Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Öfgafull þjóðernisstefna beið lægri hlut - ekki víst að þetta hafi eingöngu snúist um ESB

Flokkurinn sem beið lægri hlut í Serbíu er öfga þjóðernisflokkur og formaðurinn eftirlýstur svo annar gegnir stöðu hans núna. Þótt mótframbjóðendur hafi stillt málinu þannig upp að verið sér að kjósa um ESB þá grunar mig að öfgastefnan hafi ekki átt upp á pallborðið hjá öllum, burtséð frá afstöðunni til ESB.
mbl.is Stuðningsmenn ESB höfðu betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Netvæðing Gljúfraborgar - bloggað úr bústaðnum

Sumarbústaðurinn okkar yndislegi er orðinn netvæddur ;-) og ég ætla varla að trúa því sjálf. En alla vega hér er útvarp Gljúfraborg, gerið svo vel. Hér er mun stilltara veður en á leiðinni, þar sem væsti reyndar ekki um okkur, komum við í dýrindis hrygg hjá Sæunni tengdamömmu uppi á Kjalarnesi. Besta spáin hér vestanlands er á morgun svo kannski sit ég á veröndinni með tölvuna í fanginu og vinn í lagfæringunum á lokaverkefninu mínu, sem er viðfangsefni helgarinnar. Bara frábært allt saman. Það er furðu auðvelt að fá sumarbústaðarnet og ekki dýrt, svo framarlega sem maður er ekki að hala niður efni, en það gerir maður bara heima. Reyndar ekki þessa stundina, því sumarbústaðarnetið hefur bjargað málinu núna þegar aðalnetið okkar hefur verið úti í nokkra daga. Óli var skilinn eftir heima á Álftanesinu netlaus, og kunni því bara vel. En ég er ánægð með þessar endurbætur á umhverfi okkar, því hér á nefnilega að vera vinnustaðurinn minn í sumar, ekkert síður en á nesinu okkar góða. Það er svo gott að vera hér uppi í bústað, bæði til að vinna og slaka á.

Jákvæðni og neikvæðni í hæfilegum skömmtum

Fyndið hvað fólk sér hlutina mismunandi augum. Ein manneskja, sem mér þykir reyndar mjög vænt um, er með þeim ósköpum gerð að sjá alltaf einhverja neikvæða hlið á öllum málum. Ef ekið er framhjá fallegu landslagi rifjast upp eitthvert rifrildi sem átti sér stað einhvers staðar í nágrenninu, manneskja nefnd, æjá, það er þessi sem átti frændann sem lenti í veseninu um árið. Verst er að þetta snertir í rauninni ekki nema þann sem á þessar vondu minningar eða hugrenningar.

Svo er það Pollýönnu-syndrómið, það er vissulega skárra en getur samt tekið á sig fáránlegar myndir. Veðrið er ömurlegt: - Já, en þá er bara að syngja í rigningunni (og svo er sprettur tekinn úr Singing in the rain) eða þessi er búinn að setja allt í klessu: Já, en mamma hans er svo góð ... !

Hmm, kannski er hinn gullni meðalvegur bestur, hafa glasið hvorki hálffullt né hálftómt, heldur bara svona passlegt. En ég held nú samt svolítið með Pollýönnu.


Sveiflukennt loftslag - og engar tjaldútilegur um Hvítasunnuna

Ef einhver efast um sveiflukennt loftslag þá höfum við fengið að finna fyrir slíku að undanförnu og þó sloppið mun betur en fólk viða annars staðar í heiminum. Gróðurhúsaáhrifin eru ekkert grín og hvort sem veðurspá helgarinnar hefur vitundarögn með þau að gera eða ekki þá eru öfgar í veðurfari að sanna illilega að þau eru fyrir hendi. Ný fellibyljasvæði eru til að mynda að skapast, eins go fjallað hefur verið um í fréttum.

Hvítasunnuhelgi framundan verður vonandi slysalaus, færð um allt land hvetur til aðgátar og ef til vill ekki hyggilegt að fara á sumardekkjunum hvert sem er. Hvítasunnan er að vísu snemma á ferð í ár eins og allar kirkjutengdu hátíðarnar, en samt sem áður eru þessar veðursveiflur ögn skrautlegri en oft áður og því öllu snúið á hvolf sem gert var á fyrri tíð. Útihátíðir eru ekki haldnar lengur um hvítasunnuna, enda held ég að mæting yrði dræmi miðað við fyrirsjáanlegt veður.


mbl.is Víða hálka og hálkublettir um land allt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrslitin áhugaverðari en þátturinn (Hæðin)

Mér fannst þátturinn Hæðin aldrei ná neinum hæðum, það sem ég náði að sjá alla vega, en það var furðu mikið miðað við skert sjónvarpsgláp að undanförnu. Dómnefndin frekar lítið spennandi og hennar komment svolítið af stífara taginu, góð dagskrárgerð hefði kannski getað bjargað því máli, veit ekki. Hef séð einhverja ástralska þætti sem eru ef til vill fyrirmynd þessara og þeir voru fjörlegir.

frettamynd_haedin2Ekki við þátttakendur að sakast, þau reyndu sitt besta innan þess ramma sem þeim var sniðinn. Ég hélt ég héldi nú ekki með neinum (var kannski minnst hrifin af einu settinu) en svo þegar úrslitin liggja fyrir þá er ég eiginlega bara ansi kát. Strákarnir eru vel að sigrinum komnir og leyfðu sér að sprella talsvert og tilfinningin í botni, fengu sjaldan náð fyrir augum einna eða neinna, nema almennings! Alltaf svolítið gaman þegar svoleiðis kemur upp. Meira að segja í úrslitaþættinum í kvöld, þá var eiginlega öllum hampað nema þeim rétt áður en úrslitin lágu fyrir. En mér finnst reyndar að allir keppendurnir hafi staðið sig vel og bara rosa hress með þessi úrslit. Og að því pikkuðu held ég bara áfram að vinna, nú er að koma besti tíminn til þess.


Góðviðrisdagur og Hillary heldur áfram

Einstakur góðviðrisdagur í dag. Ströng vinnutörn í gangi og ekkert hægt að slaka á eða njóta góða veðursins í óhófi, en ósköp gaman að taka smá rispu. Myndataka milli eitt og tvö vegna viðtals sem ég var að taka og kærkomið tækifæri til að njóta góða veðursins af því tilefni. Held líka að myndirnar verði flottar, þótt mitt hlutverk hafi ekki verið annað en að hafa smá skoðanir og halda við tæki ljósmyndarans, þar sem ég reyndar gleymdi mér andartak og var næstum búin að slátra hans flotta búnaði. Hjúkk, það slapp fyrir horn.

Hélt því opnu að komast í gönguna geng umferðarslysum, en það passaði ekki inn í verkáætlun og ég þarf að halda ansi vel á spöðunum núna.

Af heimsfréttunum er auðvitað margt að frétta og hver og einn sem getur svo sem sett sig inn í það. Engar stórfréttir að Hillary ætlar að halda áfram baráttunni, ég er ánægð með það en ekki eins vongóð og ég var áður um að hún verði útnefnd fyrir demókrata, bara ekki nein skýr skilaboð um það og verður erfitt fyrir ofurfulltrúana að ganga gegn þeirri tilhneigingu sem hefur verið, reyndar þrátt fyrir að það sé mjög mjótt á mununum og stóru fylkin, Flórída og Michigan (minnir mig að sé hitt fylkið) séu ekki með í dæminu, en þar er gengið út frá því að Hillary eigi góðan stuðning. Þeir fóru ekki eftir reglunum og þar af leiðandi er ekki talið með.

Jæja, best að halda í törnina framundan, bara gaman, en ég er búin að setja mér ákveðið verkplan sem ég þarf að halda mig við.


Miklu meiri sóun en þessi - hvernig verður þessari þróun snúið við?

Þessi frétt segir ekki frá nema hluta þeirrar gengdarlausu sóunar sem á sér stað. Alltaf af og til berast fregnir af því að fullkomlega heilum matvælum sé hent til að halda markaðsverði uppi og vegna annarra viðskiptalegra hagsmuna. Spurning hvort það er ekki hægt að koma af stað vitunarvakningu á þessu sviði án þess að markaðsöflin tryllist?

Ég hef enga töfralausn á reiðum höndum en ef til væri ,,Góði hirðirinn" sem væri með góðar kæligeymslur þá mætti hugsa sér að framleiðendur og verslanir (þær sem ekki dömpa verði í búðum rétt fyrir seinasta söludag) gætu komið með umframbirgðir sem ekki eiga að fara í sölu þangað. Ég hef ekki heyrt af því að Ikea eða Húsgagnahöllin amist við því að Góði hirðirinn taki við notuðum húsgögnum og selji fyrir lágt verð og noti arðinn til góðra málefna. Vandasamara er að taka við matvælum frá heimilum, alla vega þeim sem eru viðkvæm í geymslu, en það væri ábyggilega hægt að taka við pakka- og dósavöru, til dæmis ef fólk er að taka til í geymslum eða flytja og á mikið magn af slíku (óútrunnu) sem annars færi á haugana. Rétt eins og það er lítið mál að skreppa með nothæf húsgögn í gám Góða hirðisins í Sorpu eða dagblöð og flöskur til endurvinnslu þá væri þetta eflaust eitthvað sem kæmist upp í vana. Og þar sem margar þjóðir standa okkur framar í endurvinnslu (þó held ég ekki Bretar) þá væri ábyggilega hægt að koma svona hugmynd á framfæri víðar, ef hún er ekki þegar komin á kreik.


mbl.is „Yfirþyrmandi“ magn matvæla á haugana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómannglögg kona í fýlu

Pælingarnar um vináttu og fleira komu af stað frekari vangaveltum um samskipti fólks í sálartetrinu mínu. Ekki oft sem ég dett í þann fasann (alltaf upptekin) en gaman að prófa. Nema hvað, ég fór að hugsa um það hvað það væri gaman að hafa svona ákveðinn fjölbreytileika í samskiptum, jafnvel við vini sína. Ég er sem sagt EKKI með tékklista sem ég útfylli um skilyrði sem vinkonur mínar þurfa að uppfylla:

Þagmælska x

Góð sál x

Skynsöm x

Laus við afbrýðisemi x

Víðáttuskemmtileg x

Ekki langrækin x

og svo framvegis x

Ónei, síður en svo. Ég á vinkonur sem uppfylla þetta allt saman, aðrar sem hafa marga fleiri kosti, en líka nokkrar sem eru ekki endilega lausar við afbrýðisemi eða þagmælskar, svo dæmi sé tekið, en hafa óteljandi aðra kosti. Það er heldur ekki krafa. Eina sem ég þarf að átta mig á er að segja þessum sem eru ekki þagmælskar ekki leyndarmál sem ekki eiga að fara að flakk. Það er afskaplega auðvelt. 

Og þá er auðvitað að máta sjálfa sig við þennan ekki-kröfulista. Og hmmm, ég er alla vega ekki langrækin, þótt ég sé afskaplega minnug, hins vegar, sem sagt: Man ef á hlut minn er gert en á furðu létt með að fyrirgefa þeim sem ég met að öðru leyti mikils.

Það hefur hins vegar komið fyrir að ég hef einsett mér að vera ekkert að kássast upp á fólk sem mér líkar ekki framkoma hjá, venjulega eru það þá reyndar einhverjir sem ég þekki ekki vel. Og þá vandast málið. Ég er nefnilega svo hrikalega ómannglögg og óskaplega fljót að verða jákvæð. Þannig að einu sinni setti ég minnismiða á náttborðið vegna manneskju sem hafði gert eitthvað voðalega mikið á hlut minn (og barnanna minna reyndar): Muna að ég er í fýlu út í NN! Það virkaði, en ég er viss um að ef ég hefði ekki sett þennan miða á náttborðið þá hefði ég brosað hringinn næst þegar ég hitti viðkomandi. Sem hefði auðvitað verð fullkomlega ótímabært. Eflaust hef ég brosað bæði blítt og oft til þessarar manneskju síðan þar sem ég er löngu hætt að þekkja hana í sjón.

Eitt sinn lenti ég í orðaskaki við náunga sem mér er ekkert sérlega um gefið, hitti hann svo á fundi og brosti mínu blíðasta þar til ég sá undrunarsvipinn á manninum, þá áttaði ég mig á því að þetta var ekki Lionsfélagi mannsins míns, heldur hinn. Þannig að mórallinn í sögunni er, það þýðir eiginlega ekkert að rembast við að vera í fýlu ef maður er ómannglöggur, og mér leiðist líka svo rosalega að vera í fýlu. En ég lofa engu ... ;-)


Vinkonur

Ég á ábyggilega alveg óvenju stóran og skemmtilegan kunningjahóp, en ég er líka svo ljónheppin að eiga nokkrar alveg rosalega góðar vinkonur. Sumar meira að segja náskyldar mér. Við sumar er ég  alltaf í tengslum, aðrar týnast um stund og finnast svo aftur, en þær þekkjast alltaf á því að það er eins og það hafi aldrei orðið hlé. Það er bara hægt að setjast niður og tala um tilveruna eins við við höfum hist í gær. Ekkert endilega þetta gamla góða, þótt það sé auðvitað bæði gamalt og gott, heldur tilveruna hér og nú og jafnvel í framtíðinni. Systir mín heldur því reyndar fram að ég eigi vinkonur af báðum kynjum og þá má til sanns vegar færa, man alla vega eftir einni eða tveimur, en þær uppfylla alveg það sama.

Sé því stundum haldið fram að vinátta kvenna og karla sé mismunandi, það er að vinir (tveir karlkyns) tali ekki saman um það sama og vinkonur. Hmmm, er þá verið að meina að öll vinkvennasett tali alltaf um það sama? Ef svo er þá eru þau sett sem ég á aðild að frávik frá reglunni. Fólk er bara misjafnt og ef ég lít á vináttuna sem þeir tveir karlmenn sem ég er mest í kringum hafa skapað í kringum sig, þá get ég ekki séð að það sé neitt annað en bara jafn fjölbreytt dæmi og vinátta mín og minna góðu vinkvenna. Þannig að ég verð eiginlega að hafna þessari kenningu.


Það er ekki útilokað að Hillary verði næsti forseti Bandaríkjanna ...

... en líkurnar eru ekkert yfirþyrmandi miklar. Baráttan í nótt var æsispennandi og þar sem ég er aftur komin í minn rétta vinnufasa og var að vinna til klukkan rúmlega fjögur, kíkti ég á CNN á milli, en þau þorðu samt ekki að lýsa hana sigurvegara þegar 91% atkvæða höfðu verið talin, svo mjótt var á mununum. En nokkrir punktar:

  • Í fyrsta lagi þá hefði jafnvel tap með mjög litlum mun í Indiana væntanlega orðið til þess að knúið hefði verið á hana að hætta.
  • Í öðru lagi, sigur, þótt naumur væri, í Indiana, er nóg til að hún heldur áfram. Ég hef ekki áhyggjur af því að demókratar skaðist af mánaðarbaráttu í viðbót. Bill Clinton var ekki útnefndur fyrr en í júní eftir því sem fréttir hafa verið að rifja upp.
  • Það er löngu ljóst að ,,super-delegates" eða ofurfulltrúarnir munu eiga síðasta orðið. Hvað þeir sjá og upplifa á næstunni verður úrslitamálið.
  • Hillary er vissulega minn óskakandídat en hún er ekki fullkomin. Ummæli hennar um Írak (hótun vegna kjarnorkuvopnauppbyggingarinnar) nú nýverið voru vond, þótt þau hafi að mínu mati ekki átt að vera annað an viðvörun en ekki raunveruleg hótun. Ef Hillary fer halloka verður það ekki vegna þessara ummæla.
  • Hillary mun að mínu mati mala McCain ef hún verður útnefnd.
  • Barack Obama er líka góður valkostur en ég er ekki viss um að öll hans atkvæði skili sér á kjördag. Hann hefur miklu meira fylgi meðan hópa sem skila sér stopult á kjörstað og ég get ekki hugsað mér að fá repúblikana í Hvíta húsið fjögur ár í viðbót. Ekki líklegt, en fræðilega mögulegt. 
  • Málefnalega held ég að Hillary muni hafa meiri burði til að koma fleiru góðu til leiðar en Obama, ekki bara vegna reynslunnar sem hún hefur og baklands, heldur ekki síður af því hún hefur verið ansi samkvæm sjálfri sér í mjög langan tíma í miklvægum málum svo sem varðandi heilsugæsluna og það er alltaf góðs viti. Ég er viss um að Obama meinar vel, og hann hefur verið staðfastur gegn Írak, fær stórt prik fyrir það, enhans hugmyndir hafa verið að mótast í hringiðu prófkjöranna og ég veit ekki hversu djúpar rætur þær eiga.
  • Ef ég héldi að ofurfulltrúarnir læsu bloggið mitt, þá myndi ég þýða þessa punkta á ensku, en þið látið þetta bara ganga.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband