Loksins að fara að vinna eitthvað af VITI!

Sagði vatnslitahópnum mínum í dag að ég væri búin að segja upp og væri að fara á eftirlaun (í annað sinn á ævinni reyndar). Datt þá ekki uppúr einum prímus mótor í hópnum: ,,Loksins að fara að vinna eitthvað af VITI!"

Mér þótti frekar vænt um þessa athugasemd, því þessi hópur hefur fylgst nokkuð glöggt með því hvað vatnslitaiðkunin hefur sífellt tekið meiri tíma og orku hjá mér, og á stundum líka skilað árangri. Myndin sem fylgir þessari færslu er frá því í dag og ég er sátt við ákvörðunina.

Leidin ut i vitann

Þurfti samt á því að halda að taka smá rispu í viðbót til að næra tölvunördinn í mér, og þessi tvö ár sem ég verð búin að vera hjá Controlant þegar ég endanlega hætti, hafa mætt þeirri þörf. Þess ber að geta að sá sem fagnaði því að ég færi að gera eitthvað af viti er sérlega jákvæður í garð fyrirtækisins sem ég er (enn) hjá og á þar góðan vin eða vini. 

Mér þótti líka vænt um það þegar ein úr hópnum sýndi mér hvað hún er að hlusta á í Storytel, en það er fyrsta glæpasagan mín, Mannavillt. Það er talsvert farið að rukka mig um glæpasögu nr. 3, svo ég reyni bara mitt besta, hún var langt komin fyrir 2 árum, en ögn skemmra komin nú. Er samt vön að klára það sem ég byrja á. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband