Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mikilvægasta ríkisstjórn lýðveldistímans? - taka 2

Varpaði þeirri spurningu fram um daginn hvort þetta verði mikilvægasta ríkisstjórn lýðveldistímans - ýmsar ytri aðstæður og efni verkefnalistans benda til þess að svo gæti orðið. Nú veltur á því að hún fái brautargengi með verkefni sín, en Framsókn hefur ekki gefið tilefni til fullrar bjartsýni um það. Baldur Þórhallsson er að segja í ríkisútvarpinu að Þorgerður Katrín hafi verið að taka undir efnahagsaðgerðirnar, það má auðvitað túlka orð hennar þannig en eflaust verður fundinn ásteytingarsteinn þótt síðar verði. Pirrandi hlið á pólitík.

 


mbl.is Slá skjaldborg um heimilin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþarflega verðskuldaður sigur Kópavogs í Útsvari - en hvað er Framsókn að hugsa?

Óska Kópavogsliðinu til hamingju með sigurinn í Útsvari í kvöld, en það var auðvitað alveg óþarfi að sigra endilega okkur Álftnesinga. En gott og vel - þetta var verðskuldað!

Hef meiri áhyggjur af Framsóknarmönnum af því ég sé ekki glóru í þeirra hegðun, voru búnir að bjóða hlutleysi að fyrrabragði, hvað eru þeir eiginlega að hugsa?


Útsvar viku eftir viku ... þetta er frekar fyndið!

Eins og landsmálapóltíkin er þessa dagana þá er eiginlega ekki hægt að vera að einbeita sér að því að keppa í Útsvari fyrir sveitina sína (sem er víst orðin bær núna - Sveitarfélagið Álftanesi). Það er ekki liðin vika síðan við Guðmundur Andri og Hilmar Örn kepptum seinast og ekkert er eins og þá. Ríkisstjórnin fallin, seðlabankastjórinn á útleið, vextirnir ,,hérumbil" lækkaðir, snjórinn þekur sveitina mína og nærsveitir og þorrablótið afstaðið (ekki svo að skilja að ég hafi mætti, læt góugleði hestamannafélagsins Sóta duga). Og við þessar aðstæður eigum við víst bara að auka fróðleik okkar. Það er bæði verðugt verkefni og hálf geggjað markmið. Ég held líka að við séum eina liðið sem mætir ,,vikulega." Minnir mig á ljóð eftir tvo menntaskólanema, sem kom út endur fyrir löngu á vegum Vikunnar, sem var að plata landslýð með ljóðabókinni Þokum:

Abba labba lá

og læknarnir héldu að það yrði viku lega

svo dó hún úr L-i

og það var sama dag og Dilli dó

og það færðist korríró 

yfir sveitina.

Fimm sinnum fimm eru simsalabimm 

(skrifað eftir minni).

 

 


Ný skoðanakönnun - lengra inn í framtíðina

Þegar ég setti seinustu skoðanakönnun inn, hver yrðu næstu pólitísku stórtíðindi, þá hafði ég sannarlega ekki hugmyndaflug til að sjá fyrir þá atburði sem urðu. Sá ekki búsáhaldabyltinguna fyrir. Svörin hafa rokkað í samræmi við sveiflur samfélagsins. Nú er komin ný könnun og endilega takið þátt og látið aðra valkosti í athugasemdakerfið. Ef ég hefði birt alla möguleika hefði það verið einum of.

Mér heyrist að verið sé að bretta upp ermarnar!

Fréttir af stjórnarmyndunarviðræðunum benda til þess að það sé að gerast sem ég hef verið að vona að væri að gerast allar götur síðan í október. Bretta upp ermar, taka á vandanum - og það sem bætist við er að þetta á að gerast undir velferðarstjórn en ekki hagsmunagæslustjórn.

Mikið rosalega er ég í réttum flokki - játningar hamingjsamlega vinstri grænnar konu

Símtal frá Ungverjalandi í kvöld: ,,Mamma, ætlar þú ekki á opinn flokksráðsfund í VG í kvöld?" ,,Mér sló niður og ligg í pest," sagði ég sannleikanum samkvæmt. ,,En ..." og auðvitað fór ég.

Mér líður rosalega vel eftir þennan fund. Sjaldan sem maður er staddur í félagsskap þar sem maður er sammála nánast öllu sem fram kemur. Það fer ekkert á milli mála að ég er í réttum flokki og stend auðvitað með honum í gegnum þykkt og þunnt.


Ár uxans hófst í gær og lauk þá ári rottunnar (og varið ykkur á pestinni)

Tang Hua vinkona mín datt inn á msn í dag og eftir að við höfðum spjallað aðeins saman um pólitíkina og mótmælin sagði hún mér að nú væri ár uxans runnið upp, raunar í gær. Við erum venjulega ekki mjög lengi á msn, svo ég ákvað að fletta þessum árum bara sjálf upp á netinu.  Fráfarandi ár, ár rottunnar, er kennt við auð (!) og það hlýtur þá að merkja líka að þýða að þegar auðurinn yfirskyggir allt þá getur hann líka horfið. Árið sem nú er hafið er ár uxans. Það lofar alveg sæmilegu, merkir góðan efnahag með mikilli vinnu og dugnaði. Á það ekki bara að duga?

Annars er þessi pest sem ég var að glíma við í fyrri viku búin að koma mér aftur á kné, enda fór ég þokkalega bratt af stað eftir að vera búin að liggja í pestinni í viku. Þannig að ég vona að þið sem hugsanlega fáið þessa pest gætið ykkar vel, ekki fara of snemma eða of hratt af stað aftur.


Mikilvægasta ríkisstjórn lýðveldisins í burðarliðnum?

Sú tímasetning, þeir atburðir og sá aðdragandi sem hefur verið að myndun nýrrar ríkisstjórnar gerir hana sennilega að mikilvægustu ríkisstjórn lýðveldisins, þótt skammlíf verði vegna komandi kosninga. Aðild Samfylkingarinnar að henni setur auðvitað spurningarmerki við getu hennar til að taka á alvarlegustu og brýnustu málum dagsins. Samfylkingin er enn í og að koma úr þeirri ríkisstjórn sem átti að fara frá, það var krafa mótmælanna. Getur hún umsnúist bara með því að komast í annan félagssskap (og betri að mínu mati, enda VG-kona)? Reyndar er breytt verkaskipting innan ríkisstjórnarinnar (ekki síst hlutverk Jóhönnu), eins og fregnir herma að hún verði, ávísun á einhverjar breytingar en hvort þetta tvennt dugar til veit ég ekki. 

Við vitum svo sem ekki hvort þetta var besta ríkisstjórin sem hægt var að mynda miðað við núverandi aðstæður. Eitt er víst, Þjóðstjórnarhugmyndin, með þá meginhugsun að allir öxluðu jafna ábyrgð fram að kosningum sem yrðu fljótt (!), datt út af borðinu um leið og Sjálfstæðismenn viðruðu þá hugmynd að ,,eðlilegast" væri að þeir leiddu hana. Það hvarflaði ekki eitt andartak að mér að utanþingsstjórn yrði mynduð, þótt hugmyndin væri góð var aldrei minnsti möguleiki á slíku, það var því miður augljóst.

Þessi stjórn sem er að fæðast verður dæmd af verkum sínum. Ég get ekki annað en fagnað henni og brýnt hana til allra góðra verka. Mér segist svo hugur að pólitískt landslag við næstu kosningar verði allt öðru vísi en það er núna og það er mjög jákvætt ef svo verður. Nýju öflin og áherslurnar í samfélaginu, krafan um stjórnlagaþing hefur þegar haft áhrif á umræðuna, allt er þetta af hinu góða. VG veitir svo sannarlega ekki af góðum samstarfsflokkum eftir kosningar. Ég óttast að ef ESB-umræðan verður dregin inn í brennidepil á nýjan leik muni það skyggja á hin raunverulegu viðfangsefni þessarar stjórnar, endurreisn Íslands. Nú er bara að bíða og sjá hvað setur.


Jóhanna og valkostirnir

Þegar ég fór að heima í hádeginu í dag var rætt um að næsti forsætisráðherra yrði sóttur út í bæ. Nú heyrist mest talað um Jóhönnu. Ætli hennar tími sé loks kominn? Fylgist með eins og flestir í landinu.

Verður næsta ríkisstjórn undir forystu Dags B. Eggertssonar - eða er þingrof í myndinni?

Verður næsta ríkisstjórn undir forystu Dags B. Eggertssonar - eða er þingrof í myndinni? Orð Ingibjargar Sólrúnar renna stoðum undir hið fyrra, Geir hefur bókstaflega dregið hitt inn í myndina.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband