Hvað var ég að hugsa? Uppfærsla á fréttum um Clapton og Borgarfjörð

Þegar ég var búin að taka endanlega ákvörðun um að það myndi alls, alls ekki henta mér á fara á Clapton, og setja hugrenningar þar um á bloggið mitt, svona svo ég tryði því sjálf, þá heyrði ég svolítið á Rás 2 (hjá Heiðu, sem er bara ágætis útvarpsmanneskja). Upptalningu á lögunum sem hann ætlar að spila. Og hugurinn fór á fullt, gott ef tárin voru ekki farin að laumast í hvarmana, ég hringdi nokkur símtöl í heimilismeðlimi (sem bera ekki eins sterkar tilfinningar til þessarar tónlistar og ég, eða viðurkenna það ekki) og niðurstaðan er sú: AUÐVITAÐ FER ÉG Á CLAPTON - þótt það henti mér alls ekki á þessum tíma, margt sem veldur, þá veit ég bara ekki hvað ég var að hugsa! En alla vega, við förum þrjú úr fjölskyldunni á þessa eðaltónleika, ég kem héðan úr sveitinni, það verður bara að hafa það, sumir leggja á sig lengri ferðir, og það er ekki helsta fyrirstaðan. En ekki orð um það meir!

 

Það hellirigndi þegar ég fór úr bænum, dró heldur úr úrkomunni þegar ég kom í Mosó, dropaði í Borgarnesi en hér í Gljúfraborg hafði ekki komið dropi úr lofti. Núna er úrkoman komin hingað og ég vona að litlu, sætu blágresisfræin mín kunni að meta það. Mamma varð að samferða mér í bæinn og fullyrti að henni þætti rigningin bara góð. Reyndi að vera eins fljót og ég gat að útrétta (nýr straumbreytir breytti gamla prentaranum mínum sem er kominn upp í sumarbústað í tryllitæki á nýjan leik, en þetta fæst ekki á hverju horni).


Haldið á nýjan leik í sveitina til að kafna ekki í framkvæmdagleði - og smá mórall yfir Clapton

Þá er tími til kominn að halda aftur í Borgarfjörðinn minn, hér heima sóa ég tíma í framkvæmdir og mannleg samskipti, og það dugar ekki til lengdar ;-) Nú er komin í mig fiðringur að taka aðra törn í verkefnunum sem ég er með í vinnslu. Búin að afgreiða það sem ég þurfti hér í bænum, blessunarlega, í bili alla vega.

Smá mórall í mér út af því að skrópa á Clapton, mér finnst nánast skyldumæting, en ég er hins vegar alls ekki í neinu stuði fyrir stórtónleika núna. Ýmislegt sem veldur og þarf ekki að skýra það fyrir alþjóð (nema ég finni hjá mér brennandi þörf fyrir það, sem er fjarri því að vera reyndin). Þannig er nú það.


Verslunarmannahelgi í góðum gír og smávegis í anda Karate kid

Gott að heyra að verslunarmannahelgin fór betur fram en oft áður og kynferðisbrotum fækkaði verulega, en eitt er of mikið, samt sem áður, vona að við fáum einhvern tíma að heyra af verslunarmannahelgi (og öðrum tilefnum) án nokkurs slíks ósóma. Heyri líka í fréttum að sá árangur sem nú hefur náðst sé þakkaður miklum áróðri gegn nauðgunum og get ekki annað en þakkað þeim sem hafa beitt sér í þeim málum. Svo finnst mér líka gott að heyra að Akureyringum tókst, með Möggu Blöndal í broddi fylkingar, að snúa Einni með öllu upp í mun indælli hátíð en síðastliðin ár. Óli minn var á Akureyri um helgina með karlahópi feministafélagsins og dreifði áróðri gegn kynferðisofbeldi og lét vel af dvölinni fyrir norðan og viðtökunum.

Heimilismeðlimir, sem heima voru um helgina, gerðust útipúkar þegar veður gafst og héldu áfram að mála húsið, skafa glugga og skrapa og bera á þá. Upphandleggsvöðvarnir orðnir nokkuð vel þjálfaðir (skafa, skafa) og ég get ekki annað en rifjað upp Karate kid myndina þar sem meistarinn lét strákinn æfa hreyfingar með því að pússa bíla og mála grindverk. Var alltaf hrifin af þeirri hugmyndafræði og mæli með henni eftir að hafa tekið þátt í henni í framkvæmd í bili.


Sameinuðu þjóðirnar skamma Íslendinga fyrir að taka með linkind á ofbeldi gagnvart konum og fleira er athugavert hjá okkur!

Íslendingar fá á baukinn í tilmælum sem Sameinuðu þjóðirnar senda okkur um að halda betur alþjóðasáttmála um jafna stöðu kvenna og karla. Margt er að, en fáum kemur víst á óvart að við stöndum okkur illa hvað varðar málsmeðferð og dóma í ofbeldismálum gagnvart konum. Hér er frétt Ríkisútvarpsins um málið:  

"Íslensk stjórnvöld eru hvött til að beita kynjakvóta enn frekar til að jafna stöðu karla og kvenna segir Guðrún D. Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands. Þetta kemur meðal annars fram í tilmælum nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fylgist með því að unnið sé á grundvelli alþjóðasáttmála um jafna stöðu karla og kvenna.

Tilmæli nefndarinnar snúa einkum og sér i lagi að ofbeldi gagnvart konum á Íslandi, mansali og vændi, lágu hlutfalli kvenna í stjórnunarstöðum og umtalsverðum launamun kynjanna.

Guðrún vann að gerð viðbótarskýrslu fyrir nefnd SÞ og kom fyrir nefndina sem álitsgjafi. Hún segir tilmæli nefndarinnar mjög viðamikil í þetta sinn og segir athyglisverðast hve mikil áhersla sé lögð á að íslensk stjórnvöld finni betri úrræði hvað varðar kynbundið ofbeldi.

Fleiri alþjóðlegar nefndir hafa einnig hvatt til þessa. Nefndin lýsir meðal annars áhyggjum sínum af vægum refsingum í kynferðisbrotamálum hér á landi, þá sérstaklega nauðgunarmálum. Að mati Guðrúnar hvetur nefndin íslensk stjórnvöld til að beita kynjakvóta í meira mæli enn nú er gert, til dæmis til að hækka hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum, sérstaklega hjá hinu opinbera og í dómskerfinu."


Látum ekki mikilvæga umræðu drukkna í aukaatriðum - Nei gegn nauðgunum!

Þegar AIDS kom til Íslands þá drukknaði sú alvarlega umræða í vangaveltum um hvað ætti að kalla sjúkdóminn á íslensku. Mig minnir að það hafi verið Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sú ágæta fréttakona, sem vakti athygli á þessari staðreynd.

Mér sýnist annað svipað mál vera í gangi núna. Karlahópur feministafélagsins er að berjast gegn nauðgunum og með mikilvægan áróður til kynbræðra sinna, en það eina sem þeir (kynbræðurnir) virðast sjá er umræða um hvort ráðskona karlahópsins hafi móðgað Baggalút með því að misskilja (Baggalútur fullyrðir að um misskilning sé að ræða) texta sem sá ágæti hópur samdi. Hvort ætli sé nú mikilvægara, að berjast af alefli gegn nauðgunum, eða að karpa um hvort misskilningurinn hafi verið óþarfur eða ekki? Ég fíla Baggalút í tætlur en ég er ekkert hrifin af því að það skuli vera meiri umræða um þennan misskilning en um inntak áróðursins, sem er dauðans alvara. Og hananú!!!


Vaxandi bjartsýni svarenda varðandi efnahagsástandið í könnuninni á blogginu mínu

Það er farið að gæta vaxandi bjartsýni í skoðanakönnuninni á blogginu mínu, þar sem núna er fjórðungur farinn að halda að allt sé upp á við, en þriðjungur enn að gera ráð fyrir tveimur erfiðum árum í viðbót. Aðrar tölur hafa hreyfst minna, þó hefur fækkað ögn í hópnum sem heldur að við séum að verða nægjusamari. Þegar ég setti þessa könnun inn snemmsumars var áberandi meiri svartsýni í gangi, 40-45 % töldu að næstu tvö ár yrðu erfið en svona 17 % að þetta væri allt upp á við.

Kannski er þetta bara sólin? Það væri annars gaman að fá rökstuðning fyrir þeim skoðunum sem fólk hefur á því annað hvort að næstu tvö ár verði erfið eða að allt sé að skána. Merkilegt nokk, þá hefur alla vega einn valkostur verið hunsaður að mestu: Að ástandið verði áfram svipað og það er nú.


Dýrðardagur í mörgum sveitarfélögum - og enn eru 27 gráður á útimælinn (sem er í skuggsælu umhverfi)

Þetta er búinn að vera ótrúlegur dýrðardagur. Vaknaði við sól og blíðu og kláraði svefninn úti á vindsæng (eftir að hafa unnið fram á nótt). Dró tölvuna út á pall undir hádegið og vann í sólarsælunni þar til Gunna vinkona kom að norðan úr Austur-Húnavatnssýslu. við fengum okkur í svanginn en svo var haldið í leiðangur dagsins til að sækja ömmu hennar Katarínu, tengdadóttur Gunnu í flug. Við vorum búnar að ákveða að fá okkur kaffi á leiðinni á Súfistanum í Hafnarfirði og þar sátum við hálftíma lengur en við höfðum ætlað í steikarblíðu úti (auðvitað) vegna seinkunnar á flugi CIMG2993frá Frankfurt. Amman, sem er 84 eða 87 ára (munum hvorug hvort er) vippaði sér eins og unglingur úr tollinum og í bankann að skipta pening og svo ókum við hingað upp í bústað og eyddum smá stund hér, áður en þær héldu áfram norður í land. Klukkan var orðin hálf átta núna í kvöld og hitinn enn í 27 gráðum þegar þær lögðu í hann, en sem betur fór hafði þokunni létt, sem hafði hvílt yfir langmestri leiðinni að norðan þegar Gunna kom til mín hingað í Borgarfjörðinn. Tímasetningar eru knappar, því í nótt leggja Guðmundur og Katarína af stað suður og snemma í fyrramálið í frí til Tyrklands, en amman er meðal annars að koma til að hjálpa til við að passa Elísabetu litlu, sem er orðin ansi dugleg að hreyfa sig.

Á morgun er frábær spá hér í Borgarfirðinum en aftur á móti á að fara að rigna í bænum, þannig að ég hugsa að ég verði hér áfram fram á kvöld alla vega, kannski lengur. Á meðan ekki er málningaspá (spár hafa reyndar ekki alltaf gengið eftir þessa dagana og miklu betra veður en lofað hefur verið).  Ég er gjörn á að kalla hitamælinn í Hafnarfirði bjartsýnismæli en þennan í Mosó grobbmæli, en sá síðarnefndi sýndi 31 gráðu upp úr sex í dag!!!!

 


Tímabundnu sumar(framkvæmda)frí frestað um stund - módelmyndir úr hættu - og bláþráðstungl á himni

Smá langloka undir svefninn, miklu betra að blasta þessu á bloggið en að taka allar hugsanirnar með sér í háttinn ;-)

Töfrarnir hérna í Borgarfirðinum eru ekki bundnir við blíðviðrið heldur datt ég í vinnugírinn sem ég ætlaði mér, og það gerðist eins og hendi væri veifað um leið og ég sneri inn eftir svefndrukkinn dag í sólinni. Þetta eru svo sem engir töfrar, ef að er gáð, en bara meira gaman að kalla þetta einhverju heillandi nafni. Heima kalla verkefnin meira á mig, fleira ógert í augnablikinu, þótt hér uppfrá megi vissulega finna óunnin verkefni líka. Þannig að vinnan kemst í meiri forgang en framkvæmdirnar og það er reyndar mjög gott mál núna, mig langar að ljúka ákveðnum hluta verkefna minna fyrir helgi og sýnist að það muni takast. Þá get ég sungið við málningavinnuna, enda þurrkspá frá og með föstudegi, jibbí! og eflaust ítarlegri þurrki. Þetta sumar hefur nefnilega verið með þeim ósköpum gert að oft hefur ekki orðið úr rigningu sem spáð hafði verið, en flest sumur sem ég man eftir fram til þessa hafa frekar verið öðru marki brennd.

Fékk indælis heimsókn í kvöld, Arý móðursystir hans Ara kíkti við hér í bústaðnum, ég var að láta hana fá myndina sem ég ætlaði að gefa henni fyrir um það bil tuttugu árum, en hvarf á dularfullan hátt og fannst ekki fyrr en núna í vikunni þegar ég neyddist til að fara í gegnum allar myndirnar mínar til að redda þeim frá handtökum Henriks smiðs, sem af siðsemi rúllaði öllu þessu nakta fólki model1saman, þessi sem Arý fékk var ekki bara nakin heldur líka ólétt, ég get ímyndað mér að það hafi ekki verið vinsælt. Annars munaði litlu að blessunin hann Henrik smiður lenti á körfuboltaleik þegar við vorum, með hjálp pólsku orðabókarinnar, að reyna að finna út hvað hann vildi gera fyrstu helgina á Íslandi. Við fórum línuvillt í orðabókinni og vorum að hugleiða hvaða körfuboltaleik væri hægt að finna þegar við tókum eftir að orðið sem fingurinn nam við var alls ekki körfubolti heldur kirkja. Og þess vegna vitum við allt um kaþólskuna hans Henriks, hann sótti kirkju mjög ötlullega á meðan hann var að vinna fyrir okkur, en við vorum svoilítið áhyggjufull þegar hann hætti, hann var nefnilega kominn í félagsskap annarra og ekki eins kirkjurækinna landa sinna. En okkur kemur það svo sem ekkert við, myndirnar mínar virðast hafa bjargast blessunarlega. Þessi sem hér fylgir var reyndar aldrei í hættu af því hún kúrði örugg inni í vatnslitamöppu þar til ég fann henni annað heimili.

Tunglið er eins og smá augnhár á himninum og úr þessu getur ekkert gerst annað en það fari að stækka á nýjan leik. Áður en góð götulýsing kom á Álftanesið var ég alltaf mjög vel að mér í tunglstöðunni en núna er það helst á Kanarí og í Borgarfirði sem ég tek eftir tunglinu og er reyndar nýfarin að veita því eftirtekt eftir björtustu sumarvikurnar.

Blágresisfræin mín fara niður í fyrramálið, ef að líkum lætur, og svo förum við Gunna vinkona í smá leiðangur til að sækja ömmu hennar Katarinu. Jamm, viðburðaríkur og ofurhlýr dagur framundan á morgun.

 

 


Töfradagur í Borgarfirðinum í krafti veðurspár sem nú er ekki lengur í gildi

Veðurspáin gerði ráð fyrir úrkomu á Reykjavíkursvæðinu með kvöldinu, sem betur fer, því það gaf mér smá afsökun til að skjótast upp í Borgarfjörð, en hér var ég hvort sem er búin að mæla mér mót við Gunnu vinkonu á morgun. Þvílíkur dýrðardagur! Þarf ekki að orðlengja það, takk, hver sem setti dropana í veðurspána í gærkvöldi og í morgun ;-)

Horfst í augu við staðreyndir - stutt sumarfrí skollið á

Held ég verði bara að horfast í augu við staðreyndir. Núna þegar Ari er kominn úr hestaferðinni þá er komið að hinum árlegu framkvæmdum okkar og ég bara get ekki setið hjá eða stungið af upp í paintbústað til að vinna. Þannig að, ég er skroppin í stutt sumarfrí, og tek þátt í athöfnum fjölskyldunnar af lífi og sál, það er húsaþvotti og málningavinnu með meiru. Fer upp í bústað einhvern tíma eftir helgi, sem betur fer búin að ákveða að vera þar alla vega miðvikudag og fimmtudag, svo sér maður bara til varðandi verslunarmannahelgina. Elísabet systir er búin að vara við vondu veðri um verslunarmannahelgina (sem sagt hún er með sumarbústaðinn sem hún á í félagi við tvö uppeldissystkini síni) - hún fullyrðir að þegar hún sé með bústaðinn sé veðrið alltaf vont. Við skulum nú bara sjá til. En reyndar höfum við oft verið heima um verslunarmannahelgina, sjaldan eins rólegt og gott og einmitt þá og ef við erum í framkvæmdastuði, eins og núna, þá er það auðvitað alveg brilljant. En svo er ég bara farin að hlakka til að vinna aftur, en þetta er bara nauðsynlegt núna og einsgott að horfast í augu við það.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband