Stjörnubjarti himininn yfir sléttunum

Það var sérkennilegt og skemmtilegt að aka frá Budapest til Debrecen í gærkvöldi, úti á ökrum sléttunnar mátti sjá stórvirkar landbúnaðarvélar að slá kornið, en uppi í stjörnubjörtum himninum óteljandi stjörnur, slatta af flugvélum (mikil traffík í háloftunum) og stöku gervitungl. Þekkja má muninn á þessu tvenna síðastnefnda með nokkurri vissu, við mæðgurnar fórum í gegnum þann pakka í morgun.

Þegar ég kom til Debrecen í gærkvöldi þá fann ég allt í einu muninn á því að koma hingað í íbúðina fyrir liðlega ári, þegar við Hanna dóttir mín vorum frekar grænar á þessum slóðum, að flytja hana inn, og núna þegar hún tók á móti mér og gerði upp við leigubílsstjórann, á ungversku! Þótt henni finnist hún ekki kunna mikið í þessu torskilda máli, þá er gaman að fara um og hlusta á hana kjafta ótrúlega mikið á ungversku, í búðum og veitingahúsum, panta bíl og fleira, sem fylgir því að fá móðurina í heimsókn. Mér finnst svo merkilegt að það skuli vera til þessar tvær þjóðir hér í Evrópu, Ungverjar og Finnar, sem eru eins og litlar slettur í þjóðahafinu, sem hafa orðið eftir, með óskylt mál næstum öllum öðrum (nema Eistum) og svolítið annað yfirbragð í fasi og útliti. Fallegt fólk en svolítið sérstakt að því leyti að tungan er svona torskilin. Á flugvellinum voru tvær vélar nýkomnar frá Helsinki og nokkrar annars staðar frá. Þrátt fyrir að tungumálin hafi orðið viðskila fyrir svona þúsund árum er mér sagt, þá er greinilega frændsemistaug milli þjóðanna, það finn ég í báðum löndunum, einkum þegar svona stutt er milli heimsókna bæði til Finnlands og Ungverjalands.

Ég var víst búin að lofa að skýra þetta með sprungna dekkið, hef ekki áður lent í því að vera í flugvél sem þarf að tjakka upp til að skipta um framdekk. Það er spes! Við vorum komin út á braut í gær þegar uppgötvaðist að danski flugstjórinn (sem flaug eins og engill) hafði óvart lent á einhverjum aðskotahlut á brautinni og vegna öryggisreglna var öðru dekki vippað undir. Svo var hann smá ónákvæmur, blessaður, þegar hann ók uppað rampinum á Feryhegy flugvelli í Budapest, því um leið og allir voru staðnir upp og voru að drösla dótinum sínu úr skápunum þá heyrðist í mínum, með sterkum dönskum hreim á enskunni: Afsakið, allir að setjast aftur, við hittum ekki alveg á innganginn og þurfum aðeins að bakka! Annars fín flugferð, laust sæti milli mín og notalegs sessunauts sem var að fara að heimsækja kærustuna í Budapest. Við í okkar röð hlógum hæst yfir brandaraþáttum frá Kanada (falin myndavél) og Music and Lyrics. Einhvers staðar frammí var Hildur flugfreyja, sem bjó einu sinni uppi á horni, og Atli Rúnar ásamt félaga frammí líka, vonandi að fara að gera eitthvað rosalega skemmtilegt í Budapest.

Í dag fórum við mæðgur á Palma, veitingastað sem ég hef heyrt mikið um, mitt milli háskólans og heimilis Hönnu, milli tíma hjá henni. Svo var kíkt í búðir, slegnir lyklar handa mér og ég fengið ungverskt símakort. Hittum Maju vinkonu Ellenar á Palma. Ég á stuttermabol í 19 stiga hita, hún í lopapeysunni. Enda segir Hanna að allt undir 30 gráðum sé kalt.

Nú er Hanna farin aftur í tíma og ég ætla að líta á heimadæmi og hætta þessu bloggi í bili.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Mikið er ég feginn að það skyldi vera skipt um dekk á jörðu niðri! Var farinn að sjá fyrir mér einhvern flugliðann í e-s konar geimgöngu að skipta um dekk uppi í stjörnubjörtum himninum! Hafðu það gott í Ungo, vinkona. Bið að heilsa Hönnu. Kannski man hún pínkulítið eftir mér. Pinkulítið, af því hún var pinkulítil þegar við þekktumst (finnst mér!).

Sigurður Hreiðar, 17.10.2007 kl. 17:39

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Æjá, það var ágætt að hafa vélina á jörðu niðri við þessar kringumstæður. Ég skal skila kveðjunni þegar Hanna kemur úr skólanum, hún man eftir þér, það er alveg ábyggilegt.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 18.10.2007 kl. 06:55

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Yndisleg, yndisleg, yndisleg færsla. Takk fyrir að gefa okkur smábrot af ferðalaginu og Ungverjalandi ... knúsaðu Hönnu frá mér og Dr. Beck (Maríu) ef þú hittir hana aftur, já og Hrafnhildi.

Guðríður Haraldsdóttir, 18.10.2007 kl. 09:21

4 identicon

Takk fyrir skemmtilega færslu  Það munaði engu að ég færi á ráðstefnu í Ungverjalandi í sumar, valdi aðra í London í staðinn. Nú sé ég að ég þarf að fara að leita að tilefni til ferðalags. Hlakka til að lesa meira.

Anna Ólafsdóttir (anno) 18.10.2007 kl. 18:21

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband