Færsluflokkur: Lífstíll

Ótímabært en yndislegt útivistarleyfi

Gaf sjálfri mér ótímabært en yndislegt útivistarleyfi frá pestinni (aðallega) og próflestrinum, sem hefur verið í skötulíki vegna fyrri ástæðunnar. Hafði samt góða ástæðu, verið að skíra litlu, fallegu tvíburana hennar Guðrúnar bróðurdóttur minnar. Svo var ekki seinna vænna að hitta á Nínu systur, sem verður í Ameríku hjá dætrum sínum um jólin, svo ég vildi nú helst sjá framan í hana áður en hún færi. Það er að renna upp fyrir mér það ljós að það er ekki einu sinni víst að ég verði orðin frísk á þriðjudag þegar prófið verður. Ég hélt kannski að ef ég gerði allt sem ég gæti til að losna við pestina þá tæki það viku, en annars sjö daga, en eftir að hafa heyrt læknana tvo, Guðrúnu og Margréti mágkonu hennar, segja frá sinni reynslu af haustpestunum þá er ég ögn efins. Þetta kemur allt í ljós. Alla vega sofnaði ég strax eftir skírnina og hef verið meira og minna dormandi síðan, þannig að morguninn kom allt of snemma þennan daginn. Búin að taka til stærðfræðiblöð til að lesa, og á eftir að finna út hvort ég muni vakna eða sofna yfir þeim.

Skírnin var skemmtileg, ótrúlega afslöppuð og alveg til fyrirmyndar í þeim efnum. Fullt af fólki sem er mislangt síðan ég hitti seinast og ósköp notalegt að hitta. Systkini mín og krakkarnir þeirra eru alveg frábær öll, Kjartan systursonur minn spilaði á klarinett við athöfnina til dæmis! Svo er alltaf svo gaman að sjá hana Jóhönnu fyrrverandi mágkonu mína og hennar fólk, hitti þau allt of sjaldan, en alltaf jafn gaman þegar það gerist. 


Dagurinn þegar ekkert fór eftir áætlun

Í fyrsta lagi var ég búin að ákveða að vakna pestarlaus, sbr. næstu bloggfærslu á undan. Ekki gekk það nú eftir, lítið skárri en í gær. Í öðru lagi þá áttum við von á dótturinni frá Ungverjalandi um hálf fjögur eftir langa og stranga ferð. Þess í stað er hún að lenda núna eftir tæpan hálftíma, rúmlega ellefu stundum á eftir áætlun, og bara hundaheppni að hún skuli yfir höfuð komast tímanlega, því það er skírn í fjölskyldunni á morgun. Í þriðja lagi ætlaði ég að vinna upp lestartap síðustu daga með því að vera rosalega dugleg núna, það gengur varla eftir, þessi pest gerir mig ekkert gáfaða.

Samt er þetta bara fínn dagur, í góðum félagsskap fjölskyldunnar. Síminn og bloggið hafa haldið okkur í sambandi við þreytta ferðalanginn okkar, lestarhesturinn í fjölskyldunni (sonurinn, ekki ég) hefur verið að lesa heima hjá ömmu sinni og svo höfum við dormað og horft á heilalaust sjónvarpsefni, og líka Útsvar, sem er ekki heilalaust. Vonandi að maður fari að komast í almennilegt upplestrarstuð, það er ekki eins og ég hafi ekki reynt ... 


Í fyrramálið ætla ég að vera laus við pestina

Svolítið illgjörn pest (eru þær það ekki allar?). Samt grunar mig, eftir viðbótar engifer-tedrykkju, að á morgun vakni ég og verði orðin ótrúlega hress! Þá sjaldan að pestar finna mig þá eru þær leiðinlegar og niðurdrepandi, en einn morguninn vakna ég og finn að nú er þessi búin, og það er alltaf smá endurfæðing.

Er samt orðin fær um að hlusta og horfa jafnvel á fjölmiðla, eftir hálf máttlausa atlögu að Grey's Anatomy í gærkvöldi hélt ég að ég væri heillum horfin, og mér finnst mál sem-bloggarans sem bloggaði um meðferð bandarískra vegabréfaskoðara á sér, frekar óhugnanlegt. Hvernig ætli manni liði í sömu sporum? Ábyggilega ekki vel. En hún hefur tekið skynsamlega á þessu leiðindamáli og ég heyri ekki betur en Ingibjörg Sólrún standi sig vel í því líka.

Komst ekki í það fyrr en í gærkvöldi að ljúka tveimur vinnutengdum verkefnum, búin að því núna og stórlega létt. Þetta eru mál sem ég ætlaði að klára í fyrrakvöld, en svona er það þegar pestir herja. Í dag hef ég flokkað og prentað út efni fyrir næsta próf og raðað snyrtilega í möppu. Samkvæmt lestraráætlun á ég að vera búin að lesa glósur kennarans áður en dagur líður. Önnur atriði sem krefjast meira úthalds og uppisetu færði ég yfir á næstu daga. Farin að hlakka til jólanna þegar fjölskyldan nær saman, þetta er allt að koma. 


Gleðipopp

Það er svo gaman að gramsa á YouTube. Eftir að ég gróf upp eitt af mínum gömlu uppáhaldslögum, Lazy Sunday Afternoon, með Small Faces, þá varð ég auðvitað að sækja gleðipopp-stuðlag allra tíma. Hér er það. 

Itchycoo Park

og fékk þá auðvitað smá áhyggileysis- gleði og hamingjupoppkast. Þetta er örugglega eitthvað sálrænt, kannski af því að ég er að byrja í próflestri. En alla vega hér er hitt eða kæruleysis-gleðipopplagið sem ég elska.

Even the bad times are good.

Og svo auðvitað eitt enn aðeins nýrra, sem kemur mér alltaf í gott skap:

Blister in the sun.


Að lifa í ,,nú"-inu

Þegar letilegur sunnudagur skellur á, farið er að rökkva, Ari minn steinsofnaður eftir að hafa farið á fund í morgun, Óli minn dottandi í sófanum yfir fínu Discovery efni, þá er auðvitað ekki hægt annað en hugsa til lagsins ,,Lazy Sunday Afternoon-a" sem var sixtís eða snemmbært seventís lag. Ég er að hugsa um allt sem er framundan, eftir mánuð verður komið nýtt ár, Hanna mín kemur eftir tæplega tvær vikur, próf eftir rúma viku og annað viku síðar, þetta er víst ekki að lífa í nú-inu, eða hvað?

(Búin að reyna að setja inn lagið, en þið fáið bara linkinn í staðinn á YouTube, Lazy Sunday Afternoon).  

Í óvæntu partíi hér á nesinu í gær brast á með frekar miklum bernskuminningum. Byrjaði sakleysislega með umræðum um skautasvell og möguleika á að endurreisa mikla skautahefð hér á nesinu. Og auðvitað fórum við að rifja upp sæla skautadaga á Bessastaðatjörn sem voru heldur betur skemmtilegir, á meðan tjörnina lagði almennilega, en það gerist sárasjaldan nú orðið. Hins vegar eru komnar margar góðar hugmyndir um hvernig megi redda góðu svelli hér. Fór nefnilega á skauta í fyrra, með krökkunum í vinnunni, og það var ekkert smá gaman. Svo kom auðvitað í ljós að einn félagi okkar hér á nesinu er úr sömu blokk og ég í vesturbænum. Sá sjötti úr þessari 24 íbúða blokk sem dúkkar upp hér á nesinu (af þeim sem bjuggu í blokkinni á árunum 1958-1965). Sem er auðvitað alveg stórmerkilegt. Ég held það sé stórlega ofmetið að lifa í nú-inu, fortíðin og framtíðin eru alveg ljómandi líka. Þannig að annað hvort fer ég að leggja mig núna (til að byggja upp framtíðina) eða læra (til að bæta fyrir fortíðarvanrækslu og búa í haginn fyrir framtíðarpróf). Nú eða pjóna, það er reyndar rosalega mikið ,,nú" - en verður jafnframt peysa í framtíðinni, sem núna er bara grár hringur.  

Fólk með sterkar en misjafnar skoðanir á veðrinu og ný könnun lítur dagsins ljós

Takk fyrir góða þátttöku í seinustu skoðanakönnun. Ég beið lengi vel eftir að línur færu að skýrast, en það var ekki fyrr en á lokasprettinum að það gerðist. Könnunin snerist um hvernig veðrið yrði í vetur og undir lokin tók athyglisverður valkostur loks forystuna: Þeir sem segja að sér sé slétt sama hvernig veðrið verði í vetur og ætla að eyða honum á Kanarí stungu aðra af í könnuninni. Næstvinsælastur var valkosturinn: Rysjóttur vetur og Snjór og stillur fylgdu á eftir ásamt þeim sem telja að veturinn muni harðna eftir áramót.

Og nú er ég búin að setja inn nýja könnun, þar sem ekki er nema rétt rúmur mánuður til jóla. Endilega takið þátt í að skoða ykkur og aðra í samfélagsspeglinum.  


Óvænt sunnudagskvöld á föstudegi

Fann það í kvöld hvað ég er farin að sakna sunnudagskvöldanna, svona stundum. Fyrir ykkur lesendur sem ekki þekkið inntak sunnudagskvölda þeirra sem haldin voru árum saman hér heima, þá verð ég að upplýsa að ég fer ekki út í ítarlegar útskýringar núna, þótt það væri freistandi. Stutta útgáfan er þessi: Í 17-18 ár komu vinir, kunningjar og vinir vina minna saman hér heima á sunnudagskvöldum, drukku saman kaffi og borðuðu osta og/eða kex, spjölluðu og hlustuðu á fáránlega tónlist í bland við aðra venjulegri.

Tvö eða þrjú ár eru frá því þessi siður lagðist af vegna ýmissa viðburða í tilverunni og stundum söknum við, mörg hver, sunnudagskvöldanna. Fyrir hreina tilviljun var þó óvænt sunnudagskvöld hjá mér í kvöld.

Tilviljun 1: Talaði við Elísabetu systur þegar hún var stödd í nágrannabyggðarlagi ásamt Nínu systur og við ákváðum að hittast hjá mér eftir smá tíma. Tilviljun 2: Meðan ég beið eftir að fá systurnar í heimsókn (sem flokkast nú bara undir fjölskylduheimsókn) þá hringdi annar góðvinur sunnudagskvöldanna, Halldór, og við lentum á dæmigerðu sunnudagskvölda-flippi, en hann ber ábyrgð á mörgum furðulegustu tónlistaratriðunum sem kynnt hafa verið til sögunnar á sunnudagskvöldum. Var enn að kjafta við hann þegar systur mínar komu og þannig æxlaðist að áður en ég gat rönd við reist var Halldór búinn að senda mér tvo mjög geggjuð lög í tölvupósti, sem mér var uppálagt að hlusta á. Það er reyndar allur gangur á því hvort ég hlýði því. Elísabet systir átti eftir að tékka á hvort hann hefði fengið undarleg skilaboð úr nýlegu afmæli, skilaboð sem hún hélt jafnvel að gætu valdið vinslitum. Þannig að skyndilega var hún komin í hrókasamræður við Halldór, annað fyrirbrigði sem var furðu algengt á  sunnudagskvöldunum sálugu: Það er að fjarstaddir væru dregnir með í fjörið í gegnum raðsímtöl.

Svo þegar systur mínar voru lausar úr síma og spjalli við feðgana niðri í stofu (yfir frekar hefðbundnum sunnudagsveitingum) fórum við upp á loft í tölvuna mína. Það var orðið æði algengt á sunnudagskvöldum í seinni tíð að safnast væri saman kringum einhverja tölvuna. Þar spilaði ég fyrir þær Hó, hó Eurovison lagið hans Barða, sem þær höfðu ekki heyrt. Lagið sló í gegn enda eru hljómgæðin í gömlu tölvuhátölurunum mínum eru talsvert mikil, en á því þarf lagið að halda til að njóta sín til fulls. Fann þetta lag reyndar ekki strax á RUV-vefnum, sem var frekar lélegt því ég setti sjálf link á það hér á blogginu. Því leitaði ég aðstoðar í Ungverjalandi (með aðstoð msn) og Hanna mín fann það fyrir mig í hvínandi hvelli. Og fyrr en varði sátum við og hlustuðum á dellutónlist, meðal annars framlagið frá Halldóri, sem ekki olli vonbrigðum. Sannkallað en óvænt sunnudagskvöld, þótt það sé ekki kominn nema föstudagur. Gurrí mín, hvar varst þú eiginlega? Eða Óli Sig.? Þetta er engin frammistaða.


Vakað eina nótt

Í fyrsta sinn eftir að ég fór að vinna í lausamennskunni fyrir tæpum mánuði ,,tókst" mér að vaka heila nótt. Fullt af hugmyndum á flugi, smá stærðfræði og ljósritun á milli. Samanlagt bara gott. Þá er komið að því að leggja sig í svona 5-6 tíma, ef hugmyndirnar og úrvinnslan verða ekki að flækjast fyrir mér.

Borgir sem byrja á B-um og vinnutarnir

Skrýtið hvað fjölskyldan er sjálfri sér samkvæm í einu og öllu. Eins og allir séu að fara til einhverra B-borga. Elísabet systir nýkomin frá Berlín, Síví mágkona nýbúin að vera í Bejing og Belfast og ég nýkomin frá Budapest og á leiðinni til Barcelona - og með hverjum? Auðvitað allri tengdafjölskyldunni. Nína systir flýgur til Bandaríkjanna um jólin (nei ég veit að Bandaríkin eru ekki borg!) og ég var auðvitað viss um að hún flygi um Boston, en nei, nei, auðvitað flýgur hún um Baltimore, nema hvað (!). Ég efast ekki um að ég sé að gleyma einhverju. Þetta er svona eins og um árið þegar við fórum í búð og keyptum ekkert nema það sem byrjaði á k-i, eins og rakið hefur verið víðar hér í bloggheimum.  

Nú er álagstoppur í ýmsum verkefnum hjá mér. Svo mikið að gera í skóla og vinnu að ég kemst ekki í tíma en er sest við tölvuna klukkan hálf níu að morgni þessa dagana. Er að gera áætlanir vegna tveggja stórra verkefna sem bæði eru framundan og svo verð ég með fyrirlestur í stærðfræðikúrsi í næstu viku. Mikið rosalega er ég fegin að hafa sagt upp fastavinnunni minni, þau verkefni sem ég hefði annars þurft að vísa frá mér eru hreinlega of góð til að ég megi til þess hugsa að missa af þeim. Á seinustu árum hef ég stundum hugsað til þess með söknuði þegar ég hef þurft að segja nei við allt of spennandi verkefnum og þetta var bara dæmi sem ekki gekk upp.

 


Volgt sódavatn og vinnutími

Eitt af því sem ég hlakkaði til í nýja free-lance lífinu mínu var að geta hagað vinnutíma mínum að hentugleikum. Var því heldur hissa í gær þegar ég var sest við tölvuna og farin að vinna kl. 9 um morgun. Í ljósi spakmælisins ,,Sá sem ekki getur sofið til hádegis hefur slæma samvisku" komst ég auðvitað að því að ástæðan var sú að ég var búin að setja á mig sjálfskipaða dead-line í lok dagsins fyrir ákveðinn hluta þess verkefnis sem ég er aðallega að vinna í núna. Þannig að allt var þetta laukrétt.

AimagesAnnað sem kom mér á óvart var að sódavatnið mitt góða, sem húkti inn í ísskáp, hreyfðist ekki. Svo tók ég það úr ísskápnum og eftir smá hlýnun þá drakk ég það af bestu lyst. Þannig að sennilega þykir mér það betra volgt. Hins vegar stendur klakavélin alltaf fyrir sínu og ófá klakavatnsglösin sem hafa verið drukkin að undanförnu.

Núna er ég komin í meira sannfærandi fasa, svaf með góðri samvisku til hádegis og drolla eflaust yfir verkefnum frameftir nóttu. Fína vinnuaðstaðan mín uppi er ekki komin í gagnið, það kostar smá tíma að setja hana upp, og hann hef ég ekki eins og sakir standa, enda fer ágætlega um mig í stofunni með tónlist í eyrum, vel varin fyrir umhverfishljóðum, fjölskyldumeðlimir í kring, Hanna á msn og horfi ekki á annað í sjónvarpinu en House.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband