Færsluflokkur: Sjónvarp

Úrslitin áhugaverðari en þátturinn (Hæðin)

Mér fannst þátturinn Hæðin aldrei ná neinum hæðum, það sem ég náði að sjá alla vega, en það var furðu mikið miðað við skert sjónvarpsgláp að undanförnu. Dómnefndin frekar lítið spennandi og hennar komment svolítið af stífara taginu, góð dagskrárgerð hefði kannski getað bjargað því máli, veit ekki. Hef séð einhverja ástralska þætti sem eru ef til vill fyrirmynd þessara og þeir voru fjörlegir.

frettamynd_haedin2Ekki við þátttakendur að sakast, þau reyndu sitt besta innan þess ramma sem þeim var sniðinn. Ég hélt ég héldi nú ekki með neinum (var kannski minnst hrifin af einu settinu) en svo þegar úrslitin liggja fyrir þá er ég eiginlega bara ansi kát. Strákarnir eru vel að sigrinum komnir og leyfðu sér að sprella talsvert og tilfinningin í botni, fengu sjaldan náð fyrir augum einna eða neinna, nema almennings! Alltaf svolítið gaman þegar svoleiðis kemur upp. Meira að segja í úrslitaþættinum í kvöld, þá var eiginlega öllum hampað nema þeim rétt áður en úrslitin lágu fyrir. En mér finnst reyndar að allir keppendurnir hafi staðið sig vel og bara rosa hress með þessi úrslit. Og að því pikkuðu held ég bara áfram að vinna, nú er að koma besti tíminn til þess.


Endurkoma að sjónvarpsskjánum - Paula Abdul full?

Hef ekki sinnt sjónvarpsglápi að nokkru marki að undanförnu, en í gærkvöldi fleygði ég mér í stólinn minn og horfði og/eða hlustaði á slatta af American Idol. Sá að vísu að það var búið að henda Carly út meðan ég skrapp frá skjánum, og er auðvitað mjög móðguð yfir því, en samt, það eru enn tveir Davidar eftir sem báðir eru góðir. Þetta var hins vegar alveg afspyrnu leiðinlegur þáttur, þannig að ég fór bæði í göngutúr á göngubrettinu mínu (sem hvín smávegis í) á meðan og komu ýmsu öðru í verk, enda finnst mér oftast meira gaman að hlusta á sjónvarp en horfa. Undantekning eru góðar kvikmyndir og þegar Ari minn fer að horfa á kínverskar kvikmyndir, sem eru í miklum metum hjá honum, þá verð ég annað hvort að horfa eða læra kínversku (eða sleppa því, sem oft verður ofan á). Hins vegar missti ég ekki af því í gær þegar Paula Abdul fór að segja Jason frá því hvað henni fyndist um seinna lagið sem hann söng. Gott og vel, nema hann var bara ekki búinn að syngja nema eitt lag! Í framhaldi var auðvitað rétt að kíkja á netið og þar eru samsæriskenningarnar aldeilis grasserandi, íslenska pressan gengur út frá því að hún hafi verið full, ameríkanar annað hvort að hún hafi verið á krakki eða að þetta sýni að þættirnir séu eftir fyrirfram gerðu (svindl)handriti. Ætli hver sé að vísa í sinn reynsluheim? Alla vega, þetta var fyndið, pínlegt og ótrúlegt.

Spurt er: Hvað er Monk?

Ég skulda dyggum lesendum bloggsins míns smá skýringu. Hef nefnilega vanrækt að svara spurningunni: Hvað er Monk? frá því ég hrósaði þessum sjónvarpsþáttum smávegis í seinasta bloggi. Nú skal úr því bætt. Monk er sjónvarpsþáttaröð, sem því miður er ekki í opinni dagskrá, heldur á Stöð 2. Ný sería nýbyrjuð á sunnudagskvöldum. monkoverviewAdrian Monk er sem sagt ráðgjafi lögreglunnar í San Fransisco en var áður lögga og langar annað veifið að komast í fast starf aftur hjá löggunni, þar sem hann var rísandi stjarna hér í eina tíð. Hann er hins vegar með alls konar fælni og áráttur, svo sem rosalega hreinlætisfíkn og röðunaráráttu. Samt sem áður: Enginn er eins klár að leysa furðulegustu lögreglumál. Það er mikill húmor í þessu þáttum.

Leikarinn sem leikur Monk er Tony Shalhoub (lengst til vinstri) og hann hefur fengið ýmis verðlaun, svo sem Golden Globe fyrir frammistöðuna í hlutverkinu, mjög verðskuldað. Uppáhaldsþátturinn minn til þessa er þegar Monk þurfti að ráða sig sem ,,butler" til ríkisbubba sem var yfir sig ástafanginn af aðstoðarkonu hans (lengst til hægri). Þar fór Monk á kostum sem hinn ofurnákvæmi butler sem kom auga á hverja einustu misfellu, millimetra halla á hníf, munnþurrku og hverju sem er. Annars eru flestir þættirnir verulega fyndnir þannig að endilega horfið eða mætið í heimsókn á sunnudags- eða mánudagskvöldi (endurtekið á Stöð 2 extra) hjá sönnum Monk-aðdáanda. 


Hungur í heiminum - American Idol og rifjaðar upp gamlar hugsjónir

Það er einn kostur við American Idol, það er hægt að gera heilmargt á meðan. Og svo hverf ég ekki frá því að þarna innan um er mikið af hæfileikafólki, svo mjög að ef frá eru taldir David-arnir tveir og Carly (þetta seinasta er ég stundum svolítið ein um) þá getur hver sem er farið heim hvernær sem er. Í kvöld var ekkert Vá! í gangi meðal keppenda en Jason Castro var með skemmtilega útgáfu af Somwhere Over the Rainbow, en hana var ég reyndar búin að sjá á netinu.

En aðaltónleikar kvöldsins voru eflaust Idol gives back. Mér finnst hvaða aðferð sem er eiga rétt á sér í svona tilvikum, og þarna safnast fullt af peningum til góðra málefna. Auðvitað er það skömm að yfir höfuð skuli ekki vera búið að leysa þessi vandamál, sem mörg eru auðleyst, það var einmitt rifjað upp í útvarpi í dag að fyrir svona 40 árum var maður að rölta um og safna fyrir Herferð gegn hungri og hélt að það yrði seinasta stóra söfnunin, það var svo sannarlega ætlunin að leysa málið þá. Tveimur eða þremur árum seinna vorum við enn með talsverð vonbrigði í sálinni á hungurvöku í Casa Nova í Menntó, enn vegna sama málefnis. Við vitum hvernig hefur gengið - ekki nógu vel - en það merkir ekki að leggja eigi árar í bát. Þetta kveikti alla vega heitar umræður á heimilinu, um stefnu okkar Íslendinga í þróunarmálum (friðargæsla í Afganistan, er það brýnasta verkefnið?) og hvernig lítils háttar stuðningur og breytingar geta skipt sköpum í Afríku. Og skotin frá Ameríku voru líka sláandi, einkum ofbeldið og þau verkefni sem eru í gangi til að finna leið úr þeim vítahring. 

Í fréttum í dag hefur lika mikið verið fjallað um yfirvofandi matvælaskort vegna nýrrar hættu, of dýrra matvæla fyrir fátækustu þjóðirnar og þjóðfélagshópana. Nokkuð langt er síðan farið var að benda á hættuna af því að eldsneytisframleiðendur færu að yfirbjóða matvælakaupmenn til að búa til ,,lífrænt" eldsneyti úr korni. Það er ekki aukandi á vandann og tími til kominn að taka upplýstar ákvarðanir áður en það er of seint. Vonandi verður umræðan nógu fljótt nógu heit til að snúa blaðinu við meðan enn er tími til. Alla vega tel ég að fjölmiðlar séu að standa sig í stykkinu og rétt að geta þess, svo oft sem ég er að naggast í þeim.  


Sorglegt sjónvarpskvöld

Aðallega auðvitað vegna þess að Gurrí tapaði í Útsvari, en samt ekki hægt annað en samfagna Kópavogsbúum, enda er nú Ari minn úr Kópavogi þótt hann sé fyrir löngu orðinn Álftnesingur. Þau Akurnesingarnir tóku tapinu hins vegar vel. En Bandið hans Bubba, sem ég játa fúslega að ég horfi á núna í seinni tíð, var ekki að rokka. Ein sú besta í þáttunum send heim meðan sá sem ætti að vera löngu farinn er enn í þáttunum. Ekki fyndið! Svo voru lögin óvenju leiðinleg í kvöld. Þrjú lög með Helga Björns, taldist mér til, sem öll eru stórundarleg, bæði lög og textar, sorrí, ekki alveg að átta mig á því hvað er í gangi. Þannig að það var margt betra að gera en að horfa á sjónvarp, og sem betur fer gerði ég það ósvikið. Útsvar var hins vegar skylduáhorf og og forvitni rekur mig til að fylgjast með söngvurunum. En samt alveg á mörkunum eftir þetta kvöld.

Góður grænmetisréttur sonarins og góður félagsskapur feðganna á heimilinu og Nínu systur redduðu kvöldinu alveg. 


Held að Mannaveiðar muni rokka ... (þó ég hafi lesið bókina)

Mér líst bara ljómandi vel á Mannaveiðar, leikararnir og stemmningin lofa góðu. Skítt með það þótt ég sé búin að lesa bókina, kannski á þetta samt eftir að koma á óvart. Ef ekki, þá er alla vega hægt að hafa ánægju af skemmtilegri útfærslu á þessu handriti.

Vona að Mannaveiðar verði ekki of trúar bókinni (eins og búið er að lofa)

Hvernig getur þáttur orðið spennuþáttur ef hálf þjóðin er búin að lesa bókina og ætlunin er að vera trúr henni? Samt vona ég innilega að Mannaveiðar verði skemmtileg spennuþáttaröð, skil bara ekki alveg hvers vegna ekki er að minnsta kosti hægt að hreyta plottinu aðeins. Kannski er það gert þótt annað sé sagt. Sjáum til. Kemur sjálfsagt ekki að sök í fyrsta þætti. Alla vega góður höfundur og góður handritshöfundur.

Söngvakeppnir - og jú ég er komin með uppáhald í American Idol (eftir einn þátt)

Mikið hrikalega eru þessi American Idon maraþon á mánudagskvöldum löng á Stöð 2. Líklega þess vegna sem ég hef ekki horft fyrr ef frá eru talin brot af þáttunum meðan verið var að velja inn í þáttinn, og það var bara uppá skemmtanagildið.

En ég elska söngvakeppnir af því mér finnst gaman að uppgötva nýjar stjörnur, reyndar í réttum hlutföllum við þolanleika laganna sem eru flutt, sem oft er ekki upp á marga fiska. Það er smá hátíð að horfa á Bandið hans Bubba, þótt ég hafi ekki séð neitt alveg stórkostlegt enn, tvær ansi góðar stelpur og fínan Queen-lags flutning í næstseinasta þætti. En í kvöld passaði vel inn í planið hjá mér að horfa mig þreytta á sjónvarp af því ég ætla að vakna mjög snemma í fyrramálið og hafa góðan tíma til að koma mér í stuð áður en ég fer á merkilegan fund, eldsnemma. Svo ég settist og horfði á þetta American Idol maraþon. 

Erna frænka spurði um daginn hver væri uppáhaldið mitt í American Idol. Ég hafði ekki hugmynd. Núna veit ég það. Ungi strákurinn sem söngDA Imagine (hvílíkt hugrekki) með svo flottri og þroskaðri rödd, og mikilli tjáningju. Glæsileg frammistaða, alla vega í þessum þætti. Margir stóðu sig vel, þó tókst nokkrum að finna mjög óáhugaverð ,,seventies" lög, sem er alveg óþarfi. Fullt af góðum lögum að moða úr frá þeim áratug, sem oft fellur í skuggann af ,,sixties"-lögunum, en mörg af þeim bestu sem kennd eru við sixties eru reyndar seventies lög, til að mynda bestu þungarokkslögin frá þessum árum, Zeppelin, (best of) Clapton og Deep Purple. Lítið hreyft við þeim menningararfi í American Idol. Ekki við því að búast kannski.

En sem sagt, þarna er fullt af virkilega hæfileikaríku liði með misgóðan tónlistarsmekk og einn sem ég held að hljóti að vera sérlega mikil vonarstjarna. Ekki víst að ég leggi á mig að horfa aftur á allt þetta mánudagsmaraþon, en á seinustu stigum þáttarins mun ég alla vega horfa, ef nóg verður eftir af góðu liði. Ekki hægt að treysta því, tvö af þeim bestu seinustu árin hafa bæði verið kosin út í fjórða eða þriðja sæti. Það eru Chris Daughtry og LaToya London. Þau eru að gera það gott núna skilst mér, ásamt auðvitað Jennifer Hudson, sem líka datt út of snemma. Svo hafa svona furðufuglar eins og Taylor Hicks staðið uppi sem sigurvegarar, ekki beint traustvekjandi. En vonandi fer þetta allt vel núna ...  ég mun væntanlega fylgjast með áður en þættirnir hafa runnið sitt skeið.

Endurtek, það er gaman að fylgjast með góðum söngvurum og helst vil ég auðvitað að þeir fari að syngja eitthvað almennilegt, rokk og blús. Kosturinn við Rockstar Supernova var einmitt hversu mikið af góðum lögum voru í keppninni og svo var Magni auðvitað magnaður! Keppni þar sem hægt er að heyra tvisvar frábæran og ólíkan flutning á Creep er auðvitað ekkert nema snilld.

 


Ég veit að Pressa er ekki rómantísk gamanmynd en ...

... ósköp var ég fegin að Lára og Halldór náðu saman að lokum. apressaElska rómantískar gamanmyndir, og Pressa er smá fyndin, rómantíkin skaust inn í lokin og spennan var allan tímann nógu mikil til að halda manni við efnið. Sem sagt, stórfínt sjónvarpsefni, vona að framleiddir verði fleiri þættir, mér er farið að þykja vænt um sumar persónurnar, sem er alltaf góðs viti (og aðrar náttúrulega óþolandi, en samt mannlegar, bara besta mál).

Pressa í kvöld, hvernig finnst ykkur til hafa tekist?

Stend mig að því að hlakka til að horfa á Pressu í kvöld, þótt raunveruleikinn hafi reyndar verið í harðri samkeppni við skáldskapinn í síðustu viku. Þessi þættir hafa tekist virkilega vel, leikararnir eiga mikinn apressaþátt í því og svo er sögusviðið alveg ágætlega valið líka. Plottið er ennþá nógu gott til að ég veit ekki upp né niður í því hver gerði hvað og það er nokkuð vel að verki staðið. Sumum þótti eitthvað nóg um þráðinn í seinasta þætti þegar blaðakonan lenti á fylleríi heim til eins af grunsamlegustu persónunum í þættinum, en þegar ég spurði: Er þetta ekki einmitt það sem gæti gerst (á Íslandi og víðar) þá varð fátt um svör. Mun alla vega setjast trygg við sjónvarpið í kvöld.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband