Færsluflokkur: Lífstíll
Fyrsti heili vinnudagurinn í nýju vinnunni - vinnutækni, straubretti og týnd og fundin vinna
24.10.2007 | 01:53
Naut þess út í ystu æsar að skipuleggja sjálf vinnu og skóla í dag. Mætti upp í háskóla seint í morgun en tími féll niður, þannig að ég notaði þennan óvænta tíma til að versla einhverja hollustu í matinn, sólstól (bókastand) fyrir þykku bækurnar mínar og kaupa búkka undir stóru plötuna sem hefur þjónað sem alls konar borð á vinnusvæðinu uppi. Ætla að láta mig hafa það að koma upp vinnuaðstöðu í hálfkláraða fjölnotaherberginu uppi, lærði nefnilega mikið um þægilega vinnuaðstöðu og vinnutækni í Ungverjalandsferðinni. Á greinilega dóttur sem hefur hitt á flest það besta sem hentar mér í náms- og vinnutækni.
Ekki svo að skilja að litla vinnuhornið á ganginum/holinu, þar sem ég sit nú, verði alveg vanrækt, þar sem ég nýt þess mjög að breiða úr heimildum af ýmsu tagi á þægilegasta bráðabirgðaborði sem til er, straubretti heimilisins. Það er alveg ótrúlegt hvað það er handhægt að grípa til svoleiðis bráðabirgðaborða.
Svo greip ég með mér skrifborðsstól á innan við 3000 kall í leiðinni, mér er að vísu sagt að hollusta slíkra stóla sé í takt við verðlagninguna, en þessi virkaði bara þægilegur. Svo endaði ég auðvitað með allt dótið í horninu mínu í stofunni, setti útvarpið á fullt, fína músík og fór að vinna. Náði góðri törn, dottaði í sófanum í þann mund sem von var á hinum fjölskyldumeðlimunum heim (tryggir hæfilega stuttan blund) og svo tók við önnur vinnutörn. Var bara harla ánægð með þær smábreytingar sem ég gerði á handritinu sem ég sendi til enduryfirlestrar eftir nokkra daga. Smá símaskipulagning líka. Sem sagt, harla gott, eða ... skjalið mitt var allt í einu horfið. Hvernig sem ég leitaði, og er nokkuð glúrin á því sviði, þá fannst það bara ekki. Áttaði mig strax á því að ef til vill hefði ég vistað afritið sem ég var að vinna í í Temp möppu. Og það er ekki öruggasti staður í heimi. En hjúkk, sonurinn á heimilinu er tölvusnillingur, og fann skjalið. Spara skýringarnar á því hvers vegna hvorki leit né ,,Recent items" fann þetta, en það hafði sem sagt lent í zip fæl.
Og mér er stórlega létt. Ekki bara vegna þess að nokkurra tíma vinna bjargaðist, heldur vegna þess að mig langaði ekkert í eitthvað svona ,,fall er fararheill" dæmi. Þvert á móti þá finnst mér bara allt í lagi að hlutirnir gangi skikkanlega fyrir sig.
Bókasólstóllinn: Ég ætlaði að kaupa rosalega flottan, meðvitaðan úr timbri með smekklegu efni, en fyrst hann var ekki til í réttri stærð þá var bara að gera þetta nógu ýkt. Meðfylgjandi mynd er af þeim sem ég valdi.
Úr sparifötunum í hettupeysuna ...
13.10.2007 | 20:49
Flakkað milli lífa án þess að yfirgefa eitt ...
11.10.2007 | 00:50
Eyddi deginum í að undirbúa og halda fund í Sandgerði. Nú er lokaátakið hafið, sem felst í því að koma út bókinni minni um Sandgerði, bók sem ég lauk við í janúar 2001. Eftir næstum sjö ár í vinnu við hugbúnaðargerð er ég búin að ákveða að vera sagnfræðingur næstu eitt eða tvö árin alla vega. Hætti í vikulokin hjá Eskli, sem áður hét INNN, en hef dregið að tilkynna það á opinbera blogginu mínu, ekki síst þar sem mér fannst að allir viðskiptavinirnir sem ég hef séð um verkefnisstjórn fyrir ættu að fá að vita af þessu fyrst. Þótt ég eigi eftir að sakna góðra vinnufélaga og vina í þeim fyrirtækjum sem ég hef unnið fyrir, þá efast ég ekki andartak um að ég sé að stíga rétt skref á þessari stundu.
Það var óskaplega hressandi að hitta ritnefndina í Sandgerði og fara yfir seinustu handtökin áður en við komum bókinni út. Ég sé líka fram á tíma til að sinna náminu þegar ég hætti í núverandi starfi, sem hefur reyndar verið 69% seinustu 6 vikurnar, sem reyndist ekki nógu mikill niðurskurður og þar að auki tókst mér aldrei að standa við að vinna bara 69%, hlaupandi í tölvuna að svara vinnupósti milli tíma uppi í háskóla.
Fyndið að núna þegar ég er að klára mastersnám í tölvunarfræði skuli ég snúa til baka í sagnfræðina, en þar hef ég álíka grunn, annan master, undir dulnefninu cand. mag. sem sagt 60 eininga nám eftir B.A. prófið og stóra ritgerð. Ári eftir að ég kláraði var námið endurskírt án breytinga og er núna kallað meistaranám.
Framtíðardraumarnir mínir í tölvunarfræðinni eru nokkuð villtir og ég er staðráðin í því að vinna bæði í sagnfræðinni og tölvunarfræðinni í framtíðinni, auk þess sem ég sakna blaðamennskunnar stundum líka. Það eru svo margar hugmyndir og svo margt sem mig langar að gera og fram til þessa hef ég reyndar verið svo lánsöm að hrinda meiri hluta hugmynda minna í framkvæmd, auk ýmissa annarra hluta sem aldrei hvarflaði að mér að ég myndi taka þátt í. Það er gaman að flakka svona á milli lífa, án þess að yfirgefa nokkurt þeirra ...
Farsæl endalok á pottasumrinu mikla
16.9.2007 | 19:47
Breytingar
7.9.2007 | 22:36
Haustið hefur yfirleitt verið tími breytinga í lífi mínu. Þetta haust ætlar ekki að verða nein undantekning. Nú er ég lögst í seinasta áfangann af skemmtilegu og sundurslitnu mastersnámi mínu í tölvunarfræð en samhliða hef ég skipulagt nákvæmlega 69% vinnu. Ekki spyrja mig hvers vegna einmitt 69% svona bara er þetta. Auk þess hef ég verið að gera allt klárt í sumar til að koma út einu stykki bók og stefni að því að ljúka því samhliða. Og eins og alltaf geri ég mér grein fyrir því að ég mun ekki stýra allri atburðarás. John Lennon sagði svo snilldarlega: Live is what happens when you're busy making other plans.
Hlakka til vetrarins með fiðring í maganum.
Tímafrek heimadæmi og breyttar áætlanir
3.9.2007 | 00:40
Óttalega ryðgar maður fljótt í þessum heimadæmum. Nú á námsefnið að vera kunnuglegt, því ég var í sama kúrs fram til 6. nóvember í fyrra þegar ég tók upp á því að veikjast. Mér fannst endilega að ég hefði verið sneggri með þetta í fyrra, en kannski er það misminni. Hlýt að slípast. Ara datt líka í hug að taka til hendinni á neðri hæðinni meðan ég var að stússast í heimadæmum þannig að ekki var haldið áfram með parket um helgina enda eru verkefni í húsi á endurbyggingarstigi öll jafngild.
Frétti af syninum í New Mexico og talaði heillengi við dótturina í Ungverjalandi í kvöld. Alltaf nóg að gera og pæla. Nýr staður að mæta á í fyrramálið, vona að syfjan reki mig ekki í Skipholtið til INNN heldur á Lynghálsinn til Eskils. Áríðandi fundur kl. 9 svo það er best að ætla sér nægan tíma.
Í bláa lóninu græna og fleiri afrek helgarinnar
2.9.2007 | 03:03
Á leiðinni út á flugvöll í dag, með nýsjálensku frændurna, var auðvitað komið við í Bláa lóninu, sem ég hafði reyndar frétt að væri orðið grænt. Það er orðið ansi mikið grænt! En við hliðina er verið að safna í blátt lón og gott ef ég var ekki búin að frétta að það ætti að víxla þessu einhvern veginn, sé reyndar ekki alveg hvernig, en það er ekki mitt vandamál.
Svo er vetrarrútínan að hefjast, fyrstu heimadæmin í vinnslu, sem er bara gaman, svo er það skert vinna og aukavinnan mín, að koma út bók sem hefur legið í handriti í nokkur ár. Ekki seinna vænna. Segi meira um það fljótlega, býst ég við.
Veturinn má alveg bíða smá í viðbót, ég harma ekkert sérstaklega hlýindin þótt þeim fylgi vætutíð, en þegar ég gaut augum á Fargo í sjónvarpinu áðan, þá auðvitað veit ég að veturinn kemur, það er óhjákvæmilegt, ja.
Eftir frekar miklar keyrsluviku þá var gott að taka smá kúnstpásu í dag, hvíla sig smá og glápa á kassann, áður en heimadæmin voru tekin fram. Þau eru ekki búin, en hálfnað verk þá hafið er, eins og við líka sögðum þegar við settum fyrstu parkettfjalirnar á miðsvæðið margflotaða um seinustu helgi. Svo bústaðurinn fær að bíða og við verðum við stærðfræðiiðkun og parkettlagningu þessa helgina. Ekki amalegt.
Hrímkalt haust í bland við hlýja síðsumarssólskinsdaga
27.8.2007 | 19:53
Svolítið skringilegt veður, vaknaði klukkan fimm í morgun uppi í sumarbústað við ægifagurt veður og hitamælirinn sýndi meira að segja 4.7 gráður úti. En þegar ég sá hrímið á grasinu fyrir utan og bílrúðunni fékk ég smá hroll, þrátt fyrir fegurð morgunsins. Dalalæðan lúrði niðurfrá og aðeins syfja og tímapressa stoppaði mig í að taka ómótstæðilega mynd (ekki mátti láta frændurna missa af flugi). Svo kom þessi ægifagri sólardagur, sem ég að vísu eyddi í vinnunni, en það tilheyrir vinnandi fólki.
Svolítið ráðvillt alltaf þegar haustið nálgast, mér er hlýtt til myrkursins, enda trúi ég á rannsóknir Jóhanns Axelssonar um skammdegisþunglyndi meðal Íslendinga og Vestur-Íslendinga sem í stórum dráttum hafa sýnt fram á minna skammdegisþunglyndi meðal Íslendinga en annarra norlægra þjóða. Þær eru á vísindavefnum en ég greip eina setningu þaðan: ,,Á Íslandi hefur tíðni skammdegisþunglyndis verið athuguð og voru niðurstöður þær að tíðni skammdegisþunglyndis og milds skammdegisþunglyndis var lægri hjá Íslendingum en fólki búsettu á austurströnd Bandaríkjanna þrátt fyrir að Ísland liggi talsvert norðar. Þessar niðurstöður komu mjög á óvart þar sem talið hefur verið að skortur á ljósi yfir vetrartímann sé ein aðalorsök skammdegisþunglyndis." En ég er ekki hrifin af hálkunni sem fylgir fyrstu frostunum (og heldur ekki þeim sem fylgja á eftir fram til vors). Fallegir síðsumardagar bæta reyndar úr skák, en samt, 19 stiga hiti og 10 stig í plús um nætur eru alveg í lagi mín vegna.
42 og listin að spila golf svo að öllum líði vel
24.8.2007 | 22:52
Hef einsett mér að ánetjast golfi. Þetta er útivist, hreyfing, keppi og gaman og svo er mér sagt að (góðir) skvassarar geti orðið góðir í golfi, en ég veit ekki hvað er með skítsæmilega skvassara, ættu þeir ekki að geta orðið skíktsæmilegir í golfi? Svo eru golfvellir út um allt land, en tennis- og skvassvellir varla nema í 2-3 sveitarfélögum. Eina ,,smá" vandamálið er að ég sinni þessu nýfundna áhugamáli mínu nánast ekki neitt. Uppgötvaði nýjan flöt á golfinu í dag, þetta er hin skemmtilegasta vinnustaðaíþrótt.
Alla vega þá var golfmót hinna sameinuðu fyrirtækja, INNN og Eskils í dag, það var virkilega gaman og við vorum ljónheppi með veður. Það fór ekkert að rigna fyrr en við vorum búin með hringinn okkar. Sjö hópar kepptu og fjórir (!) þeirra voru efstir og jafnir og fóru hringinn á 42 höggum, sem er bara dágott. Fyndið, því talan 42 er hvorki meira né minna en svarið við alheimsgátunni (þennan skilja sumir ;-)
En það sem ég dáist mest að er kerfið sem við spiluðum eftir. Það heitir víst Florida Texas Scramble (sem er furðulegt nafn) og felst í því að eftir upphafshöggið er valið besta höggið en sá sem á besta höggið hverju sinni situr hjá eina umferð. Þannig er tryggt að flestir eða allir eigi möguleika á að eiga ,,besta" höggið einhvers staðar á leiðinni. Ég hafði sett mér það persónulega markmið að eiga alla vega eitt högg sem væri notað (áður en ég vissi um kerfið) en þegar til átti að taka þá missti ég meira að segja töluna á nothæfu höggunum mínum - við vorum einn af 42 högga hópunum. Í hverjum hópi var alla vega einn vanur, jafnt frá hvoru fyrirtæki og sem jafnast kynjahlutfall.
Hlutir gerast hratt í hugbúnaðargeiranum
21.8.2007 | 21:06
Núna er ég búin að vinna hjá INNN í um hálft annað ár og ósköp ánægð þar. Þegar ég fór að vinna í hugbúnaðarbransanum fyrir rúmlega sex árum vissi ég vel að þar var hægt að búast við viðburðaríku lífi. Enda reyndist það rétt. Eftir hálft ár var ég farin að fara milli Danmerkur og Íslands tvisvar í viku, viku eftir viku. Mikið að gera og mikið fjör. Svo róaðist í því starfi en ég heyri þó frá gömlu vinnufélögunum mínum að enn eru viðburðir þar á bæ, þrjú að flytja til Spánar á vegum fyrirtækisins um þessar mundir með misstórar fjölskyldur.
En síðan ég byrjaði hjá INNN hafa einnig verið miklar breytingar þótt af öðru tagi séu, nefnilega tvisvar orðið eigendaskipti á þessu eina og hálfa ári. Og núna á föstudaginn var tilkynnt um sameiningu okkar og annars álíka stórs hugbúnaðarhúss, Eskils, sem útheimtir flutninga upp á Lyngháls, einnig aðra flutningana síðan ég byrjaði hjá INNN. Þar með verð ég að vinna við hliðina á Gurrí, sem er gott, og Prentmeti, sem er líka gott (skýri það seinna) en fjær flestum viðskiptavinunum núna en áður, þegar við vorum í Skipholtinu, og þar af leiðandi meiri keyrsla á okkur. Reyni að haga fundum í bænum þannig að þeir falli sem næst tímunum sem ég mun sækja í háskólanum. Stefni á útskrift í febrúar.
Það er ekki hægt að láta sér leiðast í svona vinnu.