Áramótaskaupið í þriðja til fjórða sinn og enn er það urrandi fyndið

Öðru vísi mér áður brá, áður var farið með áramótaskaupið eins og einkasamtal við Davíð, enginn mátti vita, en núna er það endursýnt, bæði á plús og svo í tvígang og alltaf skal ég sjá eitthv að af því og enn er maður að hlæja. Ótrímabærar spurningar í kjörbúð og facebook-brandarinn sem er  enn fyndinn þótt hann hafi líka verið sýndur á  undan  skaupinu.Jamm, þetta er alla vega það sem ég  upplifi, ó, já, og Páll Óskar!

Listin að mála (stærðfræðiformúlur á bolla, endurvinna módelmyndir og klína út veggi)

Málaði samtals í sjö og hálfan tíma í dag, bæði veggi og ofn í þágu hugsjónarinnar og einnig var ég greinilega komin með svolítið fráhvarf frá myndlistinni. Skil eiginlega ekkert í því  hvað ég hef verið  róleg þessar 3 vikur sem ég var í fríi frá myndlistinni. Línan á veggnum sem ég var að klára ,,fínmálningu" á var ekki neitt til að hrópa húrra fyrir, en ég er svolítið ánægð (ennþá alla vega) með myndirnar sem ég var að vinna í. Ein fær að flakka með, þetta er svona endurvinnsla, hef verið að flokka stórar módelmyndi, henda sumum, taka myndir af sumum og stafla þeim sem á að geyma. 

CIMG4272 Þá er sagan sögð til hálfs, því svo er að troða þessum risastóru myndum á lítinn og sætan striga. Þá vandast málið stundum, en stundum er ég sátt. Hvort myndin hér til hliðar er búin eða ekki hef ég reyndar ekki hugmynd um, hún er nýkomin á strigann. Svo er ég reyndar að mála stærðfræðiformúlur og gömul dæmi úr RRR (Reiknirit, rökfræði og reiknanleiki) á bolla (myndir af bollum) - pínulitlar myndir - en gleymdi að taka myndir af því dæmi.


Hversdagslífið hefst aftur á morgun - og það er bara ágætt

Sama sagan endurtekur sig um hverja jólahátíð. Ég er ekkert viss um hvort eða hvenær jólaskapið hellist yfir mig, en ég veit það hins vegar vel í þann mund  er hversdagslífið hefst á ný að hátíðin hefur verið raunveruleg. Daglegt líf færist í fastar skorður á nýjan leik (reyndar ekkert mjög fastar þegar ég er að vinna í lausamennsku eins og núna) - minni tími til bóklesturs, fleiri skyldur, allar búðir opnar, hversdagslífið tekur við og vinnan verður reglubundin á nýjan leik. Mataræðið skánar til muna, misþungur veislumatur orðinn meira en ofnotaður. Jólaskapið hefur verið til staðar og jólin enn einu sinni verið tími sem gaman er að upplifa, þótt hver jól séu með sínum hætti. Það er bara gott að halda út í hversdagslífið á ný, fyrir mér merkir það meðal annars að ég get haldið áfram að taka viðtöl fyrir viðbótina á Álftanessögunni minni, og Myndlistarskólinn í Kópavogi opnar dyr sínar á nýjan leik fyrir mér og öllum hinum. Gleðilegt hversdagslíf!

Smá Murphy í viðbót - en samt hef ég trú á þessu ári!

Þá er það bara smá Murphy í viðbót. Skuggalega vel við hæfi, sumt alla vega. Það er allt í lagi að vera með smá bölmóð svona í upphafi árs, en til að fyrirbyggja misskilning þá vil ég taka það fram að ég hef fulla trú á þessu ári. Kosningaár, sem sagt, það er alltaf gott. Ef þetta verður ekki kosningaár verð ég alla vega illa svikin.

En hér er Murphy vinur vor:

Lögmál Van Herphen:

Lausinin að því að leysa vandamál felst í því að finna einhvern sem getur leyst vandamálið.

Lögmál Baxters:

Villan í forsendunum finnst í niðurstöðunum. 

Fyrsta lögmál McGee 

Það er undravert hversu langan tíma tekur að leysa viðfangsefni sem ekki er unnið í. 

Lögmál  Ruckerts:

Ekkert vandamál er svo smátt að ekki sé hægt að missa það fullkomlega úr böndunum. 

Lögmál Biondis:

Ef verkefnið sem þú ert að vinna í er ekki að virka, skoðaðu þá þætti sem þér fundust lítilvægastir.

Lögmál Allen:

Nánast allt er auðveldara í að komast en úr að sleppa.

Lögmál Young um hreyfanleika kyrrstæðra hluta:

Allir kyrrstæðir hlutir geta hreyfst nógu mikið til þess að verða í vegi fyrir þér. 

Regla Fahnestock um mistök:

Ef þér mistekst í fyrstu atrennu skaltu eyðileggja öll ummerki um að þú hafir reynt. 

 

 

 


Skrambi gott skaup

Skaupið í ár var með þeim betri að mínu mati. Hlýtur að vera vandaverk að skrifa skaup við þessar þjóðfélagsaðstæður. Facebook brandarinn var einlæglega kúl og pólitíkin tekin föstum tökum. Leikararnir hver öðrum betri, hér er kominn hinn fullkomni Geir, röddin var fullkomin, og Tjarnarkvartettinn var líka ótrúlega vel heppnaður. Margt hárbeitt - það er mikill kostur - og þótt ég hafi séð skaupið að hluta tvisvar (byrjunina aftur á Plús vegna smá tékks). Óska Silju og öllum hinum til hamingju - og hver hefði trúað því að Jón Gnarr gæti umhverfst í Pál Óskar. Þeir brandarar voru nöturlegir en hittu vel.

Árið hófst með ættingjum og vinum

Indælis upphaf á ári sem vonandi verður gott. Rólegt gamlárskvöld, mamma leit við í kalkúninn okkar, sem var vel heppnaður. Nokkrir flugeldar á miðnætti og svo skaust ég í bæinn með Óla og vin hans og lenti í skemmtilegri stjórnmálaumræðu á leiðinni, sem er alltaf hressandi. Í dag rólegheit aftur, en smá rennerí eins og hæfir ársbyrjun, fyrst kom Sæa, tengdamóðir mín, í heimsókn. Elísabet systir kom með Kjartan með sér rétt eftir að hún fór, mamma og vinkona mín frá Betware-árunum, Tang Hua, komu í nýárssteikina og svo sátum við og spjölluðum fram eftir kvöldi. Ari hefur líka fengið nokkrar sjúkraheimsóknir, en það var fyrra! Hann er reyndar kominn á ferð og flug, enda á sjálfskiptum bíl, en þarf samt að taka það rólega áfram, ökklabrot er alltaf ökklabrot.

Blendnar tilfinningar í lok mótmælaárs

Eitt er víst, sjaldan í sögu lýðveldisins hefur verið eins mikil ástæða til þess að mótmæla. Og sem aðgerð var sú framvinda sem varð í dag mjög eftirminnileg. Þótt ég sé argasti friðarsinni er samúð mín meiri með mótmælendum en Stöð 2 að þessu sinni. Sé það líka rétt að frumkvæði óeirðalögreglu (er það ekki sérsveitin?) hafi verið jafn mikið og þessi frétt gefur til kynna þá er ábyrgðin auðvitað þar að hluta. Lögreglunni hefur lánast að gera margt vel á viðkvæmum tímum og ég tel að Stefán Eiríksson og Geir Jón reyni sitt besta og leiði þar hóp lögreglumanna sem væru meðal mótmælenda eða eru það kannski, ef þeir eru ekki að sinna skyldustörfum.

Á þessu ári hef ég tekið þátt í fjölmörgum mótmælum, öllum friðsömum. Jafnframt hafa mér ekki komið þessar róstur sem orðið hafa neitt ýkja mikið á óvart. Stór hluti þjóðarinnar er búinn að fá nóg af andvaraleysi stjórnvalda, lítilsvirðingu við þjóðina og þjónkum við útrásarvíkingana sem allt settu á höfuðið.

Ég hef líka setið í pallborði Kryddsíldarinnar og reynt mitt besta að koma stefnu minna ágætu stjórnmálahreyfingar sem ekki er lengur við lýði, Kvennalistans, á framfæri. En í grunninn er ég ekkert rosalega hrifin af stjórnmálaforingjaþáttum. Þótt þetta sé auðvitað rosalega vinsæll vettvangur til þess að gera upp árið, þá var þess ekki að vænta að þöglir og afskiptalausir stjórnmálamenn (flestir hverjir, ég undanskil Steingrím J. ennþá) myndu segja mikið meira en þeir hafa verið krafðir um að undanförnu og þagað þunnu hljóði. Geir komst ekki inn, en átti einhver von á að hann færi allt í einu núna að segja þjóðinni það sem hún vill heyra: Já, við ætlum að efna til kosninga!

Hörður Torfa kjörinn maður ársins á Stöð 2 - ákveðin skilaboð þar, ekki þó þau sem mér heyrist að Sigmundur Ernir er borinn fyrir (vonandi ranglega) að halda að mótmælin séu að undirlagi samkeppnisstöðvarinnar - kommon, sjálfhverfa fjölmiðla er mikil en er þetta ekki einum of!

Gleðilegt ár og vonandi gefast færri ástæður til þess að mótmæla á nýju ári, heldur verður boðað til kosninga.

 

 


mbl.is Mótmælin áttu að vera friðsamleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árið þegar lögmál Murphys rokkaði kvatt - gleðilegt ár!

Ég lærði lögmál Murphys á þessa leið: Allt sem getur farið úrskeiðis gerir það - á versta hugsanlegum tíma. Jamm, það er nú það. Var árið sem er að líða ekki einmitt ár Murphys? Þess vegna var það talsverð búbót að fá inn á heimilið bók stútfulla af ýmiss konar afbrigðum þessa lögmáls, eða réttar sagt öll hin lögmálin sem kennd eru við ýmsa snillinga. Ég hef nú ekki komist djúpt í hana enn, en mun vonandi bæta úr því á nýju ári. Set þó nokkur gullkorn inn og minni á að innst inni er ég samt ennþá bjartsýnismanneskja - gleðilegt ár:

Almenna óöryggislögmálið:

Kerfi hafa tilhneigingu til að vaxa og um leið og þau vaxa leitast þau við að flækjast.

Útfærsla:

  1. Flókin kerfi leiða til óvæntrar útkomu. 
  2. Endanlega hegðun stórra kerfa er ekki hægt að sjá fyrir.

Setning: Kenning um ómögulegar viðbætur í hegðun kerfa.

Stórt kerfi sem skapast þegar lítið kerfi er þanið út heldur ekki hegðun litla kerfisins. 

 

Sextánda lögmál kerfa:

Ef byggja á flókið kerfi frá grunni virkar það ekki og ekki er hægt að lappa uppá það. Það verður að byrja upp á nýtt og einfalda kerfið. 

 

Regla Breda:

Þeir sem eiga innstu sætin í röðinni mæta seinast. 

 

Lögmál Jensens:

Það er sama hvort þú vinnur eða tapar, þú tapar.

 

Spakmæli herra Cole:

Summa gáfna á jörðinni er fasti - og íbúum jarðar fer fjölgandi! 

 

 

 

 


Af hverju er ekki hægt að læra af sögunni? Gaza 2008.

Eitt af því sem réði því helst að ég valdi sagnfræðina umfram til dæmis bókmennafræði og myndlist, sem ég var að læra á sama tíma var áhugi á samfélagsmálum. Sá fljótlega að í sögunni voru fordæmi fyrir flestum þeim mistökum og þrekvirkjum sem gerð/unnin hafa verið.

Sagan er því miður full af frásögnum af hliðstæðum atburðum og nú eru að eiga sér stað á Gaza ströndinni. Og ekki virðist vera hægt að læra af sögunni, það er alveg sárgrætilegt. Yfirgangur Ísralesríkis er hrikalegur og hefur lengi verið og gerir ekkert annað en að mynda jarðveg fyrir öfgafyllri andspyrnu á borð við Hamas, í stað hófsamari afla. Þeir sem gjalda með lífi og limum eru óbreyttir palestínskir borgarar. Ábyrgð Bandaríkjanna í þessum efnum er allnokkur því hernaðarmáttur Ísraelsríkis hefur byggst upp í skjóli þeirra. Ljóst er líka að um áframótin verður ESB með forvígismenn sem bera blak af Ísralesríki, ólíkt því sem nú gerist undir stjórn Frakka. Þetta er ömurlegt stríð og fátt sem bendir til annars en að þetta fari versnandi. 

Datt aðeins út í samfélagsumræðunni í þann mund sem átökin voru að komast á skrið, þegar minn heittelskaði braut sig illa, en það er ekki hægt annað en pikka nokkur orð, og það væri sannarlega óskandi að unnt yrði að læra af mistökum sögunnar en lítil von til þess.


Að kveðja ár

Þá er komið að því að kveðja árið 2008 og heilsa árinu 2009. Eflaust verður liðið ár kvatt með mismunandi miklum söknuði, enda óvenjulegt ár. Fyrir okkur Íslendinga var þetta ár átaka og uppgjörs sem er ekki um garð gengið. Persónulega eru áhrif ársins margslungin og ekki komin að fullu í ljós. Meira seinna. Gleðilegt ár, ef ég skyldi sleppa því að blogga meira á árinu, sem er allsendis óvíst eins og allt hitt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband