Færsluflokkur: Lífstíll

Þú verður að ... nei, alls ekki!

Fyllist alltaf alvarlegum efasemdum þegar einhver (stundum æst og) örugglega rosalega velviljuð manneskja byrjar setningar sínar á: ,,Þú verður að ..."

Nei, ég verð ekkert að, þótt þessi einstaklingur segi það. Eftir að ég ánetjaðist vatnslitamálun heyri ég stundum þessa setningu: ,,Þú verður að mála eitthvað á hverjum degi!" Þetta getur verið rétt fyrir þessa tilteknu einstaklinga, en örugglega ekki fyrir alla. Það merkilega er að þeir sem segja þetta eru alls ekki það fólk sem er hæfileikaríkast af þeim vatnslitamálurum sem ég hef verið svo heppin að kynnast. Engu að síður grunar mig að einhverjir þeirra lifi eftir þessu, meðvitað eða af tilviljun. En þeir hafa látið mig í friði fram til þessa. Stundum er eitthvað sem knýr mig til að vatnslita á hverjum degi, jafnvel oft á dag, en á milli koma mislöng tímabil sem ég læt það vera. 

Annað eldra dæmi (og náskyld yngri útgáfa af því) er setningin sem ég heyrði oft rétt eftir að ég hryggbrotnaði eftir að hafa dottið af hestbaki. ,,Það er ekki hægt að vera í hestamennsku nema öll fjölskyldan sé með." Rangt, það er vel hægt. Vissulega elskaði ég hestamennsku á unglingsárum, áður en ég lenti í slysinu, og var svo lánsöm að vera heimagangur hjá Heidi á Bala, fá að fara á reiðnámskeið og í ótal hestatúra með hestaleigunni, ef ekki var fullt í hópunum. Átti minn uppáhaldshest, hann Prins, og þetta voru góðir tímar. Skikkaði aldrei foreldra mína með mér. Þegar ég hætti útreiðum á fullorðinsárum, eftir slysið mitt, þá var það aldeilis ekkert vont fyrir fjölskyldulífið. Meðan börnin voru ung (þau urðu aldrei hestafólk) var meira að segja bara fínt að einhver væri heima að líta til með þeim, meðan minn maður var í reiðtúr. Einna mestur atgangur var í einstaklingi sem hældi sér fyrir að koma börnum sínum aftur á hestbak eftir sérhverja byltu, sem voru grunsamlega margar. Held að ekkert barnanna hafi heillast á endanum og ekki tryggði þessi lífsspeki hjónaband foreldranna heldur, sem samanstóð af einstaklingi sem elskaði hestamennsku og maka sem ég held að hafi ekki haft mikinn áhuga á henni. En ,,það var ekki hægt að vera í hestamennsku nema öll fjölskyldan væri með."

Þegar ég byrjaði í golfi fyrir rúmum áratug heyrði ég einstaka sinnum sama sönginn, en hafði lært af reynslunni og datt ekki í hug að skikka eiginmanninn, sem elskar enn hestamennsku og hefur engan áhuga á golfi, til að vera með mér í þeirri iðkan. Ég verð nefnilega ekki að ... né heldur hann, eða neitt ykkar, frekar en þið viljið. 


Ég hlakka svo til ...

Mér finnst tilveran yfirleitt mjög skemmtileg, oft það sem ég er að gera þá stundina, gleymi mér í skemmtilegum minningum og það sem ég er veikust fyrir, að hlakka til. Vera má að til sé einhver fín greining á persónuleikaröskun tilhlökkunarfíkla, en ekki þekki ég heiti yfir svoleiðis lagað. 

Núna er ég á einum slíkum tímamótum, á leið út í eftirlaunalífið í þriðja sinn á ævinni, alla vega í sumar, og ég hlakka svo til. Það æxlaðist reyndar þannig að seinast þegar ég fór á eftirlaun varði það bara í 6-7 vikur og inn í þann tíma komu jólin. Svo var ég óvænt komin aftur út á vinnumarkaðinn, nema þegar ég var upptekin við annað, aðallega ferðalög. Það var skemmtileg U-beygja, nógu skemmtileg til að ég gæti freistast aftur í einhverja launavinnu í haust, en núna er ekkert framundan nema eftirlaunalífið. Nenni ekki að blanda mér í umræðuna ,,ég hef aldrei haft eins mikið að gera og eftir að ég fór á eftirlaun" með fullri virðingu og algerri þátttöku í slíku. Var vissulega á eftirlaunum á aldrinum 65-69 ára en ég neyddist þá upprunalega til að segja föstu vinnunni minni lausri vegna annríkis. En núna sé ég tímana framundan sem tilhlökkunarefni vegna smáatriða sem skipta mig býsna miklu máli. 

Ég hlakka svo til að geta fengið mér gott kaffi latté á hvaða tíma sólarhrings sem er, án þess að þurfa að kenna því um ef ég skyldi sofa ,,of lengi" frameftir. Heima eða á kaffihúsum, hvort tveggja gott. Hef reyndar ekki orðið andvaka vegna kaffidrykkju nema þegar ég var í módelteikningu í Myndlistarskólanum í Reykjavík og fékk mér kaffi í öllum hléum frá kl. 19:30 til 22:30. Módelið þurfti 10 mínútna pásu eftir hverja 20 mínútna stöðu og við hin kaffi. Móðuramma mín drakk alltaf kaffi á kvöldin til að sofna betur og það var ekki koffínlaust. Hún var afskaplega virk (og skemmtileg) kona og hefði kannski verið sett á rítalín ef hún hefði fæðst 100 árum seinna.

Ég hlakka líka til að snúa sólarhringnum í ótal hringi ... allt eftir því hvað ég verð að gera hverju sinni. Geta haldið áfram með mynd sem ég er að vinna að fram eftir nóttu þegar ég vil, flakkað um heiminn án þess að finna nokkurn tíma fyrir þotuþreytu út af tímamismuni, það er ánægjulegur fylgifiskur óreglulegra svefnvenja. Sofið eins og ég vil án þess að þurfa að stilla vekjaraklukku, nema ég sé búin að ákveða að gera eitthvað tímaháð daginn eftir, en slíku held ég í algeru lágmarki.

Ég hlakka líka til að sjá hvaða óvæntu vendingar lífið mun hafa í för með sér, ef það á annað borð heldur áfram að koma mér á óvart. 

Ég hlakka líka til að finna út hver mín viðbrögð verða næst þegar hnippt verður aftur í mig og ég plötuð til að taka að mér eitthvert verkefni. Verð ég tilbúin í ,,eina lotu enn" eða er þetta bara orðið gott, fimm dagar í 72 ára afmælið? Hef alltaf verið gríðarlega heppin með vinnufélaga og fínustu fagnaðarfundir þegar ég hitti þá aftur eftir eitthvert hlé. Ófá skiptin sem ég hef kíkt við á gömlum vinnustöðum. Eins ófélagslynd og ég er að eðlisfari, þá getur blessað fólkið sem ég hef verið að vinna með bara ekkert að því gert að vera svona yndislegt eins og það hefur oftast verið.  

 

 


Eini almennilegi prinsinn (fyrir utan Prins Póló)

Eins og sjá má á fyrirsögninni er ég ekki royalisti. 

Litli prinsinn hefur fylgt mér lengst af ævi og ég á nokkur eintök af þessari litlu og mögnuðu bók, sem lengi fékkst á góðu verði hjá Menningarsjóði í Næpunni. Næpan var á mínu nánasta svæði í Reykjavík, í rammanum: Uppsalir við Aðalstræti vestast (meaðn þeir stóðu); Kaffi Tröð, Austurstræti nyrst; MR og Næpan í miðjunni; Þingholtsstræti, 29a (Borgarbókasafnið) og Þingholtsstræti 31, þar sem Beta frænka og Elísabet, litla systir bjuggu, suðaustast. Þar var alltaf gaman að koma í Næpuna og einhvern tíma var verðið á bókinni orðið svo hagstætt að ég keypti nokkur aukaeintök til að gefa. Síðasta eintakið sem ég gaf, vona ég, var til vinkonu minnar sem var tveimur árum yngri en ég en alltaf ári á undan í skóla, svo hún var aðeins ári á eftir mér í Menntó. Við lásum oft saman á lesstofunni á Borgarbókasafninu. Eftir að við útskrifuðumst vorum við í góðum tengslum sem entust þar til um hálfu ári áður en hún féll frá, þá voru samskiptin orðin stopulli. Ég spyr mig stundum hvort ég hafi ekki örugglega náð að gefa henni bókina? Hvort hún hafi viljað bókina? En eins og blómið í Litla prinsinum, sem ekki vildi fá hjálminn sér til varnar þegar prinsinn fór af stjörnunni þeirra, en hann hafði svo sífellt áhyggjur af því hvernig því hefði vegnað svona hjálmlausu, þá veit ég auðvitað að ein bók skiptir bara engu máli í þessu samhengi. Áhyggjur mínar eru óþarfar. Alveg sama hversu góð þessi bók er. 

Þýðing Þórarins Björnssonar á íslensku er alveg afbragðsgóð, en ég hugsa oft, hvernig hefði farið ef pabbi minn hefði lokið við sína þýðingu? - ég á nefnilega í fórum mínum upphaf hans þýðingar á bókinni, ódagsetta. Ætli hann hefði haft framtakssemi til að koma henni til útgáfu? Man hvað mömmu sveið mikið þegar hann hafði lokið fínni þýðingu á bókinni Félagi Don Camillo, en kom sér ekki að því að finna útgefanda að henni. Það var ekki fyrr en rúmum áratug eftir að þau skildu skiptum að bókin kom út í annarri þýðingu, ári eftir að pabbi lést. 

Í þessum fáu blöðum af þýðingu pabba á Litla prinsinum, sem mér finnst NB mjög góð og ekkert mjög ólík þýðingu Þórarins, sá ég eitt sem ég alltaf breyti ósjálfrátt í huganum þegar ég les bókina. Ég les: ,,Börn! Varið ykkur á apabrauðtrjánum!" (en ekki baóböbunum, eins og Þórarinn segir í sinni þýðingu).  

Gamalt og snjáð eintak á frönsku var til á æskuheimilinu mínu og er nú komið milli lítils og stærra eintaks af íslensku útgáfunni. Ég hélt endilega að ég hefði keypt annað eintak á frönsku í Montreal, þegar ég var þar á rölti ásamt tengdadóttur minni, þá hafði ég ekki tekið við bókasafni foreldra minna. Fannst svo upplagt að eiga franska útgáfu líka, því þegar ég blaðaði í henni fannst mér um stund að ég kynni meiri frönsku en frönskukennarann minn í menntó hefði nokkurn tíma grunað. Man eftir munnlega prófinu í frönsku þegar hann lagði fyrir mig sérlega léttar sagnbeygingar og fikraði sig varlega yfir í ögn þyngri sagnir. Undrun hans þegar ég beygði þær allar rétt var svo ósvikin að við lá að ég færi að hlæja. Það sem hann vissi ekki var að Gunna vinkona hafði tekið sig til og búið svo um hnútana að ég kunni þessar sagnbeygingar alveg upp á punkt og prik. Hvort ég endaði á að kaupa bókina eða ekki veit ég ekki fyrir víst, því hún er ekki með hinum eintökunum, en mig minnir að hún sé í of stóru broti fyrir lágu hilluna sem hinar eru í. Það verður gaman að flokkar bækurnar okkar betur, sem stendur til eftir yfirvofandi flutninga, tímasetning óviss.  

Mörgum árum seinna var ég stödd í búðkaupi vinkonu minnar rétt hjá Bordeaux í Frakklandi. Við vorum allnokkur vinir og ættingjar sem fórum með til borgardómara og hún og hennar franski ektamaður voru gift upp á frönsku (sjálf er hún kínversk/íslensk og þau búa í London). Allt í einu fór ég að skilja allt sem blessaður borgardómarinn sagði, enda var hún að lesa upp kaflann um blómið úr Litla prinsinum. 

Uppáhald mitt á Litla prinsinum blossaði upp þegar við Ari fórum á heimssýninguna í Lissabon, ekki síst til að skoða ísvegginn hans Árna Páls Jóhannssonar, en Ari og hann höfðu þá brasað svolítið saman, sem þó ekki tengdist þessu stórkostlega og vinsæla verki. Á leiðinni af sýningunni, stolt yfir að hafa ekki keypt neitt, féll ég fyrir gleraugnahlustri. Þó notaði ég ekki gleraugu, bara linsur. Nú í seinni tíð hef ég hvílt augun á linsunum af og til og þá er ekki amalegt að eiga þetta gleraugnahulstur, með öllum góðu minningunum. litli prinsinn


Við C-fólkið

Var að glíma við svolítið lúmskt erfiða vatnslitamynd meira og minna frá kl. 16 í gær, með heilmiklum hléum til kl. hálf tvö í nótt. Þá þurfti ég að fara að sofa, því ekki vildi ég mæta seinasta vinnudaginn í hefðbundnu 9:40-17:40 vinnunni minni geispandi út í eitt.

unnamed (6)a

Er oft spurð hvort ég sé A eða B manneskja, því ég hef aldrei farið leynt með svefnvenjur mínar, að því leyti sem ég get ráðið þeim. Það eru allmörg ár síðan ég áttaði mig á því að ég er C-manneskja. Þetta merkir það að ef ég ætla að sofa þokkalega út, þá þarf ég að meta það hvort það er of snemmt fyrir mig að stilla vekjaratóninn í símanum á 12:20 til að missa ekki af hádegisfréttunum. Það merkir líka að ég þekki varla flugþreytu nema af afspurn, því ég er þaulvön frjálslegum svefnvenjum. Sömuleiðis kom það fyrir á aðal lausamennskuárunum mínum, þegar ég sinnti bæði myndlist og blaða- og útvarpsmennsku, að ég náði að elda hafragraut handa eiginmanni og börnum áður en ég fór að sofa, eftir langa nótt við grafíkpressuna mína. Hins vegar er ég gefin fyrir fallega sumardaga og hika ekki við að fara á fætur milli kl. 9 og 10 á fögrum sumardögum, heima og erlendis, til að njóta sólar og alls konar stúss í góðu veðri. En mér finnst nóttin og myrkrið líka góðir vinir mínir. Skammdegið hefur aldrei verið óvinur minn, bara hálkan og einstaka sinnum ófærðin. Elska líka bjartar sumarnætur og miðnæturgolf, þegar bakið leyfir mér svoleiðis lúxus.

unnamed (7)

Veit ekki hvort líf C-manneskjunnar á heimilinu, mitt sem sagt, mun taka neinum sérlegum stakkaskiptum þótt ég fari í annað sinn á ævinni á eftirlaun frá og með dagslokum í dag. Vissulega hefði ég haldið áfram með myndina sem ég var að glíma við fram eftir nóttu, ef ég hefði ekki verið bundin við að fara í vinnuna í morgun. Það er gott að geta lifað í takt við líkamsklukkuna, þótt hún gangi alla vega, og ég er jafn forvitin og aðrir um það hvernig hún muni haga sér næstu misserin. 

 

 


Vinnustaðir - morð á ganginum og gengið yfir brúna

Hef unnið á allmörgum (mishefðbundnum) vinnustöðum á starfsævinni og oftar en ekki verið í vinnu með góðum hópi fólks sem ég þekkti ekki fyrir. Nú, þegar ég er á 72. aldursári og búin að segja upp hefðbundnu launavinnunni minni veit ég ekki almennilega hvort ég á að skilgreina mig í lausamennsku, sem er vinnutilhögun sem ég er svosem vön (8 ár af starfsævinni alla vega), eða að ég sé ,,bara" að fara á eftirlaun, sem ég hef reyndar áður gert, í næstum fjögur ár, áður en ég fór að vinna í núverandi vinnu. Aðalmunurinn er vinnustaðurinn og vinnufélagarnir. Þótt minn ágæti eiginmaður hafi bent mér á að ég sé í góðum félagsskap þegar ég er í lausamennskunni (ein með sjálfri mér mestanpart) þá hef ég upplifað nokkra alveg óborganlega vinnustaði og uppátæki í góðra vina hópi. Fyrsti langtíma-heilsárs vinnustaðurinn minn var Vikan. Þar var ég í hópi einvalaliðs vinnufélaga í fimm ár. Helgi Pé var ritstjórinn sem réð mig í þá vinnu en hann og Eiríkur Jónsson (já, sá) voru skamma stund með okkur og við tók hópurinn sem er á þessari mynd. 

Vikan

Eins manns sakna ég af þessari mynd (sem NB ég þurfti að teikna fríhendis, því ekkert photoshop var komið þá). Hann var greinilega ekki byrjaður með okkur, en það var virðulegi auglýsingastjórinn okkar. Hann var ögn eldri en við flest, gríðarlega vel klæddur í óaðfinnanleg jakkaföt og datt hvorki af honum né draup (þrátt fyrir að hann ritað mjög umdeildar kjallaragreinar í annað blað). En, lengi skal manninn reyna. Í fyrsta sinn sem það gerðist uggðum við ekki að okkur, ritstjórnin, allt í einu heyrðist rosalegur hvellur á hljóðbæra ganginum okkar í Síðumúlanum og síðan hljóp þessi virðulegi maður út úr fremstu skrifstofunni á ritstjórninni, að því er virtist skelfingu lostinn og hrópaði: Hvað er að gerast, var verið að drepa mann? Enginn fann neitt, en þegar þetta fór að endurtaka sig sáum við hann laumast fram á gang með stóran, uppblásinn bréfpoka, sprengja hann frammi, hraða sér á skrifstofuna sína og svipta svo upp dyrunum og bera fram sömu spurninguna og síðast, og þaráður!

Ég var líka um það bil fimm ár hjá Betware, í fyrsta starfi mínu við hugbúnaðargerð, meðan ég var enn í mastersnáminu mínu í tölvunarfræði. Það voru skrautleg og skemmtileg ár, bæði vinnulega séð og af því að ég ákvað að hella mér út í skemmtanalífið með vinnufélögunum, börnin mín uppkomin og þau (vinnufélagarnir og börnin) flest án nokkurra fjölskylduskyldna, enn sem komið var. Við hliðina á okkur í Ármúlanum var ,,slísí" bar á annarri hæð, þar sem sungið var karókí og ekki síst með fulltingi ótrúlegra söngfugla úr okkar hópi. Hann gekk undir eldra nafni sínu, Jensen, meðal vinnufélaganna. Þar var svona Allie McBeal-stemning fyrir þá sem muna eftir þeirri sjónvarpsseríu. Þá kynntist ég líka alls konar tölvuleikjum og þrautum sem hafa síðan fylgt mér gengum þessa tvö áratugi sem ég hef starfaði við hugbúnaðargerð. Vegna persónuverndarsjónarmiða birti ég bara sjálfa mig hér, en ekki hina vinnufélagana, en lofa því að þau hlógu alveg jafn dátt og ég við eitt slíkt tækifæri.

Þrátt fyrir stuttan stans hjá Iceconsult féll ég alveg fyrir vinnufélagahópnum þar, og í fórum mínum á ég mynd af einum vinnufélaga sem fór í ,,brú" meðan annar síðan gekk yfir brúna og sá þriðji passaði upp á að hann dytti ekki af þessari ótrúleg brú. Aftur, skrambans persónuverndin sem stoppar mig í að birta þessa mynd en treysti á ímyndunarafl lesenda.

unnamed,Frau.W

Aftur á móti er nýrri mynd af ágætlegar óþekkjanlegum vinnufélaga mínum alveg birtingarinnar virði, efast um að nokkur þekki viðkomandi, en segir allt um fjölbreytileikann við leik og störf. 

393074400_909616107193300_2582729761996044063_n

Auðvitað hafa vinnustaðirnir mínir verið misfjörlegir, en sumir svo óborganlegir að ég bara varð að setja þetta á blað, og reyndar eftir hvatningu eins núverandi vinnufélaga svona rétt í bland. Og af hverju gæti ég ekki persónuverndarsjónarmiða vinnufélaga minna hjá Vikunni? Þessi mynd var á forsíðu blaðsins á sínum tíma, og þegar þú flettir síðunni, hvað blasti þá við? Nú, auðvitað bakhliðin. 

Vikan2

 

 


Gríðarlega mislangir mánuðir

Tíminn líður mismunandi hratt í hugum flestra. Breytilegt eftir æviskeiðum, er mér sagt, þótt ég geti ekki tekið undir það, hjá mér líður tíminn einfaldlega mjög mishratt. Jú, reyndar, að einu leyti. Vikurnar fjórar eða svo fyrir jólin voru alveg hrikalega lengi að líða þegar ég var lítill krakki, nú er leitun að hraðskreiðara tímabili. 

Eitt afhjúpar vel hve hratt tíminn líður. Þegar eitthvað endurtekur sig með nokkuð reglulegu millibili. Seinustu sex árin höfum við bekkjarfélagarnir úr MR mælt okkur mót mánaðarlega um vetrartímann eftir því sem unnt hefur verið. Tíminn sem líður milli þess að við hittumst er grunsamlega mismunandi langur og það helgast ekki af því að fyrsta laugardag í mánuðinum ber upp á daga missnemma í hverjum mánuði fyrir sig. Nei, það er eitthvað allt annað. Stundum hafa fleiri en einn á orði að það sé langt síðan við höfum hist, þótt það sé aðeins um mánuður, oftar er eins og við séum að taka upp þráðinn eftir fyrri viku eða næstsíðustu. 

Undanfarinn mánuður hefur verið ótrúlega langur, venjulega er nóvember með styttri mánuðum í lífi mínu, en ekki núna. Margvíslegir viðburðir í samfélaginu, bæði nærsamfélagi, á landinu okkar og á plánetunni okkar hafa áreiðanlega spilað þar inn. Seinustu mánaðarmót og dagarnir kringum þau buðu reyndar ekki upp á MR-hitting. Þess í stað fór ég í stutta og skemmtilega ferð til Skotlands og Englands, á hljómleika og sýningar, og ég bað jarðskjálftahópinn minn vinsamlegast að sjá til þess að skjálftarnir sem voru þá byrjaðir, mundu hætta áður en ég kæmi heim aftur. Völd þessa hóps eru augljóslega engin. Heim komin setti ég í snatri upp vatnslitasýninguna mína, sem ég tók niður í fyrradag og eftir yndislega opnun var einn árviss viðburður á dagskrá hjá mér. Kannski það eina sem var á réttum tíma og tók venjulegan (góðan) tíma. 

Var að velta því fyrir mér hvort það lengdi mánuðinn eitthvað að ég var búin að segja upp vinnunni minni, eins og ég nefndi í seinustu færslu. Var sem sagt farin að vinna uppsagnarfrestinn. Það skekkir þá mynd að ég sagði upp fyrir 7-8 vikum þótt uppsagnarfresturinn hæfist ekki fyrr en fyrir liðlega mánuði, sem sagt m.v. mánaðarmót. Mín reynsla hefur líka yfirleitt verið sú að að uppsagnarfrestur er allt of fljótur að líða, einkum fyrir fólk eins og mig, sem langar að klára svo margt áður en það fer. 

Böndin berast því að því sem eru ytri aðstæður fyrir mig, en snerta annað fólk svo hræðilega djúpt. Fólkið sem beið eftir að jarðskjálftum linnti en fékk þá bara verri, beið þess að líf þess á flótta undan náttúruöflunum reyndist bara vondur draumur. Og enn frekar fólkið á Gaza-svæðinu sem er statt í miðjum alvarlegum hörmungum sem ekki sér fyrir endann á. En líka fólkið í nærumhverfi mínu sem átti þess ekki kost að velja hvort það hætti í vinnunni sinni eða ekki. Við sem vinnum í sveiflukenndum heimi hugbúnaðargerðar höfum flest orðið vitni að eða upplifað þær skyndilegu sveiflur sem fylgja þessum bransa, en samt er það aldrei auðvelt, þegar niðursveifla á sér stað og fjöldi fólks missir vinnuna. 

Á þá jólaósk heitasta að allt þetta fólk fái sem allra fyrst öryggi og ró í tilveru sína. Og að tíminn þangað til verði fljótur að líða.  

 


Kona eignast indverskt sjal vegna nokkurrar dönskukunnáttu

Lengi vel var þetta indverska sjal uppi í sumarbústað, en ég tók það í bæinn fyrir haustið og stend mig að því að njóta þess að horfa á það. Mínir litir og þeir eru fallegir fyrir þá sem kunna að meta þá. 

2023-10-20_21-35-44Sjalið á sér sögu. Þegar ég var að vinna í Hamborg, ásamt fólki af ýmsu þjóðerni (33 mismunandi) voru tveir Danir meðal vinnufélaga minna, en svo fór Natalie heim til Danmerkur og Anders var einn eftir af Dönunum. Við unnum svolítið saman, nógu mikið til að vera búin að átta okkur á því að við áttum sama afmælisdag og skakkaði varla nema hálfri ævi á okkur hvað fæðingarárið varðaði. Einhvern tíma eftir að Natalie fór og áður en við áttum afmæli dó mamma hans Anders frekar óvænt og hann var heldur miður sín, skiljanlega. Þegar hann kom til baka til Hamborgar var enn í ýmis horn að líta og hann frekar upptekinn, en einn daginn kom hann að máli við mig og spurði hvort ég kynni ekki dönsku? Jú, ég hélt ég gæti haldið því fram. Þá vantaði hann nefnilega vott að því að hann hefði sjálfur útfyllt smá eyðublað sem varðaði skipti arfs milli hans og systur hans, ef ég man það rétt. Anders var ekkert að grípa næsta mann í verkið, heldur stálheiðarlegur fann hann til dönskulesandi manneskju, mig, og ég vottaði að sjálfsögðu allt hans verk, ekki var það erfitt. Nema hvað, daginn eftir kom hann með þetta fallega sjal í vinnuna og sagði mér frá því þegar hann bjó ásamt móður sinni og systur á Indlandi, en þaðan er sjalið. Tvennt togaðist á í mér, að afþakka sjalið af því það var einfaldlega allt of mikið fyrir svona létt og lítið verk, eða þiggja það af því það er svo fallegt. Og þannig eignaðist kona indverskt sjal vegna nokkurrar dönskukunnáttu. 

 


,,Mér finnst að þú ættir ekki"-fólkið og sultukrukkan

Ein jafnleiðinlegasta tegund fólks sem ég hef fyrirhitt er ,,mér finnst að þú ættir ekki"-fólkið. Blessunarlega tókst mér næstum því að komast á fullorðinsár án þess að verða vör við það, en vera má að það sé bara lélegri athyglisgáfu að kenna. Foreldrar mínir og aðrir uppalendur voru aldeilis ekki haldnir þessu kvilla og svei mér þá ef mér tókst ekki að komast í gegnum allt skólakerfið án þess að verða fyrir barðinu á svona mannskap. Fyrsta tilfellið í minni fjölskyldu af fórnarlambi þessa leiða eiginleika var líklega frænkan sem flutti til Noregs og lenti í því að það var hreinlega ráðist á hana fyrir að hafa ákveðið að kaupa tiltekna sultukrukku. Hún væri nefnilega of dýr! Þetta var í stórmarkaði og frænka mín, sælkeri mikill, stóð með krukkuna í höndunum þegar manneskjan vatt sér að henni, tók hana af henni og benti henni á að hún ætti að kaupa miklu ódýrari tegund (eins og þessi einstaklingur gerði). ,,Mér finnst að þú ættir ekki að kaupa svona dýra sultu," sagði blessuð skepnan og frænkan hrökklaðist út án þess að kaupa neitt. Mér finnst það algert einkamál alls fólks hvort það vill sóa litlum/miklum eigum sínum í sultukrukkur eða eitthvað annað. 

Fyrsta atvik (af furðu fáum) sem ég minnist persónulega er þegar mér voru borin skilaboð frá manneskju sem leit fremur stórt á sig. Þau voru eitthvað á þessa leið: ,,Mér finnst að hún ætti ekki að vera með lafandi eyrnalokka af því hún er með sítt hár!" 

Með aukinni samfélagsmiðlanotkun hef ég komist í tæri við nokkur svona eintök í viðbót fyrir alls konar léttvægar sakir.

Þetta er samt ekki endilega það versta. Náskylt þessu er ,,þú getur ekki verið þekkt fyrir"-fólkið, sem undir því yfirskini að það telji mig einhverja æðri veru eins og það sé sjálft, telur sig hafa fullt veiðileyfi á mig. Það er misskilningur. Flest þetta fólk er nú fyrrverandi Facebook-vinir mínir, skiljanlega. 


Alin upp við sannleiksást

Börnin mín eru alin upp við sannleiksást, ekki þessa sem notuð er sem skálkaskjól fyrir særandi ummæli (sjá eitthvert fyrra blogg)heldur alvöru sannleiksást. Var að rifjast upp fyrir mér í spjalli við góða vinkonu, þegar sonur minn, þá um það bil sjö ára, svaraði í heimilissímann og ég sá að símtalið var til mín því ég hristi höfuðið til merkis um að ég vildi alls ekki taka símtalið, enda á leið út um dyrnar. Það seinasta sem ég heyrði áður en ég sneri aftur inn og tók þetta símtal sneypt og í hræðilegu tímahraki var: ,,Já, en hún bara villllll ekki tala við þig!"


Eggið eða hænan

216230_1030681925746_6115_n

Hef ekki hugmynd um hvort kom á undan, eggið eða hænan. Hins vegar man ég að þegar ég var krakki fannst mér (eins og ennþá) gaman að skrifa sögur, en byrjaði alltaf á því að myndskreyta þær og setti svo textann í auða plássið á milli. Það var ágætis aðalæfing fyrir blaðamennsku þegar stundum þurfti að ,,skrifa í pláss" sem sagt fá skilgreinda lengd texta áður en hann var skrifaður. Var að vinna í vatnslitaútgáfu á mynd sem ég gerði fyrir mörgum árum þegar ég vann mest í grafík. Allt í einu rann það upp fyrir mér að vatnslitaútgáfan var miklu frekar í ætt við myndskreytingu (við óskrifaða barnasögu held ég bara) en eiginlega (virðulega) vatnslitamynd.

kottur1

 

Spurning hvort ég læt af því verða að skrifa þessa barnasögu einhvern tíma. Hef bara einu sinni skrifað barnasögu og það var einmitt á blaðamennskutímanum þegar einhvern tíma vantaði barnasögu í Vikuna og ég skrifaði sögu (í pláss) og teiknaði auðvitað mynd með, söguna um hana Bullukollu, sem mér finnst alltaf vænt um. 

2021-04-08_15-54-26

Skemmtilegasta dæmið um ,,vitlausa" röð er þó frá því að ég kláraði tölvunarfræðina og fór að vinna við hugbúnaðargerð. Tókst eftir nokkurra ára starf í faginu að koma mér að sem tæknihöfundi og lagði ríka áherslu á að vera með á öllum stigum ferlisins, frá þarfagreiningu og yfir í að forritun og prófunum var lokið og hugbúnaðurinn tilbúinn til notkunar. Eftir nokkra góða fundi með teyminu mínu taldi ég mig hafa nægar upplýsingar til að gera ,,manual" fyrir þennan hluta lausnarinnar okkar og dreif í að skrifa hann. Hafði ekki hugmynd um að dregist hafði að hefja forritun og gat ekki annað en hlegið þegar til mín kom einn reyndasti forritarinn hjá fyrirtækinu og tilkynnti mér að hann ætlaði að fara að byrja að forrita og mundi gera það eftir ,,manualnum" mínum. Gamli RTFM bolurinn minn (hef átt þá nokkra, þvottavélin ritskoðaði einn þeirra) hafði í þetta skiptið orðið að áhrínsorðum/-bol.

anna olafsdottir bjornsson (2)

Nú er ég reyndar farin að ganga í bol með áletrun eitthvað á þá leið að fólki eigi frekar að lesa bækur en boli, en það er önnur saga. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband