Föstudagurinn laaaaaaaaaaaaaaaaangi framundan
5.4.2023 | 01:19
Við erum ekkert svo fá sem munum þá tíð þegar föstudagurinn langi var enn lengri en á seinustu árum. Þegar allt var lokað, ekkert mátti, alla vega alls ekki spila á spil, og fólk átti bara almennt að vera grafalvarlegt í bragði. Enn eimir eftir af þessari tilhneigingu, ég kynnti mér um daginn hvaða kaffihús, það er að segja þau sem selja almennilegt kaffi (!) væru opin á föstudaginn langa og það kom í ljós að ótrúlega mörg af mínum uppáhalds voru annað hvort lokuð eða skelltu í lás um miðjan morgun (kl. 16 til dæmis) þann dag.
Eins og margir Íslendingar er ég alls ekki trúlaus og kunni ýmislegt sem ég lærði forðum í sunnudagsskólanum sem Inga og Sjöfn vinkonur mínar sáu um að ég sækti. En viðurkenni fúslega ákveðið kæruleysi í trúnni og föstudagurinn langi var kannski helst svolítið trúarlegur eftir að Ólafur fóstri minn uppgötvaði Jesus Christ Superstar og spilaði alltaf á föstudaginn langa. Merkilegt, þar sem hann sýndi yfirleitt lítinn áhuga á tónlist þar fyrir utan.
Mig hlýtur að misminna að ég hafi einu sinni verið meðal læknanema í Debrecen yfir páska og annars árs nemar hafi átt að mæta til að æfa sig að kryfja lík einmitt á þessum fræga dánardegi, að vísu fyrir næstum 2000 árum (dánardægrið, ekki krufningin).
Þó verð ég að játa að einu sinni naut ég virkilega góðs af því hversu langur föstudagurinn langi var. Þá var ég hjá henni Sigrúnu Guðmundsdóttur í skúlptúrtímum í Myndlistaskólanum og ákveðið var að hittast til að steypa styttur kl. 11 á föstudaginn langa. Þetta var óralangur dagur, en svo vel vildi til að fermingarveisla Óla okkar hafði verið daginn áður, og þótt ég hefði svarið það að ég væri alveg fullfær um að sjá um veitingar að þessu sinni, þá treysti fjölskyldan mín því greinilega ekki og húsið fylltist af brauðtertum og alls konar góðgæti, ofan á vel ríflegan skammt sem ég hafði útbúið með talsverðu stolti. Það vildi nefnilega svo til, sex árum fyrr, að hún Hanna dóttir okkar (þá 9 ára gömul) sagði með áhyggjusvip: Mamma, þú veist að þú verður að ferma í næstu kosningabaráttu. Og það gekk eftir. Hún var fermd fjórum árum síðar og meira að segja upplýsingahópur Kvennalistans kom með kræsingar, en systur okkar Ara, Elísabet og Síví, áttu samt stærstan heiðurinn það árið og ég nánast ekki nokkurn. Svo það var kannski ekki skrýtið að plan B hefði verið virkjað þegar næsta ferming var yfirvofandi (þótt engar kosningar væru).
Við vorum allar, nemendur Sigrúnar, í fullri vinnu á þessum tíma og sumar gott betur, svo það kom sér vel að þessi tiltekni föstudagur var svona voðalega langur. Afgangarnir úr fermingarveislu 2 reyndust okkur heilladrjúgir þennan dag (ekkert sérlega mikið af kjötmeti, svo því sé haldið til haga) enda vorum við að framundir miðnætti og vorum orðnar hæfilega ruglaðar í lokin, þótt engar væru hættulegu gufurnar, eins og í sumri myndlist. Til dæmis fékk steinsteypta styttan sem ég er að slá utan af á myndinni nafnið Klara Mikk, í höfuðið á sænskri blöndu sem ég bar utan á hana af því henni var ætlaður staður utan dyra. (Væntanlega eitthvað Clara Mix, glær blanda, býst ég við). Aðallega notað á legsteina, sem okkur fannst vel við hæfi.
Komandi föstudag (langa) erum við tvær vinkonur frá þessum Myndlistarskólaárum að fara að hittast, já, það eru til uppáhaldskaffihús sem skella ekki á nefið á okkur um miðjan morgun.
Kæra Krít, taka 2
2.4.2023 | 17:50
Eins og fram hefur komið hér á síðunni hef ég tekið miklu ástfóstri við eyjuna Krít og fór þangað fjórum sinnum frá nóvember 2016 til júní 2020, þar af tókst mér einu sinni að fá Ara minn með. Fornleifarnar í Knossos hef ég skoðað í tvígang, í báðum tilfellum þegar fáir voru þar á ferli og tók góðum ráðum og fékk mér leiðsögn, hana Alexöndru í fyrra skiptið sem einkaleiðsögumann, en í seinna skiptið vorum við Ari í öðrum af tveimur, litlum hópum á svæðinu, þeim enskumælandi, en hinn var grískumælandi. Eins og mér finnst nú fallegt að skoða fornleifar þar sem málning fortíðarinnar hefur máðst út, þá er svolítið hressilegt að sjá að á Krít hafa menn ekki hikað við að endurmála hluta þeirra fornminja sem þar eru varðveittar, reyndar er varðveisluaðferðin rakin til Sir Arthur Evans, sem á mestan heiður á endurheimt Knossos að öðrum ólöstuðum fyrir rúmlega einni öld eða svo og hélt þar áfram verki fyrirrennara síns, Minos Kalikairinos, sem sjaldan er getið. Fann skemmtilega grein um málið, af því sagnfræðingurinn í mér vildi fá að vita aðeins meira en hún Alexandra sagði mér, sem var þó heilmargt.
https://www.khanacademy.org/humanities/ancient-art-civilizations/aegean-art1/minoan/a/conservation-vs-restoration-the-palace-at-knossos-crete
Það er ekkert ósennilegt að ég eigi eftir að blogga meira um Krít og vonandi að fara þangað enn einu sinni (tvisvar ... þrisvar ... ). Til dæmis uppgötvaði ég borgina Chania ekki strax, en dvaldi þar hjá henni Despoinu seinast þegar ég kom við á Krít, í vikunni eftir að ýmsum samkomutakmörkunum var aflétt þar, tímabundið auðvitað. Gamli bærinn er sérlega skemmtilegur og þar er fullt af stórfínum gististöðum, kaffihús á hverji horni og fallega, rómverska höfnin er umvafin ágætis veitingahúsum og skemmtilegu mannlífi, en við moskuna eru alls konar menningarviðburðir tíðir og þeir höfða meira til íbúanna sjálfra, sem leita í götu fyrir ofan hana þegar þeir fara sjálfir út að borða (og drekka). Þangað beindi hún Despoina mér auðvitað, þótt hún væri ekkert að dissa veitingahúsin við höfnina góðu, þar sem sjórinn er svo tær að fiskarnir næstum glápa á móti á túristana sem eiga leið þar hjá. Mér skilst að það geti orðið ansi heitt þarna stundum á sumrin, en ég hef undantekningarlaust verið í mjög þægilegu loftslagi í október/nóvember og maí/júní. Meira seinna, býst ég við :-)
Ekki snúin af glæpa(sagna)brautinni - hliðarspor og áframhald
1.4.2023 | 01:04
Vatnsliturinn hefur átt hug, hönd og hjarta þetta misserið, en ég er ekki hætt að hugsa (um glæpi). Þannig þróast mínar glæpasögur, í hausnum á mér. Þegar ég fór aftur í fasta vinnu eftir fjögurra ára eftirlaunatíma (sem var erilsamur í meira lagi) þá var ég langt komin með glæpasögu nr. 3, en hins vegar var nr. 2 ekki komin út og kom ekki formlega út fyrr en um mánaðarmótin maí/júní í fyrra. Hausinn á mér hefur nokkrum sinnum farið á yfirsnúning síðan, eins og gjarnan gerist þegar ég er að setja saman andstyggileg plott og hugsa einhver svikráð á glæpa(sagna)brautinni og tíminn frá útkomu síðustu bókar er engin undantekning. Hef haldið í við að skrá hjá mér allar vendingar á söguþræðinum og unnið í einstökum köflum en í augnablikinu er meira eftir óskrifað af þeirri sögu en var fyrir rúmu ári þegar ég henti mér aftur út á vinnumarkaðinn. Engin tilviljun að ég er ekki að fara í páskaflippsreisu í ár, eins og í fyrra (þegar ég fór til Rómar í annað sinn á hálfu ári). Fyrir utan fjölskyldusamveru er ég ,,bara" búin að skipuleggja að hitta tvær vinkonur, og á ekki nema tvær hálfkláraðar vatnslitamyndir sem gætu gripið hugann. Held samt að blessuð sagan mín fái að njóta páskanna að þessu sinni.
Annars hef ég alls ekki lifað eins glæpasnauðu lífi og ætlað mætti nú í vetur. Tók nefnilega hliðarspor og skellti mér í verkefni sem er glæpagáta sem þú, lesandi góður, getur nálgast í símanum þínum, væntanlega með vorinu. Þá er ætlunin að koma út allmörgum morðgátum og ég á eina þeirra, og vonandi sjáum við fólk hlaupandi með símana sína út um allar koppagrundir í leit að vísbendingum. Sá sem fékk mig til að taka þetta hliðarspor er sami maður og gaf út vel lukkað leiðsögukerfi fyrir snjallsíma, kringum.is og eftir samskiptum okkar að dæma veit hann svo sannarlega hvað hann er að gera á glæpa(appa)brautinni. Kápan sem hér er sýnd er ekkert endilega sú sem verður á minni glæpagátu þegar nær dregur formlegri útgáfu, en ég held að nafnið haldist. Alla vega nafnið á höfundinum :-) Leyfi ykkur blogglesendum mínum að fylgjast með.
Svo þegar útgefandinn minn góði, á pappírsglæpasögunum tveimur sem út hafa komið, kemur heim úr næstum árlegri langferð sinni, þá setjumst við sjálfsagt niður og plönum næstu skref. Hvort sem við ætlum að vera samferða áfram eða ekki. Ég er með ákveðnar hugmyndir og hann er alls ekki skyldugur til að vera sammála mér, það vitum við bæði, en fyrst þurfum við bara að ná að vera bæði á landinu á sama tíma. Með fullri virðingu fyrir fjarfundum og þess konar samskiptum, eru þetta mál sem mest gaman er að ræða saman yfir kaffibolla og meira að segja í há-covid, þegar hinar bækurnar mínar komu út, tókst okkur það. Bara spennandi, hvaða leið sem við veljum, mun áreiðanlega líka halda bloggvinum mínum upplýstum um þann hluta tilverunnar.
Samfélagsmiðlar og sýnileiki
29.3.2023 | 01:44
Það eru um það bil tuttugu ár síðan ég byrjaði að blogga, fyrst á blogspot. Nokkrum árum síðar færði ég mig hingað á Moggabloggið og var mjög iðin við að blogga fyrstu árin. Eftir að ég hætti í blaðamennskunni, nema sem frístundablaðamaður endrum og sinnum (og þá aðallega fyrir Læknablaðið), hafði ég óttalega þörf fyrir að skrifa um hitt og þetta, og bloggið hentaði mér vel. Svo kom fyrir að ég notaði bloggið til að vekja athygli á myndlistinni sem hefur fylgt mér alla tíð, en eitt vel virkt myndlistartímabil féll einmitt saman við fyrstu bloggárin mín.
Svo vel fann ég mig í blogginu að ég var einna seinust í fjölskyldunni að fara yfir á Facebook (FB). Var vinsamlegast bent á að ég væri að dragast afturúr ýmsum fjölskyldumeðlimum í þeim efnum. Auðvitað eigum við okkar staðföstu fulltrúa samfélagsmiðlaleysisins líka, skárra væri það nú. Facebook varð smátt og smátt aðalvettvangurinn á samfélagsmiðlum en ég hætti aldrei alveg að blogga. Snemma þessa árs íhugaði ég alvarlega að hætta á Facebook enda var ég komin með eitthvað um 1700 vini þar og þekkti kannski ekki nema helminginn og þar af ekkert mjög marga vel. Það hleypti góðu lífi í bloggþörfina, sem alltaf blundaði. Af praktískum ástæðum sneri ég þó aftur á Facebook, tengsl við ýmsa hópa og gamall vani réði þar mestu um, en með miklu færri FB-vini og talsvert minni virkni.
Þegar ég var í Córdoba um daginn var ég mikið spurð um hvað ég héti á Instagram og þurfti, ekki í fyrsta sinnið, að rifja það upp, því þann samfélagsmiðil hef ég ekki mikið notað, kannski álíka og Twitter og WhatsApp. Var þá upplýst um að myndlistarfólk notaði Instagram mjög mikið, svo ég fór að glugga og setja inn eina og eina færslu. Hafði reyndar stundum þegið að framsenda FB færslurnar mínar yfir á Instagram núna í seinni tíð. Þær eru allar á íslensku, en nú tók ég þá ákvörðun að nota Instagram sem enskumælandi samfélagsmiðlavettvanginn minn. Er að prófa mig áfram núna, enda sé ég að margir Íslendingar nota miðilinn á svipaðan hátt. Hér er ég sem sagt, með óskýra kynningarmynd úr Córdoba-ferðinni, til að tengja við fólkið sem ég hitti þar. https://www.instagram.com/annari19/
WhatsApp var reyndar í upphafi covid farvegur fyrir skemmtilega iðju. Þá datt ég inn í öflugan fjölþjóðlegan vatnslitahóp sem varð til í hjarta fyrsta covid-fársins í Evrópu, sem sagt á Norður-Ítalíu. Nokkrir öflugir myndlistarkennarar, meðal annarra formaður Vatnslitafélagsins okkar hér á landi, skiptust á að setja fyrir vikuleg verkefni, yfirleitt vatnslitaútfærslu af gömlum og nýjum olíumálverkum, og þetta birtist allt vikulega á sameiginlegum WhatsApp-þræði, án málalenginga. Mjög gaman að taka þátt í því, en það fjaraði út hjá mér alla vega á öðru ári framtaksins. En það var margt ansi skemmtilegt sem við glímdum við á þessu inniverutímabili, sem hitti einmitt á tímann meðan ég var á eftirlaunum og áður en ég byrjaði í núverandi vinnu. Eitt sýnishorn fær að fljóta með.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:52 | Slóð | Facebook
Erindi til Amsterdam
26.3.2023 | 19:49
Það má segja það sama um kynni mín af Amsterdam, þar til fyrir þremur árum, og kynni mín af Hamborg áður en ég fluttist þangað blómann úr árinu 2015, þar hafði ég alloft farið um en aldrei stoppað, fyrr en Óli sonur okkar Ara settist þar að snemma árs 2020. Síðan hef ég átt bæði mörg og góð erindi þangað og lært að meta þessa fallegu borg, ekki síst umhverfið í gamla miðbænum þar sem Óli okkar hefur búið nánast frá fyrstu vikum í borginni. Gatan hans er lítil, friðsæl en þó steinsnar frá iðandi mannlífi og skemmtilegum stöðum, söguríkjum og mannlífsauðugum. Út um svefnherbergisgluggann blasir við næsta síki og út um gólfsíðan stofuglubbann sem opna má í góðu veðri, sjást marga alda gömul hús eins og það sem hann býr í og þessi stórfíni, ítalski veitingastaður sem vissi ekki hvort hann væri opinn eða lokaður meðan covid-bylgjan reið yfir. Þarna er kvikmyndatökufólk stundum á ferli, því götumyndin er vel varðveitt og fýsileg til kvikmyndatöku.
Við höfum verið sæmilega dugleg að skoða list af ýmsu tagi, aðallega á söfnum, enda gnótt tækifæri til þess, siglt bæði í skipulegum ferðum og á eigin vegum á síkjunum og hafnarsvæðinu, þarna er til dæmis sail-inn pítsustaður, ekki ósvipuð sail-inn sjoppunni í Winterhude í Hamborg. Annað sem við höfum gert saman þegar ég hef lítið við í heimsókn, er að fara í einhver af ótal kvikmyndahúsum og því að þakka að stundum er ég búin að sjá kvikmyndir meðan þær eru enn á toppi vinsældanna, jafnvel stundum áður en þær koma heim til Íslands, sem ég hélt að væri liðin tíð. Líka fágætari myndir sem ekki eru á streymisveitum, og þessir leiðangrar hafa leitt okkur út um allt. Nýlega komin úr seinustu heimsókninni til Amsterdam og býst ekki við að fara þangað aftur fyrr en í júní þegar ég fer á vatnslitanámskeið (aftur hjá Alvaro Castagnet). Hef ekki verið mikið í útimálun í borginni enn, nema auðvitað á útikaffihúsum, þar sem ég tek gjarna upp blokkina mína og ferðasettið.
Áður en ég hætti (seinast) á eftirlaunum og fór að vinna venjulega vinnudaga rápaði ég út um alla borg meðan Óli var að vinna og fannst ég sífellt vera að finna nýjar og nýjar slóðir og gera nýjar uppgötvanir. Hlakka til að halda því áfram næst þegar ég fer á eftirlaun.
Lucian Freud - hendurnar og ættingjarnir - og pínulítið lærastutt
25.3.2023 | 02:34
Spánarferðin mín fyrr í mánuðinum ætlar að verða mér minnisstæð í meira lagi. Vegna beina flugsins til Madrid og ódrepandi áhuga ferðafélaga míns, Ragnars Hólm, á borginni fögru var Madrid fyrri áfangastaður okkar í ferðinni og sömuleiðis lokastopp. Ég reyndar breytti minni ferðaáætlun staðráðin í að taka enga sjansa vegna yfirvofandi (og skömmu síðar aflýstra) verkfalla, verkbanna og yfirvinnubanns sem einkum tók til flugvallarstarfsmanna. Til Córdoba ætlaði ég hvað sem tautaði og raulaði. Fór því fyrst og tímanlega til sonarins í Amsterdam í leiðinni og náði meira að segja afmælinu hans þar. Madrid var líka skemmtileg, þangað hafði ég ekki komið síðan við mamma gerðum þar stuttan stans haustið 1959. Þá fór ég í mína fyrstu flugferð, frá Malaga til Madrid. Gerðum stuttan stans í hrikalegum hausthita, sáum magnaða spánska dansa og ein áhorfenda á þeirri sýningu (þetta var um miðjan dag, sem eftir á að hyggja hljómar ekki rétt) fékk sólsting svo uppi varð fótur og fit, og mamma var áhyggjufull yfir því að ég hefði fengið snert af hinu sama, þrátt fyrir að ég ætti glæsilegan stráhatt. Kannski var hann niðurpakkaður í tösku. Svo tókum við lestina til Parísar og hittum þar Ólaf, sem ég hafði þá þegar valið sem þriðja eiginmann mömmu, en hann var nýkominn frá okkur eftir mánaðardvöl í Andalúsíunni góðu.
Og svo var ég aftur komin til Madridar. Í þetta sinn ákvað ég að fara mér ekki of geyst, fyrir utan bráðnauðsynleg ferðatöskukaup, eftir að mín, sem var full af litum, penslum, trönum og fleiru, varð óökufær, og smá eltinbgaleik við Bodysjoppur bæjarins lét ég mér duga að fara á tvö söfn, Thyssen og Reina Sofia, því nú skyldi Gurenica skoðuð, og það var líka gert. Á Thyssen er nú merkileg yfirlitssýning á verkum Lucian Freud, listamanns sem lengi hefur verið í miklum metum hjá mér. Hann málaði einmitt myndir af Thyssen þessum, 1981 og 1985. Þrátt fyrir það var það ekki fyrr en á þessari sýningu að ég gerði þá uppgötvun að fara að skoða sérstaklega hendurnar á fólkinu sem hann málaði. Ferðaðist milli stórbrotinna handa um alla sýninguna en missti ekki af myndunum í heild, nei, nei, alls ekki. En þessar hendur!
https://www.newyorker.com/magazine/2021/02/08/lucian-freud-and-the-truth-of-the-body
Við ferðafélagarnir vorum eitthvað að spjalla um ætterni Lucians, sem var barnabarn Sigmundar Freud og flutti með fjölskyldunni fyrir seinna stríð til London. Hann var fæddur 1933 og allt í einu rann það upp fyrir mér að líklega hefur Gagga Lund frænka mín þekkt hann sem barn, en hún þekkti alla fjölskyldu Sigmundar Freud vel á Lundúnarárum sínum.
Og svo mundi ég líka eftir alveg stórmerkilegu erindi Sophiu Freud, sem fædd var 1924, annars barnabarns Sigmundar, sem ég heyrði á alþjóðlegri draumaráðstefnu sem ég sótti sem blaðamaður í London 1989, hundkvefuð eins og núna. Sophie er nýlega látin í hárri elli, en hún var sálfélagsfræðingur þekkt meðal annars fyrir gagnrýna greiningu á sálgreiningarkenningum afa síns. Einhvern veginn skreppur heimurinn svolítið saman í svona tilfellum. Þrátt fyrir hundkvefið fannst mér gaman að hlusta á Sophie á sínum tíma, draumar voru auðvitað viðfang ráðstefnunnar sem við vorum á og afinn eyddi miklu púðri í þá. Það var sterkur feminiskur tónn í erindi Sophie, sem höfðaði mikið til mín. Og ég ætla að treysta því að Gagga frænka hafi þekkt hana líka á unglingsárum Sophie, það væri alla vega gaman. Nógu skemmtileg var hún við mig þegar ég man fyrst almennilega eftir henni en það var í Álfheimunum hjá pabba og Dolindu konu hans, og Gagga hafði sko kappnógan tíma til að spjalla við unglinginn mig, en það var einmitt í einni af nokkrum fermingarveislum sem mér áskotnuðust fermingarárið mitt. Eina sem setti mig aðeins út af laginu var þegar hún spurði mig á fínustu íslensku hvort ég væri lærastutt, hmmm, þar til ég mundi að stuttir kjólar eins og þá voru í tísku hétu á dönsku: lårkort. Þann vísdóm hafði ég sem betur fer tekið inn gegnum tímaritið Vi unge.
Heimurinn er lítill og samt svo stór.
https://www.washingtonpost.com/obituaries/2022/06/07/sophie-freud-granddaughter-psychoanalysis-dead/
Aratunga á Rarotonga
22.3.2023 | 15:50
Eyjan Rarotonga í Cook-eyjaklasanum í Suður-Kyrrahafi er alveg klárlega sérstakasti staðurinn sem ég hef komið til. Í heimsferðinni okkar mömmu 1989 á heimleið frá frá Nýja-Sjálandi, þar sem við heimsóttum Möggu frænku, gátum við valið hvort við stoppuðum þar í ca 40 mínútur eða viku. Svo tíðar voru ferðirnar þangað. Við völdum vikuna og sáum ekki eftir því, þótt við höfum ekki beinlínis lent þar í sólarferð, skúrir flesta daga nema þann fyrsta og þægilegur hiti kringum 30 gráðurnar. Sjórinn alveg yndislega mátulegur.
Þetta var einn þriggja áfangastaða á litlum eyjum í Suður-Kyrrahafi, lengsta stoppið og skemmtilegasta umhverfið. Eyjan er eiginlega bara eitt, frekar lítið fjall og smá láglendi í kring, um það liggur hringvegurinn sem er 33 km á lengd og þar fara allir sinna ferða á skellinöðrum, eða gerðu það þegar við vorum þar. Ég leigði eina slíka, en til að fá að nota hana þurfti ég að kaupa mér ökuskírteini, sem ég gerði auðvitað. Snattaði eftir nauðþurftum og fannst ég vera orðin heimamanneskja.
Okkur hafði verið sagt að það væri tvennt sem við ættum að gera, fá okkur ökuskírteini og fara í kirkju. Ekkert sérlega kirkjuræknar en þar sem það var einmitt kirkja við hliðina á gististaðnum okkar, The Edgewater Resort and Spa, gerðum við það á sunnudeginum. Komum reyndar og fórum á þriðjudegi (en lentum á Tahiti á mánudeginum á undan brottförinni frá Raró, og hefðum verið gistingarlaus síðari aðfaranótt þriðjudags ef ég hefði ekki fattað að við vorum að fara yfir daglínuna).
Kirkjan var fín og messan frjálsleg, konurnar mættu í sínu fínasta pússi með blómahattana sína, en það var eitt af því sem við áttum að taka eftir. Presturinn sagðist vera launaður eftir því sem honum gengi að halda uppi heilbrigðu unglingastarfi, ekki verra en hvað annað.
Trúboðarnir sem komu til Raró voru frjálslegri en margir þeirra sem fóru um nágrannaeyjar og voru með sama hátt og Þorkell Ljósvetningagoði, fólki var áfram heimilt að blóta í laumi, í þessu tilfelli var það að dansa sína heiðnu dansa, en hvergi í Suður-Kyrrahafi þykir dansmenntin betri. Þrátt fyrir dálítinn skort á samanburði get ég alveg staðfest það. Á Fiji voru það karlar sem sáu um dagsinn og hann alls ólíkur þessum, líka góður en bara ekki eins góður.
Hvorug okkar mömmu er gefin fyrir skordýr, en einhvern veginn lifuðum við þessa viku stórra skordýra af. Ég taldi mig vera lífvörð mömmu gagnvart kóngulóm, en þegar risastór kakkalakki flaug á mig undan símanum fyrsta kvöldið dró ég rúmið út á gólf og öll lök kyrfilega upp. Fljúgandi kakkalakkar, já! Og það sem meira er, þegar þeir fljúga þykir það, samkvæmt þjóðtrú Cook-eyjaskeggja, vita á rigningu, en daginn eftir fór einmitt að rigna.
Í höfuðborginni, Avarua, rakst ég á nokkurs konar ,,Aratungu" og mamma smellti auðvitað af mér mynd sem ég gat sýnt Ara mínum þegar heim var komið. Ekki var það nú verra.
Við sem höfum ferðast og lesið bækur þurfum aldrei að láta okkur leiðast, meira að segja ekki á síð-pestardögum, alltaf gott að grípa næstu minningu og stundum líka að setja hana á blogg.
Minningar frá Andalúsíu
20.3.2023 | 23:47
Nýkomin frá Andalúsíu og kynntist enn nýrri borg og nýrri hlið á þessum indæla hluta Spánar. Í þetta sinn Córdoba og lítillega nágrenninu.
Kynni mín af Andalúsíu ná langt aftur, hef eflaust verið eina sex ára barnið árið 1959 sem sigldi með saltfiskdalli frá Keflavík til Gíbraltar snemma árs til hálfs árs dvalar í Andalúsíu með mömmu sinni og ömmu. Við tókum á leigu tvö lítil raðhús í Torremolinos og þar með fjölgaði útlendingunum þar í bæ um meira en helming, en á pensjónatinu niðri í bæ bjó Ameríkani og í stærsta raðhúsinu við hliðina á húsinu okkar mömmu bjó þýskur rithöfundur. Í hans garði var lítil sundlaug og hann varaði okkur við að styggja hermenn og lögreglu enda var þetta á Franco-tímanum. Það var ekki fyrr en um haustið þegar við vorum að fara að farið var að byggja hótel og undirbúa þann mikla ferðaiðnaði sem hefur einkennt bæinn æ síðan. Ég eignaðist góða vinkonu, Carmen, sem var nokkrum árum eldri en ég og undi hag mínum vel í þessum litla bæ, ströndin á daginn og prófaði að fara á bak á asnanum á vegamótunum (við bjuggum ,,hinu megin við asnann").
Þótt bærinn okkar væri góður fannst mér enn meira gaman þegar við fórum til Malaga, en það gerðum við af og til. Mest spennandi fannst mér að fara á nautaat, en mamma las Andrésblöðin sem voru ætluð mér meðan á leiknum stóð. Hátindur dvalarinnar var hins vegar þegar við fórum til Granada og skoðuðum Alhambra-höllina fallegu og alla garðana. Mér fannst þessi minnisvarði um máratímann alveg stórkostlegur og yfir höfuð spennandi að heyra um þetta sérstaka ríki máranna á Pyreneuskaganum.
Síðan hef ég nokkuð oft komið til Spánar, en ekki aftur til Andalúsíu fyrr en við Ari fórum til Sevilla síðla árs 2015. Það var verulega skemmtileg ferð og við skoðuðum allt sem við gátum á þessum 4-5 dögum sem ferðin varði. Þremur árum síðar skrapp ég í skottúr til Torremolinos og Malaga, en hélt þá aðallega til norðar á Spáni. Stóðst ekki mátið að skjótast og það var virkilega gaman, ekki margt en þó ekki ekkert sem ég þekkti frá fyrri tíð. Malaga hefur ekki breyst neitt rosalega, ég sá meira að segja hvar við höfuðum farið á nautaatið forðum, og turninn í Torremolinos stendur enn og gamla aðalgatan er (rétt) þekkjanleg.
Þegar ljóst var að ég væri á leið til Córdoba á stóra vatnslitasýningu og -hátíð núna í þessum mánuði var ég yfir mig spennt að sjá þessa borg sem virtist ekki síðra minnismerki um máramenninguna en Granada. Það reyndist rétt vera og ég verð áreiðanlega í vikur eða mánuði að vinna úr öllum þeim áhrifum sem ég tók inn á tæpri viku í þessari sögufrægu menningarborg. Sýningin sjálf var haldin í Palacio de la Merced, sem er að stofni til frá því snemma á 13. öld en hefur tekið miklum breytingum og er núverandi bygging talin frá 1752.
Við fórum meðal annars á merkilegt fornleifasvæði, Medina Azahara, þar sem verið er að grafa upp stjórnsýsluborgina frá 10. öld, rétt utan við Córdoba. Saga máranna í Córdoba nær aftur til 711 og ríki þeirra emíra og kalífadæmi er eldra en það sem síðar reis í Granada. Annars á ég gríðarlega margt eftir ólesið um þessa merkilegu sögu og eins og svo oft þegar ég kem á merkilegar söguslóðir, þá bæti ég smátt og smátt í sarpinn og tengi við eigin myndir og minningar.
Það var líka gaman að skoða moskuna stóru sem breytt hefur verið í dómkirkju, að mér skilst einstök endurnýting, þótt mér finnist einhvern veginn að það hljóti að finnast fleiri dæmi. Þarf að fara að lesa skrif Örnólfs Árnasonar betur um Andalúsíu, með þessa nýju upplifun í farteskinu, og svo ótal margt fleira.
Einu sinni sagnfræðingur, ávallt sagnfræðingur, því sagan er svo stór og sagnfræðin sem kennd er bara brotabrotabrot af öllu því sem hægt er að kynna sér.
Seinsta bloggið mitt fjallaði um alþjóðlegu vatnslitahátíðina sem ég var á leið á í Córdoba á Spáni. Hún var á vegum IWS - International Watercolor Society. Leit fyrst og fremst á hana sem sýningu og tækifæri til að kynnast öðru listafólki sem fæst við vatnslitamálun. Gaf því lítinn gaum að þetta var líka alþjóðleg vatnslitasamkeppni, enn síður átti ég von á að hreppa verlaun, en var í öðru sæti þegar upp var staðið. Mætti á verðlaunaafhendinguna af því ég mætti einfaldlega á alla viðburði sem ég komst á. Viðurkenni suð fyrir eyrum og hálfgert að hafa dottið úr sambandi þegar ég heyrði kynninn bögglast á litla, sæta, íslenska nafninu mínu og sá myndina mína og nafnið (óbrenglað en stytt) uppi á skjánum.
Það var ekki um að villast, þetta var veruleiki. Þetta var mjög metnaðarfull hátíð og ég var búin að sjá gríðarlega sterk og góð verk þarna, en sýnendur voru 212 frá 42 löndum. Þannig að þetta kom mér einfaldlega alveg í opna skjöldu. Tókst þó að halda skammlausa þakkarræðu sem var jafnóðum þýdd á spönsku eins og allt efni hátíðarinnar, sem stóð í heila viku (hátíðin, ekki ræðan) og þar af með virkri og efnismikilli dagskrá síðustu fjóra dagana. Vönduð sýningarskrá var býsna þung í farangri á heimleiðinni en verður skoðuð í þaula og sýnir breidd og gæði sýningarinnar. Enginn efi á því að ég mun fjalla meira um þetta ævintýri á blogginu mínu, en mér finnst ég vera nýlent, kom heim í nótt um Madrid.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook
Á leið á alþjóðlega vatnslitasýningu í Córdoba á Spáni í næstu viku
1.3.2023 | 16:42
Í dag legg ég upp í ferðalag sem ég hef hlakkað talsvert til að fara í. Leiðin liggur til Córdoba á Spáni með stuttri viðkomu í Madrid og ögn lengri í Amsterdam að heilsa upp á son minn sem hefur verið búsettur þar síðastliðin þrjú ár, en svo vill til að hann á afmæli á laugardaginn.
Þegar auglýst var á FB-síðu Vatnslitafélagsins eftir umsóknum í þátttöku í þessari sýningu, þá fannst ég mér einmitt eiga réttu myndina á sýninguna. Það reyndist rétt vera, því hún var tekin inn og hana sendi ég á undan mér fyrir margt löngu (eins gott að hún hafi skilað sér).
Þetta er heil hátíð, stendur í næstu viku og að minnsta kosti þrír leiðangrar í útimálun með fólk alls staðar að úr heiminum. Spáin hvort góð né vond, ennþá.
Mun láta í mér heyra hér um þetta ævintýri, ef tími vinnst til. Þangað til, myndband af því sem framundan er.
Alþjóðlega vatnslitasýningin í Córdoba