Gríðarlega mislangir mánuðir

Tíminn líður mismunandi hratt í hugum flestra. Breytilegt eftir æviskeiðum, er mér sagt, þótt ég geti ekki tekið undir það, hjá mér líður tíminn einfaldlega mjög mishratt. Jú, reyndar, að einu leyti. Vikurnar fjórar eða svo fyrir jólin voru alveg hrikalega lengi að líða þegar ég var lítill krakki, nú er leitun að hraðskreiðara tímabili. 

Eitt afhjúpar vel hve hratt tíminn líður. Þegar eitthvað endurtekur sig með nokkuð reglulegu millibili. Seinustu sex árin höfum við bekkjarfélagarnir úr MR mælt okkur mót mánaðarlega um vetrartímann eftir því sem unnt hefur verið. Tíminn sem líður milli þess að við hittumst er grunsamlega mismunandi langur og það helgast ekki af því að fyrsta laugardag í mánuðinum ber upp á daga missnemma í hverjum mánuði fyrir sig. Nei, það er eitthvað allt annað. Stundum hafa fleiri en einn á orði að það sé langt síðan við höfum hist, þótt það sé aðeins um mánuður, oftar er eins og við séum að taka upp þráðinn eftir fyrri viku eða næstsíðustu. 

Undanfarinn mánuður hefur verið ótrúlega langur, venjulega er nóvember með styttri mánuðum í lífi mínu, en ekki núna. Margvíslegir viðburðir í samfélaginu, bæði nærsamfélagi, á landinu okkar og á plánetunni okkar hafa áreiðanlega spilað þar inn. Seinustu mánaðarmót og dagarnir kringum þau buðu reyndar ekki upp á MR-hitting. Þess í stað fór ég í stutta og skemmtilega ferð til Skotlands og Englands, á hljómleika og sýningar, og ég bað jarðskjálftahópinn minn vinsamlegast að sjá til þess að skjálftarnir sem voru þá byrjaðir, mundu hætta áður en ég kæmi heim aftur. Völd þessa hóps eru augljóslega engin. Heim komin setti ég í snatri upp vatnslitasýninguna mína, sem ég tók niður í fyrradag og eftir yndislega opnun var einn árviss viðburður á dagskrá hjá mér. Kannski það eina sem var á réttum tíma og tók venjulegan (góðan) tíma. 

Var að velta því fyrir mér hvort það lengdi mánuðinn eitthvað að ég var búin að segja upp vinnunni minni, eins og ég nefndi í seinustu færslu. Var sem sagt farin að vinna uppsagnarfrestinn. Það skekkir þá mynd að ég sagði upp fyrir 7-8 vikum þótt uppsagnarfresturinn hæfist ekki fyrr en fyrir liðlega mánuði, sem sagt m.v. mánaðarmót. Mín reynsla hefur líka yfirleitt verið sú að að uppsagnarfrestur er allt of fljótur að líða, einkum fyrir fólk eins og mig, sem langar að klára svo margt áður en það fer. 

Böndin berast því að því sem eru ytri aðstæður fyrir mig, en snerta annað fólk svo hræðilega djúpt. Fólkið sem beið eftir að jarðskjálftum linnti en fékk þá bara verri, beið þess að líf þess á flótta undan náttúruöflunum reyndist bara vondur draumur. Og enn frekar fólkið á Gaza-svæðinu sem er statt í miðjum alvarlegum hörmungum sem ekki sér fyrir endann á. En líka fólkið í nærumhverfi mínu sem átti þess ekki kost að velja hvort það hætti í vinnunni sinni eða ekki. Við sem vinnum í sveiflukenndum heimi hugbúnaðargerðar höfum flest orðið vitni að eða upplifað þær skyndilegu sveiflur sem fylgja þessum bransa, en samt er það aldrei auðvelt, þegar niðursveifla á sér stað og fjöldi fólks missir vinnuna. 

Á þá jólaósk heitasta að allt þetta fólk fái sem allra fyrst öryggi og ró í tilveru sína. Og að tíminn þangað til verði fljótur að líða.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband