Ungverjalands- og Rúmeníumyndir á Facebook

Þá er ég komin með fullt af myndum á Facebook úr Ungverjalandsferðinni og þar eru líka innan um myndir frá því við skruppum til Rúmeníu á fimmtudaginn var. Hægt að henda inn talsverðu magni í einu (án þess að setja í zip-fæl, sem ég er ekki hrifin af). Samt ætla ég að reyna að setja nokkrar inn í viðbót á bloggið, en það er talsvert seinlegra. Þannig að þið sem eruð með Facebook getið skoðað myndir þar.

Endurvinnsluæði

Skrýtið að koma heim. Þegar ég fór hafði ég verið í stanslausri keyrslu í margar vikur, ef ekki mánuði. Svo nokkrum klukkutímum eftir að þeirri keyrslu lauk var ég komin upp í flugvél og farin til Ungverjalands í ferð sem tók 23 daga og um leið og ég kom heim fór ég upp i sumarbústað (eftir nokkurra klukkutíma svefn). Núna þegar ég er allt í einu komin heim þá sé ég að ýmislegt hefur setið á hakanum og margt má fara í endurvinnslu. Byrjaði á að ráðast á fataskápa og búin að fylla 2 poka sem mega fara til Hjálpræðishersins og vonandi munu einhverjir njóta gömlu fatanna minna. Á nokkur erindi í bæinn, meðal annars að sækja útskriftarskírteinið mitt, sem er bara skemmtileg skylda. Svo vona ég að mér endist móðurinn og hendi þeim pappír sem ekki er hægt að endurnýta hér heima út í gám með kvöldinu. Það er gagnlegt að fara aðeins frá, þá sér maður svo vel hvað má laga og af nógu að taka á heimili á nettu byggingastigi.

Búdapest - Borgarfjörður - myndir á leiðinni ... (trúi því varla að það sé hálka á Mýrdalssandi)

Það var gaman í Búdapest í gær en nú er ég komin upp í Borgarfjörðinn og horfi á himneska fjallasýn og jöklana mína fimm. Þessi fjölbreytni í tilverunni á óneitanlega vel við mig. Nú ætla ég að fara að henda inn í myndum og láta það malla á meðan ég gríp í vinnu eða hendi mér út á vindsæng ef sólin ákveður að vera hérna hjá mér. Meira fljótlega (held ég).

Heyrði í útvarpinu áðan að það vær snjókoma og hálka á Mýrdalssandi. Trúi því varla, en ég er komin heim!

Hér er fyrsta myndin, við mæðgurnar á kastalahæðinni í Búdapest í gær:

Mæðgurnar á kastalahæðinni í Búdapest í gær


19. júní til hamingju allar konur, til hamingju með afmælið, mamma, til hamingju með prófið Hanna og frábær ferð til Hortobágy og Rúmeníu, það síðastnefnda eftir hálf fjögur í dag

Mikill hátíðisdagur. Sól og blíða. Fór að heiman um ellefu leytið í morgun, eftir að hafa vaknaði snemma í morgunsólina á svölunum. Hitti Hönnu niðri í bæ og við fórum og sóttum bíl á bílaleigu, sem við ætlum að nota til að koma okkur til Budapest í flug og rúnta um þangað til. En fyrst skyldi bíða eftir einkunnunum hennar Hönnu í einu erfiðasta prófinu hennar og því seinasta sem hún tekur í þessari törn. Einkunnir áttu að koma um tvö-leytið (hér er einkunnum sko skila samdægurs, hvað sem tautar og raular), en það dregst yfirleitt. Prófið gekk vel, þannig að einn erfiðasti áfanginn er að baki núna.

Þannig að um hálf fjögur-leytið lögðum við í'ann, fórum fyrst til Hortobagy, sem er lítið þorp hér rétt hjá með landsfrægum markaði, þangað sem fólk kemur alla leið frá Budapest, sem er í þriggja tíma fjarlægð. Hann stóð svo sannarlega undir væntingum og þarna er besta gúllassúpan á svæðinu, spilað fallega á fiðlu, kontrabassa og eitthvert ásláttarhljóðfæri undir. Reyni að henda inn smá videóskoti, ef það hefur heppnast, svo og myndum. Svo var farið til baka hingað til Debrecen og í smá bíltúr (eftir hálfsex) til Rúmeníu, hún er hér innan seilingar. Tókum smá hring inn í landið, stoppuðum svo sem ekkert að þessu sinni, heldur tók ég myndir í gríð og erg út um gluggann, sumar eflaust frekar lélegar. Náði engri af flísalögðu húsunum, sem eru samt mjög flott, það var farið að skyggja of mikið þegar við renndum í gegnum þau þorp og ekki mikið af þessum húsum, en þau eru flott.

Núna á eftir ætlum við að hringja úr tölvusímanum hennar Hönnu (enn betra system en Skype) í mömmu og óska henni til hamingju með afmælið. Hún er svo góð að eiga afmæli á kvenréttindadaginn!


Obama verður vonandi næsti forseti Bandaríkjanna - en Hillary hefur miklu víðari skírskotun

Það er talsvert áhyggjuefni að sjá að forskot Obama á McCain skuli ekki vera meira. Þetta var þó fyrirsjáanlegt, því allar kannanir hafa sýnt að Hillary hefur miklu víðari skírskotun til kjósenda en Obama og hennar kjósendur eru augljóslega ekki að skila sér til Obama, ekki enn að minnsta kosti. Eflaust munu margir reyna að klína þessu ástandi á þá staðreynd að Hillary gafst ekki fyrr upp en hún gerði í baráttu demókrata, og sjálfsagt á það einhvern þátt í þessum litla mun, en það er nokkuð ljóst að hér er á ferðinni ,,þetta sagði ég ykkur" dæmi, það voru margir búnir að benda á þetta mál. Vera má að hörundsliturinn hafi eitthvað að segja, en þó sýnist mér á ýmsu að konur eigi enn erfiðara uppdráttar en Bandaríkjamenn af afrískum uppruna, eins og Obama, fyrst demókratar hölluðu sér að karlmanninum í baráttunni í hita leiksins. En Hillary á líka traust fylgi sem hún hefur byggt upp á löngum tíma og það fylgi hefði skilað sér á kjörstað og ekki yfirgefið hana. Verkalýðsstéttin í Bandaríkjunum er tryggir kjósendur og hún átti vænan skerf af henni. Lausafylgi Obama mun vonandi skila sér vel, en allar kannanir hafa sýnt að hans fylgi er úr þjóðfélagshópum sem ekki eru traustir kjósendur. Hann nýtur lýðhylli og sú hylli er svolítið hverful. Nú vona ég að Obama beri gæfu til að velja Hillary sem varaforsetaefni og að hún sætti sig við þá stöðu. Saman yrðu þau ósigrandi, jafnvel þótt hún væri í varaforsetasætinu.


mbl.is Obama hefur naumt forskot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver vegur að heiman er vegurinn heim - og við förum ekki um Transylvaníu að þessu sinni

Þá erum við mæðgur búnar að fastsetja heimferð um næstu helgi. Margir, og sumir fyndnir, ferðakostir í stöðunni. Fyrir utan þá augljósu sem doHop og vefir íslensku flugfélaganna, sem of lággjaldaflugfélaganna sem fljúga hingað, fundust margir fyndnir og spennandi kostir. Sá sem mér fannst um tíma einna mest heillandi var að fara þriggja stunda ferð í austur en ekki vestur (sem er líka þriggja stunda ferð, til Budapest) til borgarinnar Cluj, sem er höfuðborg Transylvaníu í Rúmeníu. Fljúga síðan þaðan til Kölnar og svo nokkuð beint heim. Eftir smá íhugun tókum við annan álíka ódýran kost (þessir voru þeir ódýrustu) og fljúgum ,,bara" um Budapest og Köln. Samt var hugmyndin (sem dóttir mín kom með) góð. Við fundum hins vegar út að það voru allmargir óvissu- og óþægindaþættir sem gerðu þennan valkost ekki eins spennandi eftir mikla próflotu. En það má alltaf láta sér detta í hug að nýta þessa hugmynd síðar, það er að segja ef Germanwings halda áfram að fljúga bæði til Cluj og Reykjavíkur.

Ég verð svo sem ekki búin að vera lengi að heiman að þessu sinni, bara rétt rúmar þrjár vikur, en sem betur fer er mín saknað heima, og eflaust er Hönnu enn meira saknað, því hún hefur þó verið hér linnulítið síðan 2. janúar, ef frá er talinn skreppitúr heim í apríl, sem kom í stað janúar/febrúarfrísins sem hún sleppti. Auðvitað var fólk árum saman burtu hér einu sinni, en þá átti það líka bara tvenna skó og fór í bað einu sinni í viku. Við lifum hreinlega í gerbreyttum heimi, og ég er afskaplega ánægð með að hafa fæðst núna en ekki á einhverjum öðrum tíma, nema ég verð að viðurkenna að ég er svolítið ,,svag" fyrir árunum milli 1920-1930, en þá hefði ég samt pantað að vera til í umhverfi sem bauð upp á fremstu þeirra tíma þægindi, svo sem upphituð hús og heitt vatn, það var til á þeim tíma. Fyrir svona kuldaskræfu eins og mig er það kostur.

Og hver vegur að heiman er víst vegurinn heim fyrir flesta. Flýg ekki um mína heittelskuðu London núna, það gerir ekkert til, átti góðan dag þar á frameftirleiðinni og er ekki alveg búin með ,,halwa" skammtinn minn. Einhvern tíma seinna fljúgum við kannski til eða frá Transylvaníu, en það er svo sem ekki loku fyrir það skotið að ég komi við í Rúmeníu áður en ég fer heim. Viðurkenni auðvitað aldrei að ég sé að ,,safna" löndum, en ef ég kæmi þar við, þá yrði það nýtt land ...


17. júní í Ungverjalandi

Lítið er um hátíðarhöld meðal námsmanna hér í Ungverjalandi, prófatörnin í geysilegu hámarki, margir illa stressaðir og ekki vert að reyna að halda upp á daginn nema í mesta lagi með því að hafa eitthvað gott í matinn. Svona er líf íslensku læknastúdentanna hér og gaman að taka þátt í því þótt maður sleppi stressinu.

Nú er erfitt að hugsa ekki um ísbjörn

Þótt maður sé í öðru landi þá er ekki hægt annað en fylgjast grannt með örlögum ísbjarnarins. Og enn rifjast upp fyrir mér gömul saga um Tolstoy (sem ég held ég hafi áður birt á blogginu):

Þegar Tolstoy var lítill drengur stofnaði hann leynifélag ásamt bróður sínum. Inntökuskilyrðin voru að standa úti í horni í hálftíma og hugsa ekki um ísbjörn.


mbl.is Reynt að ná birninum lifandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn sem ætlaði að verða Færeyingur þegar hann yrði stór hafði rétt fyrir sér

Gamall vinur minn sagði gjarnan að hann ætlaði að verða Færeyingur þegar hann yrði stór. Mér sýnist að hann hafi haft nokkuð til síns máls, þetta eru greinilega fyrirmyndar flugfarþegar og skapgóðir með afbrigðum. Það er ólíkt betra að leggja upp í langa ferð í góðu skapi en að hafa allt á hornum sér, eða drekka sig í óminni, eins og leiðinleg dæmi eru um. Gaman að sjá þessa frétt.
mbl.is Stigu hringdans í flugstöðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjustu myndir frá Ungó - meira af rauðu

Búin að setja nokkrar myndir í viðbót í albúmið (óþarflega seinlegt, held þetta sé ekki bara tengingin, tölvan og stærð myndanna). En alla vega, ég þarf að játa á mig fleiri rauðar syndir, ekki Nú er það rautt!eins krassandi þó og það hljómar. Ég gersamlega féll fyrir ofurrauðum skóm þegar ég kom hingað fyrir rúmum tveimur vikum og fékk mér á endanum fallega hörblússu við þá, en svo þegar ég fór að skoða þá betur þá fannst mér þeir einum of glannalegir. Svo ég fékk mér bara ódýrar espadrillur við blússuna sem ég keypti við skóna.

Næst þegar ég skoðaði skóna féll ég aftur, gersamlega, fyrir þeim. Þannig að þið sjáið afraksturinn hér. Taskan er hins vegar hafin yfir alla gagnrýni (geri ég ráð fyrir).

 

 

 

 

 Hanna og Sara á fallegum pizzustaðHanna og Sara á pizzustað sem við fórum á í hádeginu um daginn. Staðurinn getur engan veginn ákveðið sig hvort hann vill vera spánskur, ítalskur eða grískur. Alla vega ekki ungverskur.

 

 

 

 

 

Sara og Toni með tvíburana Kolbein og ÞorsteinÞetta hádegi kom Toni, maðurinn hennar Söru, með tvíburana þeirra, þá Kolbein og Þorstein, til að þeir fengju að hitta mömmu sína í björtu svona einu sinni til tilbreytingar. Svona er stúdentalífið hér. Hún les ýmist hér hjá okkur eða uppi í skóla, og sama má segja um Hönnu, les þó meira hér heima.

 

 

 

 Endalaust ný sjónarhorn á torginu í DebrecenÞegar sólin skín hvað skærast er gaman að fara niður í bæ dagspart, líka góður göngutúr, svona hátt í hálftíma gangur þangað niðureftir. Þetta er eitt af mörgum sjónarhornum á aðaltorginu.

 

 

 

 

 

Turnar á húsum algengir í Debrecen

Mest erum við svo hér heima á fimmtu hæðinni, þar sem útsýni er til norðurs (áleiðis til Úkraínu) og austurs (þar sem örugglega sæist til Rúmenínu ef skyggnið væri viðlíka og á Íslandi, sem það er ekki). Hér er urmull af húsum með turnum eins og voru á gömlu Uppsölum sem voru á horninu á Túngötu og Aðalstræti, á móti Herkastalanum og er nú nýbygging í anda gamla hússins. Í þeim turni lék ég mér sem lítil stelpa, því mamma átti íbúðina og þarna var stofan okkar. Man ekki mikið eftir mér þar, en gaman að sjá öll þessu hús með alla þessa turna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband