Færsluflokkur: Menntun og skóli
Galdrafólkið kennarar
5.1.2024 | 20:42
Hvað sem segja má um íslenska skólakerfið, og það er auðvitað ýmislegt, þá efast ég ekki andartak um að þar má nú finna frábæra kennara, rétt eins og þegar ég var í skóla (sem hefur verið furðu oft). Það er svo margt sem ég hef haft með mér út í lífið, sem ég get rakið til góðra kennara og annarra sem höfðu varanleg áhrif á mig til góðs eða jafnvel ekki. Man helst þetta góða. Sleppi því að nefna nöfn, en vinir mínir og gamlir skólafélagar geta eflaust giskað. Í barnaskóla var ég mestmegnis heppin með kennara, fékk mjög góða undirstöðu, einkum í íslensku, og afskaplega jákvæð skilaboð út í lífið. Bekkjarkennarinn okkar lagði mikla áherslu á að við væru góð hvert við annað og ég man að hún sendi eitt sinn einn nemandann, sem átti undir högg að sækja, úr stofunni til að reka fyrir sig eitthvert erindi og á meðan sagði hún okkur að ef við sýndum honum á einhvern hátt leiðindi væri henni að mæta. Vinkona mín sem kom síðar í bekkinn fann því miður ekki fyrir sömu velvild en hrósaði henni fyrir íslenskukennsluna, held að það fyrrnefnda hafi komið okkur flestum á óvart.
Mamma útskrifaðist sem teiknikennari þegar ég var fimm ára og það hefur eftir á að hyggja verið mín lukka, þótt hún léti sem hún reyndi aldrei að kenna mér neitt. Var nefnilega ekkert sérlega heppin með teiknikennara í barnaskóla, en það breyttist heldur betur í gaggó, þegar við lentum hjá einum allra besta teiknikennara á landinu, þori ég að fullyrða. Þótt ég hafi síðar lært að nota (líka) aðrar aðferðir í myndlist en þær sem hann predikaði, þá var góður grunnur að læra að bjarga myndum án þess að nota strokleður, mæla ekki neitt, heldur þjálfa augað til að ,,sjá" hlutföll og nota íþróttasíður dagblaðanna til að finna módel í alls konar (undarlegum) stellingum. Í menntó stóð listafélagið hins vegar fyrir vikulegum kvöldum undir leiðsögn eins okkar besta teiknara og þar lærði ég að teikna með strokleðri. Í inntökuprófinu (sem stóð í heila viku) í MHÍ var ég örugglega eina manneskjan sem gerði tilraun til að teikna tauklemmu í yfirstærð í heilan dag, án þess að mæla. Það kom þó ekki í veg fyrir að ég kæmist inn í skólann með bravör, en hefði ég fallið þá hefði það verið út af gömlu innrætingunni úr gaggó. Samt, ég held að hvor tveggja tæknin eigi rétt á sér.
Líklega hefur framúrskarandi sögukennari í MR ráðið mestu um að ég ákvað að fara (líka) í sagnfræði og bókmenntasögu meðfram náminu í MHÍ og þegar ég var þvinguð til að velja milli HÍ og MHÍ valdi ég sagnfræðina. Var svo lánsöm að hitta þennan velgjörðarmann minn í barnaafmælum síðar, af því hann var pabbi vinkonu minnar. Í sagnfræðinni var líka annar kennari minn úr MR sem hafði ekki minni áhrif á mig, sumir kölluðu hann alfræðibók og þá ekki til hróss, en hans þekking, þótt mikil væri, var miklu dýpri. Á háskólaárunum voru nýlendur, einkum í Afríku, ein af annarri að fá sjálfstæði og hann sagði fyrir um það með fáránlegri nákvæmni hvenær hver nýlenda yrði frjáls, hvers vegna og hvaða vandamál gætu fylgt í kjölfarið. Sama máli gengdi um upplausn Sovétríkjanna, sem voru löngu eftir hans dag, hann greindi með ótrúlegri nákvæmni þá togstreitu sem hefur verið á flestum átakasvæðum, vegna trúarbragða, efnahagslegra hagsmuna og mismunandi menningar.
Stærðifræðikennari í gaggó var að prufukeyra námsefnið Tölur og mengi, einmitt á mínum bekk, og kenndi mér því snemma á galdra tvíundakerfisins og mengjafræðinnar. Þegar ég fór að bæta við mig framhaldsskólastærðfræði sem hafði breyst mikið frá árunum fyrir 1970, naut ég góðs af þessum grunni, og einhvern veginn komst ég í gegnum mastersnám í tölvunarfræði um og uppúr fimmtugu, þótt máladeildarstúdent væri. Seinasti stærðfræðikennarinn í þeirri lotu bjargaði mér alveg gegnum þá glímu, enda kennari af guðs náð. Í tölvunarfræðinni var það samt kennarinn sem kenndi kúrsinn Samskipti manns og tölvu, sem lagði grunninn að tveggja áratuga störfum í hugbúnaðargerð. Hún var skipuleg, skemmtileg og fann fyrir okkur námsefnið sem einmitt varð til þess að ég hugsaði: Hér á ég heima.
Það er ekki öllum gefið að vera kennarar. Aðeins eitt ár af starfsævinni hef ég haft kennslu (í íslensku) að aðalstarfi og gleðst innilega yfir því að bæði ég og nemendurnir komumst heil frá þeim vetri. Þess vegna var ég undrandi þegar ég hitti, á myndlistarsýningu í fyrra eða hitteðfyrra, nemanda sem sagði mér frá þeim jákvæðu áhrifum sem ég hefði haft á hana. Engu að síður gerði ég rétt með því að velja mér ekki kennslu að ævistarfi. Það þarf sterk bein og mikinn mannkærleika og fagmennsku til að verða eins og þetta fólk sem reyndist mér svona vel. Það sem ég kann að hafa af svoleiðis löguðu nýttist þá í annað.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 20:50 | Slóð | Facebook
Háskóli Íslands - pistill án ástæðu
7.7.2010 | 23:48
Það góða við blogg er að við þurfum ekki afsökun fyrir því að blogga um hvaðeina sem hugur stendur til hverju sinni.
Þannig að hér er örlítið blogg um Háskóla Íslands. Þessi stóri, svolítið klunnalegi skóli, sem kemst samt allt sem þarf að fara, hefur verið athvarf langflestra þeirra sem farið hafa í háskólanám á Íslandi. Ég er ein þeirra. Eftir stúdentspróf vildi ég óð og uppvæg komast í myndlistarnám og fór í háskólann í leiðinni, bara ,,til að nota prófið". Hafði engar skyldur og því lítið mál að vera í tvöföldu námi. Sumir reka heimili, standa í brauðstriti og kaupa íbúðir og bíla meðan þeir eru í háskólanámi, ég lagði upp með það að þurfa engu að sinna nema náminu og djamminu.Og jafnvel þarf þarf að forgangsraða.
Það var mikil lukka að slysast svona hálfpartinn í háskólann. Þar gat ég sinnt námi sem ég elskaði - eins mikið og ég vildi, bókmenntum og sagnfræði, og hef unnið á þeim grunni ávallt síðan, með gott veganesti, þar til ég söðlaði um fyrir um áratug og sneri mér að tölvunarfræðinni og auðvitað í Háskóla Íslands. Fékk nýtt veganesti þar og enn breiðari grunn til að vinna á.
Þau fög sem ég valdi í HÍ voru kennd á frekar ,,akademískan" hátt sem oft er notað sem andstæða þess praktíska náms sem sumir aðrir skólar leggja áherslu á. Þetta segi ég ekki út í bláinn, vinnufélagar mínir sem hafa verið í háskólum sem hafa meiri tengsl við atvinnulífið en HÍ hefur (yfirleitt), hafa flogið inn í sérhæfð störf sem krefjast ákveðinnar þekkingar. Hin, sem koma úr HÍ, koma með annars konar styrk og þekkingu sem er bæði víðari, óáþreifanlegri og tímalausari. Ég held að flestum sé ljós þessi munur og hann er ekki neikvæður heldur jákvæður. Blanda af þessu er fín fyrir fyrirtækin og stofnanirnar.
Kennararnir við Háskóla Íslands hafa langflestir, þeir sem ég hef kynnst, verið framúrskarandi, og nokkrir eins konar mentorar sem skilja mikið eftir sig. Leiðbeinendur mínir í framhaldsnámi, Ebba Þóra Hvannberg í tölvunarfræði og Jón Guðnason í sagnfræði eru svo sannarlega í þeirra hópi.
Smá kynni af öðrum háskólum og þó aðallega háskólakennurum, sem fela m.a. í sér einn kúrs við enskan háskóla og nokkur erindi eða seminör sem ég hef flutt eða tekið þátt í, hafa verið skemmtileg viðbót við nám og kynni af Háskóla Íslands, fullvissað mig um að margt er þangað að sækja en háskólinn okkar stendur vel fyrir sínu í samanburðinum.
Og ef þið eruð að bíða eftir pólitíska punktinum í þessum pistli, þá er það eiginlega ekki hann sem skiptir máli. Auðvitað hvet ég til að skólinn fái að vaxa og dafna, hvað annað? En það er ekki þess vegna sem ég skrifa þetta. Það þarf ekki alltaf ástæðu til.
Ufsilonið
4.9.2008 | 21:57
Úpps, ég fann ufsilon (sem sumir kalla ypsilon) á snarvitlausum stað. Það æpti á mig eins og slasaður maður á götu, eitthvað sem maður vill ekki sjá. Um leið og ég sá það (ekki um leið og ég skrifaði það) þá fór hrollur um mig. Þetta var nefnilega í næstu færslu á undan (búin að laga það). Man eftir einu öðru tilviki af sama tagi, ufsiloni sem átti ekki að vera þar sem það var og það í mínum eigin texta (sá það þegar ég las hann, ekki þegar ég skrifaði hann), og þótt hátt í fimmtán ár séu síðan er mér enn hálf bumbult út af því. Þetta hlýtur að vera einhvers konar skilyrðing, ufsiloni ofaukið (í eigin texta) og þá ,,á" ég að kveljast. Mér er slétt sama um skort eða ofgnótt af þessum kvikindum í annarra texta, vil bara hafa þetta á réttum stað hjá sjálfri mér. Þrátt fyrir að ég hafi reynt og reynt að segja sjálfri mér og öðrum að blogg sé talað ritmál og ég taki það sko ekkert alvarlega, þá get ég ekki varist því að vera alveg miður mín út af þessu bulli sem var á síðunni minni hátt í sólarhring. Úff! Ég lifi góðu lífi með þeim innsláttarvillum sem slysast inn í textann minn, enda sjálfmenntuð að mestu á ,,ritvélar" - hins vegar finnst mér ufsilonvilla vera meira svona ,,viljandi" og því óafsakanlegri.
Og ég sem hélt að ég væri svo afslöppuð!
Upp er runninn útskriftardagur ...
14.6.2008 | 09:09
... og ég er blessunarlega fjarri góðu gamni. Hér í Ungverjalandi ætlum við eigi að síður að halda upp á hann með því að fara út að borða. Mér sýnist að hérlendir veðurguðir ætli líka að halda upp á daginn með mér, að vísu svolítið hvasst, en létt yfir og ekkert sem bendir til þess nú að fari að rigna, en enn er sólarlaust.
Það er skrýtið að upplifa lokapunktinn á þessu stranga námi mínu en það verður eflaust ekki raunverulegt fyrr en ég sæki prófskírteinið mitt á skrifstofuna þegar ég kem heim til Íslands, sem er ekki fastsett enn, ekkert sem liggur á því. Skrýtið að vera að taka þátt á sama tíma í lífi læknastúdentanna hér, sem eru á fyrri skrefum sínum í áttina að enn lengra og miklu strangara námi en ég stundaði, enda er þetta fullt starf þeirra í 6-7 ár en mitt var bara í hjáverkum og alla tíð með mikilli vinnu, nema kannski rétt á blá-lokasprettinum.
Yfir 1000 stúdentar að útskrifast í dag frá HÍ. Það verður eflaust mikill spenningur og bið. Ég hef verið í þessum sporum í tvígang, þegar ég útskrifaðist með BA prófið, það var í febrúarmánuði fyrir réttum 30 árum (!) og ekki stór hópur sem útskrifaðist þá, við vorum í hátíðarsalnum og mjög hátíðlegt. Svo var það cand.mag. prófið 1985 í júníútskrift úr Háskólabíói. Stór hópur en ekki nándar nærri eins stór og sá sem nú er að útskrifast. Óska öllum sam-útskriftarnemendum til hamingju með daginn.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 09:13 | Slóð | Facebook
Meistaraprófsvörn í miðjum skjálfta
29.5.2008 | 20:57
Það var enginn skjálfti í mér þegar stóra stundin rann upp í dag og ég átti að verja meistaraverkefnið mitt á miklum Meistaradegi verkfræðideildarinnar. Þegar 45 mínútur voru liðnar af fyrirlestrinum og ég var í þann veginn að hætta, vildi samt komast í friði gegnum seinustu glærurnar, fór hús verkfræðideildar að skjálfa af talsverðum sannfæringarkrafti. Ég ætlaði nú ekkert að skipta mér af skjálftanum og hélt bara áfram, en þegar hann dróst á langinn kunni ég ekki við annað en að láta vita að ég hefði líka tekið eftir honum og liti á þetta sem ábendingu til mín að ljúka máli mínu, svona um leið og ég setti seinustu glæruna upp. Minnir mig aðeins á vinkonu mína sem heyrði í almannavarnarflautunum og hrópaði upp yfir sig: Guð, ég á eftir að borga Visa-reikninginn minn!
En þetta var sem sagt eftirminnilegur dagur, í meira lagi. Þessu langa og oft stranga námi lokið og fyrirlesturinn gekk afskaplega vel. Þannig að ég er farin að finna það vel að þessum kafla í tilverunni er að ljúka, blessunarlega eftirminnilega. Það verður ekki erfitt að muna hvenær þessi atburður átti sér stað. Hef reyndar áður upplifað að vera í mynd í miðri ræðu þegar skjálfti reið yfir, en hann var aðeins minni en þessi.
Nú er bara að vona að fólkið sem raunverulega fann fyrir skjálftanum fái sem fyrst ró og sálarfrið, því það er áreiðanlega það sem helst þarf að biðja um, að fólki fari að líða betur en það hlýtur að finna fyrir núna. Þetta er merkilegt land sem við búum í og ekki hægt annað en bera virðingu fyrir því. Viðurkenni að mér hefur alltaf þótt smá spennandi að upplifa skjálfta, en það er auðvitað af því ekkert erfitt hefur hent mig og mína í þeim efnum. Ég tek líka undir með konunni ljúfu á sjúkrahúsinu á Selfossi sem minnti á þá í Kína sem eiga um sárt að binda núna. Falleg hugsun.
Ann-ríkinu er annars ekki lokið, nú taka við tveir ferðadagar og áframhaldandi annríki, þannig að ég kem til baka til bloggheima um leið og ég þykist hafa tíma.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook
Styttist í allt - ekki enn orðin stressuð en það kemur
26.5.2008 | 14:14
Sallaróleg um helgina að huga að ýmsum verkefnum en allt í einu er orðið ansi stutt í allt mögulegt.
- Systur mínar koma í kvöld frá Köben. Búin að fá tvo kát sms.
- Þrír dagar í að ég haldi lokaverkefnisfyrirlesturinn minn.
- Fjórir dagar í að ég fari til London á leið til Ungverjalands.
- Fimm dagar í að ég verði komin til Ungverjalands.
- Og verkefnin mín er sum á lokaspretti og önnur á upphafspunkti. Eiginlega engin á þessu óskilgreinda ,,mið"tímabili. Nú sé ég til loka á þremur misstórum verkefnum og er að fara á fullt með tvö, líka mjög misstór. Þannig að það er gaman að lifa.
Smá fiðringur í maganum, best að fara að skrifa fullt af tékklistum til að hafa allt undir kontról ;-), safna saman því sem ég þarf að hafa klárt fyrir fimmtudaginn (lokaverkefnið) og taka fram ferðatöskuna.
Undirskrift samninga um Álftaness sögu, meistaraprófsfyrirlestur framundan og á leið í Sandgerði og til Ungverjalands
22.5.2008 | 14:34
Virðist vera á leiðinni í útskrift (einu sinni enn ;-)
5.5.2008 | 21:39
Mér sýnist á öllu að ég sé að fara að útskrifast með master í tölvunarfræði í júní, ef ég klúðra engu á lokasprettinum. Var að fara yfir lokaverkefnið mitt með leiðbeinandanum mínum í morgun og þótt ég eigi eftir að fínpússa það þá er það á lokaspretti. Skrýtið að vinna þetta samhliða free-lance vinnu, einhvern veginn svo allt öðru vísi skilgreindur tími. Þetta nám er búið að taka rosalegan tíma, sjaldan fengið að vera í aðalhlutverki í tilverunni, en þetta er nú samt að hafast allt saman. Frekar góð tilhugsun, en ég þarf að halda vel á spöðunum í öllum mínum verkefnum.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook
Margrét Pála: Ég var svo lánsöm að vera ekkert sérlega lukkulegt barn - viðtal í Húsfreyjunni
7.4.2008 | 16:32
Fyrr á þessu ári var ég svo heppin að fá tækifæri til að taka viðtal við Margréti Pálu Ólafsdóttur, höfund Hjallastefnunnar, sem flestir þekkja. Hafði reyndar lengi dreymt um að taka viðtal við hana, enda hlýtur það að vera óskaviðtal allra blaðamanna, sem áhuga hafa á kvenfrelsismálum. Nú er blaðið komið út, Húsfreyjan, og ég er himinilifandi yfir því að sjá að viðtalið er eins gott og mig minnti, sem er reyndar vegna þess að viðtalsefnið er kona sem hefur ákveðnar skoðanir, setur þær skýrt fram og stendur og fellur með meiningu sinni.
Hún segir frá þeirri skemmtilegu tilviljun í þessu viðtali að þegar hún skrifaði grein í Húsfreyjuna um Hjallastefnuna fyrir hartnær tveimur áratugum þá féll sú grein alveg í skuggann á sams konar efni í Bleiku og bláu, sem þá var virðulegt rit um kynlíf, kynfræðslu og kyneðli undir ritstjórn Jónu Ingibjargar Jónsdóttur. Skemmst er frá því að segja að við tók tveggja ára ströggl við kerfið og gegn ótrúlegum fordómum sumra í garð hennar og Hjallastefnunnar, en einkum hennar persónulega.
Ég gat því ekki annað en brosað í kampinn þegar ég sá að á sama tíma og viðtalið mitt við hana birtist í Húsfreyjunni, þá voru henni veitt verðlaun, sem án efa gætu freistað einhverra til að taka afstöðu til hennar og verka hennar á ekki alveg hárréttum forsendum, rétt einu sinni. Það er sem sagt fræðilegur möguleiki að viðtalið falli í skuggann ;-) sem mér finnst reyndar vitlaust. Hvort tveggja er að engin hugmyndafræði getur eignað sér verk hennar né heldur ætti nokkur að geta tekið afstöðu með eða á móti því sem hún er að gera á nokkrum öðrum forsendum en þeim að kynna sér það. Þessi togstreita er reyndar eitt af því sem ber á góma í viðtalinu.
Hvet ykkur alla vega til að kaupa nú Húsfreyjuna, eða fá ykkur blaðið á bókasafni, og lesa þetta viðtal, ég lofa því að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum. Viðtalið er undir yfirskriftinni: ,,Ég var svo lánsöm að vera ekkert sérlega lukkulegt barn" og í því vona ég að þið kynnist Margréti Pálu betur en áður, það er vel þess virði.
Myndin er úr Húsfreyjunni og myndasmiðurinn náði mjög skemmtilega að fanga þá stemmningu sem mig langaði að sýna lesendum.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook
Pest, próf og frábærar fréttir af RRR
12.12.2007 | 16:47
Hef verið heldur framlág seinustu þrjá dagana, vegna kvefpestar með hálsbólgu, beinverkjum og öllum fylgihlutum. Tókst þó að koma mér í próf í skelfinum mikla RRR, sem er erfiðasta fagið sem ég hef þurft að glíma við á minni skólagöngu, sem er þó æði fjölbreytt og skrautleg. Þótt ég væri heldur framlág í prófinu, þá fannst mér svona í aðra röndina að ég ætti að hafa náð því, en hinn möguleikinn var auðvitað að ég hefði misskilið nánast hverja einustu spurningu. Elísabet systir orðaði þetta mjög snyrtilega fyrir mig: Já, þú ert sem sagt örugg um að fá einkunn einhvers staðar á bilinu 2-8! Já, það var einmitt tilfinningin. Mitt á milli lá einkunnin sem ég þurfti að fá til að ná. Og ekki er að spyrja að kennaranum okkar, hann var búinn að fara yfir prófin seinni partinn í dag og ég náði, meira að segja ögn skár en ég átti von á. Jibbí, nú er hún gamla RRR-Grýla dauð! Ég hef verið dauðskelfd við þetta fag frá því ég fyrst heyrði um það, enda alltaf talsvert fall í greininni. Hins vegar er kennarinn alveg afbragðsgóður og það hefur sannarlega hjálpað.
Þá er að leggja í próflestur í næsta prófi, sem er léttara, en þarf þarf ég að ná hærri einkunn. Á raunar staðna einkunn í því fagi en þarf að bæta mig talsvert. Ég hef líka sinnt RRR betur í vetur en þessu fagi, enda meira í húfi. Og stóri sigurinn er í höfn. Nú þarf ég bara að finna út hvernig ég les fyrir próf með bullandi pest, eitt praktískt atriði er að byrja á að lesa vikublöð kennarans, sem eru mjög ítarleg, því þau fara betur í rúmi en þriggja kílóa kvartfermetra bækur. Svo skríð ég upp úr þessari pest eins og þeim fyrri, held samt að þetta sé fyrsta pestin sem hrellir mig á þessu ár, og ekki nema eðlilegt að hún komi á próftíma, þá er álagið mikið og varnirnar kannski aðeins rýrari en annars.