Frækilegur ,,sigur" landsliðsins gegn Dönum 32:32

Þessi leikur áðan var alveg óbærilega spennandi og ég hafði fyrirfram ekki búist við að hafa taugar til þess að horfa á hann. En samt gerði ég það og sé ekki eftir því. Lok fyrri hálfleiks gerðu út um leikinn að mínu mati, yndislegur kafli, og svo auðvitað vítið, sem ég NB þorði að horfa á! Gaman að heyra viðtölin á eftir, þar sem fréttamaður talaði trekk í trekk um sigurinn gegn Dönum þar til Guðjón Valur leiðrétti hann hæversklega, þetta var nú jafntefli ...

Sem minnir mig á annað svipað, þegar Frakkar urðu heimsmeistarar (held ég frekar en Evrópumeistarar) í fótbolta og léku svo fyrsta leikinn sinn á eftir keppnina við Íslendinga, sem ,,sigruðu" þá 1:1. Ég var að segja frá þessu á pöbb í Englandi skömmu síðar, þar sem nokkrir fótboltaglaðir Tjallar skemmtu sér vel yfir orðalaginu og voru alveg sammála því.


Hef ekki geð í mér til að lesa gamla sáttmála

Það eina sem Hanna Birna og Óskar sögðu í gær var að byggja ætti á þeirra útgáfu af gamla sáttmála. Eflaust væri snjallt að fara að skoða hann, en í bili hef ég varla geð í mér til þess. Fjölmiðlar eru byrjaðir að tíunda hvers er að vænta, höfuðborgin skiptir okkur öll máli, hvort sem við búin í henni eða ekki, þannig að ég legg við hlustir með svolitlum leiða.

Sagan endurtekur sig - menn tilbúnir í samstarf við íhaldið án þess að tryggja sér stuðning næsta varamanns

Sagan endurtekur sig greinilega í borginni  - menn virðast tilbúnir í samstarf við íhaldið án þess að tryggja sér stuðning næsta varamanns. Ég var nokkuð viss um að ekki væru allir Framsóknarmenn ánægðir með þetta skref Óskars og það er augljóslega rétt. Þetta er þó á veikari grunni en mig hafði grunað. Skyldum við eiga eftir að sjá enn ein valdaskiptin áður en kjörtímabilið er úti? Og nú er komið í ljós að þetta plott snýst ekki bara um að fá að byggja hús heldur líka mjög umdeilda virkjun, grímulaus Alferð gerði það dagljóst.
mbl.is Marsibil styður ekki nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blágresið festir rætur

Nei, þetta er ekki pólitísk frétt. Þannig er mál með vexti að ég hef verið að reyna að koma blágresi til hér fyrir aftan sumarbústaðinn, og nú sé ég að blágresið sem ég flutti af baklóðinni okkar í Blátúninu á Álftanesi er búið að skjóta góðum rótum hér í Borgarfirðinum og virðist ætla að lifa góðu lífi hér. blagresiVeit hins vegar ekki hvernig verður með blágresisfræin mín, sem ég setti niður fyrr í sumar. Það verður allt að koma í ljós. Eftir þennan frekar fúla dag í sögu borgarinnar er þó alltaf gott að geta fjallað um eitthvað skemmtilegt sem er bæði blátt og grænt, og þá á ég sannarlega ekki um sjallana og framsókn.

Hann Trausti, fyrrverandi nágranni minn, mikill og einlægur kommi, sagði við mig, þegar ég varð með óbeinum hætti til þess að gatan okkar var skírð Blátún: Anna, hvernig gastu gert mér þetta? Mér til málsbóta get ég sagt að ég er hrifin af mörgum litum en verð að viðurkenna að orðið Blátún hafði sérstakan sess í huga mér frá því ég horfði yfir á fallega húsið Blátún við Kapaskjólsveg af fjórðu hæðinni í blokkinni minni þegar ég var lítil. Þannig að þegar við byggðum úti á Álftanesi þá fékk ég leyfi eins afkomandans í Blátúni til að nota nafnið á húsið okkar og það var síðan yfirfært á götuna. Í bakgarðinum er að sjálfsögðu góð blágresisbreiða og fleiri falleg bleik og blá blóm blómstrandi, en blágresinu ánetjaðist ég í sveitinni minni á Sámsstöðum í fljótshlíð.


Lýsi eftir fólki til að bjarga málinu á seinustu stundu

Enn er ekki búið að tilkynna nýjan meirihluta. Er ekki einhver velhugsandi Framsóknarmaður þarna úti sem treystir sér til þess að bjarga málinu á seinustu stundu?
mbl.is Ólafur vildi Tjarnarkvartett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta hefði sem sagt getað farið betur ... aldrei kaus ég Framsókn!

Visir.is segir frá því að möguleiki hafi verið á að fá skárri niðurstöðu út úr umrótinu í borgarstjórn. En Framsókn ber þá fulla ábyrgð á hvernig fór, ég verð að viðurkenna að ég tel að Ólafur sé maður að meiri ef þessi frétt er rétt.

Frétt Vísis er svohljóðandi:

,,Yfirlýsing lá fyrir um það í morgun að Ólafur F. Magnússon borgarstjóri segði af sér sem borgarfulltrúi og Margrét Sverrisdóttir kæmi inn til þess að mynda Tjarnarkvartettinn á ný. Óskar Bergsson hafði úrslitaáhrif í málinu og valdi að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta segir Sóley Tómasdóttir, varaborgarfulltrúi Vinstri - grænna.

Vísir greindi frá því að Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðisflokksins, hefði slitið meirihlutasamstarfi við Ólaf F. Magnússon borgarstjóra fyrr í dag. Ákveðið var að ganga í samstarf með Óskari Bergssyni, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. Verður Hanna Birna borgarstjóri, Óskar formaður borgarráðs og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson foresti borgarstjórnar.

Aðspurð um viðbrögð við þessu segir Sóley að Óskar verði að svara því hvers vegna hann hafi tekið Sjálfstæðisflokkinn fram yfir Tjarnarkvartettinn. „Þetta veldur að sjálfsögðu vonbrigðum því Tjarnarkvartettinn vann ofsalega vel saman. En þetta var hans ákvörðun," segir Sóley.

Hugmyndin um Tjarnarkvartettinn var rædd á fundi minnihlutans fyrir fund borgarrráðs í morgun og biðu fulltrúarnir í minnihlutanum eftir því að Óskar ákveddi sig. Sóley segir að Óskar hafi ekki haft samband og skýrt frá ákvörðun sinni. "

Best að dusta rykið af barmmerkinu mínu, Aldrei kaus ég Framsókn. Ber enga ábyrgð á þessu og samhryggist þeim Framsóknarmönnum sem ég met að verðleikum, það er Bjarna Harðar, Steingrími ... og eflaust eru þeir fleiri.

 

 


Vil ekki sleppa hendinni af sumrinu - ekki enn - Óskar og Sjallarnir boða vetrarkomu

Sólin er að brjótast fram af og til hérna í Borgarfirðinum. Vindsængin sem hefur verið úti á palli lengst af sumri var undir þaki hér á pallinum í nótt svo og stólarnir á veröndinni. En í stað lóðréttu rigningarinnar sem hefur kætt gróðurinn af og til var hér slagveðursrigning hér í morgun meðan ég svaf svefni hinna réttlátu. Vindsæng og stólar eru í þurrkun. Sem betur fer er hlýindaspá framundan. Enn nokkrar fínstillingar eftir í málningavinnu heima á Álftanesi, en ég skóf einn glugga áður en ég fór í sveitina í gærmorgun. Þetta hefur verið svo gott sumar að ég óska mér alla vega sex vikna í viðbót af því og helst milds vetrar, óska eftir samherjum í að biðja um þetta góða veður áfram.

Nú er búið að staðfesta breytingar á stjórn borgarinnar, þannig að sveitaballahljómsveitin Óskar og Sjallarnir er að taka við. Svolítill garri í því og boðar ótímabæra vetrarkomu, þótt ekki sakni ég Ólafs nema að einu leyti, í húsaverndun. Dv.is segir Ólaf einan heima. Eina sem ég hefði sætt mig við væri endurkoma Tjarnakvartettsins, með Margréti innanborðs.


Hvarflaði ekki annað að mér en ný borgarstjórn yrði mynduð í dag - þetta er fáránlegt!

Þegar fyrstu fregnir fóru að berast í dag um að enn væri verið að makka um ,,nýja" borgarstjórn, þá hvarflaði eiginlega ekki annað að mér en að hún yrði mynduð innan sólarhrings. Óskar og sjallarnir (hljómar eins og sveitaballahljómsveit). En það segir allt sem segja þarf um hverju búast má við, og það viturlegasta sem út úr þessum degi hefur komið hvað varðar borgarmálefnin er vaxandi umræða um að við svona kringumstæður eigi að vera hægt að boða til nýrra kosninga. Það sem gerst hefur á þessu kjörtímabili er ekki allt til fyrirmyndar og hvers eiga kjósendur að gjalda? Í Noregi má ekki kjósa til þings nema á fjögurra ára fresti og það hefur leitt til alls konar ólýðræðislegra hrossakaupa, og það er farið að ræða alvarlega í Noregi að breyta þessu fyrirkomulagi.

Dularfull frétt um skotárás á formann demókrata í Arkansas (breaking news frá CNN)

Ég er áskrifandi af fréttum í tölvupósti frá CNN. Sé ekkert um þetta á CNN vefnum ennþá en þetta er fréttin:

-- The Arkansas Democratic Party chairman has died from gunshot wounds, according to Hillary Clinton's press office.

Veit einhver meira um málið, er þetta ný skotárás, eða fór hún framhjá mér og var maðurinn að deyja núna af sárum sínum? Svona 10 mínútur síðan fréttin barst.

Leiðrétting, Mogginn var búinn að vera með þetta á undan CNN ,,breaking news":

http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2008/08/13/skotaras_i_hofudstodvum_demokrata_i_arkansas/ 

 


Yndislegir endurfundir í frábæru afmæli Gurríar

Orðin uppiskroppa með jákvæð lýsingarorð. En ... eftir himneskt veður, stórkostlega frammstöðu landsliðsins í handbolta og almennt ánægjulegan vinnudag, þá var haldið í afmælið hennar Gurríar, sem ég fagna hér neðar á síðunni, eins og glöggir lesendur sjá. Þetta var eins og alltaf alveg CIMG3057Himnaríkisafmæli, mikið af skemmtilegu fólki og afmælisbarni þar fremst í flokki. Og svo urðu þarna miklir og góðir endurfundir okkar gömlu vinkvennanna, sem ég málað hér um árið (1987 held ég) þegar Elfa okkar birtist, en hún er sú eina okkar þessa stundina sem ekki býr á landinu. Ég var að vona að hún kæmi nógu fljótt til landsins, þegar ég hitti á hana á msn fyrr í sumar, en samt var þetta eiginlega of gott til að vera satt. Og hér erum við og ég læt líka fylgja myndina góðu, sem ég málaði af okkur hér einu sinni. Sú fimmta í hópnum er hálfgerð felukona, bæði fjarri góðu gamni í dag og ekki alveg sýnileg á myndinni, en þannig hefur þetta eiginlega bara verið hjá okkur.

Röðin á okkur er nálægt því að vera öfug á myndunum, eða kannski alveg, man ekki alveg hver er hver, ég bara málaði myndina, útskýrði hana ekki ;-)  Vinkonurnar  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband