Ökklabrotinn eiginmaður kominn heim
29.12.2008 | 16:44
Gærdagurinn var eiginlega aðallega á slysó því eftir meira en 30 ára slysalausa hestamennsku tókst honum Ara mínum að slasa sig uppúr hádegi í gær og brotna illa á ökkla. Hann fór í aðgerð í gærkvöldi og var negldur í bak og fyrir og hent út af spítalanum í dag. Kominn heim og skyldugur til þess að vera stilltur í nokkra daga alla vega. Ósköp gott að fá hann heim, annars var frekar mikið fjör hjá okkur um miðnæturskeið í gærkvöldi á spítalanum, þegar Trausti vinur okkar bættist í heimsókn, en hann er öryggisvörður niðri við dyr og var á vakt þegar hann frétti af Ara. Pólverjinn í næsta rúmi náði samt að sofna, frekar illa kvalinn af sígarettuskorti (en snjallt að eiga nikótínplástra á spítalanum) og svo var hann líka þjáður eftir eitthvert slys. Alla vega þá tókst aðgerðin á Ara vel etir því sem næst verður komist og allir á spítalanum ósköp notalegir, sem er gott þegar svona lagað kemur uppá.
Næstu stórtíðindi stjórnmálanna - ný könnun
28.12.2008 | 01:32
Ný könnun hefur leyst krónukönnunina af hólmi, sú náði litlu flugi og er því lokað, en flestir veðjuðu þó (réttilega) á að krónan myndi halda sjó eftir að hún yrði sett á flot (32%). 21% bjuggust við að hún drukknaði, en annars dreifðust svörin mjög og m.a. merktu heil 6% við þann valkost að ESB tæki hana upp!
Nýja könnunin snýst um næstu stórviðburði í pólitíkinni, endilega takið þátt og ef fleiri tillögur koma fram má alltaf nota athugasemdakerfið.
Að eiga skemmtilegar ólesnar bækur - þá er ýmislegt í lagi
26.12.2008 | 23:59
Nú á ég tvær æsispennandi ólesnar bækur, sem ég hlakka ekkert smá til þess að lesa. Hanna mín reyndar búin að næla sér í aðra, en hún er sæmilega snögg að lesa spennusögur, það er sagan hans Árna Þórarinssonar, sem gerist víst á Ísafirði núna, hin hljómar ekki síður vel: Karlar sem hata konur (og ég sem hélt að það væri sjálfshjálparbók, dö!). Það er alveg ótrúlega jólalegt að liggja í rúminu með góðri samvisku og lesa góða bók.
Já, mér finnst svolítið nördalegt að jólablogga, en þar sem ég er nörd ...
25.12.2008 | 22:36
Gleðileg jól öll og takk fyrir kveðjurnar!
Með Simba mér við hlið, jólaheimsókn í kirkjugarðana með greinar og friðarljós að baki, er jólaskapið bara bærilegt hér í Blátúninu. Mikið var dagurinn fallegur og jólalegur, með mátulegri snjóföl yfir öllu. Vona að þessi jól marki upphaf af öðru og betra tímabili en vikunum á undan (annars er hægt að óska þess sama um áramóti ;-) þó vil ég ekki að það breytist sem gerst hefur að undanförnu: Ofurlaun og útrásarvikingar eru ekki kúl lengur, afbrot í nafni þessa eru óréttlætanleg og það veit fólk og vonandi þar til bær yfirvöld líka - en samvera, samstaða og öflug gagnrýni á óréttlæti og vilji til að breyta samfélaginu okkar hefur verið ofarlega í huga og verður það vonandi áfram.
Hækkandi sól, jól, og bráðum koma áramót, en undirliggjandi hótun um að árið 2009 verði það versta. Listi yfir góðu árin og vondu árin, mátulega óvísindalegur.
23.12.2008 | 01:29
Eins og ég elska skammdegið, að því tilskyldu að færðin sé fólki bjóðandi, þá finnst mér alltaf svolítill áfangi í því fólginn að sólin taki að hækka á lofti. Sérstaklega þegar ég er stödd á þeim stað í lífinu að ég fari til vinnu á sama tíma á morgni, þá er svo mikill munur á seinustu dögunum fyrir jól og fyrstu dögum næsta árs.
Ég veit ekki hvort ég er beinlínis komin í jólaskap, en lífið er komið í allt aðrar skorður en venjulega, eins og oftast fyrir jól, og venjulega endar sú törn á því að jólaskapið hellist yfir mig eins og ég veit ekki hvað!
Margir hafa haft á orði að þeir verði þeirri stund fegnastir þegar þetta furðulega ár verður um garð gengið. Veit ekki alveg hvða mér finnst um það, en það pirrar mig svolítið hvað það er greinilega verið að reyna að búa mann undir frekari kjaraskerðingu og gjaldtöku með því að minna á að árið 2009 verði verra, en svo segja sumir að þetta fari nú að skána. Það á sannarlega eftir að fara ofan í saumana á ýmissi ákvarðanatöku á næstunni, ekkert síður en að rannsaka þau afglöp og hugsanleg afbrot sem framin hafa verið.
Þótt ég viti að talnaspeki byggi á öðrum útreikningum hef ég oft skoðað í huganum hvernig árin hafa verið, persónulega, á áratugar fresti. Og samkvæmt því eru árin sem enda á 8 ekki alveg þau bestu, stundum heldur vond, þótt á því hafi verið undantekningar. Árið þegar tímabili lýkur, stundum með meiri trega en á öðrum tímum.
- 1958: Foreldrar mínir skildu.
- 1968: Pabbi dó.
- 1978: Hef ekkert upp á það ár að klaga en var smábarnamamma og ólétt meira en hálft árið - tímabil klárast og ég lauk BA-prófi á árinu.
- 1988: Free-lance vinnan mín í harðri baráttu við félagsmálin og fjárhagurinn leið fyrir það
- 1998: Aftur free-lance og á milli verkefna, óvenju rýrt ár fjárhagslega.
- 2008: Andlát Ása vinar okkar. Mikill dráttur á að verkefni sem ég átti að fara að vinna í færi af stað, með tilheyrandi óvissu og óþægingum - tímabil klárast (eins og 1978) og ég klára M.Sc. prófið mitt í tölvunarfræði.
Árin sem enda á 9 hafa hins vegar verið með betri árum í lífi mínu og ég treysti því að svo verði einnig núna. Oft ár nýs upphafs.
- 1959: Eyddi hálfu árinu með mömmu og ömmu á Spáni, heimsókn frá tilvonandi fóstra mínum þangað var líka góð. Byrjaði í barnaskóla, sem var bara gaman.
- 1969: Byrjaði að eyða sumrum í sveitinni minni, Sámsstöðum í Fljótshlíð, en þaðan á ég alveg yndislegar minningar.
- 1979: Strákurinn minn fæddist og ég átti góða tíma með krökkunum, tókst að skrifa stutta skáldsögu sem ég las í útvarp ári síðar. Var með útvarpsþætti um bókmennir allan veturinn, missti ekki úr þátt þrátt fyrir barnsfæðingu.
- 1989: Hélt út í það ævintýri að verða þingkona fyrir Kvennalistann og fór (fyrr á árinu) í hnattferð með mömmu að heimsækja Möggu frænku á Nýja-Sjálandi.
- 1999: Var að vinna fyrir Sandgerðisbæ og skrifaði í kjölfarið sögu Miðneshrepps og Sandgerðisbæjar frá 1907, sem kemur vonandi út (loksins) á næsta ári. Fórum til Las Vegas um veturinn og það varð fyrsta skrefið í átt að nýjum siðum, sumarfríum á veturna, snilldarfyrirkomulag.
- 2009: Vona að þetta verði skemmtilegt ár ...
Hvernig er þetta hjá ykkur? Eigið þið ykkar uppáhalds-ár? Eða eruð þið dottin í jólastressið og lesið ekki blogg.
Hógvær og heillandi kona
23.12.2008 | 00:35
Votta fjölskyldu Halldóru samúð mína. Halldóra var ekki kona sem tranaði sér fram en ég held að hún hafi notið virðingar allra sem höfðu samskipti við hana og eflaust langt út fyrir þær raðir. Tel það heiður að hafa verið sveitungi hennar um stund.
![]() |
Alþingi minntist Halldóru Eldjárn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skírn í fjölskyldunni og hátíðin læðist að, blessunarlega
21.12.2008 | 01:02
Litli sonur hans Stebba bróðursonar míns og Margrétar var skírður í dag, Kári litli sem sagt kominn með nafn og Katla stóra systir hans stækkar bara og stækkar. Yndislegt að hitta svona marga úr nánustu föðurfjölskyldunni á einu bretti, tvíburarnir hennar Guðrúnar (systur Stebba) sem voru skírðir fyrir nánast réttu ári eru orðnir þvílíkt stórir að ég ætlaði ekki að trúa því, Emil ,,litli" líkist stóra bróður sínum sífellt meir. Gaman að taka frá dag til þess að spjalla við fjölskylduna og fá fréttir og sjá sprettuna í ungviðinu. Þarf að finna tíma til þess að setja inn myndirnar sem ég tók í Fríkirkjunni í Hafnarfirði.
Það er að bresta á einhver hátíðartilfinning í kollinum á mér, verð bara að viðurkenna það. Hef verið veik fyrir jólaskrauti (auðvitað elt tilboðin í anda kreppunnar) allt frá því við Gunna vinkona fórum í leiðangur á milli funda á fyrsta des. Það er sem sagt slatti af nýju jólaskrauti komið á heimilið, enda setjum við stóra jólatréð okkar upp, væntanlega uppi, í fullum skrúða í þetta sinnið, vona ég. Og gamla búbbl sérían fær að komast upp við tækifæri vona ég, hún er sennilega næstum jafngömul og ég, sem sagt fifties framleiðsla og ótrúlegt að hún skuli enn vera við lýði, auðvitað líka með óvirðulegri perum í bland, því þessar búbbl perur eru enginn hægðarleikur að hafa upp á. Samt gerðist ég svo fræg að finna tvær á Ebay og kaupa þær. Held bara að það sé það eina sem ég hef keypt á Ebay, en margt hef ég nú skoðað þar.
Dýrin í lífi okkar - mestmegnis um ketti
20.12.2008 | 01:43
Veit ekki hvort það er nánd jólanna eða eitthvað annað, en mér verður hugsað til dýranna í lífinu þessa dagana. Simbi liggur á rauðum púða við hlið mér og er eina dýrið sem eftir er hér heima. Indælis köttur, mjög street-smart, alinn upp annars staðar í fjölskyldunni, en kom til okkar sem sumardvalarköttur og var fyrst í stað tekið frekar illa af hinum tveimur sem voru heimilisfastir hjá okkur þá stundina. Annað sumarið hans hér rættist úr því og síðan hefur hann búið hér hjá okkur og er bara sæmilega sáttur með okkur, held ég. Hann tekur blíðuköst af og til en er frekar sjálfstæður inn á milli.
Ein kattafjölskylda hefur fylgt okkur öðrum fremur, amman, Kría, var sumardvalarköttur hjá okkur fyrir meira en tuttugu árum, við fengum kettling undan henni, hinn stórkostlega Bjart (sem yfirleitt var kallaður ,,Bjartur og fagur") og var einn blíðasti köttur sem um getur. Hann eignaðist dóttur, með læðu úr sömu kattafjölskyldu, Fjólu hinni fögru, sem Gurrí stórbloggari átti. Dóttirin, Mjallhvít, var sem sagt alin upp hjá einstæðum föður og var mikill villingur en gullfalleg, loðin og hvít eins og Kría, amman. Mjallhvít var sönn prinsessa, mjög vönd að virðingu sinni og heillaði alla fressketti í nágrenninu en hafnaði þeim öllum. Bjartur varð fyrir bíl ungur að árum en átti von á kettlingum í nágrenninu og við fengum einn þeirra, Grámann hinn grálynda, sem er hreinlega skemmtilegsti köttur sem ég hef nokkurn tíma kynnst. Grámann kom til okkar mjög ungur og meðal ævintýra hans var að stelast inn í ísskáp og sofa í konfektkassanum. Hann var vitlaus í kex og kartöflur. Mjallhvít hálfsystir hans tók honum ekki vel í fyrstu, þannig að það kom í hlut hundsins okkar, hans Tinna, að ala hann upp og fórst honum það svo vel (fyndið að sjá smá gráan hnoðra í fanginu á þessu frekar stóra hundi) að seinna meir, þegar Tinni var orðinn gamall og hrumur, drattaðist Grámann með honum út þegar Tinni var settur út í band, stundi að vísu og kvartaði undan þessari skyldu sinni, en hann fór með hundinum út í band alveg ótrúlega oft, merkileg tryggð, og svo er sagt að kettir séu ekki trygglyndir!Grámann og Mjallhvít náðu bæði háum aldri á kattamælikvarða, hún var 15 ára þegar hún lenti í slysi og hann var 13 er hann lét sig hverfa, en tveimur árum fyrr skilaði hann sér eftir 10 daga útivist, svo við vorum ekki mjög stressuð þegar hann hvarf.
Tinni, eini hundurinn okkar hér í Blátúni, varð 14 ára og það var hann, miklu frekar en kettirnir, sem eyddi upp alla vega níu lífum, áður en hann varð allur. Þegar hann elti hestamennina (Ara minn og aðra) yfir Kjöl, fór hann fjórum sinnum yfir þegar þeir fóru einu sinni. Hinn hundurinn í ferðinni var reiddur mestalla leiðina en Tinni karlinn hljóp hress á undan, kom svo til baka, hljóp svona hálfan kílómetra til baka og náði svo hestamönnunum aftur. Eitt sinn var sundriðið yfir Markarfljót og þá vildi Tinni auðvitað ekki vera minni en hestarnir en fljótið bar hann langt niður eftir og allir mjög fegnir þegar hann fannst. Hann hefur dottið niður í stíflu, fallið fram af klettinum, en að lokum var það aðeins há elli og hrumleiki sem bar hann að ofurliði.
Alltaf erfitt að kveðja dýrin sín, en ég er alin upp með gullfiskum, páfagauk, hundum og köttum. Jú, við reyndum líka að vera með skjaldbökur, þær eiga að vera langlífar, ekki mikill félagsskapur af þeim á veturna, því þá voru þær í kassa uppi á háalofti og sváfu (sem sagt í dvala). En þetta voru flottar skjaldbökur, hétu Litla og Stóra, og sú stóra var bara skemmtileg. Svo fengum við þá sem við kölluðum Minnstu og hún var víst veik og smitaði hinar. Þannig fór það, ekki nóg að geta orðið 100 ára, það þarf líka að verða það.
Svo hefur Ari átt æði mikið af hestum en þeim hef ég ekki kynnst að ráði þótt mér finnist þeir fallegir. Eitt af seinustu skiptunum sem ég fór á hestbak fældist hesturinn og fleygði mér af baki og braut í mér hryggjarlið svo ég missti áhugann.
Þarf endilega að setja inn fleiri dýramyndir við tækifæri, en það útheimtir skönnun, sem ég gef mér ekki tíma fyrir nákvæmlega núna.
Nokkrar jólabækur - vertíðin lofar góðu - og bera konan með spottann!
17.12.2008 | 00:59
Byrjuð að lesa jólabækurnar, á milli þess sem ég les Robert B. Parker krimmana sem alltaf liggja við rúmstokkinn (þær hafa þann kost að vera skrifaðar í knöppum ,,Íslendingasagnastíl" og stuttir kaflar mátulegir fyrir svefninn, á ferðalögum og jafnvel á umferðaljósum - djók) og gríp í ljóðabækur, sem eiga sér sama samastað. Ein þeirra verðskuldar reyndar umræðu, Blótgælur, sem ég var lengi búin að ætla mér að kaupa. Afgreiðslufólkið í Máli og menningu hafði ágætar skoðanir á þeirri bók, hrifin (afsakið, ég bara get ekki sett ,,hrifið" (-fólkið) hér inn þegar ég sé stelpu og strák í afgreiðslunni fyrir mér, enda segi ég alltaf ,,hún" um kvenkyns forseta, ráðherra og aðra -seta og -herra). Annað þeirra var sem sagt hrifið af öllum ljóðunum og hitt af sumum þeirra. Ég er í hópi þeirra sem er hrifin af allflestum ljóðunum og hef lúmskt gaman af paródíunum sem þar á milli leynast.
En þetta er jólabók síðasta árs. Nú ætla ég að hafa skoðanir á þessum sem ég er búin að lesa, var reyndar búin að ræða aðeins um Myrká Arnaldar, en langar að bæta því við að ég er sérstaklega spennt að sjá næstu bók hans, mér finnst Arnaldi takast betur að líta í aðrar áttir en áður í þessari bók en í öðrum þar sem hann hefur yfirgefið Erlend. Vona samt að Erlendur komi ,,hress og kátur" (ekki alveg hans stíll auðvitað) í næstu bók, en ég þori engan veginn að treysta því.
Dimmar rósir, eftir Ólaf Gunnarsson. Skrambi góð bók. Ég fór að lesa hana á bandvitlausum forsendum, var komin með smá löngun til þess að detta inn í sixties stemmningu, einkum þar sem titillinn vísar til eins flottasta íslenskra lagsins frá þeim tíma, mig minnir með Töturum. Jú, vissulega er það andrúmsloft á svæðinu með skáldaleyfi sem hefur greinilega pirrað einhverja - ekki mig þótt ég hafi verið í Austurbæjarbíói á Kinks-tónleikum. Það sem heillaði mig við bókina er samt eitthvað allt annað og ekki endilega það sem ég ef fundið í fyrri verkum Ólafs, sem ég hef lesið (á enn góðar bækur ólesnar og hlakka til). Andrúmsloftið er þessi margslungna tenging fólksins innbyrðis, sem mér finnst sterkasti þátturinn í bókinni og skilar sér fullkomlega. Til eru kvikmyndir, að vísu mun lakari, sem spila á þessar tengingar á svipaðan hátt, bókin tengist þeim í raun betur að mínu mati en þær skáldsögur sem spinna svipaðan vef, og það finnst mér kostur.
Viðtalsbók/ævisaga sem fjallar um ævi Margrétar Pálu Ólafsdóttur, Ég skal vera Grýla, eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur (minnir mig). Ég fer yfirleitt á hundavaði yfir ævisögur, fletti upp á markverðum atburðum eða spennandi frásögnum og les þetta efni meira eins og sagnfræðingur í heimildaleit, enda farið í gegnum svona hundrað slíkar í þeim tilgangi. En þessi er sér á parti. Auðvitað fyrst og fremst vegna þess að Magga Pála er einstök. Ég var svo ljónheppin að fá tækifæri til að taka viðtal við hana snemma á þessu ári og það var draumahlutskipti, nú orðið er blaðamennska mín nánast eingöngu lúxushobbý hjá mér, tækifæri til að tala við áhugaverðar konur. Þess vegna hlaut ég að lesa þessa bók með gagnrýnum augum, en útkoman var mjög jákvæð. Eftir smá skann fram og til baka, eins og ég les svona bækur, byrjaði ég á byrjuninni og las bókina í tveimur mislöngum lotum og gat eiginlega ekki lagt hana frá mér í seinni - lengri - lotunni. Mér finnst Margrét Pála stökkva ljóslifandi út úr bókinni af miklum lífskrafti, hugrekki og samt svo margslungin, eins og hún sannarlega er. Þessi bók gladdi mig ósegjanlega.
Nú er ég byrjuð á Auðninni hennar Yrsu og lofar góðu, þótt ég sé svolítið á móti því að kvelja mig á að lesa um eitthvað kalt eða kuldalegt. En þetta get ég auðvitað ekki sagt eftir að hafa nánast drukknað í Smillas fornemmelse for sne ... eins og sú ágæta bók Peters Hoeg hét, svona sirkabát.
Byrja óvenju snemma á jólabókunum í ár, venjulega hef ég verið í prófum eða verkefnaskilum, en ekki núna, setti verkefnaskil viljandi eftir áramót og sé ekki eftir því. Þannig að ég hlakka til að lesa þær allar sem ég man ekki nákvæmlega hvað heita, Segðu mömmu að mér líði vel, Sjöunda soninn og allar hinar sem ég ætla svo sannarlega að lesa ... Þetta með að muna ekki nákvæmlega hvað bækur heita getur stundum endað með skemmtilegum afbökunum (óviljandi) en engin jafnast þó á við það þegar Þórarinn á Skriðuklaustri var í miðri ræðu og mundi ekki alveg málsháttinn sem hann ætlaði að vitna til þannig að hann sagði ,,æ, þið munið ... bera konan með spottann!" Og auðvitað mundu allir: Neyðin kennir naktri konu að spinna.
Já, þetta ætlar að verða góð vertíð.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 02:40 | Slóð | Facebook
Davíð í gömlu áramótaskaupi og jólalag Baggalúts
15.12.2008 | 02:19
Jólalag Baggalúts er svolítið öðru vísi en seinustu árin, heitir: Það koma vonandi jól! Úff, af gefnu tilefni mun ég ekki rökstyðja hvers vegna mér finnst þetta svolítið fyndið.
En annars rakst ég á alveg ótrúlega fyndið vídeó á Facebook, áramótaskaup sem er sjö ára gamalt en ótrúlega ferskt. Þetta er eitthvað sem Dóri Braga hafði grafið upp og þar sem ég veit að hópanir mínir á Facebook og moggablogginu skarast ekkert sérlega mikið, þá leyfi ég fleirum að njóta vel: