Í vor skrapp ég í dagsferð frá Bologna til Fabriano á Ítalíu. Þetta var bráðskemmtileg rútuferð um fallegar slóðir, bæði meðfram austurströnd Ítalíu og gegnum fjallahéruð, um þriggja stunda ferð hvora leið. Smá tafir í upphafi merktu að dvölin í borginni var aðeins fimm og hálfur tími og dagskráin þétt. Við ferðalangarnir vorum öll stödd í Bologna vegna stórrar alþjóðlegrar vatnslitasýningar sem við flest tókum þátt í. Dagskráin fyrir sýnendur, námskeið, sýnikennsla ýmissa listamanna og fleira fór að mestu fram í Bologna, en sýningin sjálf var á tveimur stöðum í Fabriano og þar gafst okkur líka kostur á að skoða og prófa sjálf pappírsgerð. Um leið og ég kom í þessa fallegu, 30.000 manna fjallaborg, var mér ljóst að hér væru einstök tækifæri til að þjálfa sig í útimálum (plein air, eins og það er kallað á vatnslitsku og öðrum listamállýskum). Gamli bærinn bauð upp á einstök mótív, en eftir pappírsgerðina, smá kaffipásu og að skoða sýningarnar stóru komst ég að raun um að ég hefði aðeins 10 mínútur til að reyna að fanga eitt mótív, sem ég gerði í litla vatnslitablokk á aðaltorginu (þar sem sumir úr hópnum höfðu fórnað einhverju úr dagskránni til að ná sér í aukakorter til málunar). Hugmyndin blundaði í mér, hingað verð ég að komast aftur og gefa mér tíma til að mála.
(Myndirnar sjást í meiri gæðum ef smellt er á þær).
Mér var ljóst að Fabriano er þekkt fyrir pappírsgerð og gladdist yfir að hafa fengið smá tækifæri til að prófa handtökin við hana. Einnig að borgin er Handverks- og alþýðulistaborg UNESCO. En þó aðallega að hún er ævintýralega falleg. Svo var það af einstaklega heppilegri rælni að ég sá að Facebook-vinkona mín úr covid-fjarvinnu-vatnslitahópi á WhatsApp hafði birt áskorun til okkar vatnslitafélaga sinna út um allan heim að mæta á Vatnslita-tvíæring í Fabriano. Þetta var á fyrstu dögum yfirstandandi júlímánaðar og hún hvatti okkur til að vera mætt 12. júlí. Ég var mætt að kvöldi 9. júlí. Eins og gefur að skilja var ekkert einfalt að finna réttu flugferðirnar né bóka gistingu, alla vega ekki fyrir konu eins og mig sem sjaldan hefur geð í sér til að bóka slíkt á allt of dýru verði. Ferðaðist ákaflega létt til Fabriano, enda leiðin þangað um Róm og svo þrjár kvöldlestir. Ákvað að taka með mér uppáhaldspensla en kaupa liti og bakka á staðnum (eftir smá skilaboðasamskipti við listavöruverslun staðarins). Þakkaði mínum sæla þegar ég sá að engan leigubíl var að hafa á brautarstöðunni upp úr miðnætti, né svör við síma/skilaboðum. Undirsætistaskan mín rúllaði með mér um sléttar gangstéttar fyrsta spölinn, bakpokinn var tekinn upp úr henni til að létta töskuna, svo ég gæti auðveldlega haldið á henni þar sem ósléttar, steinlagðar götur tóku við og buðu varla upp á neitt slíkt rúllerí. Fabriano var gullfalleg í kvöldbirtunni og hálftíma göngutúr bara hressandi og mikið til niður í móti í þessum hæðótta bæ.
Margir óvissuþættir eins og eðlilegt var þegar lagt er í svona ferð í skyndingu. Sýningarnar fimm með nokkrum hundruðum vatnslitaverka, átti strangt til tekið að opna á laugardagskvöldi kl. 19, en síðasta lestin til Rómar fór 20:52. Hana varð ég að bóka þar sem morgunlestirnar fóru of seint fyrir flugið mitt. Auk þess var nákvæmlega enga gistingu að hafa í Fabriano einmitt þessar tvær nætur, laugardags- og sunnudags, væntanlega vegna tvíæringsins. Þessar fjórar nætur sem ég gisti í bænum þurfti ég bara að færa mig einu sinni milli gististaða, sem var út af fyrir sig bara gott. En skemmst er frá því að segja að sýningarnar voru tilbúnar degi fyrir formlega opnun og ég fékk að skoða þær allar í miklum rólegheitum og var meira að segja tekið nokkuð persónulega vel, því sú sem setti upp sýninguna stóru sem ég tók þátt í fyrr á árinu, mundi eftir hlut okkar Íslendinganna á sýningunni og af því mín mynd skar sig svolítið frá hinum, þá mundi hún meira að segja eftir henni.
Farbriano-dvölin var dásamleg, ný mótív á hverju horni í gamla bænum, gul veðurviðvörun (vegna hita) plagaði mig engan veginn og ég náði að mála allmargar myndir á staðnum, rissa upp fleiri og grunna eina. Ein fór í ruslið, eins og gengur. Þetta var dásamlegur tími í stórbrotnu umhverfi og allt gekk eins og í sögu. Dönsku vatnslitafulltrúarnir höfðu sagt mér hvar besta kaffið í bænum væri að finna, í fyrri ferðinni, og það voru góðar upplýsingar. Seinni myndasyrpan sýnir svipmyndir úr þessari ferð, en ég hvet ykkur til að finna fleiri upplýsingar um þessa yndislegu smáborg með smá flettingum á netinu. Um sýningarnar (fimm talsins) á þessum vatnslitatvíæringi má nánar lesa hér: https://www.facebook.com/FabrianoWatercolour
Rétt er að geta þess að sýningarnar fimm standa út septembermánuð og þær eru svo sannarlega skoðunarinnar virði.
Konan sem var tekin í vopnaleit í Amsterdam - 1. hluti flugvallaævintýra
28.6.2024 | 23:48
Sem betur fer fyrir okkur öll er flug (nú orðið allavega) orðið enn öruggari ferðamáti en fyrrum, og hefur þó alltaf verið mjög öruggt, samanborið við akstur mishæfra viðvaninga (okkar bílstjóranna) á misgóðum vegum. Eitt af því sem tryggir þetta er góð vopnaleit. Hér er saga sem sannar hversu góð hún er, svona að mestu leyti.
Fyrir rúmum mánuði var kona tekin í vopnaleit á Schiphol-flugvelli í Amsterdam. Eflaust gerist það nokkrum sinnum á dag, en þetta var í fyrsta sinn sem téð kona lenti í þessu. Hún hafði ætlað að laumast um borð í Dreamliner-vél TUI í 10 tíma flug til Karabíska hafsins vopnuð skærum, sem hún hafði reyndar ekki hugmynd um að leyndust í handfarangri hennar. Þegar upp komst sótti hún það fast að vopnið yrði gert upptækt, en það var bara hlegið að henni og henni sagt að halda áfram svona þungvopnuð. Þegar í áfangastað var komið og konan gat ekki stillt sig um að taka mynd af vopninu fann hún í fórum sínum, einnig í handfarangri, hníf og hann fékk að vera með á myndinni, en það vekur spurningar hvernig það vopn komst í gegnum vopnaleitina.
Eins og lesendur grunar ef til vill er ég þessi þungvopnaða kona og sannast sagna rifjast aðrir válegir flugvallaviðburðir upp í framhaldi af þessu einkennilega ævintýri. Reyni að gera því skil í 2. hluta flugvallaævintýranna. Þar verður fjallað um saklausu smyglarana.
Þess vegna vil ég alltaf sitja við glugga
9.6.2024 | 13:17
Nýkomin úr flugi frá Egilsstöðum í yndislegu veðri. Bóka mig yfirleitt í sæti við glugga og ótrúlega oft er ég svo heppin að fá fallegt útsýni, þannig að ég mun eflaust halda áfram að velja mér gluggasæti þegar færi gefst. Hver veit nema ég finni til eldri, valdar myndir, en fyrst myndirnar frá því í morgun.
Ég hlakka svo til ...
30.5.2024 | 18:59
Mér finnst tilveran yfirleitt mjög skemmtileg, oft það sem ég er að gera þá stundina, gleymi mér í skemmtilegum minningum og það sem ég er veikust fyrir, að hlakka til. Vera má að til sé einhver fín greining á persónuleikaröskun tilhlökkunarfíkla, en ekki þekki ég heiti yfir svoleiðis lagað.
Núna er ég á einum slíkum tímamótum, á leið út í eftirlaunalífið í þriðja sinn á ævinni, alla vega í sumar, og ég hlakka svo til. Það æxlaðist reyndar þannig að seinast þegar ég fór á eftirlaun varði það bara í 6-7 vikur og inn í þann tíma komu jólin. Svo var ég óvænt komin aftur út á vinnumarkaðinn, nema þegar ég var upptekin við annað, aðallega ferðalög. Það var skemmtileg U-beygja, nógu skemmtileg til að ég gæti freistast aftur í einhverja launavinnu í haust, en núna er ekkert framundan nema eftirlaunalífið. Nenni ekki að blanda mér í umræðuna ,,ég hef aldrei haft eins mikið að gera og eftir að ég fór á eftirlaun" með fullri virðingu og algerri þátttöku í slíku. Var vissulega á eftirlaunum á aldrinum 65-69 ára en ég neyddist þá upprunalega til að segja föstu vinnunni minni lausri vegna annríkis. En núna sé ég tímana framundan sem tilhlökkunarefni vegna smáatriða sem skipta mig býsna miklu máli.
Ég hlakka svo til að geta fengið mér gott kaffi latté á hvaða tíma sólarhrings sem er, án þess að þurfa að kenna því um ef ég skyldi sofa ,,of lengi" frameftir. Heima eða á kaffihúsum, hvort tveggja gott. Hef reyndar ekki orðið andvaka vegna kaffidrykkju nema þegar ég var í módelteikningu í Myndlistarskólanum í Reykjavík og fékk mér kaffi í öllum hléum frá kl. 19:30 til 22:30. Módelið þurfti 10 mínútna pásu eftir hverja 20 mínútna stöðu og við hin kaffi. Móðuramma mín drakk alltaf kaffi á kvöldin til að sofna betur og það var ekki koffínlaust. Hún var afskaplega virk (og skemmtileg) kona og hefði kannski verið sett á rítalín ef hún hefði fæðst 100 árum seinna.
Ég hlakka líka til að snúa sólarhringnum í ótal hringi ... allt eftir því hvað ég verð að gera hverju sinni. Geta haldið áfram með mynd sem ég er að vinna að fram eftir nóttu þegar ég vil, flakkað um heiminn án þess að finna nokkurn tíma fyrir þotuþreytu út af tímamismuni, það er ánægjulegur fylgifiskur óreglulegra svefnvenja. Sofið eins og ég vil án þess að þurfa að stilla vekjaraklukku, nema ég sé búin að ákveða að gera eitthvað tímaháð daginn eftir, en slíku held ég í algeru lágmarki.
Ég hlakka líka til að sjá hvaða óvæntu vendingar lífið mun hafa í för með sér, ef það á annað borð heldur áfram að koma mér á óvart.
Ég hlakka líka til að finna út hver mín viðbrögð verða næst þegar hnippt verður aftur í mig og ég plötuð til að taka að mér eitthvert verkefni. Verð ég tilbúin í ,,eina lotu enn" eða er þetta bara orðið gott, fimm dagar í 72 ára afmælið? Hef alltaf verið gríðarlega heppin með vinnufélaga og fínustu fagnaðarfundir þegar ég hitti þá aftur eftir eitthvert hlé. Ófá skiptin sem ég hef kíkt við á gömlum vinnustöðum. Eins ófélagslynd og ég er að eðlisfari, þá getur blessað fólkið sem ég hef verið að vinna með bara ekkert að því gert að vera svona yndislegt eins og það hefur oftast verið.
Bonaire er yndisleg eyja. Ef þið hafið ekki heyrt um hana áður, þá eruð þið síður en svo ein á báti og alveg áreiðanlega ekki forfallnir kafarar. Mér skilst að eyjan sé heimsfræg í heimi þeirra, enda leitun að eins ósnortinni kórallaveröld og einmitt hér. Merkilegt nokk, þetta er í annað sinn sem við Ari minn leitum á slóðir sem eru vinsælar meðal kafara, þótt við séum engan veginn í þeim hópi. Hinn staðurinn var Hurghada í Egyptalandi, við Rauða hafið. Þessi orð setti ég á blað þegar ég var á þessari fallegu eyju í síðustu viku.
Bonaire er hérað í Hollandi, en í ,,innanlandsflugi frá Amsterdam tekur 9-12 tíma að komast hingað. Nágrannaeyjarnar, Aruba og Curacao eru þekktari. Þær eru nú sjálfstæð ríki í ríkjasambandi við Holland, en Bonaire kaus að halda stöðu sinni sem hérað í Hollandi, enn sem komið er alla vega. Spánverjar komu hér fyrstir Evrópumanna um 1499 en hálfri annarri öld síðar höfðu Hollendingar lagt eyjarnar undir sig og sín viðskipti. Fyrir voru hér Caquetio indjánar og nafn Bonaire er ættað úr þeirra máli, merkir einmitt lágt land (eins konar Niðurlönd) en málið telst nú horfið.
Er lítið fyrir að þylja upp almennan fróðleik, hvort sem hann er á allra færi eða ekki, en hér er meira um ABC-eyjarnar fyrir forvitna:
https://www.worldatlas.com/articles/what-are-the-abc-islands.html
Fallegu, misbleiku flamingóarnir
Mörg dýra- og önnur náttúruverndarsvæði eru á Bonaire, sum frá því fólk hafði almennt ekki uppgötvað náttúruvernd að gagni. Mig langaði alla vega til að sjá bleika flamingóa, og tvö svæði, annað í norðri og hitt í suðri, eru helguð þeim, nóg af plássi fyrir þá flottu fugla. Sá fyrsti sem við sáum (var bent á) var reyndar alls ekkert bleikur, en svo sáum við öll litbrigði bleika litarins þegar sunnar dró og daginn eftir í norðri.
Dýralíf er fjölskrúðugt, pelíkanarnir eru rosalegir húmoristar, hvort sem þeir eru meðvitaðir um það eða ekki, eðlur flottar, bæði gekkóárnir litli og stóri hér á sundlaugarsvæðinu við húsið okkar og allir hinir, sem lögðu á flótta á Klein Bonaire þegar igúana-eðlan mætti milli lappanna á okkur í öllu sínu veldi. Annars eru geiturnar út um allt flinkar að klifra í trjám, enda gerist geitaosturinn ekki betri, af fjórum kvöldverðum á veitingahúsum hér (sem eru hvert öðru frábærara) fékk ég mér geitaostsrétti á þremur. Skipulagðar ferðir á geita(osta)-sveitabæi eru meðal þess sem hægt er að taka þátt í þótt við höfum ekki valið það. Asnarnir eru á takmarkaðri svæðum, en nóg af þeim líka.
Hve mörg þrep eru í 1000 þrepa stiganum?
Ef þið haldið að þið þekkið ýkjumeistarann, hugsið ykkur vel um. Vinsæll köfunarstaður á Bonaire heitir 1000 þrepa stiginn, stigi sem liggur niður að köfunarstaðnum eftir snarbröttum kalksteinsklettum. Hann er 67 þrep.
Vegir liggja alls ekki til allra átta
Bonaire er alls ekki stór eyja (288 km2), en vegakerfið engu að síður mjög takmarkað, sagt er að það taki um fjóra klukkutíma að fara áttuna sem vegirnir gróflega mynda. Ástand vega hátt í að vera samkeppnisfært við sum svæði á Vestfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu. Það tekur því ekki að vera með neinar almenningssamgöngur og fólki er eindregið ráðið frá því að vera á skellinöðrum eða golfbílum (sem ég veit núna að eru vinsælir hér í karabíska hafinu). Til þess eru vegir bæði of þröngir og holóttir og mikil hætta á að skellinöðrur renni til í asnaskítnum á vegunum.
Í miðbænum er eflaust fínt að vera bíllaus og fara í skipulagðar ferðir ef fólk langar út fyrir bæjarmörkin, en annars eru bílaleigubílar vinsælastir. Bílakosturinn á eyjunni er einfaldlega góður og umferð alls ekki svo mikil. Suðurhluti eyjarinnar er all-villtur nema saltvinnslusvæðin (og þó, þau líka) en norðrið er grónara og settlegra, nema kannski barinn okkar í Rincon, næststærsta bænum á eyjunni, næstum 1500 manna. Þar er ekki eins mikill höfuðborgarbragur og í Kralendijk, 3000 manna borginni, en þaðan er myndin.
Salt
Auðlind Bonaire er salt. Hér hefur saltvinnsla verið mikil í nokkrar aldir og sú saga á sér sínar dökku hliðar, þar sem þrælar bjuggu í hræðilegum kytrum og erfiðu við saltvinnslu. Nú er sú saga (vonandi) liðin og alla vega eru hollensk gildi í fyrirrúmi á þessari fallegu eyju, sem er kostur mannréttindalega séð, skyldum við ætla, þrátt fyrir nýja ríkisstjórni í Hollandi.
Það er ævintýralegt að fara framhjá saltvinnslunni sem nú er suðvestan til á eyjunni, með knallbleikt lón á aðra hönd og fagurlega blágrænt hafið á hina höndina.
Lang-næstbesta vatn í heimi
Kranavatnið er dásamlegt á Bonaire. Þegar við vorum á leiðinni í siglingu áttum við, ég og stelpan í afgreiðslunni, huggulegt samtal um hvort væri betra, náttúrulega vatnið á Íslandi eða hreinsaði og filteraði sjórinn sem rennur úr krönum bonaire-inga. Ég held því hiklaust fram að hið síðarnefnda sé lang-næstbesta vatn í heimi (á eftir okkar, auðvitað).
Veðrið
Bonaire er nálægt miðbaug og hitastig stöðugt 27-32 gráður árið um kring, ekki mikill munur dags og nætur en í heitri hitabeltissólinni er hitinn þó æði mikill. Blessað rokið sem er eitt aðalsmerki Bonaire, bætir þar verulega úr skák og loftkæling er mikið notuð og hnökralaus, bæði viftur og vindblásandi kassarnir sem ferðalangar þekkja. Öldurnar sem rokið reddar freista vatnaíþróttafólks verulega og skiljanlega og umferðarþröng við Sebastian veitingasvæðið á suðausturströndinni skemmileg á að horfa. Enginn rotaðist meðan við vorum þar. Þar er líka besta kaffið sem ég fékk í ferðinni (latte machiato). Það sem þykir þó merkilegast hér um slóðir eru ótal frábærir köfunarstaðir og fegurðin neðansjávar er víst enn meiri en sú sem er ofan hans.
Loks er hér svolítið um ABC-eyjarnar og muninn á þeim í boði Lonley Planet. Sessunautur okkar í fluginu til baka til Amsterdam bætti því við að Bonaire væri lang notalegust og íbúarnir einstaklega gestrisnir, það get ég staðfest. Enda motto eyjaskeggja sagt (á ensku, sem allir tala): Once a visitor, always a friend. Aruba aftur á móti lang-ameríkaníseruðust.
https://www.lonelyplanet.com/articles/what-abc-island-should-i-visit
Maður og kona
11.5.2024 | 12:06
Ætlaði ekki að blanda mér í heitasta málefnið þessa stundina, fyrir utan forsetakosningarnar kannski. Það er fyrirbærið: Maður og kona. Hef verið mjög sátt við að geta talist til þessara tveggja tegunda af nokkrum sem til eru af þeirri sort sem ráðskast með þennan heim. Á langri starfsævi hef ég aðallega notað fjögur starfsheiti: Blaðamaður, þingkona, sagnfræðingur og tölvunarfræðingur.
Hef líka verið virk í kvennabaráttu sem meðal annars benti á að ,,konur væru líka menn" og framhaldinu sem lagði meiri áherslu á ,,kvennamenningu" þegar það þótti bara ágætt að vera kölluð kona.
Mér finnst yfirleitt best ef fólki er einfaldlega treyst til að nota tungumálið (fallega) og það hefur alls ekki truflað mig að taka mér í munn að ,,konu finnist nú betra að gera þetta eða hitt" ef ég á við sjálfa mig, stundum segi ég eins og í söngnum: ,,Maður getur nú ..." en aðallega er ég hætt við að vera hrædd við að segja: Mér finnst og ég get.
Mig langar hins vegar að benda á eitt dæmi, slag sem ég stóð í um og uppúr 1990 og aðrar á undan mér, og það var að fá þessu orðalagi í almennum hengingarlögum breytt, þannig að í stað þess að 194. greinin hefjist eins og hún gerir nú, yrði orðalagið: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við MANNESKJU með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun ... ".
Ef þið haldið að annars staðar í lögunum sé fjallað um þennan sama glæp gegn konum, sem eru langstærsti hópur fórnarlamba nauðgana, þá er það misskilningur. Þetta eru orðalagið sem enn er notað um það ef konu er nauðgað (skv. uppflettingu í lagasafni, ég var að vona að þetta hefði breyst, þætti verulega gott ef þessi uppfletting væri skökk), rétt eins og ef karlmanni er nauðgað eða þeim sem skilgreina sig á annan hátt.
Á myndlistarsýningu í London þar sem formin lifnuðu við
4.4.2024 | 01:26
Síðan ég bloggaði seinast hefur margt gerst, ný verkefni rekið á fjörur mínar, Córdoba-vatnslitahátíðin haldin öðru sinni og enn átti ég mynd þar, nú ásamt fimm öðrum Íslendingum, sem er vænn skerfur af 236 mynda sýningu listamanna frá 42 löndum, en þrjú okkar sóttu hátíðina (með viðkomu í Madrid) og nutum við sýnikennslu, útimálunar og skoðunarferða. Eftir það frekari Spánardvöl, fyrst í Córdoba og síðan í Valencia en á bakaleiðinni gaf ég mér smá tíma í London og þar hef ég upprifjun ferðarinnar með frásögn af einni sýningu.
Aðalástæðan er sú að þar stendur nú yfir merkileg sýning í Hayward Galleríinu á suðurbakka Thames, rétt við Waterloo, í frekar stuttan tíma,frá 7. febrúar til 6. maí. Enn er því mánuður til stefnu að komast á hana, öruggast að panta miða fyrirfram og fylgja þessum hlekk:
Mér er rammasta alvara, þessi sýning er einstök, falleg og skemmtileg.
Verk Teresu Solar Abboud, ungrar spánsk-egyptskar konu, heilluðu mig mest, en hún fær heilan sal eins og fleiri listamenn, á þessari stóru sýningu með verkið/verkin Tunnel Boring Machine sem var víst á Feneyjatvíæringnum 2022 og hefur verið sýnt víðar. Ég varð svolítið lítil við hlið þessa verks.
Verkið sem mætir sýningargestum í orðsins fyllstu merkingu í upphafi sýningarröltins er eftir Ralph Nauta og Lonneke Gordijn úr DRIFT hópnum sem ég þarf að kynna mér betur. Reyni að pósta videó-i af því verki síðar.
Mæli með að ætla sér 2-3 tíma í að skoða sýninguna og það þarf að gæta þess að missa ekki af neinu (margir salir út um allt), upplifunin er ótrúleg.
Finnst þér ekki leiðinlegt að ferðast ein?
2.2.2024 | 22:57
Stutta svarið er nei. Mér finnst líka gaman að ferðast með fjölskyldu og vinum, enda á ég mikið dýrðarfólk í kringum mig. Yfirleitt ferðast ég þó ein, núna seinni árin. Alltaf með einhver áform um hvað mig langar að gera, fyrir utan að skoða það sem áhugavert er í áfangastað. Fer ekki annað en á góða staði. Kláraði að smella Sögu tölvuvæðingar saman í risherbergi í Londum fyrir nokkrum árum, fór í einnar konu golfferð til Spánar þegar ég kolféll fyrir þeirri íþrótt. Hef eitt sinn tekið dagvinnuna með mér til Gran Canaria og Fuerteventura, það gekk rosalega vel en tók of mikinn tíma af mér frá öðru til að ég endurtaki það. Eitt af því fáa sem ég geri alltaf er að njóta góða veðursins og almennilegra almenningssamgangna til að fara í alls konar langar gönguferðir, alltaf í bæjarumhverfi og yfirleitt þar sem fallega útilist er að sjá eða áhugaverðar borgir og bæi. Ég er ekki fjallageit og mér finnst ekkert gaman að ganga út í buskann í mis-ósnortnu víðerni. Ég er alltaf að fara ,,eitthvert. Heimsækja rennilásaskúlptúr, komast á áhugavert kaffihús, elta blá (eða bleik) hús sem ég fann á google maps, skoða staðhætti í glæpasögu sem ég er að skrifa (þannig ,,lenti ég á La Palma, ekkert mjög löngu áður en eldgosið á eyjunni fór að herma svolítið eftir söguþræðinum í Mannavillt).
Gaf í skyn hér um daginn að ég ætlaði að skjótast, enn einu sinni, til Fuerteventura í náinni framtíð. Gerði það, annað var ekki hægt þegar hræbillegir flugmiðar í beinu flugi voru allt í einu í boði til þessarar uppáhaldseyjar minnar. Þá er nú heppilegt að vera komin á eftirlaun í annað sinn, hversu lengi sem það endist, og talandi um það, hversu lengi það endist, þá veit ég líka að þessu lágu fargjöld þarf að nota meðan þau eru í boði. Annað hvort slær áfangastaðurinn í gegn og verðið hækkar svo flugið beri sig, eða ekki, og þá verður þetta skammgóður vermir.
Þrennt var á dagskrá þessa allt of stuttu viku:
Rápa út um allt
Auðvitað var mitt yndislega ráp út um allt á dagskrá, endaði venjulega í svona 8-11 þúsund skrefum, meira þolir bakið mitt ekki, núna þegar gamalt hryggbrot minnir á sig. Fór í tvígang til Correlejo og skrapp í bakaleiðinni í fyrri ferðinni að kíkja á sólarlagið í bæ sem ég hafði ekki áður komið í, El Cotillo. Skaust á uppáhalds kaffihús í Caleta de Fuste, meira um það undir vatnslitakaflanum. Svo einn daginn var skýjað í Puerte del Rosario, en þaðan gerði ég út. Þá kíkti ég á vefmyndavélar og endurnýjaði svo kynnin við Morro del Jable. Óþarflega löng strætóferð var vel tímans virði og ég náði aftur ansi skemmtilegu sólarlagi því næstbesta. Mestum tíma varði ég þó í höfuðborginni þar sem ég leigði litla íbúð í viku og fór víða.
Vatnslitasukk
Fyrst staðreyndir, 12 kaffihúsa-vatnslitamyndir litu dagsins ljós í ferðinni. Flestar fyrstu dagana, því svo fór þriðja viðfangsefni ferðarinnar að taka yfir, skrif. Fyrstu myndirnar gerði ég í Puerto del Rosario, en svo dreif ég mig á eftirlætiskaffihúsið mitt, Café del Town, í Caleta de Fuste, sem er ferðamannabærinn sem ég gerði að bækistöð þegar ég flutti vinnuna mína þangað í fyrra. Þá vatnslitaði ég líka dálítið þar, en sat mest með tölvuna og latté-ið mitt á borðinu. Erin, írska stelpan sem þar vinnur, tók sig til og seldi allar myndirnar mínar jafnharðan og ég vatnslitaði þær, þegar ég var þar í fyrra. Ég sá við henni núna og gerði eina mynd af fólki sem tókst að forða sér áður en hún var búin að selja því myndina. Svo sá ég hann David fastagest, gerði mynd af honum í fyrra, og ákvað að hlífa honum. Það var ekki við það komandi, hann bara kom röltandi til mín og spurði hvort ég myndi eftir honum. Ójá, ég hafði skoðað hann nokkuð vel í fyrra. Myndin þín er í ramma uppi á vegg í stofunni hjá mér, sagði hann stoltur. Erin kom og sagði að nú yrði ég bara að gera aðra mynd af honum og ég hlýddi. Hver hlýðir ekki henni Erin? Áður en ég var hálfnuð kom David og borgaði mér myndina en sagði að ég ætti eftir að klára hana. Svo bara fór hann og ég ákvað að bæta aðeins við smáatriði í fötunum hans, en ekki mikið. Erin vildi ólm selja honum myndina, en ég sagði henni sem var að hann væri þegar búinn að borga hana og hún ætlaði að koma henni til hans. Hér eru myndirnar af David, í fyrirsætuhlutverkinu, myndin frá í fyrra og nú í ár, af konunni sem ,,slapp" frá Erin og svo auðvitað af Erin, umboðsmanninum mínum á Fuerteventura. Ég bauð henni umboðslaun, hún hló og splæsti á mig latté.
Erin benti mér á að koma aftur á sunnudeginum áður en ég færi, því svo væri lokað mánudaga og þriðjudaga og á miðvikudegi var ég á heimleið. Ekki komst ég nú í að fara aðra ferð þangað, nóg annað að skoða og ég komin á kaf í skrif.
Við næsta borð sat maður og lýsti mjög fjálglega einhverri söngkonu sem hann dáði mjög. Enginn komst hjá þá að vita það. Svo heyri ég allt í einu ,,Icelandic og spurningin var, átti ég að segja þeim að Laufey héti ekki Labví?
Fylla í skörðin í næstu glæpasögunni minni
Á þriðja degi komst ég í skrifstuð og tók upp þráðinn við að bæta í skörðin og gera nauðsynlegar breytingar á handritinu á næstu glæpasögunni minni, sem var komin í 80% af fullri lengd þegar ég fór að vinna hjá Controlant fyrir tveimur árum. Síðan hefur margt breyst og ég var nær því að vera í 65% af fullri lengd þegar ég sneri aftur í tölvuna og fór að bæta inn, lagfæra, leiðrétta, breyta alvarlega og á þessum fimm virkum dögum endaði ég með að skrifa 10 þúsund orð í mislöngum köflum og einhverjar tengingar, á þær þó mikið til eftir. Það kom mér verulega á óvart hvað ég naut þess mjög að sitja á útikaffihúsum og upphugsa vélabrögð og vesen, en saklausa fólkið í kring hafði ekki hugmynd um hvað fór fram í hausnum á þessari gráhærðu, meinleysislegu konu með latté sér við hlið. Endurskrifaði morð í flugvélinni á heimleiðinni. Það gleður mig ekkert smávegis hve mikið er farið að rukka mig um næstu glæpasögu, en ég átti samt ekki von á að það gengi svona greiðlega að koma sér í gírinn.
Út af öllu þessu er svo gott að ferðast stundum ein síns liðs. Og, nei, mér leiðist aldrei. Engar tvær ferðir eru eins, þessi var einstaklega góð og eflaust hefur það hjálpað til að ég var hálfpartinn búinn að samþykkja, alla vega til vors, að vinna á fullu í verkefni á mínu fagsviði í febrúar og apríl á þessu ári. Í mars og sennilega einnig um mánaðarmótin apríl/maí verð ég síðan að eltast við vatnslitamyndirnar mínar sem eru komnar á erlendar vatnslitasýningar/-hátíðir. Það er ekki hægt annað en ,,fórna sér og halda til Córdoba og Bologna/Fabriano með vorinu. Þá verð ég í félagi við annað gott myndlistarfólk, svo það er annars konar upplifun.
Í lokin nokkrar fallegar myndir frá Fuerteventura:
Ný stefna í tilverunni: Tvær af myndunum mínum á leið á alþjóðlegar vatnslitasýningar
29.1.2024 | 23:06
Núna snemma árs er ljóst að tvær af vatnslitamyndunum mínum eru á leið á sterkar alþjóðlegar sýningar erlendis. Sú fyrri er í mars í Córdoba á Spáni, það er meira en vikulöng vatnslitahátíð, en aðaldagskráin stendur 4-5 daga. Hún var haldin í fyrsta sinn í fyrra og tókst alveg stórkostlega vel. Það var í fyrsta sinn sem ég freistaði þess að komast á slíka hátíð og þótti spennandi að myndin mín var tekin inn á sýninguna. Vissi þá ekki að þetta var um leið samkeppni og þegar ég landaði öðru sætinu í henni hristi það upp í mér að fara að endurskoða forgangsröð viðfangsefna, ekki seinna vænna á áttræðisaldri.
Samt sem áður vissi ég sem var að það var ekki sjálfgefið að komast aftur inn á þessa sýningu, samkeppnin er mikil og hver fær aðeins að senda inn eina mynd. Það var ekki fyrr en 16.11.23 að ég fann að ég var búin með mynd sem gæti verið nokkuð öruggur kandidat, en þá voru innan við tvær vikur í lokaskil. Myndin var vissulega þornuð þegar ég tók myndina sem ég sendi inn, sem hefði ekki verið ef um olíumálverk hefði verið að ræða. Það er nefnilega ekki sama mynd af blautri mynd eða þurri. Viðraði þessa mynd einmitt hér í blogginu sama dag og ég málaði hana, en síðar bætti ég við rauðu peysunni, af því mig vantaði að myndin segði sögu.
Setti síðan á bið ákvörðun um hvort ég ætlaði að taka þátt í annarri sýningu síðar um vorið, Fabriano sýningunni í Bologna á Ítalíu apríl/maí, sem verður svo sett upp í Austin, Texas í október. Félagar mínir úr Córdoba-ferðinni í fyrra voru að hvetja til þess en í þetta sinn ákvað ég að velja ekki ,,örugga" mynd til að senda, heldur eina sem ég taldi svolítið áhættusama, þar sem ég var alveg til í að taka sjansinn varðandi þessa sýningu. Hún var tekin á sýninguna, svo ég þarf að gera upp við mig hvort ég elti hana líka, dagskráin í kringum þá sýningu er ekki síður spennandi en í Córdoba, þótt hún sé svolítið öðru vísi.
Við vorum þrjú, Íslendingarnir, sem tókum þátt í Córdoba-sýningunni í fyrra, en það verður ögn stærri hópur Íslendinga á hvorri sýningu fyrir sig í vor, 6 og 8 ef ég hef tekið rétt eftir. Með því að taka þátt í svona sýningum, en sýningargjald er mjög lágt, fáum við sjálfkrafa og frítt aðgang að alls konar viðburðum, útimálun, sýnikennslu og skoðunarferðum þannig að það er gríðarlega freistandi að fylgja myndunum sínum.
Þótt ég sé búin að ráðstafa meiru en ég sá fyrir af tíma mínum núna eftir að ég gerði heiðarlega tilraun til að fara á eftirlaun í annað sinn, þá held ég þessu í forgangi, og stend við það.
Eini almennilegi prinsinn (fyrir utan Prins Póló)
26.1.2024 | 17:15
Eins og sjá má á fyrirsögninni er ég ekki royalisti.
Litli prinsinn hefur fylgt mér lengst af ævi og ég á nokkur eintök af þessari litlu og mögnuðu bók, sem lengi fékkst á góðu verði hjá Menningarsjóði í Næpunni. Næpan var á mínu nánasta svæði í Reykjavík, í rammanum: Uppsalir við Aðalstræti vestast (meaðn þeir stóðu); Kaffi Tröð, Austurstræti nyrst; MR og Næpan í miðjunni; Þingholtsstræti, 29a (Borgarbókasafnið) og Þingholtsstræti 31, þar sem Beta frænka og Elísabet, litla systir bjuggu, suðaustast. Þar var alltaf gaman að koma í Næpuna og einhvern tíma var verðið á bókinni orðið svo hagstætt að ég keypti nokkur aukaeintök til að gefa. Síðasta eintakið sem ég gaf, vona ég, var til vinkonu minnar sem var tveimur árum yngri en ég en alltaf ári á undan í skóla, svo hún var aðeins ári á eftir mér í Menntó. Við lásum oft saman á lesstofunni á Borgarbókasafninu. Eftir að við útskrifuðumst vorum við í góðum tengslum sem entust þar til um hálfu ári áður en hún féll frá, þá voru samskiptin orðin stopulli. Ég spyr mig stundum hvort ég hafi ekki örugglega náð að gefa henni bókina? Hvort hún hafi viljað bókina? En eins og blómið í Litla prinsinum, sem ekki vildi fá hjálminn sér til varnar þegar prinsinn fór af stjörnunni þeirra, en hann hafði svo sífellt áhyggjur af því hvernig því hefði vegnað svona hjálmlausu, þá veit ég auðvitað að ein bók skiptir bara engu máli í þessu samhengi. Áhyggjur mínar eru óþarfar. Alveg sama hversu góð þessi bók er.
Þýðing Þórarins Björnssonar á íslensku er alveg afbragðsgóð, en ég hugsa oft, hvernig hefði farið ef pabbi minn hefði lokið við sína þýðingu? - ég á nefnilega í fórum mínum upphaf hans þýðingar á bókinni, ódagsetta. Ætli hann hefði haft framtakssemi til að koma henni til útgáfu? Man hvað mömmu sveið mikið þegar hann hafði lokið fínni þýðingu á bókinni Félagi Don Camillo, en kom sér ekki að því að finna útgefanda að henni. Það var ekki fyrr en rúmum áratug eftir að þau skildu skiptum að bókin kom út í annarri þýðingu, ári eftir að pabbi lést.
Í þessum fáu blöðum af þýðingu pabba á Litla prinsinum, sem mér finnst NB mjög góð og ekkert mjög ólík þýðingu Þórarins, sá ég eitt sem ég alltaf breyti ósjálfrátt í huganum þegar ég les bókina. Ég les: ,,Börn! Varið ykkur á apabrauðtrjánum!" (en ekki baóböbunum, eins og Þórarinn segir í sinni þýðingu).
Gamalt og snjáð eintak á frönsku var til á æskuheimilinu mínu og er nú komið milli lítils og stærra eintaks af íslensku útgáfunni. Ég hélt endilega að ég hefði keypt annað eintak á frönsku í Montreal, þegar ég var þar á rölti ásamt tengdadóttur minni, þá hafði ég ekki tekið við bókasafni foreldra minna. Fannst svo upplagt að eiga franska útgáfu líka, því þegar ég blaðaði í henni fannst mér um stund að ég kynni meiri frönsku en frönskukennarann minn í menntó hefði nokkurn tíma grunað. Man eftir munnlega prófinu í frönsku þegar hann lagði fyrir mig sérlega léttar sagnbeygingar og fikraði sig varlega yfir í ögn þyngri sagnir. Undrun hans þegar ég beygði þær allar rétt var svo ósvikin að við lá að ég færi að hlæja. Það sem hann vissi ekki var að Gunna vinkona hafði tekið sig til og búið svo um hnútana að ég kunni þessar sagnbeygingar alveg upp á punkt og prik. Hvort ég endaði á að kaupa bókina eða ekki veit ég ekki fyrir víst, því hún er ekki með hinum eintökunum, en mig minnir að hún sé í of stóru broti fyrir lágu hilluna sem hinar eru í. Það verður gaman að flokkar bækurnar okkar betur, sem stendur til eftir yfirvofandi flutninga, tímasetning óviss.
Mörgum árum seinna var ég stödd í búðkaupi vinkonu minnar rétt hjá Bordeaux í Frakklandi. Við vorum allnokkur vinir og ættingjar sem fórum með til borgardómara og hún og hennar franski ektamaður voru gift upp á frönsku (sjálf er hún kínversk/íslensk og þau búa í London). Allt í einu fór ég að skilja allt sem blessaður borgardómarinn sagði, enda var hún að lesa upp kaflann um blómið úr Litla prinsinum.
Uppáhald mitt á Litla prinsinum blossaði upp þegar við Ari fórum á heimssýninguna í Lissabon, ekki síst til að skoða ísvegginn hans Árna Páls Jóhannssonar, en Ari og hann höfðu þá brasað svolítið saman, sem þó ekki tengdist þessu stórkostlega og vinsæla verki. Á leiðinni af sýningunni, stolt yfir að hafa ekki keypt neitt, féll ég fyrir gleraugnahlustri. Þó notaði ég ekki gleraugu, bara linsur. Nú í seinni tíð hef ég hvílt augun á linsunum af og til og þá er ekki amalegt að eiga þetta gleraugnahulstur, með öllum góðu minningunum.