Kranar, málmur og fleira - ekki í ljósi kranavísitölunnar

Svo vill til að í kringum mig er óvenju mikið af krönum, þessum stóru og ógnvænlegu sem saman mynda hinar illræmdu kranavísitölur. Stundum fæ ég óbeinar skammir þegar ég birti mína daglegu Esjumynd (þegar skyggni leyfir). Það er þá af því að í forgrunni eru kranarnir á byggingasvæðinu fyrir framan vinnuna mína í Kópavogi. Þessum skömmum er reyndar oftast beint að samfélaginu, stjórnmálamönnunum, verktökunum, hruninu, minningunum um hrunið, framkvæmdum almennt og auðvitað er smá uggur í ljósi sam-íslensku reynslunnar. Sama umræða er hafin af fullum krafti varðandi miðbæjarsvæðið sem nú er komið í uppbyggingu hér á Álftanesi.

2023-05-10_02-14-47

Hrunið kom illa við mig beint og persónulega, eins og flesta Íslendinga. Slapp samt mjög vel miðað við marga aðra efnaminni sem máttu við litlu og ég tali ekki um þessa vellauðugu sem ,,töpuðu" svo háum fjárhæðum að ég kann ekki enn að telja núllin. Vorkenni síðarnefnda hópnum auðvitað ekki neitt. Samt finnst mér stundum að ég megi ekki taka myndir þar sem krönum bregður fyrir. 

Það var þess vegna mjög hressandi þegar náfrænka mín (sem ég þekki allt of lítið) búsett erlendis alla sína tíð, setti komment við Esju-kranamynd og sagðist hreinlega vera hrifin af krönum, og sama segði systir hennar. Það rann upp fyrir mér ljós. Mér finnast kranar nefnilega líka heillandi á sinn hátt.

Hef bara alls ekki viljað viðurkenna það. Þegar ég reyni, af mannúðarástæðum, að hafa ekki of mikið af krönum á Esju-myndunum mínum og taka ekki of mikið af kranamyndum í erlendum borgum, þá er það aðallega vegna félagslegs þrýstings.

unnamed (1)

Til að bíta hausinn af skömminni, þá get ég hér upplýst að ung heillaðist ég mjög af tröllafjölskyldunum sem ganga um umhverfi Ljósafossvirkjunar rétt hjá Kvenskátaskólanum á Úlfljótsvatni, þar sem ég var nokkur sumur. Það er að segja hinum fordæmdu háspennumöstrum. Nú má ekki misskilja mig svo að ég vilji ekki leggja línur í jörð á viðkvæmum stöðum, auðvitað vil ég það, en það breytir því ekki að þessi form heilla mig. Svo mjög reyndar að á einni sýningunni minni stillti ég einu slíku upp eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. Verð að viðurkenna að ég fékk smá skömm í hattinn fyrir það. Tek skýrt fram að ég hefði engin áform um að drita háspennumöstrum eftir öllum skýjabreiðum sem ég sé, þótt ég hefði það vald. Það er hins vegar ekki vel tekið í það þegar ég dett í bernskunostalgíu á 2. holu á Urriðavelli, þar sem möstrin blasa við. Og talandi um bernskubrek, Hegrinn, Kolakraninn við rætur Arnarhóls, var heillandi strúktúr í mínu barnsminni. https://timarit.is/page/1390469#page/n10/mode/2up

1196879064_aabc639a31_b

Ekki nóg með það, í glæpasögunni minni nr. 2, Óvissu, gerist hluti af lokaköflunum við háskalegar aðstæður í byggingakrana í miðbæ Reykjavíkur.

unnamed (2)

Elsku besta Hamborgin mín, hvað einkennir hafnarsvæðið þar? Kranar, auðvitað. Skemmtisiglingar um hafnarsvæði grunsamlega margar undanfarin ár, Rotterdam, Amsterdam, Hamborg, Seattle, London ... 

 

 


Euro-visnandi

Mun gera mitt allra besta til að fyllast brennandi áhuga á Eurovision. Elskaði Húsavíkurkvikmyndina og einkum framlag tengdasonar Árna Péturs (þetta skilja sumir).  Enn er tími til stefnu. Eitt klikkar aldrei, atkvæðagreiðslan! Ábyggilega heldur ekki hárgreiðslan, á einhverjum. Fyrir nokkrum árum vann ég á ýktasta Eurovision-vinnustað landsins, þótt við værum varla fleiri en svona 15-20 þá var æðið tekið alla leið. Við kunnum kannski ekki alltaf lögin sem við studdum (skiptum þeim með okkur), en þessi rosalega stemning var eftirminnileg. 

10312662_10203774225414546_5607071056060119334_n (2)

Kom fleiri vor í heimsókn og bæði stórflottar móttökur og mikið stuð. Þessa vinnufélaga hitti ég reyndar á UT-messunni í febrúar og var hálfpartinn búin að bjóða mér í stuðið í vor, en kemst ekki vegna annríkis, svona er það stundum. Óska Diljá góðs gengis, Langa Sela og Skuggunum til hamingju með sérlega skemmtilega endurkomu.

10173519_10203774225494548_7469714509156333963_n

Þekkti Loreen aftur þegar lögin runnu óeftirminnilega framhjá innan úr stofu og tók eftir að hún komst áfram. Mun gera mitt besta til að kveikja áhugann og auðvitað gaman að heyra í Bítlunum, þetta er nú Liverpool sem heldur hátíðina fyrir Úkraínu í ár. Vona innilega að fá að fylgjast með hátíðinni frá Kænugarði innan fárra ára. Og auk þess legg ég til besta Eurovision-lag allra ára, danska lagið frá 1963. Þá var ég ekki orðin ellefu ára og ekkert sjónvarp á Íslandi, svo Óskalög sjúklinga liggja undir grun að hafa kynnt það fyrir mér. Dansevise, gjörið svo vel!

https://www.youtube.com/watch?v=FX36uz-OUSs

Og megi Eurovision aldrei visna. 

 

 


Landasafnarar, álfusafnarar og: How do you like Portales?

Mér finnst allaf gaman að lesa viðtöl við víðförult fólk. Sumir virðast hreinlega gera út að ,,safna" löndum eða heimsálfum. Aðrir hafa átt erindi mjög víða. Þótt ég hafi verið svo lánsöm að geta ferðast út um hvippinn og hvappinn, tvö stök rúmlega mánaðarlöng ferðalög vega þar þyngst, þá er ég afleitur landasafnari. Kannski hefur ein dagsferð flokkast undir að ,,bæta landi í safnið" og hún var ekkert sérstaklega áhugaverð. Bara ágæt. Þá vorum við mamma í Singapore, lógískur áfanga- og hvíldarstaður á leið til Möggu frænku á Nýja-Sjálandi. Dvöldum þar í fimm daga og þegar mamma sá að boðið var upp á dagsferð yfir landamærin til Malasíu (Johor Bahru) þá leist báðum okkur vel á það. Ágætis leiðsögumaður, gaman að sjá hvernig mjólkin rann út gúmmítrénu sem við vorum teymd að, leist ekkert illa á borgina, sem ég sé nú að er mikil menningarborg skv. gúggli. Við urðum ekkert sérlega varar við það. Dagsferð er dagsferð og ég hef farið í margar áhugaverðari.

unnamed (1)

En áhugi minn hafði vaknað á Singapore, hverfaskiptingunni þar eftir trúarbrögðum (áberandi alla vega þá, um 1990) einkum hverfinu sem við vorum í sem skartaði fallegri mosku við endann á götunni sem lá upp frá hótelinu okkar. Þannig að þegar ég átti aftur leið um Asíu nokkrum árum síðar, valdi ég að skoða Singapore betur í stað þess að bæta löndum ,,í safnið" og gerði það, á leið, aftur til Möggu frænku og síðan á 8 daga ráðstefnu í Ástralíu. 

unnamed (2)

Mitt flökkueðli dregur mig stundum á nýjar slóðir, hægt og bítandi, en ég sæki líka mjög í að fara aftur (og aftur) á staði sem toga sérstaklega í mig, og ekki alltaf af sömu ástæðu. Þannig hef ég komið óeðilega oft til Portales í Nýju Mexíkó, af því þar átti ég systur, árum saman. Þegar íbúar Portales (alla vega aðfluttir kennarar við háskólann þar) spyrja þig: How do you like Portales? þá eru þeir ekki að fiska eftir svörum sem Íslendingar eru vilja fá  við hinni sígildu spurningu: How do you like Iceland? Nei, þvert á móti. Þarna er nefnilega almenn kurteisi að svara: Einstaklega óáhugaverður bær, ekkert að sjá, fátt að gerast. Sumir mundu bæta við: 12 kristileg skólasamtök við sömu götu. Bærinn er í jaðri biblíubeltisins, og alls engin Santa Fe, sem talin er áhugaverðusta borg Nýju-Mexíkó með sínar Santa-Fe bláu hurðir og gullfallegu hús og landslag. Mér finnst Portales samt bara fínn bær, eitt gott kaffihús, þar fékk ég líka æðislegt taco á bílaverkstæði og gönguleiðir (ekki gangstéttir samt) góðar. Veðrátta oftast góð. 

218188_1056101601222_833_n

Staðirnir sem toga í mig reglubundið eru elsku London mín, sem ég hef heimsótt ótal sinnum, Hamborg, sem ég kynntist seint af viti, en tók ástfóstri við og heimsótti árlega eftir að ég bjó þar lungann úr árinu 2015, Seattle sem mér finnst skemmtilegust þeirra amerísku borga sem ég hef komið til og Evrópa suður- mið- og austanverð, en þangað fór ég í viðburðaríka ferð þegar ég var 22 ára þegar þetta voru kommúnistaríki og hræbillegt að ferðast þar um með réttan stúdentapassa. Hef notað hvert tækifæri til að heimsækja löndin aftur (sem hefur reyndar fjölgað eftir hrun Sovétsins). Amsterdam er að stimpla sig inn, enda tíðari ferðir þangað eftir að sonur okkar fluttist þangað. Jú, og svo auðvitað fjölskyldufrí á Gran Canaria, sem voru árviss viðburður í næstum áratug. 

Þegar ég tek þátt í leikjum á Facebook, þar sem ég merki á landakort til hvaða landa ég hef farið vantar áberandi mikið inn. Landmassann í Rússlandi og gervalla Suður-Ameríku. Hvort tveggja svæðið hefði ég hæglega getað verið búin að ,,afgreiða" ef ég stæði mig í stykkinu sem landa- og álfusafnari. Læt öðrum það eftir, ofar á listanum hjá mér er að koma til annarra staða sem toga mig meira, aðallega gamalla, en líka nýrra ef guð lofar. 

https://tomi5.github.io/interactive_visited_countries_map/

 


Uppgerðar skoðanir og annað af svipuðu tagi

Þegar verið var að kljást um bjórmálið forðum, meðal annars á þingi, blandaðist ég aðeins, óvart, inn í þá atburðarás. Án þess að rekja það í smáatriðum, enda svolítið flókið, þá var mér sagt það blákalt og í óspurðum fréttum að ég væri á móti bjórnum. Þar sem ég sat nú við kaffiborðið þar sem mér voru sagðar þessar fréttir, og glotti, mótmælti önnur manneskja því, réttilega, fyrir mína hönd. Upphófst nokkuð karp um það, og hafði manneskjan, sem var viss um að ég væri bjórandstæðingur, betur, þar til ég skarst í leikinn og sagðist vera hlynnt bjórnum. ,,Af hverju vissi ég það ekki?" spurði viðkomandi forviða. ,,Þú hefðir kannski átt að spyrja mig," svaraði ég. Um þessar mundir sá ég um ritstjórn og blaðamennsku fyrir ýmis félagasamtök, meðal annars SÁÁ, og þar var enginn misskilningur á ferðinni, heldur voru gerðar skipulagsbreytingar á SÁÁ-blaðinu sem skrifuðu mig út úr því handriti. Svo ég fórnaði meira að segja skemmtilegu verkefni fyrir bjórinn. Hafði þó fullan skilning á afstöðunni en það haggaði ekki minni skoðun. 

Þegar ég var í Cordóba fyrr á árinu var spánskur félagi okkar Íslendinganna, virðulegur eldri maður, að segja mér að ég þyrfti alls ekki að vera svona hógvær og feimin eins og ég væri. Hmm, það má vel vera að ég hafi einhvern tíma verið bæði hógvær og feimin, en það hefur elst vel af mér. Reyndi að segja honum það, en hann sat við sinn keip. Daginn eftir þennan fræðslupistil sem hann færði mér alveg frítt, vildi svo til að við vorum í sameiginlegri skoðunarferð um fornleifasvæði með fínasta leiðsögutæki um hálsinn. Nema hvað ég var búin að stilla vel á rétta, enskumælandi rás og setja á réttan hljóðstyrk þegar hann kom askvaðandi og ætlaði að fara að stilla þetta allt saman ,,fyrir mig". Alveg ósjálfrátt sló ég á fingurna á honum áður en þeir náðu að klófesta leiðsöguhálsmenið mitt. Það var alveg dásamlegt að sjá hvað blessaður maðurinn hrökk í kút. Held hann trúi því núna að ég sé ekki beint feimin.

335078214_928969771565715_7299436930915457062_n

Skömmu eftir heimkomuna kom upp faglegur ágreiningur milli mín og annars aðila, eins og gengur. Það var í sjálfu sér bara eitthvað sem getur gerst, en mér fannst ákveðinn óheiðarleiki í vinnubrögðum í málinu. Þá var mér sagt að það væri fullur skilningur á því að ég væri frústreruð út af þessu. ,,Frústreruð?" sagði ég og var fljót að leiðrétta málið. ,,Ekki frústreruð, bara reið." 

Mér þætti gaman að vita hvort karlmenn lendi oft í svona stöðu? Að einhver segi blákalt fyrir framan þá hvaða skoðun þeir hafa á ákveðnum málum. Jú, ég hef reyndar séð vandræðalegt dæmi um slíkt en þá var það dómadags frekur nemandi (karlkyns) sem ákvað að útskýra fyrir okkur samnemendum hvað óvenju kurteisi kennarinn (líka karlkyns) hefði í rauninni verið að segja í kennslustundinni sem var nánast á enda. Einhverjar aldraðar frænkur mínar gætu líka hafa verið eins handóðar og roskni Spánverjinn í Cordóba. En þegar ég máta þær inn í svona aðstæður sé ég ekki betur en að þær tækju það frekar út á börnum og gamalmennum en miðaldra, hvítum karlmönnum. Og nýjasta dæmið, um frústrasjónina, sé það engan veginn fyrir mér að karlmanni sé tilkynnt að hann njóti fulls skilnings á því að vera frústreraður. Alveg sama hversu frústreraður hann kynni nú annars að vera.

Þessar svipmyndir gamlar og nýjar hafa skotið upp kollinum hjá mér af og til að undanförnu, og hvað er þá betra en að varpa þessum vangaveltum yfir til ykkar, kæru lesendur?

 


Forréttindi að fæðast í flókna fjölskyldu

Fyrst: Ofstuðlunin í fyrirsögninni er viljandi og kórrétt. Ekki meira um það.

Held að ég sé fædd inn í óvenju flókna fjölskyldu. Við sem hittumst í kaffi í gær, eins og við gerum stundum, vorum auðvitað bara að spjalla ofurvenjulega saman. Litla systir sagði stóru systur frá einhverju um móðursystur hennar (stóru systur) sem er einnig móðursystir frænku hennar (stóru systur, en ekki okkar hinna) en hún (frænkan) var einmitt með okkur á kaffihúsinu. Móðursystir þeirra frænkna (sem eru fæddar 1949) er aftur á móti fædd sama ár og litla systir (1965). Ég sagði þeim að Kristján bróðir hans Georgs bróður hefði verið að spyrjast fyrir um mynd, sem ég var þegar búin að lofa frænku okkar í Danmörku. 

En þetta er bara sýnishorn úr föðurfjölskyldunni. Ég er vön að gera grein fyrir mér, ef fólk er eitthvað að ruglast á mínum fjölskylduhögum, með því að segja, réttilega, að ég sé einkabarn í móðurætt og af mið-hjónabandi beggja foreldra, sem er rétt. Núna þegar ég og minn góði eiginmaður höfum búið saman í 48 ár held ég að hann sé alveg hættur að kynna sig sem fyrsta eiginmann minn, sem hann vissulega er þó. 

Mér finnst alltaf besta lýsingin á móðurfólkinu mínu þegar ég var að skila kveðju til frænku minnar, sem ég nánast bjó hjá á unglingsárum og ólst upp með sonum hennar, sem fyrst voru heimagangar á mínu heimili, flestir, en síðan fékk ég gott athvarf hjá þeim í miðbænum þegar ég var að koma af böllum (sem gat verið upp í 4 kvöld í viku) þegar ég var í menntó og að byrja í háskóla. Skólasystir mín í sagnfræðinni bað fyrir góðar kveðjur til þessarar frænku minnar en hún var ekki alveg að kveikja strax. Svo fattaði hún auðvitað, já, hún, hún er systir seinni konu fyrri mannsins míns, indælis kona! 

Ekkert af þessu væri samt gott nema vegna þeirra yndislegu ákvörðunar foreldra minna að halda góðu sambandi áfram eftir skilnaðinn. Þeirra næstu makar voru sannarlega ekki síðri. Mamma giftist fóstra mínum sem hafði beðið eftir henni meðan hún gifti sig í tvígang og þau áttu farsæl 45 ár saman. Pabbi giftist góðri konu sem var mér einstaklega góð og taldi það ekki eftir sér að hafa mig á heimilinu hluta úr sumri meðan þau bjuggu á Seyðisfirði, en það voru mikil sæluár, því miður féll hún frá allt of ung og pabbi líka. Hann var líka heimsins besti sunnudagspabbi þegar hann var í því hlutverki og leyfði mér að klifra upp í vita og leika mér að ritvélum og reikninvélum þegar ég fór með honum á skrifstofuna hans. Golfskálinn í Öskjuhlíð og heimsóknir okkar þangað voru líka nóg til að ég ákvað að gerast golfari á efri árum. Öll töluðu þau foreldrar mínir mjög vel hvert um annað. Ég vissi ekki þá, en veit það nú, að það er ekkert sjálfgefið að svo sé. Ekki voru allir í fjölskyldunni jafn heppnir og ég.

1385185_10202358444060897_1870412648_n (1) - Copy

Mamma hélt góðu sambandi við föðurfólkið mitt eftir að hún skildi við pabba eftir sjö ára hjónaband og ég gat gengið út og inn hjá föðursystur okkar sem þekkti mig betur en margir, því hún færði mér alltaf kaffi, ost og ostaskera (ekkert kex eða brauð, sko!) þegar ég kom í heimsókn, sem var býsna oft. Eina manneskjan sem þekkti mig svo vel. Hjá henni fékk ég oftar hvalkjöt í matinn en heima (þar sem það var þó ekki óþekkt) og furðu vel matreitt. 

Var aðeins að reyna að útskýra fyrir danskri náfrænku minni (bræðradætur) eitthvað um fjölskylduna okkar, en við ætlum að hittast núna um helgina í Kaupmannahöfn. Sendi henni auðvitað skipuritið sem ég útbjó fyrir Jónsmessusýningu Grósku, líklega 2019. Sem bara rétt dekkar okkur systkinin fjögur og okkar fjölskylduþræði. En við spjöllum betur á laugardaginn.

Hana hef ég ekki hitt síðan við fórum ásamt fleiri ungum ættingjum í þriggja stunda reiðtúr frá Hrísbrú í Mosfellsdal, upp að Tröllafossi og niður með honum (það var þá sem ég var komin fram á eyru á hestinum, en ég held að Salli frændi og fararstjórinn hafi verið þeir sem toguðu mig aftur á réttan stað). Þetta hefur verið 1964 eða 1965, ég var alla vega ca. 12 ára og Pia frænka árinu yngri. Hún segir að þetta hafi verið reiðtúr ævinnar fyrir hana og fannst björtu kvöldin hreinasta ævintýri, mig minnir að þetta hafi verið snemmsumars. 

Ykkur finnst textinn kannski óþarflega ruglingslegur. Þið ættuð þá að sjá fjölskylduna. 

Vor í Kaupmannahöfn framundan og kannski kynnist ég fleiri fjölskylduflækjum. 

 unnamed78 (2) 

 


Skotin í Skotlandi - minningar - en svolítið langt síðan seinast

Önnur utanlandsferðin mín, sú sem kom næst á eftir hálfs árs dvöl okkar mömmu og ömmu í Andalúsíu heilum sjö árum fyrr, var til Skotlands. Það var fermingarferðin mín, átti að vera í staðinn fyrir veislu(r) en reyndist viðbót við ótrúlega fjörleg veisluhöld sem ég hef gert skil í öðrum pistli.

Skotland var ekki áfangastaður af tilviljun, heldur hvorki meira né minna en staðurinn þar sem mamma kynntist Ólafi fóstra mínu, þriðja eiginmanni sínum og þeim eina sem ég fékk að velja. Við vorum báðar sammála um að það hefði verið vel valið. Ólafur var kominn vel yfir tvítugt og var við nám í Edinborgarháskóla og mamma unglingur á fínum kvennaskóla, St. Denis, þar sem var bæði kuldi og matarskortur á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Hún bjó hjá Gunnu Watson, vinkonu ömmu, í fríum, en eyddi öllum stundum sem hún gat heima bjá Sigursteini Magnússyni konsúl í Edinborg, og þangað komu allir íslensku stúdentarnir við hvert tækifæri. Magnús (Bússi) Magnússon sonur hans átti eftir að afla sér frægðar gegnum þáttinn Mastermind síðar og dóttir hans, blaðakonan Sally Magnússon hefur líka vakið athygli fyrir sín skrif. En það gerðist seinna. 

IMG_5371 (2)

Mamma var fyrst í Glasgow og sótti kúrsa í Glasgow School of Art og gerði það nógu gott til að vera boðin skólavist ef hún héldi áfram, en amma og afi ákváðu að hún ætti að fara til Edinborgar til Gunnu og Alisters og það varð úr. Hún var mjög ósátt við það, en átti ekki annarra kosta völ. Mögulega voru skólagjöldin í Glasgow of há (það var kenning mömmu), þótt amma og afi væru ágætlega stæð voru þau að byggja sér hús í Faxaskjóli þegar þetta var. En hún var líka bara 15-16 ára. Ólafur úskrifaðist frá Edinborgarháskóla sem náttúrufræðingur og sneri aftur til Íslands og þá var mamma orðin eldri, svo hann gat boðið henni á stúdentaböll, en svo kom að því að hún giftist fyrri eiginmönnum sínum og Ólafur bara hinkraði við eftir henni. 

utskriftEdin (2)

Við litum við í skólanum í Glasgow fermingarferðinni minni, haustið 1966, en þar var fátt að gerast svona snemma hausts, þótt andi MacIntosh svifi óneitanlega yfir vötnunum. Svo ég var drifin í verslunarleiðangur í Sauchiehall Street og fataði mig upp með fancy fötum þegar sixties tískan var í algleymingi, áður en hippatískan hélt innreið sína. Síðan var haldið til Edinborgar með viðkomu í einhverjum köldum köstulum og þótt ég ætti síðar eftir að nema sagnfræði er ég mjög kræsin á kastala og kann alls ekki að meta þá alla. Edinborgardvölin var ótrúlega skemmtileg. Edinborgarkastali, já óhjákvæmlega, eins Scott Monument, lofthrædda ég elska að fara upp í turna. Svo hittum við Hermann Pálsson skólabróður Ólafs fóstra míns, sem þá hafði verið háskólakennari þarna í 16 ár og átti alla sína starfsævi í Edinborg. Þá fór að vera virkilega gaman. Um hádegisbil fór hann með okkur á gamlan pöbb á horni í lítilli brekku og gömlu húsi. Þar var ekki margt fólks, við fengum okkur eitthvert snarl sem var eins og barmatur bara allt í lagi. Þarna var líka grannvaxinn gamall karl (hefur áreiðanlega verið vel yfir fimmtugt) og lét lítið yfir sér. Ja, þangað til hann greip nærstaddan kúst og fór að dansa við hann eftir lágværri bakgrunnstónlist. Svona listavel, margir snúningar og kústurinn lét vel að stjórn. Svo kláraðist lagið, hann skilaði kústinum, hneigði sig kursteislega og hélt áfram að drekka bjórinn sinn, eða hvað það nú var sem hann var með í glasinu. Ekkert okkar sagði orð, það átti ekki við.

skotlandsferd

Næst fórum við að heimsækja vinafjölskyldu í Aberdeen, the Harways. Þau bjuggu aðeins fyrir utan borgina, áttu einhvern slatta af börnum (ekki eins mörg og önnur vinafjölskylda sem gisti með börnin sín 8-9 hjá okkur um svipað leyti á leið frá Ameríku til Englands). Tvær voru á mínum aldri, Ayliffe (sama nafn og Ólafur, sem var nafn fóstra míns, héldu þau fram), hún var árinu eldri en ég, Morwenna var árinu yngri og við áttum meira skap saman. Þær voru elstar og voru með risastórt háaloft til umráða og þar gisti ég. Húsið var mjög stórt, svolítið kalt á kvöldin en veðrið almennt gott þessa septemberdaga. Mér var boðið með í reiðtúr þegar uppgötvaðist að ég hafði gaman af hestamennsku og átti innkomu í reiðskólann og hestaleiguna á Bala hjá henni Heidi, sem var með hesta á beit ofan við húsið okkar. Bara að að klífa upp þennan risastóra hest sem mér var fenginn var afrek. Hann var illa hastur, og það virtist eiga við um hina hestana líka, því systurnar hossuðust ekkert minna en ég. Við fórum mest fetið um skógarstíga og þetta var hinn ljúfasti reiðtúr, en við fengum ekki að hleypa þessi klunnum neitt, rétt náðum smá brokki á beinu köflunum á stígunum, og varla það þó.

Við fórum líka á ballettsýningu hjá yngri systur þeirra, eins og fólk gerir þegar það heimsækir vini og ættingja. 

Næstu árin ferðaðist ég talsvert með Gullfossi og fannst alltaf dagsstoppið í Leith mjög heimilislegt, en þá var ég eldri, sjálfstæðari og búin að uppgötva Bítlana. hippaföt og búðaferðir. Reyndar kom Bítlarnir við sögu í þessari fyrstu Skotlandsferð minni, því á litla hótelinu okkar í Claremont Cresent, var þetta fína sjónvarp og þar uppgötvaði ég tónlistarvídeó úr Revolver sem var nýútkomin og varð alveg húkkt, einkum á Eleanor Rigby. 

Síðan hafa Skotlandsferðir mínar verið allt of fáar og stopular, en ég mun bæta úr því og pósta aðeins nýrri myndum, bráðum. 


Í framhaldi af blogginu um hvíslandi vatnslitamyndir, lofaði öskrandi

Bloggaði seinast um hvíslandi vatnslitamyndir og nefndi Emil Nolde sem andstæðu þeirra. Það var hann sem sannfærði mig um að vatnslitamyndir gætu öskrað. Mæli með að þið kíkið á sem flestar af ,,ómáluðu" myndunum hans, sem eru vatnslitamyndir sem tóku lítið pláss og hægt var að fela fyrir nasistunum á stríðstímanum. Þótt Nolde hefði sjálfur verið orðaður við þá stjórnmálastefnu, með réttu eða röngu, var þeim list hans ekki þóknanleg en hann bara ,,varð" að fá að halda áfram að skapa og gerði það á heimili sínu skammt frá landamærum Þýskalands og Danmerkur. Heimsókn í það hús opnaði fyrir mér nýjan heim. Það er svolítið úrleiðis, en vel heimsóknarinnar virði. Hér er hins vegar tengill á fróðleik til að byrja með:

Ómáluðu myndir Nolde.

 

Eftir að ég fór seinast að sinna vatnslit af römmustu alvöru, fyrir 3-4 árum, hef ég verið að vinna úr áhrifum úr ýmsum áttum og prófa mig áfram. Hér eru nokkrar myndir sem ég flokka undir meira öskrandi en hvíslandi: 

i286260064365824036._szw1280h1280_kattakaos 1 (3)

unnamed.golf


Að hvísla og öskra í vatnslit

Frá því ég tók upp þráðinn í vatnslitun fyrir rúmum þremur árum hef ég verið mjög forvitin um allt sem viðkemur þeirri tækni. Lengi vel bar ég einfaldlega of mikla lotningu fyrir tækninni til að hætta mér of langt út á þær brautir. Kannski var það þegar ég sá fyrst ,,ómáluðu myndirnar" (þær voru faldar fyrir yfirvöldum) sem Emil Nolde gerði á stríðsárunum, þegar honum var bannað að mála sínar óverðugu og litsterku myndir, sem ég íhugaði fyrst að kannski heillaði þessi tækni. Mér fannst vatnslitur fram til þess tíma vera svo brothætt tækni, eins og þynnsta postulín en þarna var kominn listamaður sem hikaði ekki við að öskra með litunum sínum. Seinna lærði ég að meta léttar og hálfpartinn hvíslandi myndir á borð við vatnslitamyndir Turners, sem mér fannst áður sterkari í olíunni. Undanfarin þrjú ár hef ég spreytt mig á hvoru tveggja, hvíslandi og öskrandi myndum og í stað þess að birta hér auðgúgglanlega, heimsfræga listamenn gef ég sýnishorn af hvíslandi myndum úr eigin safni. Hvíslandi myndirnar verða gjarnan til á kaffihúsum. Geymi þær öskrandi til betri tíma. 335336671_1511628772696075_6793422268081962496_n

unnamedfas (3)


Seinþreytt til vandræða, en ...

Hef líklega yfirleitt verið talin seinþreytt til vandræða. Eitt sinn gerði ákveðin manneskja mjög alvarlega á hlut minn og ég ákvað að setja á náttborðið minnismiða til að minna mig á að vera ekki að heilsa þessari manneskju með virktum ef við rækjumst saman, eins og ég hefði mögulega óvart gert annars. 

En það kemur fyrir að mér misbýður alvarlega. Sem betur fer er ég ekki (svo vitað sé) göldrótt, en það varð samt ástæða til smá athugasemdar á Facebook þegar ég gagnrýndi fyrirtæki sem sýnilega var að reyna að svindla á fólki, og það meira að segja staðsett í öldrunarblokk, þar sem mögulega voru einhverjir sem gátu illa séð í gegnum svindlið. Aðallega gagnrýndi ég þó getu- og eða viljaleysi þeirra aðila sem ég tilkynnti um svindlið til að taka á því (hjá fyrirtækinu). Tveimur eða þremur dögum eftir að ég setti mína gagnrýni á Facebook var tilkynnt í fjölmiðlum að fyrirtækið hefði farið á hausinn. Augljóslega átti ég engan þátt í því, en kannski voru sömu öfl sem stóðu fyrir svindlinu og komu fyrirtækinu á hausinn. Engu að síður fékk ég dásamlegt komment í tengslum við þetta, frá djúpvitri dóttur minni, eitthvað á þessa leið: Don´t mess with my mother, you might regret it! 

Lengi vel trúði ég því að það fyki bara í mig á svona fimm ára fresti, en mögulega er það eitthvað að breytast. Blessaðir yngri strákarnir í sveitinni minni urðu logandi hræddir þegar ég reiddist eitthvað þriðja sumarið sem ég var þar, mér sem fannst ég svo meinlaus. Einhverju sinni varð systir mín, sem þá var búsett erlendis, vitni að því að sýningarhaldari hafði/eða þóttist hafa týnt 2-3 málverkum eftir mig. Ég leit víst eitthvað hvasst á hann og sagði lágum rómi og sjálfsagt með samanbitnar tennur: Þú finnur þessar myndir! Hún sagði eftir á að hún hefði orðið hálf smeyk, en þetta dugði. Hann fór bakatil og sótti verkin og afhenti mér.

Þannig að ef þið haldið að ég sé meinleysisgrey, eins og ég lít út fyrir að vera, þá er það bara ykkar mál. En ég tek það fram að ég held ég eigi bara alls ekkert sökótt við ykkur, kæru lesendur. 


Þú ættir endilega að ,,láta" hann hlæja í útvarpið!

Þegar ég byrjaði í blaðamennsku og þáttagerð fyrir útvarp, rétt tæplega þrítug, fann ég vel fyrir því hvað margir höfðu sínar eigin hugmyndir um hvernig þætti ég ætti að gera. Þetta var heldur skárra þegar ég fór í pappírsblaðamennsku, þá var auðveldara að útfæra þær hugmyndir sem voru raunverulega bitastæðar á sinn hátt. Núna get ég hlegið að því, en mér var ekki hlátur í hug þegar manneskja mér nákomin vildi endilega að ég tæki blásaklausan, sameiginlegan vin í útvarpsviðtal af því hana langaði svo óskaplega að heyra dillandi hláturinn hans í útvarpi. Það var þrautin þyngri að finna undir hvaða yfirskini ég lokkaði hann í viðtal, en vegna velvilja í garð þessarar konu tókst mér loks að ná honum í viðtal í þætti um húsbyggingar og meiningin var að ,,láta" hann hlæja, enda var það verkefnið sem mér hafði verið falið. Hann var auðvitað gaddfreðinn í þessu viðtali og það seinasta sem honum hefði dottið  í hug þann daginn var að hlæja. Röddin kreist og kvalin og sama þótt ég hefði fundið alla heimsins fleti á því að gera listina að byggja að fyndnu útvarpsefni, vitnaði meira að segja í Gísla J. Ástþórsson, ekki tókst mér svo mikið sem að kreista fram bros (enda hefði það ekki sést í útvarpi). 

Lítið skárra var það þegar frændi minn vænn króaði tvo sæmilega þekkta karla af í lyftu í London þegar þar stóð yfir samveldisráðstefna. Hann gerði sér lítið fyrir og tók við þá óralöng viðtöl ,,handa mér" og afhenti mér síðan spólur með hátt í tveggja tíma efni, ómarkvissu og ekkert voðalega áhugaverðu. Fór í gegnum efnið með það fyrir augum að fylla í skörðin og skýra orð þeirra betur og samhengið sem Íslendingar þekktu ekki nema takmarkað. Þetta hefði getað orðið skítsæmilegur þáttur, en reyndist þegar til átti að taka mæta fullkomnu áhugaleysi hjá útvarpsfólkinu og þetta var í eina skiptið sem hugmyndum ,,mínum" að útvarpsþáttum var hafnað. Ég fékk náðarsamlegast að búa til 10 mínútna innskot í morgunþátt sem Páll Heiðar og Sigmar B. voru þá með á útvarpinu eina.  Hrikalega mikil vinna og afraksturinn að vísu alveg þokkalegur, en ég hefði aldrei í lífinu gert þetta að umfjöllunarefni ef ekki hefði verið fyrir ,,hjálpsemi" frænda míns. Þrátt fyrir skaðræðis gott uppeldi lærði ég fljótlega að segja nei og/eða humma svona sértækar hugmyndir ákveðið fram af mér.

Aftur á móti eru ábendingar, sem eru ekki svona sértækar, oft upphafið að stórskemmtilegum viðtölum og greinum, en æ, ekki biðja okkur um að ,,láta" einhvern hlæja í útvarp eða henda í okkur haug af óklipptu efni og segja okkur að gera úr því kraftaverk. Meira að segja komandi páskar geta ekki reddað því. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband