Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
Frekar skemmtileg aðferð á símasölumenn ...
6.5.2008 | 13:35
Best að leyfa fleirum að njóta ... sonur minn var að senda mér þetta og þetta er hugmynd sem má alveg fara í dreifingu.
Endurkoma að sjónvarpsskjánum - Paula Abdul full?
6.5.2008 | 10:26
Virðist vera á leiðinni í útskrift (einu sinni enn ;-)
5.5.2008 | 21:39
Mér sýnist á öllu að ég sé að fara að útskrifast með master í tölvunarfræði í júní, ef ég klúðra engu á lokasprettinum. Var að fara yfir lokaverkefnið mitt með leiðbeinandanum mínum í morgun og þótt ég eigi eftir að fínpússa það þá er það á lokaspretti. Skrýtið að vinna þetta samhliða free-lance vinnu, einhvern veginn svo allt öðru vísi skilgreindur tími. Þetta nám er búið að taka rosalegan tíma, sjaldan fengið að vera í aðalhlutverki í tilverunni, en þetta er nú samt að hafast allt saman. Frekar góð tilhugsun, en ég þarf að halda vel á spöðunum í öllum mínum verkefnum.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook
Bilaður heimasími
5.5.2008 | 09:28
Hvernig kveður maður vin?
4.5.2008 | 20:24
Okkur sem bloggum er það tamast að nota orðin til að lýsa hugmyndum okkar og stundum einnig tilfinningum. Að undanförnu hef ég þó lítið getað bloggað og ástæðan er einfaldlega sú að veikindi náins vinar okkar Ara míns, Ársæls Karls Gunnarssonar, sem áttu að enda með sigri, tóku óvænta og hraða stefnu í ranga átt og hann dó eftir stutta legu þann 26. apríl síðastliðinn. Ég hef áður þurft að kveðja vini hér á blogginu og það er aldrei auðvelt. Ekki eru nema 19 mánuðir síðan Anna, eiginkona Ása, lést eftir erfiða sjúkdómslegu og ég minntist hennar á gamla blogginu mínu. Börnin þeirra fjögur eru nú á aldrinum 15-35 ára og það er erfitt að sætta sig við að þau hafi þurft að ganga í gegnum þennan óskaplega missi.
Það eru ekki nema rétt rúmlega tveir mánuðir síðan við sátum saman glöð og kát á Kanarí, Ási, Gunni pabbi hans, Baldi frændi hans, Binna frænka hans, Inga kærastan hans Gunna (báðar svolítið of mikið í hvarfi), ég og Ari
Við Ari settum saman minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu í dag og ég held ég hafi engu við hana að bæta:
Ársæll Karl Gunnarsson:
Það stóð aldrei annað til en að fá að eldast saman. Áratuga löng og góð vinátta tveggja fjölskyldna, fjölskyldunnar hans Ása og okkar í Blátúni 1 á Álftanesi er mikils virði á þessari stundu. Við áttum áreiðanlega öll von á að fá að verða gömul. Það sem fylgir okkur, sem eftir lifum, um ókomna framtíð eru yndislegar minningar.
Það sópaði að Ása þegar hann birtist í hesthúsunum á Álftanesi skömmu eftir að hann fluttist aftur á nesið upp úr 1980. Ara og honum varð strax vel til vina og fljótlega varð sú vinátta að vináttu tveggja fjölskyldna. Börnin okkar voru á sama reki, en Ási og Anna áttu bæði yngri og eldri dóttur. Þetta var vinátta sem bara dýpkaði eftir því sem árin liðu.
Vinátta þarf ekki að byggjast á því að vera alltaf sammála um allt. En um grundvallarlífsgildi Ása, ríka réttlætiskennd og skoðanafestu, þurfti aldrei að deila. Hann sá aldrei ástæðu til að liggja á skoðunum sínum, ef honum fannst eitthvað í ólagi, en frásagnarsnilld hans var slík að gagnrýni hans var fyndin og hárbeitt. Hann lá heldur ekki á skoðunum sínum ef honum líkaði eitthvað vel og var kátur í góðra vina hópi. Best lét honum að setja fram hugsanir sínar í góðri stöku og varð sífellt snjallari í þeirri list. Hátindurinn var nú í vetur er hann orti um samferðamennina í hesthúsunum og flutti á Góugleði hestamannafélagsins Sóta. Sumar vísurnar urðu til á sjúkrahúsi á Kanaríeyjum er hann var farinn að kenna aftur meinsins sem dró hann til dauða á ótrúlega skömmum tíma.
Það fór ekkert á milli mála að þegar Anna hans Ása féll frá fyrir hálfu öðru ári var það áfall fyrir alla. Ef hægt er að segja um einhver hjón að þau hafi verið eitt, þá átti það við um þau. Hann var þó aldrei í nokkrum vafa um að hann ætlaði að standa sig í hvívetna í því mikilvæga hlutverki sem hann gegndi gagnvart fjölskyldu sinni. Hann horfði fram á veginn, var orðinn slyngur í ýmsu sem Anna hafði alltaf séð um, svo SMS-skilaboðum og að glíma við mismunandi skapgóða hraðbanka, auk þess að reka fallega heimilið þeirra af miklum myndarskap. Mikilvægast af öllu var þó að vera til staðar fyrir börnin og fjölskyldur þeirra. Hann var stoltur af þeim, enda full ástæða til, umhyggjusamur og skildi eftir mikilvægt vegarnesti: Lífsspeki sem hann innrætti þeim og góð ráð sem hann átti nóg af.
Við fjölskyldan í Blátúni 1 þökkum fyrir allar góðu samverustundirnar með Ása, bæði hér heima og í fríunum okkar á Kanaríeyjum á undanförnum árum. Þar skapaðist merkileg stemmning í kringum þau Ása og Önnu, stórfjölskyldan og vinirnir fjöldamörgu mynduðu glaðværa heild. Ási átti stóra og skemmtilega fjölskyldu og var með eindæmum vinamargur. Í hesthúsunum verður aldrei allt eins og fyrr, og þó, sögurnar hans Ása lifa. Og þótt við fáum ekki að eldast saman þá mun minningin um Ása, sögurnar, vísurnar og hlýjan sem frá honum stafaði fylgja okkur öllum eins lengi og við fáum að vera hér á jörðunni.
Hugur okkar og samúð er með fjölskyldunni hans Ása sem stóð eins og klettur við hlið hans í veikindunum.
Fjölskyldan Blátúni 1
Vinir og fjölskylda | Breytt 5.5.2008 kl. 21:08 | Slóð | Facebook