Forsjárlaust kapp

Mér skilst að kapp sé best með forsjá. Grunar samt að lesendur þekki forsjárlaust kapp, þegar við æðum áfram langt umfram áætlun og stundum líka getu. Er svolítið veik fyrir því þegar það hendir, sem er svosem ekkert voðalega oft, svo framarlega sem það kemur ekki í bakið á mér - og hér á ég við það í bókstaflegri merkingu, bakið er veiki hlekkurinn þegar ég er eitthvað að djöflast. Hvort sem þið eruð að ofgera ykkur í fjallgöngum, eins og sumir vinir mínir, ekki ég, eftir að ég lét undan blessaðri lofthræðslunni, eða bara að taka tarnir í einhverju allt öðru, eins og mér hættir til að gera, kappið keyrir okkur oft hæfilega langt áfram.

2023-07-22_00-36-04

Fáránlega langar og harðar tarnir hafa oft skilað skemmtilegri útkomu þegar ég hef verið að glíma við verkefni í myndlist, en það má líka virkja keppnisskapið í hversdagslegri iðkun og í þeirri stöðu er ég þessa dagana. Finn að mér hleypur kapp í kinn þegar ég er komin á gott skrið og það skilar alltaf einhverju góðu. Sumum finnst mest gaman að keppa við aðra, mér dugar að keppa við sjálfa mig. Stundum vantar þá agnarögn upp á að vera forsjál, en það gerir ekkert til. Langtímamarkmiðið er alltaf þekkt og að því má vinna og helst fara framúr. 

Held ég geti þakkað Georgi bróður mínum það að ég fór að kannast við að hafa keppnisskap og þora að spila á það (og sjálfa mig í leiðinni). Í því undantekningartilfelli snerist það um að vinna einhverja aðra en sjálfa mig, það er að segja hann, í skvassi meira að segja. ,,Þú vilt bara tapa," sagði hann stríðnislega og meira þurfti ekki og mér fór hratt fram í íþróttinni á kappinu einu saman. Það hefði líklega farið illa ef ég hefði ekki á kapplausa tímabilinu lært sitt af hverju í tækninni og sótt mér kennslu í skvassi. Í því tilfelli smá forsjá, en það vissi ég ekki þegar ég var að læra. Spurning hvort forsjá án kapps sé algeng, spyr sú sem ekki veit. 

 


Forgangsröðunin

Lærði snemma að forgangsraða, enda oft(ast) með mörg járn í eldinum. Lengst af dugði mér að ákveða forgang vor og haust, en í augnablikinu er ég með harða forgangsröðun fyrir tæpt sex vikna tímabil. Tók nokkra sumarfrísdaga í upphafi tímabilsins og tók eina vinnustofurispu í Amsterdam með Alvaro Castagnet og heimsótti soninn í leiðinni. Í beinu framhaldi af því launalaust leyfi í mánuð til að grynna aðeins á allt of stóru bókasafni, fötum, garni og fleiru sem gjarnan mátti saxa á. Stórgripirnir (úr sér gengin húsgögn og þess háttar) bíða annarra en mín. Forgangsröðunin er skýr, þetta er aðalverkefnið, þegar vel gengur vinn ég mér inn tímakorn fyrir myndlistina og er meðal annars í fyrsta sinn að kanna möguleika á að vera með í vef-galleríi. 

En ekki síst snýst þetta um að ákveða hvað er EKKI í forgangi núna. Þótt mig gruni að bakið á mér sé farið að þola golfiðkun á nýjan leik, þá bíð ég með svoleiðis lúxus fram yfir ,,fríið" og sé þá til hvort veður, bak og vinna leyfir einhverjar heimsóknir á golfvöllinn. Er líka spurð af og til hvort það sé ekki von á næstu glæpasögunni minni, svarið er já, en þessi tími núna er ekki sá rétti til að vinda mér í að smella henni saman eftir að ég komst að því að ég ætla að bæta nýju tvisti inn í þann dans og bókin sem var 80% tilbúin fyrir rúmu ári er núna í hæsta lagi 70% klár núna. Í bríarí sagði ég samt um daginn að ég hefði ætlað mér að skrifa svona 50 glæpasögur þegar ég kæmist á eftirlaun, en í augnablikinu er ég ekki á eftirlaunum. Lék mér að því í framhaldi af þessari gáleysislegu yfirlýsingu að setja á enn eitt google docs skjalið heiti býsna margra af þessum 50 bókum og plott fylgdi sumum. Aldrei að segja aldrei! 

Óvissuþættir eins og jarðskjálftar, eldgos, lokun Álftaneskaffis og einmuna blíða hafa verið snarlega skrifaðir inn í handritið: ,,Forgangsröðunin". Mikið verið flokkað útivið og sumarbústaður nýttur vel, bæði fyrir skjálftaflóttakonu, hafurtask og vatnslitagræjur. Forgangsröðunin hefur haldið og þannig gengur þetta allt. Gulræturnar við enda tímabilsins eru spennandi verkefni í vinnunni þar til ég fer næst á eftirlaun og frítímar sem ég mun samviskulaust verja á kaffihúsum og golfvöllum eftir því til hvors viðrar betur.

Eitt hefur alltaf verið tekið út fyrir þennan forgangsröðunarsviga og fengið þann tíma sem þörf krefur, það er fjölskyldan og jafnvel hefur gefist tími til að verja smá tíma með vinum endrum og sinnum. Þannig gengur þetta upp, eða mér sýnist að það muni gera það. 

362027088_219585981046298_259944414564847314_n (2)

 


Sólarlagið sem varð að eldgosi

Vinur minn spurði um daginn hvort ég ætlaði ekkert að fara að vatnslita eldgosið. Ég hélt nú ekki, enda á ég afrit af tugum slíkra vatnslitamynda eftir félaga mína í Vatnslitafélaginu, flestar frá í fyrra held ég, átti nú ekki annað eftir en að gera eins og allir hinir, hmmm. Svo fann ég skissubókina sem ég ætlaði að hafa með mér til Amsterdam og ákvað að vígja hana. Fletti í símanum mínum og fann nokkrar ,,silhouette" myndir af fallegu sólarlagi héðan og þaðan af Álftanesinu. Ákvað að vinna út frá þeim litla skissu en svei mér þá ef hún endaði ekki í eldgosi. unnamed (1)


Sumarið sem KOM og tiltekt í fjarvinnu

Um daginn kom sumar. Náði yfir allt Suðvesturland og stundum um allt land. Það voru dýrðardagar. Sumarbústaðarferð var ekki á dagskrá þennan mánuðinn, nema rétt sem verðlaun í lok þessa mánaðar, ef mér hefði gengið eins vel og ég ætlaði að saxa hressilega á það óþarfa dót sem hefur safnast upp á 43 árum. Það er sá tími sem við höfum búið hér í húsinu sem við Ari minn byggðum barnung. Það þurfti ekki nema einn jarðskjálfta til að sannfæra mig um að ég ætti einmitt að drífa mig upp í bústað. Kl. 8:21 kom skjálftinn, fyrir klukkan níu var ég komin út í bíl og lögð af stað upp í bústað. Sem betur fer hafði ég engan tíma haft til að pakka uppúr ferðatösku eftir stuttan túr til Amsterdam þar sem ég sótti vatnslitanámskeið hjá Alvaro Castagnet (já ég veit hann var á Íslandi líka og átti góðan tíma með þeim hjónum hér líka). Þeirri tösku var kippt með og fáu öðru. Í henni var aðallega myndlistardót þannig að ég hélt bara áfram að vatnslita.

IMG-4235

Hef glímt við ýmis mótív uppi í bústað með misgóðum árangri, en í þetta sinn var útilokað annað en að drífa sig í stuttbuxurnar, setja upp trönurnar og njóta góða veðursins og mála og mála og mála. Smá tilraunastarfsemi í gangi, sem sagt að prófa mismunandi aðferðir við að mála sama mótívið, mikið unna mynd og aðra lauflétta, sem þykir yfirleitt betri latína. Sagt er að æfingin skapi meistarann (Practice makes perfect, sagði hún Alison á Butlins við okkur stelpurnar sem lögðum á borð og þvoðum kalkið af hreinu hnífapörunum þar). Að kvöldi var myndum kippt inn og kannski unnið aðeins meira í þeim áður en næsta verkefni tók við. 

IMG-2865

Svo þegar kvöldaði tókst mér meira að segja að saxa á verkefnin heima á Álftanesi með því að grisja bókasafnið uppi í bústað hressilega og losa þar með nokkra hillumetra undir bækur sem við ætlum ekki að henda, en þurfum ekki að blaða í frá degi til dags. Eitthvað verður eftir af afþreyingarbókum, vænt hestabókasafn hefur verið að vaxa og dafna og í það verður bætt, feminismabókasafnið mitt er á leið í bústaðinn en ljóðabækurnar þarf ég að hafa innan seilingar heima á nesinu mínu góða. Þetta var sem sagt tiltekt í fjarvinnu. 

IMG-4248

Um helgina fjölgaði í bústaðnum og tengdasonurinn var gripinn í módelstörf en dóttirin hélt sig í skugganum, ekki ósýnileg þó. 

IMG-4214

Svo kom gosið og ég einmitt rétt búin að klára að fara í gegnum allar bókahillur nema eina. Hún bíður betri tíma. Heim komin sátum við eldri systurnar saman úti í garði og grófsorteruðum bækurnar og nú eru fimm pokar farnir á Basarinn. Fimm aðrir pokar með fötum og garni farnir í gám eða á leið í hendur réttra aðila, einstaklinga og hugsjónasamtaka. Mér sýnist að ég nái 50 poka markmiðinu í þessum mánuði, allt umfram það er bara æði. Og sæludagarnir í sumarbústaðnum og garðinum hér heima sönnuðu svo ekki varð um villst að það KOM sumar þetta árið. 


Hliðarspor glæpa(sagna)höfundar: Skrifaði gátu á appið: Krimmi komið í loftið!

Að morgni 71 árs afmælisdagsins, þegar ég loks komst á áttræðisaldurinn skv. sumum (hef nú reyndar verið á þeim eðla aldri í ár að eigin mati) var prufuútgáfa af appinu Krimmi (kringum.is/krimmi) sett í loftið. Nú í vikunni kom síðan endanlega útgáfa út og nánari kynningar er að vænta í næstu viku, hlakka til þegar þetta mál verður (loks) upplýst með því að opna aðgang að mörgum óupplýstum gátum. 

Af algerri tilviljun hafði ég samband við útgefandann einmitt þennan tiltekna afmælisdag í fyrsta sinn síðan í febrúar til að spyrja fregna. Jú, komið í loftið, verður svo í prófunum um sinn. En um leið og þetta fer í opinbera útgáfu má láta vita. Það er sem sagt núna! Kíkið hingað: https://kringum.is/krimmi/

351103910_589548059947177_4862741423139188141_nwww

Minn krimmi heitir Morðið á horninu, í miðið hægra megin á óskýru símaskjáskotinu. Það þarf að fara í Vesturbæinn til að byrja að spreyta sig á morgátunni. 

351103910_589548059947177_4862741423139188141_n

Komið í App-Store alla vega fyrir okkur eigendur iPhone og þarna er fullt af sögum sem birtast lesanda þegar komið er á svæðið. Leiðbeiningar fylgja líka. Útgefandinn hefur áður gefið út mjög vel lukkað app, kringum.is 

Þegar útgefandinn hafði samband við mig í vetur var ég með verkefni upp fyrir haus, en það var aldrei spurning, í þessu ætlaði ég sko að taka þátt, og gerði það. Nú verður spennandi að fylgjast með hvernig þetta virkar og ég verð eflaust notandi ekkert síður en höfundur. 

Mér finnst virkilega gaman að vera með í þessu ferli og hver veit nema ég láti til mín taka á þessum vettvangi áfram. 

 


Ljúfsárt að kveðja Álftaneskaffi

Í dag fórum við systur mínar og dóttir í síðasta sinn á Álftaneskaffi, því verður endanlega lokað eftir einn og hálfan tíma. Hanna mín hafði pantað borð í sínu nafni og þegar ég komst í biðröðinni góðu (allir vildu koma hingað seinasta daginn) sagði Sigrún vert að borðið okkar væri tilbúið, ,,where everybody knows your name" var sagt í frekar vinsælli sjónvarpsseríu. Stemningin var ljúfsár, margar góðar minningar frá seinustu átta árum og Álftnesingar og ættleiddir Álftnesingar, vinir Álftaneskaffis, fjölmenntu. Við sátum úti um stund en síðan við borðið okkar, úti var kona að taka við stórum stafla af pítsum, ekki af því von væri á mörgum gestum, heldur til að eiga næstu daga og síðan í frysti þar til hún fyndi einhvern sem kæmist í hálfkvisti við snillingana Skúla og Sigrúnu. Nína fékk síðasta súrdeigsbrauðið, ég uppáhaldssalatið mitt í kassa til að taka með, snúðarnir voru borðaðir beint úr ofninum og þó var vitað að Skúli hefði mætt eldsnemma til að mæta eftirspurninni sem var fyrirsjáanleg. unnamedguur7

Hef ekki tölu á því hversu marga vini mína og ættingja ég hef dregið á Álftaneskaffi á þessum árum. Gönguhópa, sundgrúppur, elsku bekkjarsystkinin mín sem nú hafa þegar haldið uppá 50 ára stúdentsafmælið, hér hitti ég Rósu mína í síðasta skiptið nú nýverið og svo ótal marga fleiri hef ég hitt og notið stunda með á þessu einstaka kaffihúsi. Og svo auðvitað hana Gurrí sem er að mínu mati og margra annarra okkar helsti kaffisérfræðingur. Vatnslitamyndin við þessa færslu er af henni frá því fyrir þremur árum, en við höfum stundum hist hér, stundum með Hildu systur hennar en oftar einar. Hinar myndirnar eru frá í dag af þreyttum Skúla og Sigrúnu, hafi þau þökk fyrir þrautseigjuna og njóti vonandi vel þess að fá að hvíla sig eftir þessa törn sem bæði hefur staðið í átta ár og líka og einkum þó í dag, þegar við kveðjum. Spjallað var venju fremur mikið milli borða, sem þó er alsiða á Álftaneskaffi, tregablandnar ástar- og saknaðarkveðjur heyrðust úr hverju horni.

unnamed (1)

 

Játa það alveg að ég felldi tár þegar ég fór, en við Nína systir, erkikaffihúsafélagi minn, erum lausnarmiðaðar og munum nú færa okkur (aftur) á Súfistann, bókakaffið í Hafnarfirði og Te og kaffi í Garðabæ, sem hefur opið frameftir alla virka daga. Álftaneskaffi hefur runnið sitt skeið og skilur eftir ótal yndislegar minningar, lifi góð kaffihús!

unnamed


Já, við vitum að Rás 2 er fertug á árinu og margt hefur gerst á ,,áttunni"

Rás 2 var hressandi viðbót við fátæklega útvarpsflóru í upphafi níunda áratugarins, áttunnar, eins og farið er að kalla hann. Þórarni Eldjárn hefur verið eignuð sú nafngipt, með réttu eða röngu, og þetta venst. Eftir útvarpsvinnu frá árinu 1978 fannst mér upplagt að sækjast eftir því að vinna eitthvað fyrir Rás 2 en aldrei varð það mikið. Hafði verið með smálegt af tónlistartengdu efni á Rás 1 (sem þá var eina útvarpið) og Zappa-þátturinn minn líklega best þekktur hann hét auðvitað: Zappa getur ekki verið alvara, í takt við úrklippuna hér að neðan. En þá var Rás 2 ekki til.

2020-07-10_23-49-24

 

Fékk þó að leika lausum hala í einhverjum klukkutímaþætti á Rás 2 einhvern tíma á þessari margnefndu áttu, en það var kannski aldrei mitt uppáhaldstímabil í tónlist, þótt ég hefði vissulega fallið fyrir ýmsu, pönki hjá Clash, Utangarðsmönnum og Stranglers, kvennarokkinu hjá Grýlunum. Tók eitt af þremur stærri viðtölunum við þær fyrir Vikuna, mjög gaman, fannst þær hressar og skemmtilegar. Spilaði seinna skvass við Herdísi um tíma og það var svosem ekki minna hresst, önnur hlið á þessum snillingi. En í þessum eina þætti tæmdi ég til öryggis vel af listanum yfir mín uppáhalds á þeim tíma, man bara eftir Special Aka með Free Nelson Mandela (það var líka gert).

Skemmtilegasta verkefnið var þó án efa að fá, ásamt Andreu Jónsdóttur, að kynna upptöku Rásar 2 af tónleikum Leonards Cohen á Íslandi 1988. Andrea hafði farið á blaðamannafundinn fyrir hönd RUV og inn í þættina, sem voru tveir, fléttuðum við klippum þar úr. Þar sem ég hafði gert BA-ritgerðina mína í almennri bókmenntasögu um ljóðagerð Leonards Cohen fékk ég að taka þátt í þessu verkefni og fannst það alveg dásamlegt. Andrea alltaf ein af mínum allra uppáhalds, datt þetta einmitt í hug áðan þegar ég fór að hlusta á þátt hennar Pressuna í einhverju hlaðvarpinu. Vonandi hef ég í þessum þáttum okkar Andreu bætt fyrir prakkarastrik í þætti sem ég var með skömmu fyrr á Rás 1 um ljóðagerð Leonards Cohen, því í honum fjallaði ég nákvæmlega um það efni (og spilaði enga tónlist, mörgum til mikillar armæðu).  

2023-06-24_00-05-22

unnamedcohen


Sautjándinn: Bómullarís í Tívolí og ísköld nótt (nokkru) eftir útskriftardaginn

Við vinnufélagarnir óskum hvert öðru yfirleitt góðrar helgar þegar við tínumst út á föstudögum. ,,Fáið ykkur svo candy-floss á sautjándann," sagði einn félagi minn í kveðjuskyni dag. ,,Bómullarís?" spurði ég. Man þessa klístruðu, bleiku sem festust á kinnunum í Tívolí í Vatnsmýrinni. Þau hin auðvitað ekki, enda áratugum yngri. 

Skrúðgöngur og fánar, mættum samviskusamlega í allt svoleiðis, einkum þegar krakkarnir okkar voru komnir í skátana hér á Álftanesi, og eflaust hefur einhvern tíma verið boðið upp á bómullarís undir dulnefni hér á nesinu. Þekkti líka flestar fjallkonurnar með nafni og sumar voru vinkonur mínar.

Sautjándinn er alls konar, árið þegar ég útskrifaðist úr MR og vildi helst vera í venjulegum, hvítum bómullarbol með húfuna aftan á hnakka (en ekki fína útskrifarkjólnum sem Auður á Hvoli saumaði á mig) þegar ég fór á djammið frostnóttina eftir útskriftina 16. júní, eða jafnvel fyrr (15.6.). Engu að síður ,,sautjánda" minning. Var hún ekki í Háskólabíói, við vorum svo stór árgangur? Jú, segir timarit.is. Ég sem man allt, man það ekki fullkomlega. Alla vega fóru mamma og Ólafur fóstri minn með okkur Gunnu vinkonu í kaffi í Grillinu á eftir, en ég harðneitaði að halda stúdentaveislu. Svo var Gunna farin í sveitina sína. Ég vona annars að hún hafi náð kaffinu með okkur, það stóð eitthvað tæpt. Amma Kata mætti þó á sautjándann og þá hafði hlýnað og við sátum úti, báðar með húfur. Día frænka gaf mér orðabók í stúdentagjöf. Sumir voru einbeittari og neituðu að setja upp húfu, en mín hefur reynst vel og tyllt sér á ýmsa kolla í fjölskyldum okkar Ara míns. 

vid.amma (2)

17


En aftur á móti, ef það kæmi vont veður í vitlausu landi ...

Ýjaði að því í seinasta bloggi að stundum stæðist veður erlendis ekki væntingar. Ein vinkona okkar fór í virkilega regn-ferð til Havaí og fimm af sjö dögum okkar mömmu á Rarotonga í Suður-Kyrrahafi um árið voru votir. Engu að síður dásamleg vika á yndislegri eyju. Þetta bitnar ekki síst á staðföstu veðurflóttafólki, en annar markhópur er auðvitað vatnslitafólk á leið í skiplagða útimálun. Gríðarlega vel valinn markhópur. Glöggir veðurfræðingar spáðu úrhellisrigningu fyrsta daginn minn í Cordóba í mars, en þá forðuðum við, Íslendingarnir þrír, okkur undir stórar svalir sem nóg var um þar. Pokinn með hátíðarskjölunum varð að vísu gegndrepa en fyrir eitthvert kraftaverk slapp sýningarskráin sem er stórkostlegt rit. Og eins og sumir vina minna vita endaði þessi vika bara æðislega. 

unnamed (1)

Nú á ég sem sagt eitt erindi í útimálun erlendis í sumar. Eftir masterclass hjá Alvaro Castagnet í Cambridge í fyrra (í fínu veðri) var ég nefnilega bara rétt að byrja að vinna úr því sem hann hefur fram að færa. Þótt hann komi til Íslands í sumar (Vatnslitafélagið tók myndarlega við boltanum sem hann sendi mig með til Íslands) þá ganga þeir fyrir um pláss hér á landi sem ekki hafa áður verið hjá honum. En konur sem eiga syni í Amsterdam leysa það auðvitað með því að fara bara á næsta námskeið á undan, útimálun í Amsterdam. Og það geri ég. Veðrið þar hefur verið alveg stórkostlegt að undanförnu, en langtímaspáin er svona (sjá mynd), svo ég pantaði og fékk sendar 2 mismunandi tegundir af regnhlífastöndum til að skrúfa á trönurnar mínar (sjá næstu mynd).

2023-06-07_17-11-03 unnamed


Ef það kæmi gott veður ...

Merkilegt hvað sumir (ég) eru hikandi við að bóka ferðir fram í tímann á sumrin. Ef ske kynni að það kæmi gott veður á heimaslóðum, þá er auðvitað ómögulegt að missa af því. Bóka helst ekki utanferð að sumri nema hafa aðra ástæðu til þess en sólarfíkn. Kannski er ég ein um það, en grunar þó að við séum fleiri. Sumarblíða uppi í sumarbústað eða við Bessastaðatjörn, golfdagar í pilsi, auðvitað er ekki hægt að missa af svoleiðis löguðu. Haustið þegar við Ari fórum í sólarlanda- og berjaferð á Austurland verður líka alltaf í minnum haft. 

Langtímaspár lofa ekki endilega góðu, en stöku veðurfræðingar hætta sér í að vera bjartsýnir. 

Yfirleitt hef ég frekar tekið eiginlegt sumarfrí á veturna og eftir að hafa streist á móti öllum Kanaríferðum fórum við Ari minn í tíu skipti á 12 árum í vetrarferðir þangað í byrjun þessarar aldar. Fleiri staðir hafa orðið fyrir valinu á veturna, vestan hafs en þó aðallega suðaustan. Það er nokkurn veginn hægt að treysta því að veðrið sé betra á suðlægum slóðum en hér heima á veturna en á sumrin. Núna snemma sumars hef ég reyndar heyrt af óvenju mörgu veðurflóttafólki héðan af suðvesturhorninu, sem flúið hefur til Spánar, Ítalíu eða á Melrakkasléttu. 

2012-07-14 19.53.41 (3)

Spurði vini mína á Facebook um daginn hvort bítlalagið væri í meira uppáhaldi, Here comes the sun eða I´ll follow the sun. Mér finnst öruggara að halla mér að því síðarnefnda, og auk þess er það miklu fallegra lag. Hef skásta reynsluna af því að taka svoleiðis ákvarðanir þegar nokkuð traust veðurspá liggur fyrir og fara þá ekki um of langan eða dýran veg. Ótrúlega góð spá í Borgarfirði fyrir áratug eða svo og einn frídagur í vinnunni varð eftirminnilegur, í fyrra elti ég sólina frá London til Norwich og þegar spáð var úrkomu í Sitges á Spáni dreif ég mig suður með ströndinni og fann sólina heita og góða. Ekki gengur þetta alltaf vel, frétti af einum sem ætlaði að ,,skjótast" til Egilsstaða í góða veðrið um einhverja af nýliðnum helgum, en var ekki til í að borga flugfargjald öðru hvoru megin við fimmtíu þúsund kallinn fyrir nokkra klukkutíma í sólinni, enda gisting ekki alltaf á lausu í áfangastað og heldur ekki gefin.  

Framundan er heilt sumar, alls konar veður út um allar trissur, hitabylgjur, meinhægt veður, skrifstofufárviðri, Jónsmessuhret eða bara rigningartíð og rok. Sumir panta sér dýrar ferðir í sólina án þess að sjá sólina fyrir veðrinu, aðrir eru heppnari. Sumir halda því fram að það sé ekki til vont veður, bara vitlaus fatnaður. 

Við vitum auðvitað öll af því að þessi forgangsröðun okkar er lúxusvandamál, í heimi þar sem veðuröfgar verða sífellt fleirum að fjörtjóni, stríð geisa og alvarlegur uppskerubrestur ógnar lífi fólks. En þetta er nú samt það sem fólk er að tala um, sem hefur áhrif á andlega og líkamlega heilsu landans og hlýtur að teljast hinn eini, sanni þjóðarpúls.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband