Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Írsk atkvæðagreiðsla um stjórnarskrá ESB í dulargervi - spennandi talning í dag

Það verður spennandi að flygjast með talningu í dag í írsku atkvæðagreiðslunni um Lissabon-sáttmálann sem er í rauninni dulbúin stjórnarskráin sem var felld í tveimur Evrópusambandsríkjum. Núna eru það Írar einir sem héldu því til streitu að kjósa, en þessi útgáfa af stjórnarskránni var beinlínis hönnuð til að komast hjá því að setja hana í þjóðaratkvæði í nokkru aðildarlandi, en blessunarlega lúta frændur vorir Írar ekki slíkri forsjá, enn. Tvær mjög góðar greinar um málið á bloggi Heimssýninar.

Takið þátt í nýju skoðanakönnuninni um efnahagsástandið og takk fyrir frábæra þátttöku í Hillary könnuninni

Þá er kominn tími til að skipta út skoðanakönnunum. Hillary virðist ekki stefna í að verða næsti forseti Bandaríkjanna þótt 35% lesenda síðunnar minnar hafi spáð því. 30% spá Obama forsetastól og 18% nefna Ástþór Magnússon en McCain fékk ótrúlega fá atkvæði. Þátttakan hefur verið rífandi góð, atkvæði á fimmta hundrað, en nú er mál að linni.

Næst er að heyra í ykkur varðandi efnahagsástandið. Endilega takið þátt í könnuninni hér til hliðar.


Hillary hætt eða ekki?

Mogginn búinn að segja það stíft að Hillary sé hætt. Visir segir að hún sé ekki alveg hætt, en staðan er þröng, enn eigi hún þó sjans í ofurfulltrúana, Obama nánast búinn að sigra, en hann er reyndar ekki búinn að sigra McCain og mér heyrist að mjótt sé á mununum þótt Obama sé sigurstranglegri. Það er ekki nóg. Við höfum ekkert með fjögur ár í viðbót af repúblikönum, þetta varðar heiminn allan hvort sem okkur líkar betur eða verr. En aðeins hluti heimsins hefur kosningarétt um næsta forseta Bandaríkjanna.

Feministamóðir stolt af syninum

Það hefur eflaust ekki farið framhjá lesendum bloggsins míns að ég tel mig oft hafa ástæðu til að vera stolt af börnunum mínum, þótt þau séu sloppin af barnsaldri og vel það. Það gladdi feministahjartað mitt þegar ég heyrði að sonur minn væri orðinn ráðskona yfir vef karlahóps Feministafélagsins auk þess sem hann er í stjórn Feministafélags Háskóla Íslands. Hann hefur verið vel virkur í félagsmálum að undanförnu og tekið við af öðrum í fjölskyldunni í því hlutverki og greinilega að gera góða hluti, alla vega er ég bara mjög stolt. Hann heldur líka úti vefnum Feministaheimurinn sem er með hlekk hér til hliðar. Til hamingu Óli!


Allt í lagi í Reykjavík?

Fyrir mörgum áratugum kom út spennusagan: Allt í lagi í Reykjavík eftir Ólaf við Faxafen, sem var dulnefni Ólafs Friðrikssonar. Titillinn reyndist argasta kaldhæðni, eins og vænta mátti. Mér finnst merkilegt að Íslendingar skuli vera í meiri afneitun en aðrir varðandi áhrif loftslagsbreytinga. Hækkun sjávarstöðu er eitt af því sem við gætum þurft að glíma við í náinni framtíð og þar sem veður eru oft nokkuð válynd á þessum slóðum gæti verið erfiðara að verja byggð sem stendur lágt hér á landi en í sumum löndum þar sem byggð er varin með varnargörðum. Hins vegar er huggulegt af Gallup að reyna að réttlæta þessa afstöðu okkar til að við töpum ekki alveg andlitið í alþjóðasamfélaginu, en eigum við ekki að sjá um það sjálf?
mbl.is Hlýnun ekki ógn á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Himinlifandi á Hillary-vaktinni

Fyrstu spár bentu ekki til mikils sigurs Hillary í Kentucky en núna er henni spáð stórsigri og ég vona að það haldi. Oregon er vestar og óvissara, en ef Hillary næði betri árangri þar en ætlað var gæti farið svo að tvær grímur rynnu á ofurfulltrúana sem hafa ekki þorað að lýsa yfir stuðningi við Hillary. Fyrir nokkrum vikum var henni spáð meirihluta þeirra en Obama hefur verið að fá suma þeirra til sín. Þeir hljóta líka að vera hugsandi yfir þeim fréttum að stuðningsfólk Hillary sé ekki allt tilbúið að kjósa Obama, ætli að sitja heima eða jafnvel kjósa McCain. Hvað sem manni finnst um það, þá er ekki hægt að pína fólk til að kjósa eftir öðru en því sem það sjálft velur, það eru leikreglur lýðræðisins. Þannig að ... kannski er að draga til tíðinda vestanhafs, hver veit?
mbl.is Clinton spáð sigri í Kentucky
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Battle of the Davids" og Jósep segir ...

American Idol á lokaspretti og eins og Simon Cowell spáði verður úrslitaþátturinn "Battle of the Davids" enginn Golíat heldur bara tveir Davíðar. Veit varla með hvorum ég held meira. Cook hefur unnið á, á því leikur enginn vafi.

Einn skemmtilegasti leikurinn sem við fórum í var Jósep segir. Býst við að flestir þekki hann, einn skipar fyrir hvað hinir eiga að gera, og ef hann segir: ,,Jósep segir" á undan, þá á að hlýða, annars ekki. Á ensku heitir þessi leikur Simon says, og mér heyrist að það sé einmitt búið að hlýða því sem Simon (Cowell) segir hér með.


Samstarf ríkisstjórnarflokkanna: Pirringur á dag kemur skapinu örugglega ekki í lag

Mér finnst gæta vaxandi pirrings milli stjórnarflokkanna og yfirlýsingar jafnt sem aðgerðir einstakra ráðherra ala á slíku. Nú veit ég ekki alveg hvernig samþykkt verklag er innan þessarar ríkisstjórnar, en svo virðist sem hver og einn ráðherra megi segja og framkvæma nokkuð frjálslega án þess að það sé lagt fyrir ríkisstjórnina sem heild. Lagalega séð er það svo sem alveg í lagi, löngu búið að taka umræðuna um að ríkisstjórnin sé fjölskipað stjórnvald, en út frá samstarfi innan ríkisstjórnarinnar finnst mér ég stundum sjá daglega núningspunkta og stundum ummæli í kjölfarið. Það virðist ekki hafa verið gengið frá neitt of mörgum lausum endum þegar efnt var til þessarar ríkisstjórnar, eða að þeir eru farnir að trosna eitthvað.


mbl.is Hagsmunum fórnað með veiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandsumræða Sjálfstæðismanna

Það hefur verið athyglisvert að fylgjst með Evrópusambandsumræðu Sjálfstæðismanna að undanförnu. Lengi hef ég saknað þess að fá afdráttarlausar yfirlýsingar frá Geir Haarde, en þarf ekki að kvarta lengur. Sömuleiðis þá hefur mér þótt Þorgerður Katrín ansi kratísk í afstöðu sinni og daðrandi við Evrópusambandið en hún lýsti sig sjálfa andvíga aðild Íslands að Evrópusambandinu, hvort sem hún meinar það eða ekki, þá fannst mér það athyglisverð yfirlýsing. Hér er linkur á upptökuna: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4397930/3 

Hún hefur hins vegar lýst því yfir að það sé ekki hægt að segja henni fyrir verkum og mín reynsla úr pólitískri umræðu er sú að svona orðalag merki að verið sé að gefa vísbendingu um að einhverjum hafi einmitt VERIÐ sagt fyrir verkum, en það þarf ekkert að vera rétt í þessum tilfelli. Umræðan um þjóðaratkvæði eða ekki er allt annað dæmi og ég veit ekki hvert hún mun leiða, en þeir sem vilja þá umræðu eiga að sjálfsögðu að hefja hana.

Önnur spurning sem hlýtur að vakna nú er sú hvort verið sé að senda Samfylkingunni skilaboð og ef svo er, hver þau nákvæmlega eru. Samfylkingin hefur fengið nokkuð frítt spil og Björgvin G. Sigurðsson verið beitt fyrir sambandssinnavagninn. Er pirringur Sjálfstæðismanna í garð samstarfsflokksins að koma fram?


Seinust að missa vonina

Gleðst yfir góðu gengi Hillary í þessum kosningum, þótt það hafi verið nokkuð fyrirsjáanlegt. Enn er ég á því að hún sé betri valkostur gegn McCain en Obama og hálft í hvoru held ég að ofurfulltrúarnir hljóti að vera að velta því sama fyrir sér. Hins vegar held ég líka að þeir muni ekki þora að fara að gegn meirihlutafylginu, sem virðist liggja hjá Obama, hvort sem það skilar sér allt í kjörkassana í nóvember eða ekki. Þannig að ég ætla að vera seinust til að missa vonina, ásamt Hillary væntanlega.
mbl.is Clinton vann í Vestur-Virginíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband