Færsluflokkur: Ferðalög

Öðruvísi Kanarí - La Palma - fyrir gos

Lítil og falleg eyja, sú norðvestasta af Kanaríeyjunum, heitir La Palma. Hún komst heldur betur í fréttirnar þegar þar varð hrikalegt eldgos haustið 2021. Reyndar hefur lengi verið á kreiki tilgáta um að í vondum jarðskjálftum eða eldgosi kynni vesturhluti eyjarinnar að hrynja í sjó, þetta er jú brattasta eyja heims, eftir því sem sögur segja. Þá atburðarás hafði ég sem undirtón í hluta af því plotti sem ég byggði fyrstu glæpasöguna mína, Mannavillt á, en hvernig mun ég ekki segja frekar frá hér. Sú bók kom út meira en hálfu ári áður en gosið varð, en ég fór um þær slóðir þar sem gaus, það er einmitt landslagsmyndin sem fylgir þessu bloggi, tekin út um rútuglugga, sem sýnir svæði sem nú er komið undir hraun.

IMG-1726

Fékk þessa fínu ástæðu til að fara til eyjarinnar vorið 2019 til að festa betur ýmis atriði í atburðarás bókarinnar. Mæli eindregið með ferð þangað, hvort sem þið eruð útivistargarpar sem viljið skoða einhverjar af hinum fjölmörgu gönguleiðum eyjarinnar, eða bæjarráparar, eins og ég, sem reynið að njóta fallegs bæjarumhverfis, kaffihúsa og mannlífs í áfangastöðum sem á vegi verða. 

IMG-1750

Google maps var annars býsna góð leið til að undirbúa þessa ferð, því ég rakst á æðislegt blátt hús og annað grænt við hlið þess í Los Llanos de Aridane sem ég mátti til með að elta uppi og úr varð mjög skemmtileg ferð yfir háu fjöllin sem skilja að austurströndina, með höfuðborginni Santa Cruz de La Palma, þar sem ég var rétt hjá ferjuhöfninni, og vesturströndina þar sem Los Llanos er, en sá bær er mun líflegri en Santa Cruz. Leiðin lá um bæ sem nú er þakinn hrauni, en þegar ég fór hringferð um suðurhluta eyjarinnar, þá fórum við yfir veg sem lenti undir hrauni og var lengi vel ófær, held hann sé kominn í gagnið núna. 

56161891_10218909860515964_8952893065480110080_n

 

Það er auðvelt að komast með ferju frá Los Cristianos til La Palma og ferðin tekur +/- 3 tíma, mín ferja stoppaði í La Gomera án þess að það væri sérstaklega tilgreint, svo mér datt andartak í hug að ég hefði farið í vitlausa ferju, en svo hélt hún áfram. Komið var um miðja nótt og ég tók bíl í áfangastað sem var nálægt höfninni, sem var eins gott, því þegar ég hringdi á bíl til að taka mig til baka á ferjuna viku seinna, þá hló sú á stöðunni rosalega og sagði: Það er ekki hægt að panta bíl á nóttunni. Í mildri vornóttinni gekk ég því með mitt (létta og takmarkaða) hafurtask út í ferju og prísaði mig sæla fyrir valið á gististaðnum. 

IMG-1556 (2)

 


Ha- ferðaráð

Þið ráðið alveg hvort til skiljið þetta ,,ha-" sem hagnýt ferðaráð eða hallærisleg ferðaráð, en þið finnið mín ráð ekki hvar sem er.

Sam-kuldaskræfur sem ferðast bara með handfarangur eins og ég geri yfirleitt. Þið þurfið kannski alls ekki að láta litla ferðablástursofninn taka helminginn af plássinu í stærri handtöskunni ykkar. Á flestum gististöðum eru hárþurrkur. Merkilegt hvað þær geta vermt loppnar lúkur. 

AHD-B--scaled

Buxurnar orðnar þreytulegar? Langar þig að kaupa nýjar en hefur ekki pláss? Hvað með fallega, litla, (löglega fenginn) steininn sem þú fannst á ströndinni? Ekkert mál, póstleggið bara umframfarangur sem ykkur liggur ekkert á og er ekki allt of annt um, hann kemur heim fyrr eða síðar. Mjög líklega. En ætlið góðan tíma í pósthúsheimsóknina.

Fötin í töskunni: Upprúlluð eða samanbrotin? Ef plássið er lítið er best að rúlla þeim fast saman. Annars bara: Hverjum er ekki sama? Svo er alltaf hægt að hafa með 1-2 lofttæmipoka. Stelpurnar sem ryksuga á hótelunum eru ótrúlega liðlegar að leyfa þér að lofttæma pokana með fyrirferðarfötunum. Þetta ráð dugar vel í Bretlandi, víða vestan hafs, í Asíu en síður í flísalögum sólarlöndum. En þar þarf ekki mikið af fötum hvort sem er. 

Þótt það sé hægt að nýta öll 15 kílóin sem sum flugfélög leyfa stærri handfarangurstöskunni að vega, þá er frekar fúlt að rölta upp tröppurnar í landganginum, ef þið lendið í þannig aðstæðum úti á flugvelli. 

Fötin eitthvað krumpuð? Allt í lagi að loka vel að sér þegar farið er í heitt bað eða sturtu á hóteli sem ekki hefur straugræjur. Muna að hengja fötin sem á að gufupressa vel upp áður en gufan sest á spegilinn og í fötin. 

2023-02-07_20-06-03

Gott að ferðast með bönd sem krækjast yfir efri töskuna ykkar ef þíð eruð ekki með bakpoka sem smellur yfir útdregna handfangið á neðri töskunni. 

Lásuð þið Heiðu í æsku? Þegar vonda móðursystirin lét Heiðu klæðast hverri flíkinni yfir aðra í göngunni upp fjallið til Fjalla-frænda. Auðvitað í sjóðandi hita. Tvennt mælir með því að vera í nokkrum lögum af fötum. Mannúðlegri aðferð til að láta þyngdina á þeim dreifast og fer betur með bakið en að lyfta þeim í ferðatösku. Hnepptu, hlýrri peysunni má hnýta um mittið og jafnvel úlpu ef þarf. Svo er alveg ótrúlega oft mishlýtt/-kalt í flugi og í áfangastöðum. 

0000572077

Síðast en ekki síst: Það er ekki alltaf hægt að treysta á að nettenging sé til staðar og stundum getur batteríið á símanum meira að segja verið tæpt. Ef ég er að koma á nýjan stað reyni ég oftast að muna nafnið á hótelinu og helst leiðina þangað líka. Það hefur komið sér vel. Batterísmál geta verið erfiðari. Í upphafi ferðar er ég oft með útprentað sett af öllu því helsta, svo er það hleðslusnúran góða og þrautalending að fara í röðina til að tékka sig inn á flugvelli. 

 

 

 


Guernica og dilkadráttur

Ferðalögin mín í seinni tíð eru orðin meira og minna myndlistartengd, og hafa lengst af verið það, sé ég þegar ég lít yfir fyrri ferðir. Pílagrímsferð á slóðir hellamálverka, langþráður masterclass í vatnslitum, svo ég nefni það elsta sem kemur í hugann og eitt af því nýjasta. 

IMG-2067 (2)

Hef bara einu sinni komið til Madrid og þá var ég sjö ára, stoppaði þar einn dag í háhitabylgju, fékk kannski snert af sólsting og sá spánska dansa. Árið var 1959. Löngu kominn tími á aðra ferð, og nú skal Guernica skoðuð. Ég hef alltaf verið svolítið skeptísk á það að alltaf sé nauðsynlegt að sjá frummyndirnar, man vonbrigðin þegar ég sá Monu Lisu í fyrra skiptið, þá líka sjö ára, fannst hún lítil og röðin löng. En svo tókst Ara, einhvern tíma á þessari öld, að lokka mig að myndinni er við áttum leið um París og ég féll í stafi. 

IMG-9853 (2)

Vatnaliljur Monets voru miklu stærra verk en ég hélt þegar ég sá þær 1991 og ég var yfirkomin af áhrifunum. Sömuleiðis var ég yfirkomin af hrifingu að ,,ganga inn í" verk eftir Corneliu Parker í haust í Tate Britain. Var þá á leið í Tate Modern að sjá draumasýningu á verkum Yayoi Kusama, verð aldrei söm. Ég gæti rifjað upp ótal svona dæmi. En um leið er gamall anarkisti í mér að bylta sér svolítið. Almennt pirrar dilkadráttur mig, en það á ekki við þegar ég sé það sem mér finnst góð myndlist eða vond myndlist. Í þá dilka má greinilega draga, eða hvað? Sá skúlptúr um daginn sem má annað hvort sjá sem útúrsnúning eða hyllingu á Guernica. Í litlum garði aftan við verslunarmiðstöð í Fuerteventura (sjá seinasta blogg). Og mér fannst hún flott, en eflaust fussa einhverjir yfir svona vanhelgun á alvöru-verkinu. 

IMG-0222 (2)

Fussarar heimsins eru margir og fáir hæfileikaríkari í að draga í dilka. Hér með hef ég dregið þá í óþolandi-dilkinn minn. Óvíða er annar eins dilkadráttur og einmitt kringum listir. Skemmti mér yfir að hneyksla bandaríska(r) vinkonu(r) stóru systur og segja frá hrifingu minni á rómantískum gamanmyndum! Þar er ekki átt við Angst isst dem Seele auf, eftir Fassbinder, sem ég tel eina slíka. 

Um daginn var ég, sem eitt sinn var grænmetisæta (svo langt síðan að ekki voru til fínni orð fyrir svoleiðis lagað en þetta) dregin í dilk. Bendi á hversu vel orðalagið passar. Ætlaði að finna mér gott kaffihús í stuttu göngufæri meðan bíllinn minn færi í tölvuyfirlestur. Fann eitt spennandi, en æ-i nei, það var fyrir aðra dilka en mig. Ekki sjans að fá latté með kúamjólk þar. Mér fannst ég svo hræðilega óvelkomin að það var eiginlega átakanlegt. Ekki minn dilkur. Það er skárra í hina áttina, eins og þegar við Ari minn fórum á þorrablót árið þegar við vorum bæði grænmetisætur! 

IMG-0775

Þegar ég var 22 ára, 1974, dró ég mig sjálfa í dilk. Ég ætlaði alls ekki að verða myndlistarkona, þótt ég hefði varið nær tveimur vetrum í fullt nám í Myndlista- og handíðaskólanum. Sagnfræðingur ætlaði ég að verða og varð, en endaði sem tölvunarfræðingur, sem hefur verið aðalstarfið í tvo áratugi. Slapp ég undan því að verða myndlistarkona? Ónei, ekki aldeilis. Þegar ég kíki á Guernicu eftir um það bil mánuð verð ég á leið að taka þátt í minni fyrstu alþjóðlegu vatnslitasýningu í Córdoba. Einhver anarkisti hefur greinilega verið að dunda sér við að opna öll hlið milli allra dilka í minni rétt. 


Öðru vísi Kanaríeyjar - Fuerteventura

Fuerteventura er norðaustasta Kanaríeyjan og sú næststærsta á eftir Tene. Veit ekki til þess að í boði hafi verið beint flug þangað frá Íslandi lengi, en einhvern tíma voru þangað skipulagðar ferðir. Veit reyndar ekki hvort hún Ásta, sem sagði mér frá sinni heimsókn þangað, kom með íslenskri ferðaskrifstofu en þykir það líklegt. Auk Gran Canaria og Tene hefur verið í boði beint flug til La Palma og Lanzarote á einhverjum tímum. Nú er búið að boða beint flug til þeirrar síðarnefndu sem eru góðar fréttir fyrir fólk eins og mig sem kann vel að meta Fuerteventura. Ferjusigling milli eyjanna tekur bara hálftíma að jafnaði, og það sést yfir til Fuerteventura frá syðsta oddi Lanzarote (býst ég við, alla vega frá F. til L.). Flug frá Gran Canaria tekur 40 mín og ferjan frá Las Palmas ekki nema tvo tíma til Morro el Jable. Strætókerfið innan eyjarinnar er mjög gott, ekki eins gott og á Krít, en gott. Eitt sem þarf þó að vara sig á, ef strætó er fullur og allir í sætum, er ekki undir nokkrum kringumstæðum bætt við fólki. Það reynir sjaldan á þetta nema í kringum flugvöllinn, þar getur þurft að bíða eftir 2-3 vögnum, en ferðir eru þokkalega tíðar, á korterinu um miðjan daginn nema á sunnudögum. Aðal rósin í hnappagatið ef flögið er beint frá Fuerteventura (þá þarf að millilenda einhvers staðar) eru sólarsvalirnar í flugstöðinni. Vel þess virði að mæta snemma, fínt latté selt þar og dásamlegt að ná seinustu geislum sólarinnar fyrir heimferð. 

Það sem kom mér mest og best á óvart þegar ég kom til Fuerteventura var hversu mikil áhersla er lögð á útilistaverk af ýmsu tagi í flestum bæjarfélögum þar. Ber þar hæst ótal skúlptúra og alltaf að bætast nýir við og síðan heilmörg vegglistaverk. 

Morro del Jable

Fyrst þegar ég fór til Fuerteventura fór ég til Morro. Ágætis bær, meira af túristum en heimafólki, hlýasta spáin var þar þegar ég fór í nóvember og ágætis veður, með þeim fyrirvara þó að Fuerteventura er annálaður rokrass, en rokið er hlýtt. Þangað sækja einkum þýskir túristar en Marek í Ingenío á GC sagði mér að staðurinn væri líka vinsæll meðal hans heimamanna, Pólverja, af því hann væri tiltölulega ódýr. Þar eru stórkemmtilegir skúlptúrar meðfram strandlengjunni sem er óralöng. Prófaði golfvöllinn fyrir ofan bæinn (Jandia hlutann) og hann er því miður alveg ömurlegur, illa við haldið og með lélegar merkingar. Þegar ég var í Morro fór ég til Gran Tarajal gagngert til að skoða veggmynd af úlfalda og það var ferðarinnar virði, en þar er of lítið við að vera að öðru leyti fyrir minn smekk.

IMG-7049

 

Puerto del Rosario - höfuðborgin

Í næstu ferð, sem var í janúar 2019, ákvað ég að prófa að gista í höfuðborginni, Puerto del Rosario. Þar er lítill túrismi, tvö hótel nálægt höfninni, eitthvað af slíku í jöðrunum og svo airbnb. ,,Mitt" hótel var með ómótstæðilegum þaksvölum á 5. hæð með flottu útsýni yfir höfnina. Nokkru sinnum í viku fyllist bærinn af túristum af skemmtiferðaskipum, sem stoppa einhverjar klukkustundir í bænum, söngprógram í kirkjunni og hægt að fara og skoða heimili existensíalistans Miguel Unamuno, sem spönskunemendur MR um 1970 voru píndir til að lesa. Það var gott að vera í þessum bæ, fínt latté víða að fá og mikið af alls konar hollusturéttum á veitingahúsum. Þeir sem vilja frekar óhollustu fara í mollið, Rotondo. Útivistarfólk og heilsufrík sækja eyjuna heim, eins og La Palma, en ég held að heimamenn haldi þessum veitingastöðum uppi. Þar í bæ eru, eins og í Morro, skúlptúrar með allri ströndinni og fullt af bráðskemmtilegum veggmyndum, mín uppáhalds á bílastæði. IMG-8648

Já, ég fór líka að skoða Unamuno safnið, það er heillandi. Fyrirgef honum að hafa kennt mér 17 orð yfir öldugjálfur (öll gleymd) en ekki að kaupa mér ís. Það lærði ég sex ára í Andalúsíu, en síðan hafa komið kynslóðir ísa og byggst upp nýr orðaforði. Þarna í bænum eru smá brekkur en ósköp þægilegar á fótinn. Þegar ég var í Puerto fór ég að skoða nyrstu borgina, Corralejo, þar sem enskir túristar halda sig. Miðbærinn við höfnina er mjög skemmtilegur þar, meira af heimafólki en ferðalöngum, þeim er plantað í jaðarbyggðir bæjarins. Og svo sést yfir til Lanzarote. Ég fór líka í dýragarð nálægt Morro og heilsaði upp á gömlu slóðirnar þar, síðast en ekki síst fór ég í golf í Caleta de Fuste, þar eru tveir velli og sá nyrðri þykir betri. Einn sá þægilegasti sem ég hef spilað, en engin stórkostleg tilþrif í brautunum. Það réði vali mínu á bænum sem ég hafði ákveðið að heimsækja næst og eftir 5-6 tilraunir á tímum veikinda og covids, þá tókst það loks um daginn. Það fór þó í verra að bakið á mér ákvað að mér væri ekki óhætt að taka leik.

Caleta de Fuste

Þarna lenti ég loksins í algerum ferðamannabæ á borð við Kanarí. Fallegur sem slíkur, en engir spennandi skúlptúrar og vegglistaverk. Café del Town bætti skaðann að nokkru leyti, eðalkaffihús á móti hótelinu mínu (og hótelnetið oft ínáanlegt þar, sem var gott þar sem ég tók vinnuna með mér, fjarvinna á sólarströnd virkar sem sagt). Fullt af túristaveitingahúsum, aðdáendur indverskra staða og appelsínuanda á kínverskum geta unað við sigg. Allt til alls og mikið reynt að skemmta gestum, enda Bretar víða. Fínn bær, en næst ætla ég til Corralejo, en fór bæði þangað og til Pierto í þessari ferð, á frídögunum mínum sem voru furðufáir. Mun einnig gefa mér fleiri frídaga ef ég hef vinnuna aftur með mér í sólarfrí, sem er að mörgu leyti fín hugmynd fyrir fólk sem nennir ekki alltaf að bíða eftir að maki og fjölskylda komist með í ferðina. Ferðalög eru svo ólík eftir því hvort við erum ein á ferð eða með öðrum. 


Tækin okkar stór og smá

Eitt af því fyrsta sem ég lærði í kúrsinum ,,Samskipti manns og tölvu" í tölvunarfræðinni var að vera ekkert að persónugera tölvuvædd heimilistæki. Að því sögðu þá vil ég bara taka það fram að við Ari eigum óvenju mikið af mjög viljasterkum og sjálfstæðum heimilistækjum. Uppþvottavélin okkar (sem ég hleypti inn á heimilið þegar við skiptum út bráðabirgðaeldhúsinnréttingunni eftir næstum 30 ár) ákvað snemma kvölds í kvöld að nú væri komið nóg af stuttum og orkusparandi uppþvotti og stillti sig á rúma fimm klukkutíma. Mér sýnist að hún hafi skilað þokkalegu verki. 

Hef áður nefnt nokkra góða karaktera, lengi vel var Jónas ryksuguróbott einn af sínu tagi, svo kom Jóhann, sem átti að vera miklu flinkari (rata heim til dæmis) en er soddan kveif að hann þolir mun minna álag en Jónas. Jóhannes skúrari er vannýttur af praktískum ástæðum. Tvær frekar gamlar fartölvur lifa enn með eigin dyntum, önnur þeirra heitir örugglega Mac the Knife, hef ekki ákveðið hvor, kannski þessi sem er að verða níu vetra. Njósnakerfið okkar uppi í sumarbústað sér meðal annars um að segja okkur að það sé ásættanlega hlýtt þar á veturna, en óþarflega þurrt loft. Myndin hér að neðan er hins vegar af uppsetningu annarrar njósnavélar. Þær heita ekki neitt, þá væru þær ekki njósnavélar.

En þá er það játning dagsins, elsku besta Tchibo-kaffivélin, þessi sem ég stillti mig um að kaupa í næstum heilt ár, en keypti svo 7 klukkutímum áður en ég flutti frá Hamborg, hefur orðið covid að bráð. Þegar ég fann ekki réttu kaffihylkin á netinu (síðustu 3 birgjar mínir hafa allir hætt störfum) þá var ég vön að fara bara til Þýskalands og kaupa mér lager, allt upp í hálfar ferðatöskur. Hratt gengur á þetta góss núna í covid og ekki fyrirsjáanlegt að ég komist til Þýskalands í bráð að kaupa meira. Hef sætt mig við margt, til dæmis að skipta um tegund hylkja í miðri á, en nú er svo komið að öll ábyrg viðskiptasambönd sem ég hef byggt upp til að þóknast minni ágætu Tchibo (hún er reyndar rosalegur ,,besserwisser") eru brostin. Og hvað gerir kona þá? Malar kaffi og hellir uppá? Já, hef gert það, pressukönnur skila skástum árangri, en sú eina ásættanlega á heimilinu hangir meira með ónefndri uppþvottavél en mér. Og nú er komið að svikastundinni, á morgun á ég von á póstsendingu með lítilli Nespresso-vél, mjólkurflóara og kaffihylkjunum sem Gurrí mælir með. Fékk mér eintak í rauðum lit í stíl við drottninguna Tchibo og nú er spennandi að sjá hvernig heimilishaldið þróast. Ef mér sýnist stríð í uppsiglingu set ég bara skapgóðu þvottavélina á stuttu stillinguna og læt hana syngja: Bjössi á mjólkurbílnum, sem er svona nálægt því að vera stefið sem hún notar til að láta mig vita að hún er búin að þvo þvottastykkin okkar. Thjofavarnarkerfid (2)


Ætlaði alltaf að fara snemma á eftirlaun og skrifa glæpasögur

Góðu fréttirnar fyrst: Í byrjun nýs (og betra) árs, 2021, kemur út fyrsta glæpasagan mín hjá forlaginu Sæmundi. Við erum tímanlega með hana tilbúna í prentun, sem er gott á þessu makalausa ári 2020.

Vinnufélagi minn sagði eitt sinn við mig, þegar ég sagði að ég stefndi á ,,early retirement": ,,How early is early?" Meiningin var að fara að skrifa glæpasögur og helga mig því það sem eftir væri ævinnar og flækjast aðeins um heiminn í leiðinni. Mér tókst alla vega að fara aðeins fyrr á eftirlaun en gengur og gerist hér á landi, var aðeins 65 ára þegar ég neyddist til að drífa mig á eftirlaun, vegna annríkis. Það vor, 2018, var ég að fylgja tveimur bókum mínum eftir í útgáfuferli. Hvorug þeirra var glæpasaga. Nú, næstum þremur árum síðar, er mín fyrsta að koma út, önnur í vinnslu, þriðja og fjórða mótaðar í kollinum en það er mikið verk að skrifa. Fullyrði ekkert um hvort þær koma í kjölfarið, það bara kemur í ljós.  

Skrifaði mína fyrstu glæpasögu þegar ég var tólf ára, lesandinn var Amalía vinkona mín og hún vildi að ég skrifaði fleiri. Það dróst aðeins. Ég verð eiginlega að muna að senda henni eintak af glæpasögu nr. 2. Af þeirri nr. eitt man ég ekkert nema að söguhetjurnar hétu Ína og Ída, og að ég myndskreytti bókina. Núna er ég reyndar að myndskreyta bók sem kemur út seinna á næsta ári, en hún er eftir allt annan höfund og næstum alveg glæpalaus. Þannig að ég er búin að skipta gömlu aðferðinni minni upp í tvo verkþætti.

Var að fá tillögu að kápumynd á mína (glæpa)sögu og er mjög hrifin, gaman að sjá hvernig aðrir upplifa frásögnina mína. Auðvitað hafa fyrri bækurnar mínar líka farið í hendur fagfólks með góðum árangri, en það er svolítið annað. 

Meira um þessi ævintýri þegar nær dregur. 

 


Ef covid lokar sýningu þá er bara að opna hana á netinu

Á laugardaginn var fagnaði ég opnun sölusýningar minnar, Á LEIÐINNI, í Bókasafninu í Kópavogi í góðum sal og fínu umhverfi. Þar sýni ég vatnslitamyndir og brot af eilífðar myndverkinu Bleik hús, sem er ljósmyndaverk með 214 húsum (af hundruðum).

Í dag þurfti að loka safninu, og þar með sýningunni, vegna covid, alla vega til 19. október. Ráðagóðir félagar mínir hafa verið að bregðast við áhrifum covid á þeirra sýningar með því að skella þeim á netið og það gerði ég.

Verið velkomin að skoða vefútgáfu sýningarinnar, Á LEIÐINNI, og síðan mun ég láta vita þegar/ef hún hefur verið opnuð aftur. Á þessum skrýtnu tímum er best að fullyrða sem minnst, en að sjá sýningu heildstæða hefur alltaf ákveðinn sjarma.

120424164_10224165173455503_1706327420923289111_n (1)

 

Á meðan þetta:

http://www.annabjo.com


Ekki búið fyrr en það er búið ...

Hunskaðist heim á fjórða degi úr langþráðu tveggja vikna ferðalagi, sem ég hafði í tvígang slegið á frest af gildum ástæðum. Síðan eru hundrað ár, enda var þetta 15. mars síðastliðinn. Nú stend ég mig að því að velta fyrir mér ýmsum ferðamöguleikum. Það er ekki af fórnfýsi, prívat og persónulega mun ég ekki megna að endurreisa ferðaiðnað heimsins. Hins vegar eru vísbendingar um að einhvern tíma muni fólk aftur fara að ferðast og ég hef hug á að taka þátt í því. Óvissan er þó svo mikil að engar áætlanir væru raunhæfar á þessu stigi. Óvissan snertir ferðatíðni, verðlagningu, sóttkví og önnur nauðsynleg úrræði gegn því að veiran nái sér aftur á strik. Leyfi mér að snara enskum frasa sem mig grunar að mörgum komi í hug um þessar mundir: Þetta er ekki búið fyrr en það er búið ... 


La Palma – sögð vera brattasta eyja í heimi

55443527_10218916653885794_2909730787014213632_nÞessi eyja er kölluð ýmsum nöfnum, Fagurey (La Isla Bonita) og eyjan græna, en mér finnst áhugaverðast að hún hefur verið kölluð brattasta eyja í heimi, og það er áreiðanlega ekki fjarri lagi. Meira að segja höfuðborg eyjarinnar er snarbrött.

 

La Palma er norðvestust Kanaríeyjanna og hér er lítil ferðamennska miðað við Gran Canaria, Tenerife og jafnvel Fuerteventura og Lanzarote. Helst er það göngu- og útivistarfólk og farþegar skemmtiferðaskipa sem koma hér við og svo alla vega ein áhugakona um litskrúðug hús (ekki bara bleik). Það er sú sem þetta ritar sem hoppaði upp í ferju, leigði sér furðulega þriggja hæða, þó ekkert stóra, íbúð við strandgötuna á góðu verði og dvelur hér í rúma viku. Áður var pínulítill bar í húsinu og eldhúsið á jarðhæð er barinn lítið breyttur, besta viðbótin er þó þvottavél. Best af öllu er miðhæðin, svefnherbergi/stofa, sem yndislegum gluggasvölum, en svalirnar sem taka hálfa þriðju hæðina á móti aukarúmi og sturtu, eru mjög furðulegar.

 

55869041_10218919180748964_3797970194656133120_nÁrið 2017 voru skipulagðar ferðir á vegum Heimsferða hingað, en lögðust af eftir eitt tímabil, enda er áfangastaðurinn mjög ólíkur þeim Kanaríeyjum sem Íslendingar sækja til. Ekki veit ég hve margir lögðu leið sína hingað meðan uppá ferðir hingað var boðið frá Íslandi. Hins vegar eru beinar flugferðir á nýlega lengdan flugvöllinn ótrúlega strjálar, í nokkur ár var ein ferð í viku frá hvorri borg, London og Manchester, en nú eru ferðirnar orðnar tvær í viku frá London. Flug frá nokkrum borgum í Þýskalandi, vikulega hver, sýnist mér, reddar því að flesta eða alla daga er flug frá meginlandi Evrópu í boði og vikuleg flug frá Hollandi, Belgíu og Sviss finnast líka. Önnur flug eru innanlandsflug, til Spánar en þó aðallega til annarra Kanaríeyja. Flestir koma hingað hins vegar með ferjunni frá Los Cristianos á Tenerife, aðeins 3ja tíma sigling.

 

Höfnin í höfuðborginni, Santa Cruz de la Palma, á sér langa og merkilega sögu, því hún var mikilvægur tengiliður við karabíska hafið og Suður-Ameríku eftir ,,landafundina” og skapaði mikinn auð á tímabili. Áhrifin frá karabíska hafinu þykja mjög sterk, og litskrúðugu húsin sem heilla mig svo mjög eru gott dæmi um það. Hér er líka talsverð tóbaksrækt í grennd við höfuðborgina, sem er einnig arfur frá þessum tíma.

 

55783924_10218921192879266_3551199958151462912_nEyjan er mjög eldvirk og í raun er stór hluti eyjarinnar eldfjallahryggur. Margir hafa eflaust lesið um dómsdagsspár um að Cubre Vieja, gamli tindur (sem er gígaröð sem tekur um 2/3 hluta syðri hluta eyjarinnar) muni einhvern tíma í náinni eða fjarlægri framtíð springa og valda hamfaraflóðbylgju sem gæti lagt byggð við austurströnd Bandaríkjanna og stendur Evrópu að einhverju leyti, meðal byggða í hættu er New York og London. Skiptar skoðanir eru um hversu raunveruleg þessi hætta er hér og nú. Tvö meinleysislegri gos hafa orðið á síðustu áratugum, 1949 og 1971.

 

Ég er nokkuð viss um að La Palma er ekki allra, en hún er merkileg fyrir margra hluta sakir og rétt rúm vika ef mjög fljót að líða.


Borgirnar ,,mínar“ og skrýtin gleymska – og smá Absalon

Fyrsta borgin sem ég féll fyrir var París. Þá var ég sjö ára á ferð eftir hálfs árs dvöl á Spáni, þar sem ég hafði meðal annars komið til fallegu borgarinnar Granada, og einnig til Malaga og Madrid. Ólafur fóstri minn hafði komið átta sinnum til Parísar þegar hér var komið sögu og aldrei upp í Eiffel-turninn. Úr því var snarlega bætt. Eftir París tók við tveggja vikna dvöl hjá Fríðu ömmusystur á Vesterbrogade í Kaupmannahöfn, Tívolí með rússíbanaferð og gíraffahringekju. Kaupmannahöfn, borgin þar sem pabbi ólst upp, tikkaði ekki inn þá.

531248_4207401421748_730868893_nFimmtán ára gömul var ég orðin ólm að komast til London. Þar voru Bítlarnir (þetta var 1967) og Carnaby Street. Hvers var frekar hægt að óska sér? Ég nurlaði saman fé með því að vinna í prentsmiðju allt sumarið (í pilsi og nælonsokkum) fyrir Lundúnaferð, en praktísk eins og alltaf, endaði ég á ódýrari ferð með Gullfossi, sem þá fór enn til Leith og Kaupmannahafnar, þetta var haustferð og sex daga stopp í Höfn. Mér þótti það súrt í broti, en ferðin var einfaldlega næstum helmingi ódýrari en hin heittelskaða Lundúnaferð sem beið enn um sinn. Þarna kynntist ég frábærri dóttur háseta á Gullfossi, Sirrý, og við stunduðum bæði Tívolí og skemmtistaðinn La Carrusell fram undir morgun, og stundum lengur, því þegar La Carrusell lokaði klukkan fimm á morgnana opnaði Jomfruburet á Strikinu. Seinasta kvöldið vorum við á ferð með íslenskum nýstúdentum minnir mig og fórum meira að segja á Club Six. Á La Carrusell var allt það besta spilað, sennilega hljómsveitir og ég tengi þetta við að uppgötva Eric Clapton, Small Faces (Itchyco Park) og fleiri sækadelic hljómsveitir. Á Club Six aftur á móti heyrði ég A Whiter Shade of Pale og mér fannst hann aðeins of slísí fyrir mig (eins og Jomfruburet, sem var leiðindastaður).

Merkilegasta upplifunin í þessari Kaupmannahafnarferð var þó þegar við Sirrý fórum á árabát um höfnina og ég var rétt sest undir árina öðru megin nálægt Knippelsbro þegar stór ferja kom blásandi með látum stormandi undir brúna (sem opnaðist fagurlega) og við rerum lífróður, bókstaflega, undan þessu ferlíki. Ég hægar en messaguttinn sem rerir á móti mér, en hann hafði vit á að fara á mínum hraða svo við færum ekki í hringi. Ævinlega þakklát fyrir það, hann varð ekki eigin kraftahroka að bráð, sem hefði geta verið hættulegt. Í sömu ferð á árabátnum sigldum við inn eftir skurðum eða síkjum og sáum yfirgefin hús eftir herinn. Þetta var skrýtin draugaborg sem seinna varð Kristjanía.  Á þessum tíma voru hipparnir á Nikulais plads og ég var skíthrædd við þá, þeir voru virkilega skerí fyrir fimmtán ára stelpu sem þorði ekki einu sinni að drekka bjór. Við Sirrý keyptum flott flöt, satínblússur og stutt plíseruð pils og tvílita skó í stíl, hún í eplagrænum og grænum tónum og ég í appelsínugulum og brúnum.

Ári seinna var stoppið stutt í Kaupmannahöfn eftir sumardvöl í Osló, keypti notaðan pels í Nýhöfninni en þetta árið (1968) var Gullfoss farinn að leggja að nær henni. Mér fannst hún svolítið hættuleg að sjá. Gisti tvær eða þrjár nætur á KFUK með Sollu og Ernu, vinkonum mínum, sem voru að koma frá sumardvöl í Svíþjóð. Fór í Tívolí og í hangiróluhringekju í þetta sinn sem fór mjög hátt og ég gat snert trjágreinar með tánum.

Átján ára komst ég loks til London og gat ekki slitið mig frá henni, elska hana enn.

41517495_10217333447386621_796107875196862464_nNæst gerði ég stuttan stans í Kaupmannahöfn þegar ég var orðin 22 ára, var á leið í heils mánaðar Evrópuferð og vantaði hvíta stúdentapassann sem tryggði mér hræbillegar lestarferðir um alla Austur-Evrópu. Ég keypti flug með Guðna í Sunnu til Kaupmannahafnar, en Sunna hafði ekki lendingarleyfi í Höfn í hvorugri leiðinni, svo við lentum í Hamborg og ég rétt náði að hirða upp passann áður en ég fór í lestina til Parísar þar sem foreldrar mínir biðu mín. Á bakaleið var sama sagan, stutt stopp, gisti eina nótt á Missionshotel Absalon og svo rúta til Hamborgar. En á ferjunni aðra hvora leiðina hitti ég reyndar tilvonandi tengdaforeldra mína og mág í fyrsta sinn, ekkert okkar vissi auðvitað um framtíðartengslin okkar, en tengdamamma fann þetta út.

Síðan kom ég ekki aftur til Kaupmannahafnar fyrr en 1987 eftir tveggja vikna Evrópuflakk að hausti, með mínum heittelskaða, en við enduðum í viku með systkinum hans og þeirra mökum og börnum í Kaupmannahöfn. Frábær dvöl. Danir eru svo ,,fornuftig“ sagði mágur minn með réttu, þau bjuggu þarna, ekki við. Þremur árum síðar, eftir hartnær mánaðar skútuflakk um sænsku vötnin og skerjagarðinn kynntum við krakkana okkar, þá 11 og 13 ára fyrir Tívolí í Kaupmannahöfn (ég varð hrædd/sjóveik í hringekjunni þá) og gistum á Absalon í tvær nætur, í stóru, snyrtilegu risherbergi. Þremur árum seinna lenti ég í átta stunda óvæntu stoppi í Kaupmannahöfn, traffíkin yfir Evrópu var í hámarki, og seinkun á flugi til Parísar, þar sem flugvél til Kamerún beið (varla) eftir okkur. Við vorum fjögur saman, við tvö sem fórum í bæinn og keyptum fóðraðar rússkinnsúlpur á krakkana okkar (og tókum með til Kamerún) og svo hinir, þessir skynsömu, sem keyptu sér svefnskápapláss sem þá var í boði á Kastrup (1993). Við sem fórum í bæinn vorum þreytt daginn eftir á ráðstefnu, en ég vakti þó.

Einhver smástopp átti ég í Kaupmannahöfn næstu árin, man eftir skemmtilegu kvöldi í Nýhöfninni sem þá var orðin falleg og einhverju fleiru, en alltaf á leið héðan og þaðan og aldrei beinlínis þangað. Svo í byrjun ágúst 2001 fór ég fyrir vinnuna í 2-3 daga til Kaupmannahafnar, þá var ég farin að vinna í hugbúnaðargeiranum. Þessir fyrstu dagar urðu 10 og frá 1. október þegar ég fór í aðra 2-3 daga ferð þangað var ég alltaf frá sunnudegi til fimmtudags að vinna í Kaupmannahöfn (Bröndby) nema í desember, þá hætti ég að koma heim á fimmtudagskvöldum, fyrr en 17. desember (en þá átti ég eftir að fara í tvö próf fyrir jól – sem ég náði!). Það sem eftir lifði vetrar fór ég sjaldnar og næstu árin en stopulla, en þó man ég eftir einum degi þegar ég fór með morgunflugi á námskeið í Bröndby, skrapp svo í Tívolí og tók kvöldvélina heim. Ég var að vinna með yndislegum vinnufélögum að nánast óleysanlegu verkefni, eina vikuna var mér sendur Óli sonur minn mér til halds og trausts í tæknilegri hugbúnaðarprófanir, við unnum öll eins og þjarkar, en Danirnir sem við unnum með fórum heim klukkan fjögur á daginn.

Miðað við að við unnum oft til miðnættis (og sungum jafnvel eins og galeyðuþrælar eftir tíu á kvöldin) þá náðum við að fara á ótrúlega marga veitingastaði, suma mjög góða, og djamma alveg óheyrilega mikið, stundum lengur en til fimm á morgnana eins og þegar ég var fimmtán á La Carrusell. Held að það hafi verið Helle vinkona mín sem kynnti okkur fyrir áströlskum bar rétt fyrir neðan Strikið, sem var góður, við fórum líka á Fræbbbla-konsert, það var daginn sára þegar Íslendingar töpuðu 6-0 á Parken og ekki allir í jafn góðu skapi. Helle spurði varlega hvort Fræbbblarnir hefðu verið í löngu fríi, en ég sagði að söngvarinn hefði alltaf sungið svona. ,,Nú ... „ sagði hún.

Næst varð ég ástfangin af Hamborg, en kom þó reglubundið við í Kaupmannahöfn og fékk meðal annars eitt besta salat ævi minnar þegar við Elísabet systir héldum upp á stórafmæli hennar með einkaferð til Susse frænku helgarpart meðan ég bjó í Hamborg.

41552563_10217333447306619_5197327611218362368_nAllt þetta og ótal margt fleira rifjaðist upp fyrir mér þegar ég skrapp í örstutta Kaupmannahafnarferð (gist á 4* hótelinu Absalon) um daginn, eiginlega á því augnabliki þegar ég settist með Ara mínum á veitingahús á Vesturbrú, sæmilega þreytt eftir daglangt rölt um bæinn og fór að segja honum brot af því sem ég hef nú sett á blað. Nostalgían helltist yfir mig, allar góðu Kaupmannahafnarminningarnar sem ég á. Þarna á ég líka rætur, yndislega ættingja, hef rápað stefnulaust um æskuslóðir pabba án þess að átta mig á því, farið á flottan ballett (auðvitað í Tívolí) séð Victor Borge (en þá var ég bara sjö ára og ekkert svo sleip í ensku) og farið á yndislegar listsýningar í Glypotekinu og Louisiana. Öll skynsemi segir mér að ég ætti að eiga Kaupmannahöfn sem mína uppáhaldsborg, kannski uppgötva ég það einhvern tíma að hún er það, en þangað til: Halló London, Hamborg, Seattle, Montreal, Budapest, Singapore, Auckland ...

 

P.S. ef einhver er ósáttur við stafsetningu (skemmti)staðanafna þá er ég á skáldaleyfi í þetta sinn og fæ að hafa þetta svona. Stundum hef ég reyndar efast um að staðurinn hafi verið til (þessi rangt stafsetti) því enginn virðist muna hann nema ég, en hann VAR til: 

https://www.setlist.fm/venue/le-carousel-copenhagen-denmark-3bd44c3c.html


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband