Hver vegur að heiman er vegurinn heim - og við förum ekki um Transylvaníu að þessu sinni

Þá erum við mæðgur búnar að fastsetja heimferð um næstu helgi. Margir, og sumir fyndnir, ferðakostir í stöðunni. Fyrir utan þá augljósu sem doHop og vefir íslensku flugfélaganna, sem of lággjaldaflugfélaganna sem fljúga hingað, fundust margir fyndnir og spennandi kostir. Sá sem mér fannst um tíma einna mest heillandi var að fara þriggja stunda ferð í austur en ekki vestur (sem er líka þriggja stunda ferð, til Budapest) til borgarinnar Cluj, sem er höfuðborg Transylvaníu í Rúmeníu. Fljúga síðan þaðan til Kölnar og svo nokkuð beint heim. Eftir smá íhugun tókum við annan álíka ódýran kost (þessir voru þeir ódýrustu) og fljúgum ,,bara" um Budapest og Köln. Samt var hugmyndin (sem dóttir mín kom með) góð. Við fundum hins vegar út að það voru allmargir óvissu- og óþægindaþættir sem gerðu þennan valkost ekki eins spennandi eftir mikla próflotu. En það má alltaf láta sér detta í hug að nýta þessa hugmynd síðar, það er að segja ef Germanwings halda áfram að fljúga bæði til Cluj og Reykjavíkur.

Ég verð svo sem ekki búin að vera lengi að heiman að þessu sinni, bara rétt rúmar þrjár vikur, en sem betur fer er mín saknað heima, og eflaust er Hönnu enn meira saknað, því hún hefur þó verið hér linnulítið síðan 2. janúar, ef frá er talinn skreppitúr heim í apríl, sem kom í stað janúar/febrúarfrísins sem hún sleppti. Auðvitað var fólk árum saman burtu hér einu sinni, en þá átti það líka bara tvenna skó og fór í bað einu sinni í viku. Við lifum hreinlega í gerbreyttum heimi, og ég er afskaplega ánægð með að hafa fæðst núna en ekki á einhverjum öðrum tíma, nema ég verð að viðurkenna að ég er svolítið ,,svag" fyrir árunum milli 1920-1930, en þá hefði ég samt pantað að vera til í umhverfi sem bauð upp á fremstu þeirra tíma þægindi, svo sem upphituð hús og heitt vatn, það var til á þeim tíma. Fyrir svona kuldaskræfu eins og mig er það kostur.

Og hver vegur að heiman er víst vegurinn heim fyrir flesta. Flýg ekki um mína heittelskuðu London núna, það gerir ekkert til, átti góðan dag þar á frameftirleiðinni og er ekki alveg búin með ,,halwa" skammtinn minn. Einhvern tíma seinna fljúgum við kannski til eða frá Transylvaníu, en það er svo sem ekki loku fyrir það skotið að ég komi við í Rúmeníu áður en ég fer heim. Viðurkenni auðvitað aldrei að ég sé að ,,safna" löndum, en ef ég kæmi þar við, þá yrði það nýtt land ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Aha, ekki minnkar áhuginn þá. Fór einmitt að heimsækja Tang vinkonu mína til Cambrigde í fyrra og komst þá að því að þessi fallega háskólaborg er Silicon Valley Englands. Áhugavert.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 18.6.2008 kl. 14:58

2 Smámynd: TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.

Fyrirgefðu Anna ég er svo vitus

TARA ÓLA/GUÐMUNDSD., 21.6.2008 kl. 01:20

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Tara mín, þú ert ekki viltlaus!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.6.2008 kl. 14:19

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband