Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Hvenær er aðgerðaleysi hættulegt?
20.3.2008 | 01:02
Hef verið hugsandi og reið eftir umfjöllun Kompáss í gærkvöldi um aðgerðaleysi stjórnvalda vegna kynferðisbrota gagnvart ungum börnum. Hvet ykkur sem ekki sáuð þáttinn til að skoða hann á netinu á meðan hann er enn aðgengilegur (hér). Fyrir liðlega 15 árum bar ég fram fyrirspurn á Alþingi um afdrif kynferðisbrotamála gagnvart börnum í réttarkerfinu okkar og það voru sorglegar tölur, eftir umfjöllun Kompáss sé ég að ástandið hefur ekki skánað, jafnvel versnað. Aðgerðarleysi yfirvalda í þessum efnum er hættulegt, það er ekki nóg að ,,vona" að menn hætti þessu, svo vitnað sé í makalaus ummæli embættismanns í þættinum í gær. Í rauninni er verið að stefna fjölmörgum fleiri börnum í hættu með þessum aumingjaskap.
Í gær var haldinn skrýtinn blaðamannafundur. Efnislega má segja að efni hans væri það að stjórnvöld hygðust ekkert gera til að bæta eldfimt ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar. Skyldu það ekki hafa verið að hluta til viðbrögð hins ofurfrjálsa og hamingjusama markaðar við þessum ummælum sem komu fram í sveiflunum á markaði í dag? Ég geri ekki lítið úr því að orsakir þeirra tíðinda sem eru á mörkuðum (gjaldeyris og hlutabréfa) eru margslungnar, bæði innlendar, erlendar, pólitískar og efnahagslegar. En það er ekki hægt að stinga höfðinu í sandinn eins og mér sýnist stjórnvöld reiðubúin að gera.
Gegn stríðinu í Írak
15.3.2008 | 16:25
Einn af göllunum við að vinna hjá sjálfum sér (og kannski sá eini) er sá að dagarnir renna saman. Sé að fundurinn gegn stríðinu í Írak, sem ég hefði svo sannarlega átt að vera á, er búinn. En þá er bara að blogga um málið, alltaf til önnur lausn, sem sagt ítreka andúð mína á þessum stríðsrekstri á þessum opinbera vettvangi. Hef verið á móti þessu stríði frá upphafi.
Það eru fáir eftir held ég sem mæla þessum stríðsrekstri bót og nú er bara beðið eftir að Bush láti af störfum og Bandaríkjamenn dragi herlið sitt heim. Það skýtur reyndar skökku við ef rétt er sem ég heyrði í fréttum að Ítalir séu að fara að efla sitt herlið þarna, þvert á alla skynsemi. Vesturveldin, einkum þessi ,,viljugu", sem við vorum illu heilli bendluð við í einkaframtaki nokkurra stjórnmálamanna, skulda íbúum Íraks öfluga aðstoð við að koma á betra og friðsælla stjórnarfari án íhlutunar eftir brottför herliðanna, sem ekkert hafa gert annað en usla og ósköp.
Æjá, og eitt enn. Mér finnst það góð áminning að fyrrum hermenn í Írak skuli standa að mótmælunum í Washington.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook
Baráttudagurinn 8. mars
8.3.2008 | 13:07
Þegar ég var unglingur fannst mér 9. mars merkilegastur marsdaga. Þá átti litla systir nefnilega afmæli. Hún á enn afmæli 9. mars, og er meira að segja að segja að ferma miðbarnið á morgun. Í millitíðinni hef ég líka eignast son sem á afmæli 4. mars, mikinn feminista. En 8. mars hefur í mörg ár verið sá dagur sem helst hefur fengið okkur mörg til að staldra við og hugsa: Hvar erum við stödd í baráttunni gegn misrétti í garð kvenna? Hvar erum við stödd í dag, árið 2008?
Ofbeldi gegn konum er rætt af meiri festu og einurð en nokkru sinni fyrr, þökk sé Stígamótum, Kvennathvarfinu, baráttuhópum kvenna og karla.
Dómar í málum er varða ofbeldi gegn konum eru skammarlega vægir, kusk á hvítflibba vegna bloggs er hærra metið en líf og limir kvenna sem beittar eru ofbeldi.
Konur í valdastöðum eru fleiri og frjálsari en fyrr.
Víða um heim hafa konur enga möguleika á að komast í valdastöður, ekki einu sinnni til mennta. Fjármálaheimurinn er nánast kvenmannslaus í kulda og trekki (þótt vitað sé að fyrirtæki sem konur stjórna taka minni áhættu og fari síður á hausinn, áminning í ótíðinni) og menn hiksta á þeim möguleika að kjósa konu í valdamesta pólitíska embætti heims.
Launabilið milli karla og kvenna hefur minnkað.
Launabilið milli karla og kvenna (óútskýrður launamunur) er enn til!
Enn ein kosninganóttin - áfram Hillary (ég er farin að sofa)!
5.3.2008 | 02:31
Ég lagði mig í dag, þrátt fyrir annríki, til að vera betur undir enn eina forkosninganóttina búin, en syfjan sækir á þannig að sennilega læt ég duga að rumska við fimm-fréttirnar. Það er hvort sem er búið að segja það þráfaldlega að þótt annað hvort Clinton eða Obama ynnu öll fylki sem eftir eru endi þetta allt hjá superdelegates, sem annað veifið eru talin standaa með Hillary og hitt augnablikið sögð tækifærissinnar. Vona samt að Hillary hafi erindi sem erfiði núna, Ohio virðist vera OK, en smá örvænting komin í Obama-liðið út af veðráttu og lokun (og enduropnun) kjörstaða.
Þótt ég sé enn á því að báðir kostir demókrata séu góðir, þá er ég miklu vonbetri um að Hillary valtri yfir McCain heldur er Obama. Svo mörgu ósvarað varðandi baráttuna framundan hvað hann varðar. Samt held ég að þau muni bæði hafa McCain og það er auðvitað fyrir mest. En áfram Hillary!
Sigríður Lillý Baldursdóttir hefur tekið við forstöðu Tryggingastofnunar og boðar breytingar. Allir sem þekkja eitthvað til þess kerfis í lífeyrismálum sem aldraðir þurfa að búa við vita að það er illskiljanlegt og ekkert sérlega réttlátt. Eitt sinn lenti ég í ríkisskipaðri nefnd sem vann hörðum höndum (launalaust) að því að skilgreina vandann, fékk ótal sérfræðinga á sinn fund og lognaðist síðan útaf með fullt af fróðleik og möguleika á tillögum í rétta átt, en ekkert gerðist. Sennilega hefur skort pólitískan vilja eða áhuga. Þetta er ekkert óleysanlegt verk, en það er svolítið flókið, og ég veit að Sigríður Lillý hefur bæði burði og vit til að láta ekki mata sig á neinu rugli. Forsendurnar sem hún gefur á því kerfi sem hún vill sjá eru sáraeinfaldar og góðar: Kerfið verði einfaldara og réttlátara en nú er. Það þarf í rauninni ekki aðra sýn en þessa og dug til að hrinda því í framkvæmd sem hægt er að gera. Þar er hún hins vegar uppá pólitíkusana komin og vonandi að þeir taki góðum rökum.
Á Kanarí er mikið um ellilífeyrisþega og þegar talið berst að óréttlæti og furðum í samskiptum þeirra við Tryggingastofnun er eins og bresti stífla og reynslusögurnar um alls konar dellu eru margar. Sumt af þessu hefði eflaust mátt fyrirbyggja með skýrari upplýsingagjöf og einfaldara og réttlátara kerfi. Gangi Sigríði Lillý vel í sínu mikilvæga starfi.
Áhrifaleysi smærri ríkja í ESB fer vaxandi - bendi á góða grein um málið
25.2.2008 | 00:02
Næsta barátta verður miklu skemmtilegri - og skiptir miklu, miklu, miklu, miklu meira máli
24.2.2008 | 17:24
Ennþá í þykkri fýlu út af Eurovision framlaginu okkar, tel að við höfum orðið af góðum kosti og jafnvel góðum kostum. Hélt alveg innilega með Silvíu Nótt og enn meira með laginu hans Svenna og hörkuflutningi Eiríks Hauks. En nú bíð ég bara eftir að Ho, ho, ho lagið verði heimsfrægt en öll Eurovision lögin gleymist. Fræðilegur möguleiki.
En það er önnur og mun mikilvægari keppi í gangi. Keppnin um næsta forseta Bandaríkjanna. Mikilvægast af öllu, og sem betur fer mjög líklegt, er að demókrati sigri næst. Ég held afskaplega einlæglega með Hillary Clinton, vil endilega sjá hana halda áfram með góða heilbrigðiskerfisbreytingar í Bandaríkjunum. Treysti henni líka vel í umhverfismálum, sem er auðvitað rosalega mikilvægt málefni og allur heimurinn bíður eftir breytingum í Bandaríkjunum. Hún hefur rosalega reynslu og hefur mikla möguleika á að vinna sínum hugsjónum brautargengi. Obama er mun meira óskrifað blað, en samt er ég alveg tilbúin að sjá hann í forystu baráttunnar, og efast ekki um að hann muni fá þann stuðning sem hann þarf vinni hann forkosningakapphlaupið.
Það er mjög heillandi að fylgjast með þessari baráttu og enn meira spennandi verður að fylgjast með forsetakosningunum síðla næsta haust.
Jose Ramos Horta á batavegi - tilræðið tókst sem betur fer ekki
21.2.2008 | 12:24
Glitnir og Þorsteinn Már sýna lit ...
20.2.2008 | 22:03
Jose Ramos Horta
11.2.2008 | 19:01