Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Evrópusambandsumræða Sjálfstæðismanna

Það hefur verið athyglisvert að fylgjst með Evrópusambandsumræðu Sjálfstæðismanna að undanförnu. Lengi hef ég saknað þess að fá afdráttarlausar yfirlýsingar frá Geir Haarde, en þarf ekki að kvarta lengur. Sömuleiðis þá hefur mér þótt Þorgerður Katrín ansi kratísk í afstöðu sinni og daðrandi við Evrópusambandið en hún lýsti sig sjálfa andvíga aðild Íslands að Evrópusambandinu, hvort sem hún meinar það eða ekki, þá fannst mér það athyglisverð yfirlýsing. Hér er linkur á upptökuna: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4397930/3 

Hún hefur hins vegar lýst því yfir að það sé ekki hægt að segja henni fyrir verkum og mín reynsla úr pólitískri umræðu er sú að svona orðalag merki að verið sé að gefa vísbendingu um að einhverjum hafi einmitt VERIÐ sagt fyrir verkum, en það þarf ekkert að vera rétt í þessum tilfelli. Umræðan um þjóðaratkvæði eða ekki er allt annað dæmi og ég veit ekki hvert hún mun leiða, en þeir sem vilja þá umræðu eiga að sjálfsögðu að hefja hana.

Önnur spurning sem hlýtur að vakna nú er sú hvort verið sé að senda Samfylkingunni skilaboð og ef svo er, hver þau nákvæmlega eru. Samfylkingin hefur fengið nokkuð frítt spil og Björgvin G. Sigurðsson verið beitt fyrir sambandssinnavagninn. Er pirringur Sjálfstæðismanna í garð samstarfsflokksins að koma fram?


Skemmtilegt andsvar við fréttum og fordómum

Litháar á Íslandi eru að stofna samtök, svona eins og öll Íslendingafélögin í útlöndum. Þeir eiga þó aukaverkefni fyrir höndum, og það er að kynna menningu og þjóð sína fyrir Íslendingum sem eru því miður vanir að heyra af fámennum hópi Litháa, sem kemst í kast við lögin, í fjölmiðlum. Hlakka til að fylgjast með félaginu. Það var líka athyglisvert að þessu félagi er ætlað að vera vettvangur kynna milli Litháa hér á landi, sem margir hafa verið tortryggnir í garð landa sinna, einmitt út af þessum fáu skúrkum sem hrakist hafa frá landinu og leitað til Íslands.

Kvikmynd sem ég mæli EINDREGIÐ með: In the Valley of Eliah

Undanfarin misseri hef ég helst horft á rómantískar gamanmyndir og spennumyndir. Álpast til að sjá eina og eina mynd sem skilur eitthvað eftir sig, í sjónvarpi, en lítið elt slíkar myndir í kvikmyndahúsum. Nínu systur tókst að koma mér á eina slíka mynd í gærkvöldi, In the Valley of Eliah, sem ég vona að sé enn sýnd í Álfabakkanum. Hún er mögnuð! Tommy Lee Jones, Susan Sarandon og Charlize Theron. Leikaravalið segir auðvitað strax eitthvað gott. Þetta er með áhrifameiri myndum sem ég hef séð. Ádeila á Íraksstríðið og stríð almennt, en líka mjög óvenjuleg mynd.

eliah


Hrikalega flott Eurovision-lög

Það hafa oft verið flott lög í Eurovison. Framlög seinustu tveggja áranna frá Íslandi eru meðal minna uppáhalda. En hér er smá skammtur af óvæntu og fyrirsjáanlegu frá Eurovision, lög sem ég elska:

Fyrst sigurlagið 1963, ef þið ætlið bara að hlusta á eitt, þá er það þetta:

 

 

Æjá, ég verð líka að hafa þetta með, þótt ég sé þegar búin að nefna það:

Nú vantar mig bara hið vinsæla Vi gratulerar, sem er norska útgáfan af Congratulations, laginu sem Cliff vann Eurovision EKKI með, heldur vann eitthvert lag sem ég held ég hafi ekki heyrt síðan. En maður var að gera annað 1968, fór í kröfugöngur í Osló - stúdentauppreisnin var annað hvort búin eða ekki byrjuð þegar ég kom þangað í lok maí en þess í stað var hægt að fara í kröfugöngu gegn innrásinni í Tékkó (vor í Prag) - og það var sko ekki ein ganga heldur nokkrar, vinstri menn voru til að mynda með fleiri en eina (ég í einni þeirra) og hægri menn ábyggilega með eina eða fleiri og jafnvel miðjumenn. En norska þjóðin söng: Vi gratulerar til heiðurs brúðkaupi Haraldar og Sonju.


Kvikmynd um Kjötborg, frábært framtak, hlakka til að sjá hana

Þótt það sé langt síðan ég bjó í vesturbænum, þá átti ég alltaf erfindi af og til í Kjötborg, og Gurrí vinkona mín bætti síðan upplýsingum við til að fylla í eyðurnar, þannig að mér fannst ég alltaf fylgjast með þeim áfram. Bara flott! Hlakka til að sjá þessa mynd.

Hvað getur ósáttur viðskiptavinur gert? Snúið sér annað!

Lenti í því um daginn að verða ósáttur viðskiptavinur, sem kemur ekki oft fyrir, held ég sé með óþarflega mikið langlundargeð og finnst það stundum kannski of mikið. Ég er þessi sem finnst ég geta sjálfri mér um kennt ef ég kaupi mat á síðasta degi (og ekki á niðursettu verði) og það þarf eflaust nokkur svoleiðis tilvik til að ég hætti að versla í góðri búð.

Hins vegar lenti ég í atviki um daginn sem dugði til að ég ákvað að færa viðskipti mín annað. Kortafyrirtækið mitt, Visa, sem hefur þjónað mér ágætlega í langan tíma, tók upp á því hætta að bjóða upp á gjalddaga um miðjan mánuð, án þess að láta mig vita á fullnægjandi hátt. Það má vel vera að það hafi einhver snepill verið sendur til mín sérstaklega út af þessu, held þó ekki, ég opna allt nema það sem ég get lesið í hraðbankanum og er búin að lesa seinasta Visa-yfirlitið mitt án þess að finna neinn snepil um þetta. Eftir tilkomu heimabanka er sárafátt sem fer framhjá mér og ég fer ekki að grafa í körfunni sem geymir póstinn minn í allt að ár aftur í tímann bara til að sanna eða afsanna eitthvað. Ef ég hef ekki tekið eftir tilkynningu um breytingu á þessu fyrirkomulagi, þá hefur hún ekki verið tilkynnt á fullnægjandi hátt, það er mitt mat.

Og þetta var það sem gerðist: Ég stóð í búð og var að kaupa sæmilega dýran hlut 8. maí síðastliðinn þegar kortinu mínu er neitað. Þar sem ég vissi að ég var í fullum skilum alls staðar þá harðneitaði ég að þetta gæti verið, klukkan komin fram yfir 16 og enginn gat sinnt mér í bankanum mínum. Komst á netið í búðinni og í heimabankann minn og sá að allt var í himnalagi þar. Endaði með því að borga með debetkortinu, sem hafði þó alls ekki verið meiningin, stundum vill maður eiga val.

Morguninn eftir fann ég það út að það var búið að afnema þennan gjalddaga sem hentaði mér, þar sem ég vinn free-lance og fæ mínar launagreiðslur ekki endilega fyrsta hvers mánaðar. Hinn gjalddaginn er í byrjun mánaðar. Enn er boðið upp á gjalddaga í miðjum mánuði hjá öðru kortafyrirtæki þannig að ég sneri viðskiptum mínum þangað.

Svo sá ég frétt um þetta í blaði í dag, smá tilkynningu um afnám þessa gjalddaga sem hentaði mér, hjá Visa. Þar sem við erum bara 3% viðskiptavina þá er hætt með þessa þjónustu. Mér finnst ég alveg nógu merkilegur viðskiptavinur þótt ég tilheyri 3% og tel mig því hafa gert rétt með því að skipta um kortafyrirtæki fyrst svona er litið á málin. Mér sýnist á fréttinni að fleiri hafi lent í að fá þessa breytingu í bakið á sér.

Best að taka það fram að ég ætla að nota gamla kortið mitt í þær ca sex vikur sem ég á eftir fram að endurnýjun, enda hef ég ekki gefið mér tíma til að sækja það nýja enn, sem er búið að liggja tilbúið í bankanum síðan á föstudag.


Æsispennandi vor - og ekki dregur veðrið úr ánægjunni - skrifstofufárviðri - og meira um sveigjanlegan vinnutíma

Þegar svona viðrar finn ég vel fyrir því hvað það á vel við mig að vinna hjá sjálfri mér. Þótt ég haldi því blakalt fram að enginn húsmóðir/húsbóndi sé erfiðari en við sjálf, aldrei gefið almennilegt frí, þá fann ég vel fyrir frelsinu í dag. Var að vinna til 5:15 í morgun, vaknaði upp úr 10 og var mætt á fund í hádeginu, en eftir það gat ég líka farið heim (með viðkomu í Rúmfatalagernum að endurnýja ónýta plastlegubekkinn) og lagst út á svalir í sólinni og klárað nætursvefinn þar. Búin að vera að afgreiða brýnustu mál núna og tek ekki þungan vinnudag í dag, nema ef ég fæ viðtalið sem ég er að bíða eftir sent áður en ég sofna. Nóg af verkefnum en allt ,,undir control".

Hef lengi verið geysilega hlynnt sveigjanlegum vinnutíma. Ég er hlynnt mun meiri sveigjanleika en að mæting sé milli 8 og 10 og svo unnið í átta tímana (með matarhléi). Það er alveg hægt að koma í veg fyrir skrifstofufárviðri í mörgum störfum (góðviðrisdaga sem maður virðir fyrir sér út um gluggann á vinnunni) með því að setja þungamiðju vinnunnar á annan tíma en þessa yndislegu góðviðrisdaga sem öskra á okkur að vera úti. Ef ég hef tekið góðan vinnusprett nóttina áður, eins og oft gerist, finnst mér bara fínt að sofna úti í sólinni, lítil hætta á sólsting hér á landi og svo eru til hattar, en svo þegar um fer að hægjast þá er hægt að skreppa út á golfvöll þegar vel viðrað og vinna á kvöldin eða nóttunni. Óska sem flestum sama frjálsræðis og ég nýt, þótt það sé ekki ótakmarkað þá er það mikið og mikilvægt.


Seinust að missa vonina

Gleðst yfir góðu gengi Hillary í þessum kosningum, þótt það hafi verið nokkuð fyrirsjáanlegt. Enn er ég á því að hún sé betri valkostur gegn McCain en Obama og hálft í hvoru held ég að ofurfulltrúarnir hljóti að vera að velta því sama fyrir sér. Hins vegar held ég líka að þeir muni ekki þora að fara að gegn meirihlutafylginu, sem virðist liggja hjá Obama, hvort sem það skilar sér allt í kjörkassana í nóvember eða ekki. Þannig að ég ætla að vera seinust til að missa vonina, ásamt Hillary væntanlega.
mbl.is Clinton vann í Vestur-Virginíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og auðvitað var Íslendingur þarna ...

Það virðist sama hvaða heimsfréttir verða, núna þessir skelfilegu skjálftar í Kína, alltaf er viðtal við Íslending sem staddur er einmitt þarna. Skammt síðan skiptinemi var í viðtali, rétt hjá eldgosinu í Chile, reyndar Argentínumegin landamæranna. Eitt sinn héldum við mamma að við værum fyrstu Íslendingarnir á afskekktri Kyrrahafsey, Rarotonga, ónei, þangað hafði Íslendingur komið að leita sér lækninga hjá töfralækni á staðnum, en reyndar hafði það ekki gengið sem skyldi, því hann var jarðsettur á Raró. Verst að við vissum ekki af því þá. Ég held svei mér þá að kenning Þráins Bertelssonar um Íslendinga sé rétt, að við höfum komið hér við á leiðinni eitthvert annað!

Tvær hliðar á lífinu í Borgarfirði

Fegurðin allt um kring hér í Borgarfirðinum er síbreytileg. Til austurs er fimm jökla sýn (ef maður telur hið jökulhettulausa Ok með) og þótt smá skýjahula sé yfir sendi ég nýjasta skotið úr vélinni í austurátt, alltaf jafn fallegt, móarnir eru blautir eftir rigningar vorsins, klettaborgirnar hér eru háar sem lágar og alltaf síbreytilegar og í fjarska bæði fjöll og syðstu jöklarnir. Sá nyrsti og tignarlegasti, Eiríksjökull, er í Hvítasunnufríi.

CIMG2384

 

 

 

 

 

 

En ef ég horfi beint til vesturs úr sætinu mínu er auðvitað ekki annað að sjá en verkefni dagsins. Handan við vegginn er fallegi kletturinn okkar við gljúfrið, sem ég hef stundum sett inn myndir af. Læt þetta duga í bili.

CIMG2385


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband