). Þannig að, það er kannski gott að styðja Obama en það er ekki svo gott að leggja stein í götu Hillary, og það er útkoman.
Feministaheimurinn, síður með íslensku og alþjóðlegu feministabloggi
27.1.2008 | 23:59
Húmor á laugardegi: Rannsóknarnefnd skipulagsslysa og Alfreð
26.1.2008 | 14:00
Eftir þunga viku með mikilli undiröldu og válegum pólitískum tíðindum þá get ég ekki annað en hlegið með sumu því sem ég sé og heyri í fjölmiðlum. Var að enda við að hlusta á góðan laugardagsþátt Hjálmars Sveinssonar þar sem meðal annars var rætt við Pétur H. Ármannsson um skipulagsmál. Hann læddi að, eins og honum er lagið, lítilli athugasemd í umræðunni um hvað væri vel gert og hvað illa í reykvískum skipulagsmálum og sagði: Ég vil nú ekki, eins og gert hefur verið, ganga svo langt að halda því fram að það þurfi að stofna rannsóknarnefnd skipulagsslysa, en ... Og þar með var hann auðvitað búinn að koma hugsuninni á framfæri. Þökk hverjum þeim sem datt þetta hugtak í hug.
Annað, sem einnig tengist grafalvarlegu máli, er ályktun sem félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík sendi frá sér varðandi aðförina að Birni Inga. Ályktunin er góðra gjalda verð, en mér var starsýnna á nafnið á félaginu: Alfreð. Einhverjir hafa húmor í Framsókn, fleiri en Guðni (á köflum).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook
Stormur á eftir storminum ... í Reykjavík
25.1.2008 | 15:44
Viðburðaríkur dagur - samfélagslega og persónulega
24.1.2008 | 16:36
Þegar fortíðin er skemmtilegri en nútíðin - 25% borgarstjórnin og Kvennalisti fyrir 100 árum
24.1.2008 | 12:17
Svo virðist sem Reykvíkingar séu ekki alveg að sætta sig við það sem er að gerast í nú-inu, það er valdatöku nýs borgarstjórnarmeirihluta. Skoðanakönnun Fréttablaðsins gefur nýju borgarstjórninni ekki nema 25% fylgi í veganesti og það er viðburður þegar sú borgarstjórn sem er að fara frá naut mikilla vinsælda.
Annað atriði úr fjarlægari fortíð er hins vegar mjög merkilegt, í dag eru nefnilega 100 ár síðan Kvennalisti vann eftirminnilegan sigur í bæjarstjórn Reykjavíkur. Leyfi frétt RUV að tala:
,,Í dag er þess minnst að fyrir 100 árum, 24. janúar árið 1908, var kvennasigurinn mikli þegar listi kvenna kom fjórum konum í bæjarstjórn Reykjavíkur með ótvíræðum sigri.
Tímamótanna verður minnst með margvíslegum hætti á næstunni, en í dag verður opnuð sýningin Konur í borgarstjórn 1908-2008, í Tjarnarsal Ráðhússins. Sýningin spannar pólitíska vegferð kvenna í bæjarstjórn og síðar borgarstjórn Reykjavíkur."
Skrýtið hvernig dagar geta vakið fögnuð og hryggð í senn.
Björn Ingi stelur senunni í dag - og hættir
24.1.2008 | 05:33
Í svefnrofunum fannst mér ég heyra í útvarpinu að Björn Ingi væri að hætta í stjórnmálum. Rumskaði áðan og tékkaði á því hvort þetta gæti verið. Jú, mikið rétt, búin að lesa yfirlýsingu hans á eyjan.is
Þegar ég var sextán ára sumarlangt í Noregi lærði ég frasa sem ég man kannski ekki alveg orðrétt eða kann að skrifa stafrétt, en hljómar þó eitthvað á þessa leið: °A glimre ved sit fravær. - Sem sagt að ljóma með fjarveru sinni. Ég er næstum sannfærð um að þetta verður dagurinn hans Björns Inga, ekki dagurinn hans Ólafs F. Það eru mikil tíðindi ef hann er að hætta í stjórnmálum. Vissulega hef ég ekki verið í aðdáendahópi hans, enda ekki Framsóknarkona, en hins vegar þá fannst mér atlagan að honum yfir strikið og er þá ekki að réttlæta fatakaupamálið sem slíkt, heldur að benda á hvernig skipulega hefur verið veist að honum af þeim sem ættu að vera samherjar hans. Svo sem ekki meira um það mál að segja, en þetta er greinilega niðurstaða Björns Inga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:25 | Slóð | Facebook
Sigrar og ósigrar - ein gossaga líka
23.1.2008 | 21:18
Hressandi handboltaleikur og sérstaklega frábær seinni hálfleikur, sigurinn var verðskuldaður, einkum á Hreiðar markvörður heiður skilinn. Húrra fyrir strákunum, þetta var vel spilað.
Undiraldan vegna valdaskiptanna í borginni er gríðarleg, það er augljóst að mörgum blöskrar. Forvitnilegt að fylgjast með framvindunni.
Samt er svona lagað lítilvægt þegar við erum minnt á þau feiknaöfl sem gerðu vart við sig fyrir 35 árum í Vestmannaeyjagosinu. Ótrúleg björgunarsaga og myndin af flotanum sem sigldi með heilan bæ til lands, þetta er ótrúleg minning. Gleymi því seint þegar ég kom i háskólann þennan morgun eftir að hafa heyrt fréttirnar um gosið. Tími (hjá Vésteini Ólasyni) féll niður og þegar við Gunna vinkona vorum að fara til baka mættum við einni síðbúinni skólasystur og sögðum við hana: Það er frí í tíma, af því tengdaforeldrar Vésteins búa í Vestmannaeyjum! .... Ég gleymi aldrei hversu langleit þessi skólasystir okkar varð, þótt hún hafi nú seinna sagst hafa vitað af gosinu, þá sagði svipurinn eitthvað allt annað!