Skotin í Skotlandi - minningar - en svolítið langt síðan seinast

Önnur utanlandsferðin mín, sú sem kom næst á eftir hálfs árs dvöl okkar mömmu og ömmu í Andalúsíu heilum sjö árum fyrr, var til Skotlands. Það var fermingarferðin mín, átti að vera í staðinn fyrir veislu(r) en reyndist viðbót við ótrúlega fjörleg veisluhöld sem ég hef gert skil í öðrum pistli.

Skotland var ekki áfangastaður af tilviljun, heldur hvorki meira né minna en staðurinn þar sem mamma kynntist Ólafi fóstra mínu, þriðja eiginmanni sínum og þeim eina sem ég fékk að velja. Við vorum báðar sammála um að það hefði verið vel valið. Ólafur var kominn vel yfir tvítugt og var við nám í Edinborgarháskóla og mamma unglingur á fínum kvennaskóla, St. Denis, þar sem var bæði kuldi og matarskortur á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Hún bjó hjá Gunnu Watson, vinkonu ömmu, í fríum, en eyddi öllum stundum sem hún gat heima bjá Sigursteini Magnússyni konsúl í Edinborg, og þangað komu allir íslensku stúdentarnir við hvert tækifæri. Magnús (Bússi) Magnússon sonur hans átti eftir að afla sér frægðar gegnum þáttinn Mastermind síðar og dóttir hans, blaðakonan Sally Magnússon hefur líka vakið athygli fyrir sín skrif. En það gerðist seinna. 

IMG_5371 (2)

Mamma var fyrst í Glasgow og sótti kúrsa í Glasgow School of Art og gerði það nógu gott til að vera boðin skólavist ef hún héldi áfram, en amma og afi ákváðu að hún ætti að fara til Edinborgar til Gunnu og Alisters og það varð úr. Hún var mjög ósátt við það, en átti ekki annarra kosta völ. Mögulega voru skólagjöldin í Glasgow of há (það var kenning mömmu), þótt amma og afi væru ágætlega stæð voru þau að byggja sér hús í Faxaskjóli þegar þetta var. En hún var líka bara 15-16 ára. Ólafur úskrifaðist frá Edinborgarháskóla sem náttúrufræðingur og sneri aftur til Íslands og þá var mamma orðin eldri, svo hann gat boðið henni á stúdentaböll, en svo kom að því að hún giftist fyrri eiginmönnum sínum og Ólafur bara hinkraði við eftir henni. 

utskriftEdin (2)

Við litum við í skólanum í Glasgow fermingarferðinni minni, haustið 1966, en þar var fátt að gerast svona snemma hausts, þótt andi MacIntosh svifi óneitanlega yfir vötnunum. Svo ég var drifin í verslunarleiðangur í Sauchiehall Street og fataði mig upp með fancy fötum þegar sixties tískan var í algleymingi, áður en hippatískan hélt innreið sína. Síðan var haldið til Edinborgar með viðkomu í einhverjum köldum köstulum og þótt ég ætti síðar eftir að nema sagnfræði er ég mjög kræsin á kastala og kann alls ekki að meta þá alla. Edinborgardvölin var ótrúlega skemmtileg. Edinborgarkastali, já óhjákvæmlega, eins Scott Monument, lofthrædda ég elska að fara upp í turna. Svo hittum við Hermann Pálsson skólabróður Ólafs fóstra míns, sem þá hafði verið háskólakennari þarna í 16 ár og átti alla sína starfsævi í Edinborg. Þá fór að vera virkilega gaman. Um hádegisbil fór hann með okkur á gamlan pöbb á horni í lítilli brekku og gömlu húsi. Þar var ekki margt fólks, við fengum okkur eitthvert snarl sem var eins og barmatur bara allt í lagi. Þarna var líka grannvaxinn gamall karl (hefur áreiðanlega verið vel yfir fimmtugt) og lét lítið yfir sér. Ja, þangað til hann greip nærstaddan kúst og fór að dansa við hann eftir lágværri bakgrunnstónlist. Svona listavel, margir snúningar og kústurinn lét vel að stjórn. Svo kláraðist lagið, hann skilaði kústinum, hneigði sig kursteislega og hélt áfram að drekka bjórinn sinn, eða hvað það nú var sem hann var með í glasinu. Ekkert okkar sagði orð, það átti ekki við.

skotlandsferd

Næst fórum við að heimsækja vinafjölskyldu í Aberdeen, the Harways. Þau bjuggu aðeins fyrir utan borgina, áttu einhvern slatta af börnum (ekki eins mörg og önnur vinafjölskylda sem gisti með börnin sín 8-9 hjá okkur um svipað leyti á leið frá Ameríku til Englands). Tvær voru á mínum aldri, Ayliffe (sama nafn og Ólafur, sem var nafn fóstra míns, héldu þau fram), hún var árinu eldri en ég, Morwenna var árinu yngri og við áttum meira skap saman. Þær voru elstar og voru með risastórt háaloft til umráða og þar gisti ég. Húsið var mjög stórt, svolítið kalt á kvöldin en veðrið almennt gott þessa septemberdaga. Mér var boðið með í reiðtúr þegar uppgötvaðist að ég hafði gaman af hestamennsku og átti innkomu í reiðskólann og hestaleiguna á Bala hjá henni Heidi, sem var með hesta á beit ofan við húsið okkar. Bara að að klífa upp þennan risastóra hest sem mér var fenginn var afrek. Hann var illa hastur, og það virtist eiga við um hina hestana líka, því systurnar hossuðust ekkert minna en ég. Við fórum mest fetið um skógarstíga og þetta var hinn ljúfasti reiðtúr, en við fengum ekki að hleypa þessi klunnum neitt, rétt náðum smá brokki á beinu köflunum á stígunum, og varla það þó.

Við fórum líka á ballettsýningu hjá yngri systur þeirra, eins og fólk gerir þegar það heimsækir vini og ættingja. 

Næstu árin ferðaðist ég talsvert með Gullfossi og fannst alltaf dagsstoppið í Leith mjög heimilislegt, en þá var ég eldri, sjálfstæðari og búin að uppgötva Bítlana. hippaföt og búðaferðir. Reyndar kom Bítlarnir við sögu í þessari fyrstu Skotlandsferð minni, því á litla hótelinu okkar í Claremont Cresent, var þetta fína sjónvarp og þar uppgötvaði ég tónlistarvídeó úr Revolver sem var nýútkomin og varð alveg húkkt, einkum á Eleanor Rigby. 

Síðan hafa Skotlandsferðir mínar verið allt of fáar og stopular, en ég mun bæta úr því og pósta aðeins nýrri myndum, bráðum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband