Sjö konur af 42 og ein alveg sérstök

Það er alltaf gaman að undirbúningi sýninga. Síðustu árin hef ég verið nokkuð dugleg við að halda einkasýningar og er ég lít til baka sé ég að ég hef haldið alls konar myndlistarsýningar með furðu litlum hléum frá því ég hélt þá fyrstu í Gallerí Lækjartorgi haustið 1984. Það sem helst heldur mér við efnið, fyrir utan að ég hef verið merkilega iðin við að mála frá því Vatnslitafélagið var stofnað, er að ,,hitt" myndlistarfélagið mitt, Gróska í Garðabæ, býður félögum sínum á hverju ári uppá að vera ,,Listamaður mánaðarins" á bókasafninu á Garðatorgi. Nú er ég að fara að þiggja þetta ágæta boð í þriðja skiptið, telst til að ég geri það um það bil á 18 mánaða fresti.

unnamed (7)

En af hverju sjö konur af 42? Jú, ég er yfirleitt með tvö meginþemu á hverri sýningu og sú næsta verður engin undantekning. Þar verð ég með meginþemað sem tengist náttúru og manngerðum veruleika, byggð og bátum aðallega. Það er í takt við það sem ég hef verið að fást mest við að undanförnu. Konurnar sjö ákváðu eiginlega sjálfar að þær ætluðu að vera með. Uppi í hillu á ég möppu sem að stofni til er þriggja ára, myndskreytingarverkefni sem ég tók að mér og vissi að var upp á von og óvon. Ástæða þess að ég sló til var einfaldlega sú að mér fannst viðfangsefnið áhugavert, konur í ýmsum hlutverkum, þekktar og óþekktar (eða óþekkar kannski?). Eins og mig grunaði hef ég enn ekki verið krafin um afraksturinn, fengið smá styrk út á vinnuna sem ég hef þegar innt af hendi, en ef til þess kemur að þetta verkefni verði að veruleika, þá mun ég eflaust endurgera flestar eða allar myndirnar, 42 að tölu, nema kannski þessar sjö sem ákváðu að þær ætluðu á sýningu. Nú er sjö engin heilög tala (ykkur er velkomið að mótmæla því) og vera má að kvennamyndirnar á sýningunni verði einni fleiri eða færri. Sumir munu eflaust átta sig á að 42 er líka merkileg tala, en það er ósennilegt að lokatölur mynda fyrir verkefnið góða verði nema svona rétt uppúr 30. 

Dolindusyning

Og nú er eins gott að fara að bretta upp ermar og koma þeim myndum í ramma sem ég ekki þarf að leita með til innrömmunarfyrirtækja. Sýningin verður opnuð annan laugardag, 4. nóvember, á dánarafmæli pabba míns. Þannig að eftir opnunina, einhvern tíma uppúr klukkan þrjú, þegar ég verð búin að taka saman sælgæti, glös og freyðivín, fer ég væntanlega í Fossvogskirkjugarð eins og ég geri á hverju ári og kveiki á kerti á leiðinu hans og hennar Dolindu, konunnar hans seinustu æviárin hans, en hún féll frá ári á undan honum. Bæði dóu í blóma lífsins, þótt blómið hans hafi verið farið að visna svolítið af sorg. Og það merkilega er að annars staðar á Garðatorgi, í Hönnunarsafninu, stendur nú yfir yndisleg sýning á verkum hennar, en hún var svissnesk listakona með merkilegan feril. Ég man hana fyrst og fremst við rennibekkinn sinn á Seyðisfirði, þar sem hún tók mér opnum örmum og leiddi mig í gegnum fyrsta og eina leirmótunarskeið á minni ævi, þá var ég í kringum tíu ára aldurinn. Það er einskær tilviljun að þessar tvær sýningar verða þarna samtímis, en falleg er sú tilviljun. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband