Færsluflokkur: Sjónvarp
Leiðarvísir um sjónvarpsáhorf
1.12.2007 | 03:00
Þegar við komum heim af fyrsta (og eina, held ég) jólahlaðborðinu okkar í kvöld, þá var um tvennt að ræða: Horfa á Gurrí mala mótherjana í Útsvari á netinu (eftir að hafa kíkt á netið OG fengið lýsingu hjá syninum OG fullvissað mig um að hún hefði unnið) - eða bíða eftir endursýningunni á morgun. Áttaði mig allt í einu að það var ekkert fútt í að setja á sig headphone og setjast með lappann í fangið og horfa ein. Stundum er sjónvarpsgláp félagsleg athöfn, stundum upplýsingaöflun, stundum dægrastytting einstaklings, stundum dægrastytting fleiri og stundum hópefli. Og jafnvel blanda af fleiru en einu. Þannig að ég hef útbúið leiðarvísi um sjónvarpsáhorf:
1. Ef bara vantar upplýsingar, til dæmis úr fréttum er í lagi að horfa ein á fréttir, upptökur af fréttum á netinu eða, það sem best er, hlusta á sjónvarpsfréttir og gera eitthvað nytsamlegt í leiðinni.
2. Ef þú vilt drepa tímann og nennir ekkert að hafa samskipti við aðra þá er bara að horfa ein, þögul eða á upptökur af eldri þáttum.
3. Ef eitthvað rosalega skemmtilegt hefur verið sýnt í sjónvarpi, til dæmis Ho. ho, ho, skaltu draga alla sem þú treystir til að hafa sama húmor og þú, að tölvunni þinni og sýna herlegheitin með viðeigandi athugasemdum eins og: Fylgstu nú vel með (Barði dissar alla) eða bíddu, heyrðu þetta: (Erpur reynir að dissa Barða) eða:Sjáðððððu núna! (Gilzenegger ber einbeittur á hljómborð með einum putta, hljómborðssóló dauðans).
4. Ef eitthvað rosalega spennandi er að gerast í rauntíma, eins og til dæmis Álftanes eða Akranes að keppa í Útsvari, þá á að safna saman fólki sem kann að fagna og kveljast (engjast) og horfa á í rauntíma. Athugasemdir, klapp, öskur, læti, hlaupa út grátandi, þora ekki að hlusta á svarið og þykjast skreppa á klósettið, allt er þetta hluti af fjörinu, en hentugt að láta fögnuð sinn eða sálarangist í ljós á þann hátt að enginn missi af neinu mikilvægu.
5. Ef horfa á á einhverja tímamótamynd (algengt er að einn hafi séð hana og VITI að hún er snilld) þá er gott að nokkrir vel valdir sitji saman, dauðþegjandi, haldi niðri í sér andanum þegar magnaðar senur koma. Sú sem hefur séð myndina gýtur kannski augum á hina, samt helst þannig að ekki sjáist, til að athuga hvort fólkið er þess verðugt að horfa á.
6. Ef horfa skal á léttvægt efni, þá er best að vera í góðum hóp, kjafta smá, kommentera óspart á það sem kann að virðast ómerkilegt en getur orðið skemmtilegt eða spennandi, eins og: Hefurðu tekið eftir kæknum sem X er með (í uppáhaldsþættinum) eða: Núna munu þau ábyggilega hætta við að hætta saman.
7. Ef horft er á rómantíska gamanmynd saman er best að koma sér vel fyrir uppi í sófa og bara njóta, kjafta kannski smá, en aðallega njóta.
8. Ef myndin sem þú vilt horfa á er grunuð um að vera frábær, með geggjaðri tónlist, spennu, drama, kappakstri, snilldarleik: Farðu í bíó!
Viðbætur og ábendingar vel þegnar en leiðréttingar eru illa séðar.
...besti brandari í heimi og reynt að horfa EKKI á Prison Break
18.11.2007 | 21:53
Mér finnst alltaf að besti brandari í heimi sé þessi:
Þegar Tolstoy var lítill drengur stofnaði hann leynifélag ásamt bróður sínum. Inntökuskilyrðin voru að standa í hálftíma úti í horni og hugsa EKKI um ísbjörn.
Tek fram að það eru ekki allir sammála mér.
En ástæða þess að brandarinn rifjaðist upp fyrir mér er sú að nú sit ég með litlu, bleiku tölvuna mína í fanginu heima í stofu og reyni að horfa EKKI á Prison Break. Full heilagri reiði yfir því hvernig seinustu tvær seríur enduðu (ekki) þá ætla ég sko ekki að láta plata mig enn einu sinni. Hélt út fram í miðja seinstu seríu og horfði ekki á þættina. Samt sé ég útundan mér að bróðir meints morðingja, fyrrverandi fangavörður hans, löggan sem elti hann og átti við amfetamínvanda að stríða og barnaperrinn eru saman í einhverju slísí fangelsi en meinti morðinginn (sem er auðvitað saklaus) er að reyna að bjarga þeim út, með óhefðbundnum leiðum auðvitað. Úff, lofar ekki góðu, eins gott að ég ætla ekki að fylgjast með.
Horft (undan) á sjónvarpsþætti - Grey's Anatomy
8.11.2007 | 01:48
Seinþroska sjónvarpsglápari, það held ég að sé hugtak sem hægt er að gangast við með góðri samvisku. Það tók mig langan tíma að gefa Grey's Anatomy sjans, þótt þessir þættir mölluðu á skjánum þegar ég var í horninu mínu að gera eitthvað allt annað. Fór að lokum að gefa þeim auga og nú er ég lúmskt ánægð með að vera búin að fá þessa þætti aftur á skjáinn. Sem er auðvitað furðulegt fyrir manneskju sem lítur samviskusamlega undan alltaf þegar verið er að skera fólk, sprauta eða lækna með blóðsúthellingum. Það er reyndar bara í kvikmyndum og sjónvarpsefni sem ég þoli ekki svoleiðis, ekki hrædd við sprautur eða annað þvíumlíkt í veruleikanum.
Líklega er sama ástæðan fyrir þessari vaxandi aðdáun minni á Grey's Anatomy og langvinnri ást sem ég hef á rómantískum gamanmyndum. Að vísu myndi ég alveg þola meiri húmor í Grey's, en rómantíkin er kappnóg og það er greinilega að duga til að yfirvinna ógeðið á öllu þessu sulli með blóð og innyfli. Fékk líka klígju í þetta eina skipti sem ég var sett í að sauma vambir í sláturtíðinni. Oj, barasta.
Nú er ég á góðri leið með að læra nöfnin á Meredith og Derek og hin þekki ég þegar þau eru nefnd, svona flest alla vega, þannig að ég fylgist bara spennt með. Af tillitssemi við fjarstadda dóttur fer ég ekkert að upplýsa hvað er að gerast í þáttunum núna. Hún hefur reyndar faglega afsökun fyrir að horfa á þetta og lítur ekki undan í blóðsullsenunum.
Monk og House eru samt ennþá betri ... ennþá, hef samt grun um að ég hafi verið að missa af seinasta Monk þættinum í bili í stærðfræðivímu seinustu daga.
Monk
16.9.2007 | 19:53
Nýrnalotterí
30.5.2007 | 20:01
Sjónvarpsseríur sem enda ekki (Prison Break)
18.4.2007 | 00:11
Hef ánetjast tveimur sjónvarpsþáttaröðum, 24 og Prison Break undanfarna vetur (báðar mjög spennandi og önnur alla vega (24) með mjög vafasömu innihaldi en óbærilegri spennu - sem er nóg fyrir mig). Missti af lokaþætti nýjustu seríu Prison Break og þegar ég kom heim áttu eftirfarandi samræður sér stað:
- Hvernig var lokaþáttur Prison Break?
- Þetta var ábyggilega ekki lokaþáttur, hann endaði engan veginn.
- Lokaþátturinn í fyrra var svoleiðis líka, ég ætlaði aldrei að láta hafa mig að fífli aftur.
- Ég veit eiginlega ekki hvernig hann endaði.
Svo fór ég á netið og fletti upp lokaþættinum og fékk tvær mismunandi útgáfur: Annars vegar að framburður hálfsköllótta, dökkhærða gæjans hefði sýknað Lincoln og Söru og hins vegar að Sara væri komin í verulegan vanda, jafnvel úti um hana. Svo ég hélt áfram að spyrja fjölskylduna:
- Kom fram framburður sem sýknar Lincoln og Söru?
- Hann fær ábyggilega hjartaáfall.
- Bíddu, fékk einhver hjartaáfall?
- Nei, hann fær ábyggilega hjartaáfall í næstu seríu.
- Kom framburðurinn fram eða ekki?
- Hann er búinn að segja þetta en það er ekki komin niðurstaða.
- Hann er ekki búinn að bera vitni (þegar hér er komið sögu ætti að vera ljóst að ekkert okkar man hvað þessi hálfsköllótti, dökkhærði sem reyndi að drekkja Söru í baðkarinu en er núna orðinn góður, heitir).
HJÁLP!