Færsluflokkur: Ferðalög
Aratunga á Rarotonga
22.3.2023 | 15:50
Eyjan Rarotonga í Cook-eyjaklasanum í Suður-Kyrrahafi er alveg klárlega sérstakasti staðurinn sem ég hef komið til. Í heimsferðinni okkar mömmu 1989 á heimleið frá frá Nýja-Sjálandi, þar sem við heimsóttum Möggu frænku, gátum við valið hvort við stoppuðum þar í ca 40 mínútur eða viku. Svo tíðar voru ferðirnar þangað. Við völdum vikuna og sáum ekki eftir því, þótt við höfum ekki beinlínis lent þar í sólarferð, skúrir flesta daga nema þann fyrsta og þægilegur hiti kringum 30 gráðurnar. Sjórinn alveg yndislega mátulegur.
Þetta var einn þriggja áfangastaða á litlum eyjum í Suður-Kyrrahafi, lengsta stoppið og skemmtilegasta umhverfið. Eyjan er eiginlega bara eitt, frekar lítið fjall og smá láglendi í kring, um það liggur hringvegurinn sem er 33 km á lengd og þar fara allir sinna ferða á skellinöðrum, eða gerðu það þegar við vorum þar. Ég leigði eina slíka, en til að fá að nota hana þurfti ég að kaupa mér ökuskírteini, sem ég gerði auðvitað. Snattaði eftir nauðþurftum og fannst ég vera orðin heimamanneskja.
Okkur hafði verið sagt að það væri tvennt sem við ættum að gera, fá okkur ökuskírteini og fara í kirkju. Ekkert sérlega kirkjuræknar en þar sem það var einmitt kirkja við hliðina á gististaðnum okkar, The Edgewater Resort and Spa, gerðum við það á sunnudeginum. Komum reyndar og fórum á þriðjudegi (en lentum á Tahiti á mánudeginum á undan brottförinni frá Raró, og hefðum verið gistingarlaus síðari aðfaranótt þriðjudags ef ég hefði ekki fattað að við vorum að fara yfir daglínuna).
Kirkjan var fín og messan frjálsleg, konurnar mættu í sínu fínasta pússi með blómahattana sína, en það var eitt af því sem við áttum að taka eftir. Presturinn sagðist vera launaður eftir því sem honum gengi að halda uppi heilbrigðu unglingastarfi, ekki verra en hvað annað.
Trúboðarnir sem komu til Raró voru frjálslegri en margir þeirra sem fóru um nágrannaeyjar og voru með sama hátt og Þorkell Ljósvetningagoði, fólki var áfram heimilt að blóta í laumi, í þessu tilfelli var það að dansa sína heiðnu dansa, en hvergi í Suður-Kyrrahafi þykir dansmenntin betri. Þrátt fyrir dálítinn skort á samanburði get ég alveg staðfest það. Á Fiji voru það karlar sem sáu um dagsinn og hann alls ólíkur þessum, líka góður en bara ekki eins góður.
Hvorug okkar mömmu er gefin fyrir skordýr, en einhvern veginn lifuðum við þessa viku stórra skordýra af. Ég taldi mig vera lífvörð mömmu gagnvart kóngulóm, en þegar risastór kakkalakki flaug á mig undan símanum fyrsta kvöldið dró ég rúmið út á gólf og öll lök kyrfilega upp. Fljúgandi kakkalakkar, já! Og það sem meira er, þegar þeir fljúga þykir það, samkvæmt þjóðtrú Cook-eyjaskeggja, vita á rigningu, en daginn eftir fór einmitt að rigna.
Í höfuðborginni, Avarua, rakst ég á nokkurs konar ,,Aratungu" og mamma smellti auðvitað af mér mynd sem ég gat sýnt Ara mínum þegar heim var komið. Ekki var það nú verra.
Við sem höfum ferðast og lesið bækur þurfum aldrei að láta okkur leiðast, meira að segja ekki á síð-pestardögum, alltaf gott að grípa næstu minningu og stundum líka að setja hana á blogg.
Minningar frá Andalúsíu
20.3.2023 | 23:47
Nýkomin frá Andalúsíu og kynntist enn nýrri borg og nýrri hlið á þessum indæla hluta Spánar. Í þetta sinn Córdoba og lítillega nágrenninu.
Kynni mín af Andalúsíu ná langt aftur, hef eflaust verið eina sex ára barnið árið 1959 sem sigldi með saltfiskdalli frá Keflavík til Gíbraltar snemma árs til hálfs árs dvalar í Andalúsíu með mömmu sinni og ömmu. Við tókum á leigu tvö lítil raðhús í Torremolinos og þar með fjölgaði útlendingunum þar í bæ um meira en helming, en á pensjónatinu niðri í bæ bjó Ameríkani og í stærsta raðhúsinu við hliðina á húsinu okkar mömmu bjó þýskur rithöfundur. Í hans garði var lítil sundlaug og hann varaði okkur við að styggja hermenn og lögreglu enda var þetta á Franco-tímanum. Það var ekki fyrr en um haustið þegar við vorum að fara að farið var að byggja hótel og undirbúa þann mikla ferðaiðnaði sem hefur einkennt bæinn æ síðan. Ég eignaðist góða vinkonu, Carmen, sem var nokkrum árum eldri en ég og undi hag mínum vel í þessum litla bæ, ströndin á daginn og prófaði að fara á bak á asnanum á vegamótunum (við bjuggum ,,hinu megin við asnann").
Þótt bærinn okkar væri góður fannst mér enn meira gaman þegar við fórum til Malaga, en það gerðum við af og til. Mest spennandi fannst mér að fara á nautaat, en mamma las Andrésblöðin sem voru ætluð mér meðan á leiknum stóð. Hátindur dvalarinnar var hins vegar þegar við fórum til Granada og skoðuðum Alhambra-höllina fallegu og alla garðana. Mér fannst þessi minnisvarði um máratímann alveg stórkostlegur og yfir höfuð spennandi að heyra um þetta sérstaka ríki máranna á Pyreneuskaganum.
Síðan hef ég nokkuð oft komið til Spánar, en ekki aftur til Andalúsíu fyrr en við Ari fórum til Sevilla síðla árs 2015. Það var verulega skemmtileg ferð og við skoðuðum allt sem við gátum á þessum 4-5 dögum sem ferðin varði. Þremur árum síðar skrapp ég í skottúr til Torremolinos og Malaga, en hélt þá aðallega til norðar á Spáni. Stóðst ekki mátið að skjótast og það var virkilega gaman, ekki margt en þó ekki ekkert sem ég þekkti frá fyrri tíð. Malaga hefur ekki breyst neitt rosalega, ég sá meira að segja hvar við höfuðum farið á nautaatið forðum, og turninn í Torremolinos stendur enn og gamla aðalgatan er (rétt) þekkjanleg.
Þegar ljóst var að ég væri á leið til Córdoba á stóra vatnslitasýningu og -hátíð núna í þessum mánuði var ég yfir mig spennt að sjá þessa borg sem virtist ekki síðra minnismerki um máramenninguna en Granada. Það reyndist rétt vera og ég verð áreiðanlega í vikur eða mánuði að vinna úr öllum þeim áhrifum sem ég tók inn á tæpri viku í þessari sögufrægu menningarborg. Sýningin sjálf var haldin í Palacio de la Merced, sem er að stofni til frá því snemma á 13. öld en hefur tekið miklum breytingum og er núverandi bygging talin frá 1752.
Við fórum meðal annars á merkilegt fornleifasvæði, Medina Azahara, þar sem verið er að grafa upp stjórnsýsluborgina frá 10. öld, rétt utan við Córdoba. Saga máranna í Córdoba nær aftur til 711 og ríki þeirra emíra og kalífadæmi er eldra en það sem síðar reis í Granada. Annars á ég gríðarlega margt eftir ólesið um þessa merkilegu sögu og eins og svo oft þegar ég kem á merkilegar söguslóðir, þá bæti ég smátt og smátt í sarpinn og tengi við eigin myndir og minningar.
Það var líka gaman að skoða moskuna stóru sem breytt hefur verið í dómkirkju, að mér skilst einstök endurnýting, þótt mér finnist einhvern veginn að það hljóti að finnast fleiri dæmi. Þarf að fara að lesa skrif Örnólfs Árnasonar betur um Andalúsíu, með þessa nýju upplifun í farteskinu, og svo ótal margt fleira.
Einu sinni sagnfræðingur, ávallt sagnfræðingur, því sagan er svo stór og sagnfræðin sem kennd er bara brotabrotabrot af öllu því sem hægt er að kynna sér.
Á leið á alþjóðlega vatnslitasýningu í Córdoba á Spáni í næstu viku
1.3.2023 | 16:42
Í dag legg ég upp í ferðalag sem ég hef hlakkað talsvert til að fara í. Leiðin liggur til Córdoba á Spáni með stuttri viðkomu í Madrid og ögn lengri í Amsterdam að heilsa upp á son minn sem hefur verið búsettur þar síðastliðin þrjú ár, en svo vill til að hann á afmæli á laugardaginn.
Þegar auglýst var á FB-síðu Vatnslitafélagsins eftir umsóknum í þátttöku í þessari sýningu, þá fannst ég mér einmitt eiga réttu myndina á sýninguna. Það reyndist rétt vera, því hún var tekin inn og hana sendi ég á undan mér fyrir margt löngu (eins gott að hún hafi skilað sér).
Þetta er heil hátíð, stendur í næstu viku og að minnsta kosti þrír leiðangrar í útimálun með fólk alls staðar að úr heiminum. Spáin hvort góð né vond, ennþá.
Mun láta í mér heyra hér um þetta ævintýri, ef tími vinnst til. Þangað til, myndband af því sem framundan er.
Alþjóðlega vatnslitasýningin í Córdoba
Danskir skemmtistaðir, Le Carrousel og ,,pigtrådsmusik"
25.2.2023 | 22:46
Þegar ég var unglingur langaði mig lifandis ósköp til London. Það var ,,borgin" og mig dreymdi um að dressa mig upp í Carnaby Street og Chelsea og sjá allar stórkostlegu hljómsveitirnar, Bítlana, Rolling Stones og allar hinar. Fyrsta sumarið sem ég fékk vinnu allt sumarið var þegar ég vann í prentsmiðju fimmtán ára gömul, 1967, í grámynstruðu ullarpilsi og nælonsokkum, því það var dress-code fyrir þann vinnustað, værir þú kvenkyns. Mér var ætlað að leysa af miðaldra konu sem auk þess að sortera hausverkjavekjandi sjálfkalkerandi kvittanir eldaði ofan í mennina. Á fjórða degi var ákveðið að þeir borðuðu á Aski. Þá hafði ég hitað ýsuna við lágan hita ósaltaða og saltað saltfiskinn hressilega daginn eftir. Samt var bara leiðinlegt. Um haustið stakk mamma uppá að ég skryppi í utanferð áður en skólinn byrjaði og ég færi í landspróf. Skoðaði möguleika á ferð til London, en hún kostaði átta þúsund kall en ferð með Gullfossi til Leith og Kaupmannahafnar, fullu fæði og sex daga stoppi í Kaupmannahöfn (búið um borð) bara fimm þúsund kall.
Fimmtán ára pjakkur í prentsmiðju var ekki hálaunamanneskja svo ég fór til Kaupmannahafnar. Kynntist dóttur háseta um borð, ári eldri en ég, og sú kunni á djammið. Tívolí á daginn og á kvöldin fórum við á Le Carrousel við Axeltorv, rosalegan dans- og tónleikastað til klukkan fjögur, þá var haldið á leiðindastaðinn Exalon með dinnertónlist til fimm og loks á Jomfruburet sem alltaf virtist opið. Á Le Carrousel var sannkölluð 1967 stemning, ,,summer of love" náði til Kaupmannahafnar, en hinir staðirnir voru hrikalega ,,slísí" með kófdrukknu harðfullorðnu fólki, sumir eflaust komnir yfir þrítugt ef ekki fertugt. Ógeðslegir en við einhvern veginn komumst hjá öllu ógeði. Þetta var þegar ég kynnist hugtakinu ,,pigtrådsmusik"/gaddavír sem sagt, en það var miklu meira af svífandi sækadelik tónlist þarna þetta haust.
Hér er dásamleg upprifjun á dansstöðum Kaupmannahafnar á þessum tíma, og ég kannast við ótal margt: http://www.cykelkurt.com/musik/60-erne/spillesteder.html
Ég var samt farin að halda að mig hefði dreymt þennan stað, Le Carrousel, þótt ég hafi reyndar fundið hann aftur fyrir allmörgum árum í dulargervi risabíóhúss, sem hefur víst verið helsta hlutverk þessarar byggingar í liðlega hundrað ára sögu hennar. Og af því að ég er að fara í árshátíðarferð til Kaupmannahafnar í maí, þá hvarflaði andartak að mér að við værum að fara í rétt hús, en nei, það er næst eða næstnæst við, sjálfur Circus Schumann, sem ég fór í með mömmu þegar ég var sjö ára. Le Carrousel var vafin dýrðarljóma í mínum augum og þarna var allra besta tónlistin, sækadelic, bítlaleg og rokk af bestu gæðum. Þrátt fyrir lítið svið komu þangað margar helstu hljómsveitir ástarsumarsins og áranna í kring. Kaupmannahöfn var fínn staður fyrir bráðungar djammstelpur í stuttum pilsum sem vildu aðallega dansa og drukku ekki einu sinni áfengi, þá voru hipparnir bara á Nikolais Plads og við vorum hálf hræddar við þá á þessum tíma (Kristjanía varð til fyrr en 1971).
Flestir sem sóttu Le Carrousel þetta haustið voru á okkar aldri eða lítið eldri og voru eins og við bara að dansa og njóta þess að vera til. Hér að neðan set ég afrekaskrána (listamennina sem skemmtu þarna, smellið á myndina og þá er hún skarpari, vel þessi virði) en skelli líka inn smálegu af myndum sem ég hef fundið frá þessum dýrðarstað (sú skarpasta reyndar frá því nokkrum árum fyrr). Kaupmannahöfn er líklega sá staður þar sem ég hef átt hvað skemmtilegustu djammstundirnar, allt til tímans hjá Betware, sem er á þessari öld, en samt ... það var alltaf London.
Í silfurbrúðkaupsferð til Egyptalands
21.2.2023 | 23:50
Ein af eftirminnilegri ferðum sem ég hef farið í var silfurbrúðkaupsferðin okkar Ara til Hurghada í Egyptalandi snemmsumars 2005. Ferðin var stutt, bara vika, en alveg ógleymanleg og við vorum harðákveðin að skoða meira af þessari merkilegu menningu og umhverfi síðar. Það hefur dregist af ýmsum ástæðum. En ekkert getur skyggt á þá stórkostlegu upplifun sem þessi ferð var okkur Ara mínum, silfurbrúðkaupsferðinni sjálfri.
Tímasetningar
Tímasetning ferðarinnar var líka forvitnileg. Við fórum nefnilega með danskri ferðaskrifstofu sem bauð upp á alveg ótrúlega hagstætt verð til Hurghada á þessum tíma. Í júní var það allt í lagi. Þann 30. september sama ár og æ síðan hefði það verið argasta óráð að fara með danskri ferðaskrifstofu til Egyptalands. Man einhver eftir Múhameðsmyndunum í Jyllandsposten? Alla vega ég. Þið sem ekki munið, hér er stutt en skýr samantekt.
Um myndir Jyllandsposten af Múhameð
Fleira var merkilegt við tímasetningu ferðarinnar. Við höfðum ekki mikið svigrúm fyrir frí á þessum árstíma og þar að auki var ég í fyrsta sinn í fimm ár ekki frjáls að taka frí sem ég bað um með góðum fyrirvara á þeim tíma sem mér hentaði. Vanþekking á tímaáætlunum (sem fara alltaf úr skorðum) og þörf til að sýna smá vald af hálfu annars ágæts samstarfsmanns olli því að ferðin var farin tveimur vikum ,,of seint". Hún var sem sagt ekki farin kringum silfurbrúðkaupið heldur tveimur vikum síðar og þá var líka hitinn í Egyptalandi var orðinn helst til mikill. Verstur var hann í Dal Konunganna um 45 stig.
Heppilega fáfróð í náttúrufræði
Við vorum á ágætu hóteli í útjaðri Hurghata og herbergið okkar var rétt við ströndina, yfir einn stíg að ganga beint í sandinn og í 10-20 metra fjarlægð var hið heiðbláa Rauðahaf. Einhverjar hvítar skellur voru í sandinum og enn fleiri í sjónum. Ég, sem er frekar mikil skræfa að eðlisfari, gekk hiklaust út í ylvolgan sjóinn og þessar skrýtnu skellur flutu allt um kring. Fáfræði mín sparaði mér miklar krókaleiðir, þetta voru skaðbrennandi marglyttur, en einhvern veginn slapp ég. Við busluðum eitthvað þarna í góða veðrinu og fórum líka um á hjólabát, sem var bráðskemmtilegt, framhjá í fjarska sigldu farskip og allt var mjög fallegt, en augljóslega tókum við myndavélina ekki með út á strönd, því engar finn ég myndirnar af þessum yndislega umhverfi, bara blómatrjánum nær aðalbyggingunni. Og þau eru keimlík alls staðar.
Til Luxor í lögreglufylgd
Þar sem ferðin var ekki löng gafst okkur ekki færi á að fara til Kaíró í þessari ferð, en Lúxor var innan seilingar. Hann Núbí í búðinni í götunni okkar kom okkur í mjög fína ferð þangað með egypskri ferðaskrifstofu og alveg skínandi góðum innlendum leiðsögumanni, fornleifafræðingi sem stefndi á að taka við stjórnartaumunum í Egyptalandi með tíð og tíma, því miður er hann ekki búinn að láta verða af því. Við lögðum af stað um sex-leytið um morguninn og á tilteknum stað söfnuðust saman 15-20 rútur sem fórum í kyrfilegri lögreglufylgd, löggan fremst og aftast með blikkljósum og látum og rúturnar næst þeim skiptust á að víxla akreinum til að blokkera möguleika annarra til að komast framhjá löggunni og inn í röðina. Þetta var hálfgerð Nesjavallaleið yfir berangur lengst af (3-4 tíma ferð hvora leið) en allt í einu opnaðist fyrir okkur sýn yfir Nílardalinn iðjagrænan.
Karnak, Dalur konunganna og sigling á Níl
Við skoðuðum Karnak fyrir hádegi og vorum alveg heilluð, en síðdegis var haldið í Dal drottninganna og Dal konunganna, og við ásamt einum Norðmanni völdum seinni dalinn, af því orðrómur var á kreiki um að honum yrði brátt lokað. Held að enn hafi ekki orðið af því. Flestir fóru í Dal drottninganna og þangað langar mig líka. Þrátt fyrir hrikalegan hita var sú ferð ofan í grafir og út um allt gríðarlega spennandi. Á eftir fórum við í siglingu á Níl, stutta, út í eyju þarna skammt undan, en það var ekki hægt annað en að prófa að sigla svolítið á Níl. Sama fyrirkomulag og lögreglufylgd var á bakaleiðinni og við komum örþreytt en rosalega ánægð úr ferðinni eftir 17 tíma úthald, staðráðin í að láta þetta ekki verða síðustu ferðina til Egyptalands. Síðan eru bráðum 18 ár og ýmislegt hefur gerst. En hver veit?
Með útþrá í blóðinu
18.2.2023 | 00:55
Líklega hef ég alltaf haft mikla útþrá. Man eftir ótal atriðum úr æsku þar sem nöfn framandi landa, ólíkir siðir og umhverfi heilluðu mig. Þegar pabbi var að grínast í mér og sagði: Ung var ég gefin Njáli, eins og kellingin sagði! þá velti ég því bara fyrir mér hvaða Ungverji þetta væri. Játa það fúslega að ég lá í 1001 nótt en ekki Þjóðsögum Jóns Árnasonar þegar ég var lítil. Og ævintýralegi tölu-kassinn hennar mömmu innihélt snúar tölur sem voru magadansmeyjar, gylltar, mynstraðar voru herirnir og svo framvegis. Leggur og skel, afsakið!
Útþráin liggur í ættum, ég fullyrði það. Ömmur mínar og afar ferðuðust ótrúlega mikið á fyrri hluta síðustu aldar og höfðu krakkana stundum með. Móðuramma og systur hennar áttu líklega metið, ekki bara að amma héldi sjötugsafmælið sitt í Amman í Jórdaníu og ekki í skipulagðri ferð frá Íslandi frekar en venjulega, heldur flakkaði hún víða um og hefði verið liðtæk á netinu, hefði hún lifað nógu lengi. Þess í stað fór hún út á Kastrup og keypti miða út í bláinn á síðustu stundu. Tvær systur hennar settust að á Nýja-Sjálandi og bjuggu þar áratugum saman en tvær ,,bara" í Danmörku. Það er varla tilviljun að fyrsta utanferðin mín var með mömmu og ömmu, önnur ekkja, hin nýskilin (við pabba), leiðin lá til Suður-Spánar sem þá var ekki túristabæli, og þar áttum við gott hálft ár.
Nokkur ferðalög mín eru minnisstæðari en önnur, hálfa árið á Spáni, sex-sjö ára, Englandsdvöl átján ára (líka hálft ár) og svo nokkrar styttri ferðir frá viku og upp í fimm vikur. Egyptaland, Kamerún, Kúba, Sikiley, allt staðir sem kannski bjóða bara upp á eina ferð á hvern stað. Í Evrópu hef ég sótt svolítið oft austur á bóginn, slavneska menningin heillar mig, suðrænn hiti fer vel með löngu brotið bak og svo er ég enn að kynnast nýjum stöðum. Norður-Ameríka kom mér á óvart en Bandaríkin heimsótti ég ekki fyrr en 1991 fyrst, og æ síðan kemur í hugann það sem Beta föðursystir mín sagði: Hvernig er Ameríka? Hvað viltu?
Hnattferð með mömmu 1989 (5 vikur) um þrjú Asíulönd á leiðinni til Möggu frænku á Nýja-Sjálandi og um þrjár Suðurhafseyjar á bakaleiðinni. Nokkrum árum síðar Ástralía og aftur til Möggu frænku.
En í covid hugsaði ég: Og hvað svo ef ferðalög leggjast af? Þá á ég alltaf myndir og minningar. Skrapp svo nokkra túra í covid-pásum, en það er önnur saga.
Sumir í tengdafjölskyldunni hafa slegið mig eftirminnilega út í ferðalögum út um allan heim, mesta furða hvað börnin okkar Ara míns hafa mikið jafnaðargeð.
Myndirnar eru allar úr fjölskyldualbúminu, ekki ferðabæklingum.
Eiga ekki margir ,,sína" útgáfu af Englandi?
16.2.2023 | 23:54
Íslendingar hafa löngum ferðast til Englands og Skotlands en það sem mér finnst skemmtilegt er hversu ólík upplifun landið er eftir því við hvern er talað. Þar, eins og annars staðar, finnst mér mest gaman að hverfa inn í mannfjöldann í stærri sem smærri borgum, hoppa upp í lest á einhvern nýjan eða gamalkunnan stað eða jafnvel að fara út í sveit. Sveitirnar í Englandi er óneitanlega friðsælar á svipinn og fallegar á rólyndislegan hátt. Skosku hálöndin Íslandslegri, þar til næsti kastali birtist. Ég hef farið í reiðtúr á hræðilega höstum og hávöxnum hesti um skógana í grennd við Aberdeen og spilað golf á 2-3 stöðum í Suður-Englandi. Seinni árin hef ég sótt svolítið í leikhús í London, en eftir að ég kláraði fermingarpeningana mína á Sauchiehall Street í Glasgow hef ég lítið stundað búðaráp í Englandi, kannski helst kíkt á einn og einn markað, eða einfaldlega í ákveðna búð til að kaupa eitthvað alveg fyrirfram ákveðið.
London er mikil uppáhaldsborg hjá mér, alltaf að fiska upp ný og áhugaverð hverfi þar. Og listasöfnin rokka. Suðurströndina þekki ég býsna vel og svæðið kringum Bristol, frá því foreldrar mínir bjuggu á svæðinu og líka þegar ég fór sem blaðamaður í bíltúr í nokkra daga um Suðvesturhluta Englands. Háskólaborgirnar Oxford og Cambridge hef ég á upphaldslista en líka margar aðrar fallegar borgir og svo tók ég kúrs í háskólanum í Lancaster og þá kíkti ég á Liverpool og Blackpool í leiðinni, í janúarkuldanum. Reyni alltaf, ef ég stoppa eitthvað í Englandi, að fara eitthvað á nýjar slóðir.
Í haust kíkti ég í fyrsta sinn á Norwich (besta veðurspáin þann daginn) og varð ekki fyrir vonbrigðum. Á líka vini sem hafa farið í siglingar um árnar í Englandi, gönguferðir á víkingaslóðir í Skotlandi og á eyjunum, búið á Hjaltlandi, í hjarta London eða útborgunum, já bara út um allt. England er svo margt og nú þegar fólk er búið að hrista úr sér Brexit óttann (verð ekki vör við vesen við að ferðast þangað) þá heldur það eflaust áfram að sækja til þessa skemmtileg lands.
Betra seint en aldrei: Ég elska Krít
14.2.2023 | 20:26
Þegar ég lagðist í almennilegt flakk á eigin vegum í fyrsta sinn uppúr tvítugu, fór ég um Mið- og Austur-Evrópu, það var einfaldlega ódýrast. Byrjaði í Frakklandi að heilsa uppá foreldra mína sem þá voru þar í námsleyfi, en tók svo lestina til Belgrad og dvaldi þar í viku. Það var svolítið erfið ákvörðun að ákveða hvort ég ætti að taka sjansinn á því að fara til Grikklands í framhaldinu eða taka nyrðri leiðina, Budapest, Prag og Krakow, sem varð niðurstaðan, þótt aldrei kæmist ég alla leið til Krakow, það er önnur og lengri saga. Átti nefnilega stefnumót við Gunnlaug frænda minn í Basel áður en ég lyki ferðinni í Kaupmannahöfn, og óneitanlega voru þessar borgir meira í leiðinni fyrir lestarferðalanginn mig.
Það verður þó seint sagt að ég hafi ekki fengið hvatningu til að fara frekar til Grikklands. Franskar tvíburasystur, kennari og lögfræðingur, og kærasti annarrar þeirra, skopmyndateiknari, voru á gömlu druslunni sinni að koma frá Grikklandi og mærðu landið og landana. ,,Grikkir eru alltaf svona: :)" sögðu þær, en Júgóslavarnir svona :( . Mér var ekki skemmt, enda mikill aðdáandi Júgó.
Mig langaði samt alltaf til Grikklands, vissi af dvöl Leonards Cohen (BA-ritgerðin mín í bókmenntum var um ljóðin hans) á eyjunni Hydru og sá auðvitað landið og eyjarnar í hillingum eins og svo margir aðrir. Til að gera langa sögu stutta tók það nokkra áratugi fyrir mig að hrinda því í framkvæmd að heimsækja Grikkland, aðallega Krít (enn sem komið er, smá til Santorini og Þessaloniki líka).
Upphaflega fór ég til Krítar í golf í nóvember 2016 og kynntist þar eggjabakkagolfholu. Fór fjórum sinnum til Krítar á þremur árum fyrir og í covid og í seinustu ferðinni hitti ég hana Tessu Papas, eitthvað ögn eldri konu en mig, sem hafði einmitt verið á Hydru ásamt Bill eiginmanni sínum (skopmyndateiknara, eins og Frakkinn í Belgrad forðum, en líka framúrskarandi vatnslitamálari -https://www.greecetravel.com/redapple/tribute.html) einmitt á tíma Cohens og Marianne. Og þau þekktu hann vel, einkum Bill, sagði Tessa. Hún gisti hjá henni Despoinu í gamla bænum í Chania um leið og ég og var sérlega geðfelld kona, sem þekkti alla á svæðinu og keypti sér hús í grenndinni áður en dvöl okkar í Chania lauk.
Cohen hitti ég hins vegar á annarri eyju, Íslandi, 1988. Nokkrir félagar mínir gerðu sér ferð til Hydru á ,,réttum" tíma, en ég gleymdi að spyrja Tessu hvort hún hefðir hitt Íslendinga þar. Við töluðum aðallega um hesta og tónlist og ég sýndi henni myndir af hestunum hans Ara og fleiri íslenskum hestum.
Gran Canaria er aðeins öðru vísi í fjallshlíðinni
13.2.2023 | 20:33
Mér datt það í hug fyrir fjórum árum að það gæti verið bráðsnjallt að gista einhvern tíma í ,,þorpunum" eins og fararstjóri Heimsferða kallaði bæina ofan við flugvöllinn, Agüimes og Ingenio, einhverju sinni. Var þá á leið frá vellinum til Hildu skáfrænku minnar í kaffi, en hélt þá aðallega til á Fuerteventura. Leiðin lá um svo fallegar, spánskar, götur að ásetningur varð til. Eftir á að hyggja sé ég að hin eiginlegu þorp eru sennilega mun ofar í fjallinu en strætóleiðin sem ég fór. Til að staðsetja þau þá er alla vega Ingenio á leiðinni þangað sem Íslendingar fóru löngum til að borða í hellum og gera kannski enn. Miðbær Ingenio er í meira en 300 hæð yfir sjó og ég slæ á það, ekkert mjög ábyrgðarlaust, eftir að hafa stikað þar margar brekkur, að kirkjan sé allt að 100 metrum ofar, en hæst nær sveitarfélagið um 1200 metra yfir sjó.
Fyrir skemmstu gisti ég rétt hjá nefndri (fallegri) kirkju og má með sanni segja að það var ólík upplifun þeirri sem ég er vönust á þessari góðu eyju, þar sem Playa del Inglés hefur yfirleitt verið aðsetur minn á flakki þangað.
Rápaði um fallegar, brattar götur eftir vinnu á daginn og naut verunnar þar. Stoppaði í verslun sem selur ekkert nema góðar vörur af svæðinu.
Fékk mér ost og kaffi heima á gististaðinn góða, Casa Verde, sem er í hliðargötu ekki auðfundinni. Það var samt ekki þess vegna sem leigubílstjórinn, sem átti að sækja mig kl. 13 á laugardegi og hafa mig með á flugvöllinn, mætti seint, illa eða ekki. Þegar þar var komið sögu voru gestgjafar mínir, Marek og Magdalena, búin að taka málin í sínar hendur, báru í mig kaffi að skilnaði og mér var skutlað niðureftir.
Á leiðinni sagði Marek mér meðal annars að í Ingenio væri heitasti staður eyjunnar á sumrin, en ögn kaldara er þar á veturna en á ensku ströndinni. Og hvers vegna sækja leigubílstjórar ekki saklaust fólk um helgar? Jú, rétt eins og leigubílstjórnarnir á La Palma segja blákalt að þeir sæki fólk ekki um nætur, þá bara líkar þeim ekki þessi vinnutími. Betra væri auðvitað að vita það og geta lagt af stað eftir þröngum götum niður brekkur, þar sem sums staðar eru þröngar gangstéttir eða öngvar. Í fyllingu tímans finnst strætóstoppustöðin góða, en það kannaði ég með dags fyrirvara (og komst að þeirri niðurstöðu að tryggara væri að taka bíl, ,,einmitt"). Sem sagt sama leigubílamenning og á La Palma, nema þar er látið vita af því fyrirfram að leigubílstjórum detti ekki í hug að sækja fólk nema á hagstæðustu tímum.
Útsýni til Esjunnar
11.2.2023 | 14:33
Fyrir sjö árum fékk ég af tilviljun sæti við glugga í þáverandi vinnu, með glæsilegu útsýni til Esjunnar. Hún var aldrei eins, stundum umvafin sólargeislum, stundum grá og guggin, dramatísk, litrík, svarthvít en alltaf falleg. Síðan hef ég ekki hætt að taka myndir af henni. Í vinnunni minni núna er ég með Esjusýn úr glugganum fyrir aftan mig en sumir sjá bara stórhýsi og byggingakrana í þeim myndum, ég sé bara Esjuna.
Á leiðinni heim á Álfanesið eru margir, fallegir Esjuútsýnisstaðir og mér er sérstaklega gjarnt að stoppa á strætóstöð rétt eftir hringtorgið, einhverja metra inn á Norðurnesið og ná þessar fallegu línu sem stór skurður í landi Bessastaða, rétt við landamerkin við Eyvindarstaði, myndar.
Nýjasta myndin mín er tekið síðastliðinn fimmtudag þegar ég var á leið af ráðstefnu á Suðurlandsbraut og vestur í bæ að hitta systur mínar á Kaffi Vest.
Þau hundruð mynda sem ég á af Esjunni í ýmsum búningum rata kannski einhvern tíma á sýningu, eins og myndirnar af bleiku húsunum sem ég hef tekið um árabil og hvergi nærri hætt. En í þetta sinn bara myndir fá þessu ári, hún hefur ekki alltaf verið alhvít á árinu, þótt ætla megi það. Og ég fer greinilega oftar til Reykjavíkur en ég hélt.