Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Öfgafull þjóðernisstefna beið lægri hlut - ekki víst að þetta hafi eingöngu snúist um ESB

Flokkurinn sem beið lægri hlut í Serbíu er öfga þjóðernisflokkur og formaðurinn eftirlýstur svo annar gegnir stöðu hans núna. Þótt mótframbjóðendur hafi stillt málinu þannig upp að verið sér að kjósa um ESB þá grunar mig að öfgastefnan hafi ekki átt upp á pallborðið hjá öllum, burtséð frá afstöðunni til ESB.
mbl.is Stuðningsmenn ESB höfðu betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklu meiri sóun en þessi - hvernig verður þessari þróun snúið við?

Þessi frétt segir ekki frá nema hluta þeirrar gengdarlausu sóunar sem á sér stað. Alltaf af og til berast fregnir af því að fullkomlega heilum matvælum sé hent til að halda markaðsverði uppi og vegna annarra viðskiptalegra hagsmuna. Spurning hvort það er ekki hægt að koma af stað vitunarvakningu á þessu sviði án þess að markaðsöflin tryllist?

Ég hef enga töfralausn á reiðum höndum en ef til væri ,,Góði hirðirinn" sem væri með góðar kæligeymslur þá mætti hugsa sér að framleiðendur og verslanir (þær sem ekki dömpa verði í búðum rétt fyrir seinasta söludag) gætu komið með umframbirgðir sem ekki eiga að fara í sölu þangað. Ég hef ekki heyrt af því að Ikea eða Húsgagnahöllin amist við því að Góði hirðirinn taki við notuðum húsgögnum og selji fyrir lágt verð og noti arðinn til góðra málefna. Vandasamara er að taka við matvælum frá heimilum, alla vega þeim sem eru viðkvæm í geymslu, en það væri ábyggilega hægt að taka við pakka- og dósavöru, til dæmis ef fólk er að taka til í geymslum eða flytja og á mikið magn af slíku (óútrunnu) sem annars færi á haugana. Rétt eins og það er lítið mál að skreppa með nothæf húsgögn í gám Góða hirðisins í Sorpu eða dagblöð og flöskur til endurvinnslu þá væri þetta eflaust eitthvað sem kæmist upp í vana. Og þar sem margar þjóðir standa okkur framar í endurvinnslu (þó held ég ekki Bretar) þá væri ábyggilega hægt að koma svona hugmynd á framfæri víðar, ef hún er ekki þegar komin á kreik.


mbl.is „Yfirþyrmandi“ magn matvæla á haugana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki útilokað að Hillary verði næsti forseti Bandaríkjanna ...

... en líkurnar eru ekkert yfirþyrmandi miklar. Baráttan í nótt var æsispennandi og þar sem ég er aftur komin í minn rétta vinnufasa og var að vinna til klukkan rúmlega fjögur, kíkti ég á CNN á milli, en þau þorðu samt ekki að lýsa hana sigurvegara þegar 91% atkvæða höfðu verið talin, svo mjótt var á mununum. En nokkrir punktar:

  • Í fyrsta lagi þá hefði jafnvel tap með mjög litlum mun í Indiana væntanlega orðið til þess að knúið hefði verið á hana að hætta.
  • Í öðru lagi, sigur, þótt naumur væri, í Indiana, er nóg til að hún heldur áfram. Ég hef ekki áhyggjur af því að demókratar skaðist af mánaðarbaráttu í viðbót. Bill Clinton var ekki útnefndur fyrr en í júní eftir því sem fréttir hafa verið að rifja upp.
  • Það er löngu ljóst að ,,super-delegates" eða ofurfulltrúarnir munu eiga síðasta orðið. Hvað þeir sjá og upplifa á næstunni verður úrslitamálið.
  • Hillary er vissulega minn óskakandídat en hún er ekki fullkomin. Ummæli hennar um Írak (hótun vegna kjarnorkuvopnauppbyggingarinnar) nú nýverið voru vond, þótt þau hafi að mínu mati ekki átt að vera annað an viðvörun en ekki raunveruleg hótun. Ef Hillary fer halloka verður það ekki vegna þessara ummæla.
  • Hillary mun að mínu mati mala McCain ef hún verður útnefnd.
  • Barack Obama er líka góður valkostur en ég er ekki viss um að öll hans atkvæði skili sér á kjördag. Hann hefur miklu meira fylgi meðan hópa sem skila sér stopult á kjörstað og ég get ekki hugsað mér að fá repúblikana í Hvíta húsið fjögur ár í viðbót. Ekki líklegt, en fræðilega mögulegt. 
  • Málefnalega held ég að Hillary muni hafa meiri burði til að koma fleiru góðu til leiðar en Obama, ekki bara vegna reynslunnar sem hún hefur og baklands, heldur ekki síður af því hún hefur verið ansi samkvæm sjálfri sér í mjög langan tíma í miklvægum málum svo sem varðandi heilsugæsluna og það er alltaf góðs viti. Ég er viss um að Obama meinar vel, og hann hefur verið staðfastur gegn Írak, fær stórt prik fyrir það, enhans hugmyndir hafa verið að mótast í hringiðu prófkjöranna og ég veit ekki hversu djúpar rætur þær eiga.
  • Ef ég héldi að ofurfulltrúarnir læsu bloggið mitt, þá myndi ég þýða þessa punkta á ensku, en þið látið þetta bara ganga.

Veturinn kveður með yfirbókuðum fréttum

Engar gúrkufréttir í dag, nóg af alvörufréttum. Þetta hefur verið harður vetur á ýmsan máta, ekki bara snjór heldur líka erfið tíð hjá mörgum í mínu umhverfi, þannig er lífið víst. En lands- og heimsfréttir hafa sinn gang eftir sem áður. Fylgst hefur verið með atburðunum við Suðurlandsveg í fréttum í allan dag, dálítið misvísandi skilaboð, en ég varð ansi hugsi þegar ég sá myndband á bloggsíðu Birgittu Jónsdóttur.

Fleira er í fréttum:

Hillary vann góðan sigur (og já, ég horfði)

Fyrrverandi formaður Evrópu(sambands)samtakanna næsti ritstjóri Moggans

Bæjarbylting í Bolungarvík

... og það sem er kannski merkilegast til lengri tíma, losunarkvótinn okkar er að springa vegna álvera, samtal við umhverfisráðherra í kvöldfréttum útvarps var mjög athyglisvert. Fréttir enn í gangi svo ég býst ekki við að upptakan sé komin inn á vefinn, en á ruv.is er hægt að skoða allar fréttir.  


Jæja, Hillary ... hvernig fer þetta í kvöld?

Er að bræða það með mér hvort ég á að sofna snemma og heyra um Hillary (ástand og horfur) í fyrramálið eða ekki. Vakna snemma á morgnana þessa dagana, sem er bara skemmtileg tilbreyting, reyndar aðeins of snemma í morgun (hálf fimm, til að skutla Jóhönnu minni út á flugvöll, sem var á landinu í allt of stuttu stoppi). Annað hvort leggst ég í vinnutörn í nótt og tékka á Hillary á netinu af og til, legg mig smá og vakna klukkan sex (bæti svefninn upp síðar) eða ég hendi mér í rúmið núna og frétti af Hillary í fyrramálið. Hmmmmmm ég breyti alla vega engu í baráttu Hillary þannig að önnur atriði munu ráða, meðal annars þau verkefni sem ég er að vinna í og hvenær best er að vinna í þeim. Og þá kemur nóttin sterk inn, aldrei betri vinnufriður. En hvernig ætli þetta fari með Hillary, mætir hún fílelfd í slaginn í fyrramálið eður ei?

Mein sem er innbyggt í kerfið

Flestir munu sammála um að fiskveiðistjórnun sé nauðsynleg og ekki megi ofgera stofnunum. Hins vegar virðist sem eitthvert fólk - sem jafnvel tekur ákvarðanir um fiskiveiðistjórnun - haldi að það sé einhver lausn að vera með kerfi sem tekur ekki á brottkasti nema með takmörkuðu og fjársveltu eftirliti og kattarþvotti sem vonar að þetta sé nú ekki svo slæmt!

Meðan ég var að skipta mér af pólitík fékk rauk ég eitt sinn upp í pontu og talaði eitthvað um brottkast og fékk í kjölfarið símtal sem ég hef oft vitnað til. Það var frá einum af þekktustu útgerðarmönnum landsins sem lét sér sæma að öskra á mig í símann, eflaust eitthvað um að svona ,,stelpur sem hefðu ekki hundsvit á sjávarútvegi" ættu að halda kjafti. Ég öskraði á móti og við skildum í fullum fjandskap. Sótrauð kom ég fram og hlammaði mér á milli þeirra Guðjóns A. Kristjánssonar og Steingríms J. sem litu forviða á mig. Ég hreytti út úr mér: Það hefur aldrei bröndu verið kastað í sjóinn! og sagði þeim hver heimildarmaður minn væri. Guðjón skellti uppúr og Steingrímur J. varð hugsandi á svip.

Ástandið hefur ekki skánað meira en svo að í stað þess að afneita þessari staðreynd, þá gera menn nú orðið bara lítið úr þeim. Man að Einar Oddur (áður en hann settist á þing) sagði eitt sinn á þingi fiskvinnslunnar að það væri einkennilegt hvað afli sem kæmi að landi væri alltaf alveg nákvæmlega af jafn stórum fiski, skyldu ekki veiðast fiskar sem væru af annarri stærð? Mest var hann þá að vísa til þess afla sem unnin var um borð í frystitogurum. 

En þetta var þá. Margt hefur breyst og nú er lag að fá þjóðarsátt um fiskveiðimál, og þótt fyrr hefði verið, þjóðarsátt sem tryggir að allur afli komi að landi, að fiskvinnslulottóinu linni, kvóti fylgi byggðarlögum og vinnslu ekkert síður en útgerð og í kerfinu sé ekki hvatt til brottkasts eins og nú er. Tonnið sem komið er með að landi er jafn stórt og tonnið sem veitt er, þótt 400 kílóum sé kastað og aðeins 600 kíló komi að landi. Verðmætin eru kannski ekki þau sömu, en með hvertjandi aðgerðum til að fá undirmálsfisk að landi svo verðmæti aflans sé ekki enn einn hvatinn að brottkasti, mætti komast langt. Það ætti að vera hægt að reikna út skynsamlega meðalsamsetningu afla og jafna út á árið hjá hverju kvótahafa fyrir sig og kanna sérstaklega aðstæður ef aflasamsetning einhvers aðila er óeðlileg. Hjálpartæki gætu verið upplýsingar um mið og rannsóknir á aflasamsetningu á svipuðum slóðum. Sóknarmark er annað sem stundum er talin möguleg leið til að takmarka brottkast, ekki endilega óskaleiðin, en ef það gæti stemmt stigu við brottkasti þá væri það sannarlega vel þess virði - treysti fólk sér ekki í aðrar aðferðir. 

Mórallinn í sögunni er, núverandi kerfi mælir ALLS EKKI réttan heildarafla og getur því ekki verið nógu góður grunnur að úthlutun heildarkvóta.  

Miðað við núverandi ástand þá þyrfti að fara bil beggja, auka heildarkvóta til dæmis um helming þess afla sem nú er talið að sé kastað á brott. Þannig fengist hvatning og minni afli væri dreginn úr sjó. 

 


mbl.is Segir brottkast að aukast gífurlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Foreldrahúsið í nýtt húsnæði, listsýning í háskólanum á vegum Skyns og krakkarnir í Álftanesskóla

Mikið var gaman að sjá nýja húsnæðið undir Foreldrahús Vímulausrar æsku, sem var vígt í dag. Gamla Foreldrahúsið við Vonarstræti var löngu sprunigið undan starfseminni en þetta húsnæði er hreinn draumur. Vinir og velunnarar Foreldrahússins fjölmenntu og unglingarnir sem hafa verið í eftirmeðferðinni í Foreldarhúsinu fengu okkur sem vorum viðstödd til að muna að með því að gefast aldrei upp bætist alltaf í hóp þeirra fíkla sem komast yfir vandann. Oftar en ekki liggur að baki elja og eldmóður fjölskyldunnar og stuðningur Foreldrahússins, en þau eru engu að síður sigurvegararnir.

Annar sigurvegari var með listsýningu í Hámu á Háskólatorginu, það var ung þýsk stúlka, Freddie, sem er á leið í doktorsnám hér á Íslandi þrátt fyrir sértæka námserfiðleika sem eflaust hefðu stoppað einhverja hæfileikaríka manneskju af. Hún er líka listakona og ég vona að sem flestir hafi séð verk hennar á Háskólatorginu, en ég var auðvitað allt of sein að plögga fyrir þessa sýningu, afsakið það. Missti reyndar sjálf af Fabúlu sem söng í tilefni þessarar sýningar, og það var auðvitað alveg afleitt.  Félagið Skyn er nýtt í háskólaflórunni, það er félag stúdenta með sértæka námsörðugleika, svo sem lesblindu, ADHD og ýmislegt fleira. Mér heyrist að háskólasamfélagið, til dæmis námsráðgjöfin, ætli að taka þessu félagi fagnandi, en það er frekar ungt og ómótað enn sem komið er. 

Flesta vetur fæ ég tækifæri til að vera með krökkunum í 4. bekk í Álftanesskóla þegar byrjað er að kenna námsefni um Álftanes, sem ég ber ábyrgð á. Það er eiginlega alveg ólýsanlegt hvað það er gaman að segja krökkunum hérna á nesinu frá þessari lygilegu sögu sem við Álftnesingar eigum og þessir tímar eru alltaf skemmtilegir. 60 mínútur með krökkunum eru eiginlega allt of fljótar að líða. Þessar 60 mínútur voru einmitt í dag, þannig að þessi dagur hefur verið nokkuð sérstakur í tilverunni.

 


Vaknaði við alhvíta jörð og ESB áróður, enn einu sinni ...

Ég hélt það væri komið fram í miðjan apríl. Það þýðir ekkert að tala um páskahret, páskarnir voru snemma í ár, mjög snemma. En alla vega þá kann ég ekki allskostar að meta þessi frjálsu framlög úr loftinu. Undanfarna daga hefur verið þetta fína gluggaveður og ,,gula fíflið", eins og gamall vinnufélagi minn kallaði sólina svo óvirðulega, verið duglegt við að láta sjá sig. Ekki var betra að hlusta á Silfur Egils, sem í þetta sinn var reyndar Pjátur Egils. Hann er nefnilega farinn að safna æði mörgum Evrópusambandssinnum saman í þættina sína (sumum reyndar undir því yfirskyni að þeir vilji ,,bara" taka upp evru, sem þeir vita mæta vel að merkir Evrópusambandsaðild). Eins og Egill er nú mætur þáttastjórnandi, svona yfirleitt (Kiljan er betri en blikkið), og bráðskemmtilegur oft að auki, þá finnst mér þetta óþarfa tilraun til heilaþvottar. Hann hefur reyndar aldrei haldið því fram að hann vilji vera fullkomlega óvilhallur, þannig að hann er svo sem ekki einu sinni að sigla undir föslku flaggi, bara frekar leiðinlegu flaggi að mínu mati.

En nú hlýtur vorið að fara að koma og lýsa inn í hræddar sálir samlanda okkar. Hér er veðurspáin í næstu viku alla vega og vedurvonandi að þetta skánandi tíðarfar nái til kjarks, skynsemi og ábyrgðartilfinningar okkar sem ættum að geta að rekið hér besta samfélag allra samfélaga, með aðeins færri ál-plástralausnum með tilheyrandi efnahagssveiflum, aðeins meiri hollustu gagnvart umhverfinu og mörgum smáum lausnum í atvinnumálum, þar sem hugvitið, sem oft er mært á tyllidögum, fengi að njóta sín. Held að fólk skilji ekki alveg eða vilji taka ábyrgð á þeim breytingum sem við höfum sjálf í hendi okkar, stjórn efnahagsmála. Það er aldrei nauðsynlegra en í alþjóðlegri viðskiptakreppu að hafa góða stjórn á eigin efnahagsmálum. Nú stefnir í tvö ný álver, þenslu, (mjög líklega verður lítið búið að lærast um óheilbrigði eyðslufyllerísins) og enn eina niðursveiflu í kjölfarið þegar allir verða búnir að gleyma þessari. Hvar er skynsemin og bjartsýnin eiginlega núna?


Vona að slysaöldunni fari að linna

Óvenju mikið af alvarlegum slysum þessa dagana, vonandi fer þessu að linna. Allar sögurnar á bak við hvert slys minna mig á hvað það er dýrmætt þetta líf. Vissulega er það margt fleira en slysin sem getur sett strik í þann reikning, það fer ekkert á milli mála, en hvað varðar slysin þá er þó hægt að gera eitthvað til að stemma stigu við þeim, og þar á ekki að horfa í kostnað - annars erum við farin að setja verðmiða á líf og limi fólks og það er ekki sæmandi.

Úps, ég hélt að vorið væri komið

Afsakið, ég hélt að vorið væri komið, en það er greinilega smá misskilningur, byggður á búsetu. Tvær ferðir um suðvesturhornið undanfarna daga blekktu lítillega. En við búum á Íslandi þar sem veðurfréttirnar eru ávallt æsispennandi, svo það er best að fylgjast með fréttum og sætta sig við frestun á vorinu enn um sinn. Er ekki að styttast í að veðurklúbburinn á Dalvík láti í sér heyra á nýjan leik. Kosturinn við þann klúbb (fyrir utan nokkuð þokkalegt forspárgildi) er að fólkið í þeim klúbbi gefur út langtímaspár.
mbl.is Snjóflóð og hálka fyrir norðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband