Loksins að fara að vinna eitthvað af VITI!

Sagði vatnslitahópnum mínum í dag að ég væri búin að segja upp og væri að fara á eftirlaun (í annað sinn á ævinni reyndar). Datt þá ekki uppúr einum prímus mótor í hópnum: ,,Loksins að fara að vinna eitthvað af VITI!"

Mér þótti frekar vænt um þessa athugasemd, því þessi hópur hefur fylgst nokkuð glöggt með því hvað vatnslitaiðkunin hefur sífellt tekið meiri tíma og orku hjá mér, og á stundum líka skilað árangri. Myndin sem fylgir þessari færslu er frá því í dag og ég er sátt við ákvörðunina.

Leidin ut i vitann

Þurfti samt á því að halda að taka smá rispu í viðbót til að næra tölvunördinn í mér, og þessi tvö ár sem ég verð búin að vera hjá Controlant þegar ég endanlega hætti, hafa mætt þeirri þörf. Þess ber að geta að sá sem fagnaði því að ég færi að gera eitthvað af viti er sérlega jákvæður í garð fyrirtækisins sem ég er (enn) hjá og á þar góðan vin eða vini. 

Mér þótti líka vænt um það þegar ein úr hópnum sýndi mér hvað hún er að hlusta á í Storytel, en það er fyrsta glæpasagan mín, Mannavillt. Það er talsvert farið að rukka mig um glæpasögu nr. 3, svo ég reyni bara mitt besta, hún var langt komin fyrir 2 árum, en ögn skemmra komin nú. Er samt vön að klára það sem ég byrja á. 

 


Virðing

Það er ekki hægt annað en fyllast óttablandinni virðingu þegar stærstur hluti þjóðarinnar stendur frammi fyrir því að náttúruöflin margslungnu minna á sig. Á vissan hátt eru það forréttindi að búa í landi þar sem magnaðir kraftar ríkja, þótt vissulega sé það líka skelfilegt á stundum.

Þá er ekki síður hægt annað en finna fyrir virðingu fyrir því ótrúlega æðrulausa fólki sem hefur búið í hrikalegu návígi við þessi ógnaröfl og hefur nú þokast út í óvissu sem enginn getur létt af því eins og sakir standa. 

Í sumar þegar ég var á heimleið eftir góðan tíma með syni mínum og við vatnslitaiðkun, lífið áhyggjulaust, flugum við yfir Vestmannaeyjar í þann mund sem goslokahátíðin stóð yfir og síðan yfir margsundurbrotið Reykjanesið. Nokkrum dögum síðar fór að skjálfa og síðan að gjósa og nú skelfur aftur og gæti gosið. 

IMG_4176

 

IMG_2764IMG_2767


Lestin brunar, hraðar, hraðar, húmið ljósrák sker

Fátt elska ég meira en góða lestarferð. Kenni Jóni Helgasyni ekki beinlínis um angurværðina sem grípur mig stundum á langri ferð um lestarteina, en ljóðið hans, Lestin brunar, er lestur sem ég mæli með við hvern sem er og allar túlkanir eru leyfðar, líka sú sem Jón sjálfur gaf upp með réttu eða röngu. Síðasta lestarferðin mín var engin undantekning frá kunnuglegri lestarupplifun.

IMG-4546Norpaði á brautarstöð óþarflega lengi, það hefur gerst ótal sinnum áður, lestir hafa þá einstöku náðargáfu að eiga það til að geta seinkað býsna hressilega. Í þetta sinn hélt að ég væri snjöll að velja aðal rigningardaginn í Skotlands/Englandsferðinni minni til þess að sitja í lest í rúma fjóra tíma (reyndin varð meira en fimm tímar). Á löngum lestarferðum er það oftar en ekki birtan sem breytist gegnum ferðina, ljósrákir skera húmið bæði út um lestargluggann og einnig í augum þeirra sem horfa á lestina bruna framhjá sér.

IMG-4557Hver einasta lestarferð getur snúist upp í ævintýri, sum þeirra hef ég rakið hér í bloggi og víðar, ævintýri sem seint gleymast, aðrar eru eftirminnilegri vegna útsýnisins og þá þarf ekkert að heimta gott veður. Ætla að leyfa ykkur að njóta með mér nokkurra mynda úr lestarferð síðastliðinn sunnudag, þar sem leiðin lá frá Edinborg til Lundúna. Meðan aðrir horfðu á símann sinn eða sváfu, horfði ég hugfangin út um gluggann mestalla ferðina og tímdi ekki nema endrum og sinnum að munda símann til myndatöku. Eins og laxveiðimennirnir segja: Þið hefðuð átt að sjá þessa(r) sem sluppu.  Hlustaði þó á tónlistina frá tónleikum kvöldsins á undan síðari hluta leiðarinnar og útilokaði þá sumt af því sem samferðafólkið vildi segja vinum sínum og vandamönnum, en alls ekki mér.IMG-4587aIMG-4593aIMG-4601aIMG-4621IMG-4565IMG-4578


Mér var nær að kalla sýninguna mína: Þekkt og ,,óþekkt"

Þegar ég vakna í fyrramálið, laugardagsmorgun 4.11. 2023, nálægt hádegi, bruna ég á bókasafnið í Garðabæ til að festa örfáar óþekkar myndir. Þessar snælduvitlausustu, sem láta sér ekki nægja kennaratyggjó til að tryggja að þær verði ekki of hornskakkar á sýningunni minni. Sýningaropnun er alltaf spennandi, munu jarðskjálftar næturinnar ná að fella myndir af veggjum í nótt? Síga einhverjar hengjur niður eftir girninu og niður á gólf? Mér er það reyndar enn í fersku minni þegar fyrsta (og versta) jarðskjálftahrinan í okkar 200 ára Reykjaneseldum sem eru nýhafnir, hófst. Þá var nefnilega nýbúið að setja upp, í Hönnunarsafninu á Garðatorgi, gullfallega keramiksýningu sem spannaði upphaf og þróun keramiklistar. En þessi snillingar þar létu það ekki slá sig út af laginu. Leirnum var haganlega komið fyrir á beði í fallegum kössum.

En ég var að kvarta undan óþekku myndunum mínum, samt er eitt af þremur þemum hennar einmitt ÓÞEKKT, það er að segja að vera óþekk(ur). Hin tvö eru hversdagslegri, eitthvað sem við þekkjum (sem sagt þekkt) og eitthvað sem við þekkjum ekki (sem sagt óþekkt). Óþekktin í heiti sýningarinnar er margs konar, ég er nefnilega gjörn á að brjóta ýmsar reglur og það teygir sig yfir í myndlistina, hvort sem um er að ræða meðferð vatnslita (sem annarra lita), myndbyggingu, pensilskrift, upphengingu eða eitthvað annað. Stefni reyndar að því að herða mig enn á því sviði. Svolítil mis-falin óþekkt er í sumum náttúrumyndunum mínum (get bent þeim sem kíkja á sýninguna á dæmi) en hinn helmingur myndanna, sem er helgaður konum, er samt aðal óþekktin. Eflaust hafa einhverjar þeirra verið einstaklega ,,þægar og góðar" en miklu fleiri sem ég veit að hafa og treysti til að hafa sýnt af sér frábæra óþekkt. Segi ekki meira en að ein þeirra er draugur og önnur útilegukona. 

386822820_741402444483125_3693604150818432607_n

Kláraði að setja upp sýninguna í kvöld, mæti með níðsterkt límband til að leysa linkulegt kennaratyggjó af hólmi þar sem það á við, einhverjar veitingar í töskunni og ef ykkur langar að skreppa á sýningu á bókasafnið í Garðabæ milli kl. 13:30 og 15 þá býst ég við að taka vel á móti ykkur, svo lengi sem þið ekki sýnið neina óþekkt. Hún er frátekin fyrir sýninguna sjálfa. 


Sjö konur af 42 og ein alveg sérstök

Það er alltaf gaman að undirbúningi sýninga. Síðustu árin hef ég verið nokkuð dugleg við að halda einkasýningar og er ég lít til baka sé ég að ég hef haldið alls konar myndlistarsýningar með furðu litlum hléum frá því ég hélt þá fyrstu í Gallerí Lækjartorgi haustið 1984. Það sem helst heldur mér við efnið, fyrir utan að ég hef verið merkilega iðin við að mála frá því Vatnslitafélagið var stofnað, er að ,,hitt" myndlistarfélagið mitt, Gróska í Garðabæ, býður félögum sínum á hverju ári uppá að vera ,,Listamaður mánaðarins" á bókasafninu á Garðatorgi. Nú er ég að fara að þiggja þetta ágæta boð í þriðja skiptið, telst til að ég geri það um það bil á 18 mánaða fresti.

unnamed (7)

En af hverju sjö konur af 42? Jú, ég er yfirleitt með tvö meginþemu á hverri sýningu og sú næsta verður engin undantekning. Þar verð ég með meginþemað sem tengist náttúru og manngerðum veruleika, byggð og bátum aðallega. Það er í takt við það sem ég hef verið að fást mest við að undanförnu. Konurnar sjö ákváðu eiginlega sjálfar að þær ætluðu að vera með. Uppi í hillu á ég möppu sem að stofni til er þriggja ára, myndskreytingarverkefni sem ég tók að mér og vissi að var upp á von og óvon. Ástæða þess að ég sló til var einfaldlega sú að mér fannst viðfangsefnið áhugavert, konur í ýmsum hlutverkum, þekktar og óþekktar (eða óþekkar kannski?). Eins og mig grunaði hef ég enn ekki verið krafin um afraksturinn, fengið smá styrk út á vinnuna sem ég hef þegar innt af hendi, en ef til þess kemur að þetta verkefni verði að veruleika, þá mun ég eflaust endurgera flestar eða allar myndirnar, 42 að tölu, nema kannski þessar sjö sem ákváðu að þær ætluðu á sýningu. Nú er sjö engin heilög tala (ykkur er velkomið að mótmæla því) og vera má að kvennamyndirnar á sýningunni verði einni fleiri eða færri. Sumir munu eflaust átta sig á að 42 er líka merkileg tala, en það er ósennilegt að lokatölur mynda fyrir verkefnið góða verði nema svona rétt uppúr 30. 

Dolindusyning

Og nú er eins gott að fara að bretta upp ermar og koma þeim myndum í ramma sem ég ekki þarf að leita með til innrömmunarfyrirtækja. Sýningin verður opnuð annan laugardag, 4. nóvember, á dánarafmæli pabba míns. Þannig að eftir opnunina, einhvern tíma uppúr klukkan þrjú, þegar ég verð búin að taka saman sælgæti, glös og freyðivín, fer ég væntanlega í Fossvogskirkjugarð eins og ég geri á hverju ári og kveiki á kerti á leiðinu hans og hennar Dolindu, konunnar hans seinustu æviárin hans, en hún féll frá ári á undan honum. Bæði dóu í blóma lífsins, þótt blómið hans hafi verið farið að visna svolítið af sorg. Og það merkilega er að annars staðar á Garðatorgi, í Hönnunarsafninu, stendur nú yfir yndisleg sýning á verkum hennar, en hún var svissnesk listakona með merkilegan feril. Ég man hana fyrst og fremst við rennibekkinn sinn á Seyðisfirði, þar sem hún tók mér opnum örmum og leiddi mig í gegnum fyrsta og eina leirmótunarskeið á minni ævi, þá var ég í kringum tíu ára aldurinn. Það er einskær tilviljun að þessar tvær sýningar verða þarna samtímis, en falleg er sú tilviljun. 


Kona eignast indverskt sjal vegna nokkurrar dönskukunnáttu

Lengi vel var þetta indverska sjal uppi í sumarbústað, en ég tók það í bæinn fyrir haustið og stend mig að því að njóta þess að horfa á það. Mínir litir og þeir eru fallegir fyrir þá sem kunna að meta þá. 

2023-10-20_21-35-44Sjalið á sér sögu. Þegar ég var að vinna í Hamborg, ásamt fólki af ýmsu þjóðerni (33 mismunandi) voru tveir Danir meðal vinnufélaga minna, en svo fór Natalie heim til Danmerkur og Anders var einn eftir af Dönunum. Við unnum svolítið saman, nógu mikið til að vera búin að átta okkur á því að við áttum sama afmælisdag og skakkaði varla nema hálfri ævi á okkur hvað fæðingarárið varðaði. Einhvern tíma eftir að Natalie fór og áður en við áttum afmæli dó mamma hans Anders frekar óvænt og hann var heldur miður sín, skiljanlega. Þegar hann kom til baka til Hamborgar var enn í ýmis horn að líta og hann frekar upptekinn, en einn daginn kom hann að máli við mig og spurði hvort ég kynni ekki dönsku? Jú, ég hélt ég gæti haldið því fram. Þá vantaði hann nefnilega vott að því að hann hefði sjálfur útfyllt smá eyðublað sem varðaði skipti arfs milli hans og systur hans, ef ég man það rétt. Anders var ekkert að grípa næsta mann í verkið, heldur stálheiðarlegur fann hann til dönskulesandi manneskju, mig, og ég vottaði að sjálfsögðu allt hans verk, ekki var það erfitt. Nema hvað, daginn eftir kom hann með þetta fallega sjal í vinnuna og sagði mér frá því þegar hann bjó ásamt móður sinni og systur á Indlandi, en þaðan er sjalið. Tvennt togaðist á í mér, að afþakka sjalið af því það var einfaldlega allt of mikið fyrir svona létt og lítið verk, eða þiggja það af því það er svo fallegt. Og þannig eignaðist kona indverskt sjal vegna nokkurrar dönskukunnáttu. 

 


Það er hægt að eltast við fleira en drauma

Ekki misskilja mig, mér finnst æðislegt að eltast við drauma, en almennt séð finnst mér bara fyrst og fremst gaman að eltast við eitthvað skynsamlegt og óskynsamlegt, þegar sá gállinn er á mér. Þannig hef ég farið til baka með lest frá Bexhill í Englandi til að eltast við bleikt hús, sem ég sá út um lestargluggann. Sú ferð bar mig á slóðir stórs golfvallar og þegar ég var að fara til baka eftir stíg á golfvallarsvæðinu brast á þetta ferðlega þrumuveður svo ég reyndi að rifja upp hvað væri rétt að gera, ekki fara undir tré, alls ekki vera hæsti punkturinn á vellinum, en til baka komst ég alla, einni mynd af bleiku húsi ríkari, ég á nokkur hundruð og hef meira að segja fléttað þeim inn í eina af myndlistarsýningunum mínum.

i286260064373074369._szw1280h1280_

Sömuleiðis elti ég eitt sinn geisladisk. Innskot: Ef Moggabloggið á yngri lesendur en mig þá er rétt að geta þess að það er hvorki borðbúnaður né eitthvað geislavirkt, heldur er hægt að spila lög af þeim í geislaspilara. Innskoti lýkur. Sá þennan geisladisk með Robert Palmer og laginu Johnny and Mary í glugga plötubúðar í írska fjölþjóðlega hverfinu Kilburn í London einhvern tíma seint á síðustu öld. Keypti hann ekki, af því ég var ekki með pening á mér (og ekki kort) nema rétt nægilegan fyrir annað hvort lestinni niður í miðbæ, þar sem ég hélt til í Baker Street, eða fyrir geisladiskinum. Sá mig um hönd eftir að vera komin alllangt frá búðinni, fór og keypti diskinn og gekk svo niður í bæ, nokkuð sem ég hafði oft gert fyrr á öldinni, á blankheitaárunum þegar ég var bara unglingur í London. Það tekur ekki nema eitthvað um klukkutíma hvort sem var. Veggskreyting með úlfalda í Gran Tarajal, þorpi á Fuerteventura með frekar strjálum strætósamgöngum, blátt hús í Los Llanos á La Palma, næstum klukkutíma strætóferð hvora leið, svartir svanir og kengúrur í Canberra í Ástralíu, þær síðarnefndu útheimtu að ég vaknaði klukkan fimm að morgni, aftur í strætó í útjaðar borgarinnar. 

55783924_10218921192879266_3551199958151462912_nMér dettur oft í hug hvort ég hafi erft þetta í einhverjum genum frá móðurömmu minni og -afa, sem iðkuðu það á millistríðsárunum að fara í sunnudagsbíltúr sem fólst í því að velja sér bíl sem var á leið upp Ártúnsbrekkuna og elta hann þangað sem hann fór. Eitt sinn enduðu þau í Vík í Mýrdal, mögulega hefur það verið í stríðinu eða eftir það, nenni ekki að tékka á hvenær varð almennilega bílfært til Víkur. En sumir túrarnir urðu á hinn bóginn snautlega stuttir. 

Eftir tíu daga ætla ég að skreppa í smá ferðalag og elta eina hugdettu. Aldrei að vita nema að ég segi ykkur nánar frá því. 

Því segi ég, eltið drauma ykkar og hvað annað sem ykkur dettur í hug! 


,,Mér finnst að þú ættir ekki"-fólkið og sultukrukkan

Ein jafnleiðinlegasta tegund fólks sem ég hef fyrirhitt er ,,mér finnst að þú ættir ekki"-fólkið. Blessunarlega tókst mér næstum því að komast á fullorðinsár án þess að verða vör við það, en vera má að það sé bara lélegri athyglisgáfu að kenna. Foreldrar mínir og aðrir uppalendur voru aldeilis ekki haldnir þessu kvilla og svei mér þá ef mér tókst ekki að komast í gegnum allt skólakerfið án þess að verða fyrir barðinu á svona mannskap. Fyrsta tilfellið í minni fjölskyldu af fórnarlambi þessa leiða eiginleika var líklega frænkan sem flutti til Noregs og lenti í því að það var hreinlega ráðist á hana fyrir að hafa ákveðið að kaupa tiltekna sultukrukku. Hún væri nefnilega of dýr! Þetta var í stórmarkaði og frænka mín, sælkeri mikill, stóð með krukkuna í höndunum þegar manneskjan vatt sér að henni, tók hana af henni og benti henni á að hún ætti að kaupa miklu ódýrari tegund (eins og þessi einstaklingur gerði). ,,Mér finnst að þú ættir ekki að kaupa svona dýra sultu," sagði blessuð skepnan og frænkan hrökklaðist út án þess að kaupa neitt. Mér finnst það algert einkamál alls fólks hvort það vill sóa litlum/miklum eigum sínum í sultukrukkur eða eitthvað annað. 

Fyrsta atvik (af furðu fáum) sem ég minnist persónulega er þegar mér voru borin skilaboð frá manneskju sem leit fremur stórt á sig. Þau voru eitthvað á þessa leið: ,,Mér finnst að hún ætti ekki að vera með lafandi eyrnalokka af því hún er með sítt hár!" 

Með aukinni samfélagsmiðlanotkun hef ég komist í tæri við nokkur svona eintök í viðbót fyrir alls konar léttvægar sakir.

Þetta er samt ekki endilega það versta. Náskylt þessu er ,,þú getur ekki verið þekkt fyrir"-fólkið, sem undir því yfirskini að það telji mig einhverja æðri veru eins og það sé sjálft, telur sig hafa fullt veiðileyfi á mig. Það er misskilningur. Flest þetta fólk er nú fyrrverandi Facebook-vinir mínir, skiljanlega. 


Konan sem þoldi ekki ,,þessar kvennakonur!"

Það verður varla undan því komist að verða hugsað til gamla ,,kvennafrídagsins" eins og umræðan er þessa dagana. Kvennaverkfall í uppsiglingu fyrir konur og kvár og nú á tímum samfélagsmiðla veit ég miklu meira um vangaveltur mikið fleiri kvenna (en engra karla) um þennan dag sem er framundan. Þannig hefur samfélagið breyst. Vangaveltur eflaust ekkert meiri en í upphafi þessara aðgerða, en birtast mér alla vega á allt annan hátt. Hvort það er gott eða vont hef ég ekki hugmynd um. 

Kvennafrídagurinn er mestmegnis góðar minningar í mínum huga og þar á ofan var hann auðvitað ótrúleg upplifun. Það var stórkostlegt í einu orði sagt að fá að taka þátt í þessum heimsviðburði, finna kraftinn í allri samstöðunni og sjá þessar tugþúsundir kvenna fylla allan miðbæinn. Við vorum tvær saman þennan dag, ég og tilvonandi mágkona mín og jafnaldra og ekki hægt að biðja um betri félagsskap. Allir í kringum mig, nema ein gömul frænka, voru þarna á víð og dreif um þvöguna og aldrei spurning, við vorum allar með. Mamma ein af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar, vinkonur mínar og fjölskylda öll (nema frænkan) á einu máli um þessa aðgerð. Vissulega fannst okkur sumum að þetta hefði átt að vera kvennaverkfall, en ekki frídagur, en þessi varð niðurstaðan og hún virkaði svona vel.

Fyrirvarinn sem ég set að dagurinn hafi einungis verið mestmegnis góður kemur til út af einu atviki. Eftir að fundinum á Lækjartorgi var lokið slóst ég í för með nokkrum gömlum skólasystrum og kærasta einnar þeirra og við fórum heim til einnar úr hópnum. Þær voru á þeim tíma talsvert virkari en ég í kvennabaráttunni og tóku sjálfar þátt í ýmsum aðgerðum Rauðsokka mun oftar en ég, enda áttu þær mun borgaralegri og stilltari mæður en ég, vel hugsandi konur vissulega, bara stillari en mín mamma var. Svo þær vissu eflaust að þær yrði sjálfar að redda þessu öllu saman meðan ég hafði fulla trú á að mamma væri svona hér um bil búin að því, prívat og persónulega. Nema hvað, einhver kergja var á milli eina parsins í hópnum og gengu einhver brigslyrði þeirra á milli, ég reyndi að leiða þetta hjá mér, en fékk samt smá bakþanka - mun þetta einhvern tíma verða í lagi, samskipti kynjanna? Þau, þetta ofurmeðvitaða fólk hundóánægð á þessum dýrðardegi? Áhyggjur mínar reyndist að ég best veit gersamlega ástæðulausar hvað þessi tvö varðaði alla vega. Þau hafa staðið þétt saman, æ síðan, og verið fyrirmynd annars fólks að mörgu leyti og getið sér gott orð í sínum störfum og einkalífi að ég best veit. En þennan dag varð ég svolítið áhyggjufull fyrir þeirra hönd.

Það er af gömlu frænku minni að segja að ég efast ekki um að hún hefur staðið við orð sín og straujað skyrtur eiginmannsins tvisvar þennan eftirminnilega dag. Afkomendur hennar hafa aftur á móti fetað mikla kvenfrelsisbraut, en það veit hún ekki, nema forvitnin hafi rekið hana til að fylgjast með að handan. 

Tíu árum síðar var ögn annað andrúmsloft þegar ákveðið var að endurtaka leikinn með öðrum hætti og halda upp á tíu ára afmæli kvennafrídagsins með margvíslegri dagskrá, sýningum og öðrum uppákomum sem stóðu talsvert lengur en einungis þennan dag, þótt konur hyrfu ekki frá vinnu nema þá. Þá hafði ég hellt mér út í kvennabaráttuna og tók virkan þátt í undirbúningi og uppákomum dagsins og því sem á eftir fylgdi. Við vinkonur úr blaðamannastétt vorum allar á einu máli og einhvern veginn æxlaðist það þannig að okkur var falið að hafa samband við trúnaðarmann á vinnustað þar sem orðrómur hafði borist um að eigendur fyrirtækisins væru að reyna að koma í veg fyrir að konurnar sem unnu hjá þeim tækju þátt í dagskrá dagsins. Trúnaðarmaðurinn (kona) tók mér vægast sagt illa þegar ég bar upp erindið og við áttum fremur leiðinlegt samtal sem aðallega fólst í að hún mærði eigendur téðs fyrirtækis. Svo kvað hún upp úrskurð sinn í lok samtalsins og tilkynnti mér að hún þyldi ekki þessar ,,kvennakonur"! 

 


Alin upp við sannleiksást

Börnin mín eru alin upp við sannleiksást, ekki þessa sem notuð er sem skálkaskjól fyrir særandi ummæli (sjá eitthvert fyrra blogg)heldur alvöru sannleiksást. Var að rifjast upp fyrir mér í spjalli við góða vinkonu, þegar sonur minn, þá um það bil sjö ára, svaraði í heimilissímann og ég sá að símtalið var til mín því ég hristi höfuðið til merkis um að ég vildi alls ekki taka símtalið, enda á leið út um dyrnar. Það seinasta sem ég heyrði áður en ég sneri aftur inn og tók þetta símtal sneypt og í hræðilegu tímahraki var: ,,Já, en hún bara villllll ekki tala við þig!"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband