Við C-fólkið

Var að glíma við svolítið lúmskt erfiða vatnslitamynd meira og minna frá kl. 16 í gær, með heilmiklum hléum til kl. hálf tvö í nótt. Þá þurfti ég að fara að sofa, því ekki vildi ég mæta seinasta vinnudaginn í hefðbundnu 9:40-17:40 vinnunni minni geispandi út í eitt.

unnamed (6)a

Er oft spurð hvort ég sé A eða B manneskja, því ég hef aldrei farið leynt með svefnvenjur mínar, að því leyti sem ég get ráðið þeim. Það eru allmörg ár síðan ég áttaði mig á því að ég er C-manneskja. Þetta merkir það að ef ég ætla að sofa þokkalega út, þá þarf ég að meta það hvort það er of snemmt fyrir mig að stilla vekjaratóninn í símanum á 12:20 til að missa ekki af hádegisfréttunum. Það merkir líka að ég þekki varla flugþreytu nema af afspurn, því ég er þaulvön frjálslegum svefnvenjum. Sömuleiðis kom það fyrir á aðal lausamennskuárunum mínum, þegar ég sinnti bæði myndlist og blaða- og útvarpsmennsku, að ég náði að elda hafragraut handa eiginmanni og börnum áður en ég fór að sofa, eftir langa nótt við grafíkpressuna mína. Hins vegar er ég gefin fyrir fallega sumardaga og hika ekki við að fara á fætur milli kl. 9 og 10 á fögrum sumardögum, heima og erlendis, til að njóta sólar og alls konar stúss í góðu veðri. En mér finnst nóttin og myrkrið líka góðir vinir mínir. Skammdegið hefur aldrei verið óvinur minn, bara hálkan og einstaka sinnum ófærðin. Elska líka bjartar sumarnætur og miðnæturgolf, þegar bakið leyfir mér svoleiðis lúxus.

unnamed (7)

Veit ekki hvort líf C-manneskjunnar á heimilinu, mitt sem sagt, mun taka neinum sérlegum stakkaskiptum þótt ég fari í annað sinn á ævinni á eftirlaun frá og með dagslokum í dag. Vissulega hefði ég haldið áfram með myndina sem ég var að glíma við fram eftir nóttu, ef ég hefði ekki verið bundin við að fara í vinnuna í morgun. Það er gott að geta lifað í takt við líkamsklukkuna, þótt hún gangi alla vega, og ég er jafn forvitin og aðrir um það hvernig hún muni haga sér næstu misserin. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband