Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Úr bloggbindindi í baráttuna
20.2.2009 | 02:56
Þá er ég komin undan feldi og búin að gera það upp við mig að ég er tilbúin að hella mér aftur út í pólitíkina ef stemmning er fyrir því. Þetta var ekki auðveld ákvörðun en í dag hef ég fundið mjög vel að þetta var eina niðurstaðan sem ég hefði verið sátt við. Fyrir seinustu kosningar varðist ég fimlega öllum þrýstingi og tók ekki sæti á lista VG, en studdi auðvitað mína góðu Vinstri hreyfingu hið ágæta græna framboð. Þar á undan var ég tilbúin að fara í hvaða sæti sem var nema fimm efstu og lenti í því sjöunda. Það var mjög yndisleg kosningabarátta og ég þvældist eitthvað með Þórey Eddu Elíasdóttur, henni til halds og trausts, vona ég. Hún var þá í öðru sæti listans og hafði nóg að gera. Núna hefur verið hnippt aðeins meira og aðeins fastar í mig en við fyrri kosningar, ég kláraði strembna námið mitt (M.SC. í tölvunarfræði) í vor og eiginlega gat ég ekki réttlætt að láta ekki á það reyna hvort áhuginn á því að fá mig aftur í baráttuna væri raunverulegur. Alla vega þá er ég sátt við þessa ákvörðun og tilbúin að láta félaga í VG sjá um að skera úr um hve rétt hún var. Meðframbjóðendur (það eru engir mótframbjóðendur í VG) eru frábærir og það er ánægjulegt að tilheyra samtökum þar sem svona margt og gott fólk býður sig fram.
En mér er rammasta alvara með þessu framboði. Skeyti fréttatilkynningunni vegna framboðsis hér fyrir neðan.
Fréttatilkynning:
Anna Ólafsdóttir Björnsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1.-3. sæti í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík sem fram fer 7. mars næstkomandi.
Þær samfélagsbreytingar sem eiga sér stað um þessar mundir eru helsta ástæðan fyrir því að Anna hefur ákveðið að sækjast eftir sæti ofarlega á lista Vinstri grænna í komandi kosningum. Sjaldan eða aldrei hafa stjórnmál á Íslandi snúist um jafn mikilvæg málefni og nú. Tækifæri hafa skapast til þess að byggja upp nýtt og réttlátara þjóðfélag. Með því að bjóða fram krafta sína vill Anna leggja hugsjónamálum sínum lið. Bregðast þarf við aðkallandi vanda heimila og fyrirtækja í landinu, sem ramba á barmi gjaldþrots, ef ekki verður tekið myndarlega á. En ekki er síður mikilvægt að nýta þau tækifæri sem gefast þegar stokkað er upp á nýtt. Nú er tækifæri til að skapa samfélag aukins jöfnuðar, kvenfrelsis, lýðræðis, virðingar fyrir umhverfinu og fjölbreyttara atvinnulífs. Að þessum málum vill Anna vinna.
Anna er andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ekki síst vegna fjarlægðar fólks frá því valdi sem tekur mikilvægar ákvarðanir sem varða líf og kjör almennings. Krafa dagsins í dag er aukið lýðræði og aukin áhrif almennings en innganga í ESB væri afdrifaríkt skref í þveröfuga átt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:57 | Slóð | Facebook
Geir Haarde sagði rétt áðan um seðlabankastjórana þrjá að hinir tveir seðlabankastjórarnir hefðu ekkert til saka unnið - hvað er hann að segja um Davíð, fer það á milli mála? Loksins réttu spyrlarnir fyrir Geir, Auddi og Sveppi!
Annars er ég í bloggbindindi.
Samherjar - með mismunandi sjónarmið - og hvers vegna við verðum að gera það fyrir Eirík Bergmann að halda okkur utan ESB ;-)
8.2.2009 | 19:05
Það sem af er ári, eða á ég kannski að segja það sem af er kreppu? hef ég fundað mikið og margvíslega með samherjum, án þess að eiga í rauninni annað sameiginlegt með mörgum þeirra en niðurstöðuna. Laugardagsfundirnir sem ég hef komist á, meðal annars þeir sem féllu inn í búsáhaldabyltinguna, eru sterkasta dæmið um það, sum okkar, þeirra á meðal ég, eigum okkur enn málsvara meðal þeirra flokka sem eru inni á alþingi, í mínu tilviki eru það Vinstri græn. Það hefur ekkert breytst. Önnur okkar munu standa fyrir stofnun annarra framboða eða finna sér farveg í því persónukjöri sem boðað er. Ég get ekki annað en glaðst með okkur öllum, okkur hefur orðið býsna mikið ágengt, einmitt í því sem sameinar kröfur okkar um breytt og betra stjórnarfar, en enn er verk að vinna.
Sama máli gegnir um andstöðuna gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar er fjölskrúðugur hópur samherja sem hafa komist að sömu niðurstöðu en á talsvert mismunandi forsendum. Þótt helsti þrýstingurinn á þeirri umræðu sé búinn í bili, þá þarf sífellt að vera vakandi og þess vegna er Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum nú á fullri ferð að halda fundi á hverjum sunnudegi, afla fjár þess á milli, mest eru það litlu upphæðir stuðningsmanna, eins og þær sem gerðu sigur Obama að veruleika í Bandaríkjunum. Takk öll! En við erum andvíg Evrópusambandsaðild á mjög mismunandi forsendum - fyrir suma er fullveldisafsalið mikilvægast, aðra afsal yfirráða auðlindanna, ég hef mestar áhyggjur af skorti á lýðræði innan sambandsins og fjarlægðina frá valdi og flest erum við auðvitað andvíg af mörgum og mismunandi ástæðum. Á fundi Heimssýnar í dag hafði Björn Bjarnason framsögu, enda nýbúinn að senda frá sér bók um ESB og Ísland, og Stefán Jóhann Stefánsson og Eiríkur Bergmann Einarsson sáu um að koma með athugasemdir auk allmennra umræðna. Þetta var fínn fundur eins og fyrri fundir, góður vettvangur fyrir spjall og vangaveltur um málefnið. Allir sem fylgjast með umræðunni vita auðvitað hvernig Eiríkur Bergmann Einarsson er stemmdur í þessum málum, mjög hliðhollur aðild Íslands að ESB, en það kom ekki í veg fyrir að hann kæmi með smá óvænt komment í lokin, í gríni auðvitað. Hann benti nefnilega á að hann ætti persónulega sömu hagsmuna að gæta og Heimssýn, því á meðan Ísland væri utan ESB fengi hann endalaus boð um að halda fyrirlestra og annað slíkt hér og þar, heima og erlendis, og þessu myndi eflaust linna ef við færum inn. Þannig að ég vona að við gerum það öll fyrir Eirík að halda okkur sem lengst undan ESB.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.2.2009 kl. 03:12 | Slóð | Facebook
,,Sá á fund sem finnur" - nóg af fundum að baki og framundan
7.2.2009 | 22:39
,,Sá á fund sem finnur," sögðum við Kvennalistakonurnar þegar við vorum að drukkna í fundum (og kannski að skipta fundasókn með okkur).
Nóg er af fundunum sem ég á, vil og ætla að sækja þessa dagana. Ein góð ráðstefna um lýðræðið í dag, í tilefni af tíu ára afmæli VG, gaman að vera það í stórum og góðum hópi.
Á morgun eru tveir fundir sem báðir tengjast Evrópusambandsandstöðunni, Heimssýn er með vikulega fundi á Kaffi Rót, ætlum að prófa fundartímann kl. 16 að þessu sinni. Best að fylgjast með þessum fundum á www.heimssyn.is - því þeir verða fleiri núna framundan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.2.2009 kl. 03:12 | Slóð | Facebook
Á leið á afmælisráðstefnu VG um framtíð lýðræðis á Íslandi
7.2.2009 | 13:24
Trúi því varla að það séu komin tíu ár síðan Vinstri hreyfingin - grænt framboð var stofnuð. Grínast stundum með að ég kjósi ekki aðra flokka en þá sme ég hef verið með í að stofna, en það gildir reyndar í mínu tilfelli allt frá árinu 1983, svo það er ekki alveg fjarri lagi þótt ég hafi nýtt kosningaréttinn frá því ég mátti fyrst kjósa.
Ýmislegt er gert til þess að fagna tímamótunum og það sem ég hef einkum augastað á er ráðstefnan sem verður haldin í dag um framtíð lýðræðis á Íslandi. Hlakka til, best að fara að drífa sig af stað hvað á hverju.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.2.2009 kl. 03:13 | Slóð | Facebook
Þjóðarsátt um búsáhaldabyltingu - og hátekjuskattur á laun sem eru jöfn þingfararkaupi og hærri
6.2.2009 | 14:46
Fyrir um það bil tuttugu árum var allt í kaldakoli hér og þá var gerð svokölluð þjóðarsátt (þjóðarsáttarsamningar), sem fól það í sér að til að stemma stigu við óðaverðbólgu (,,víxlhækkun launa og verðlags" var það kallað) tók almenningu sem átti í kjaraviðræðum á sig talsverða kjaraskerðingu. Um þetta var svokölluð þjóðarsátt, ég var reyndar ein af þeim sem var efins um að rétt væri að henni staðið, því mér fannst hlutur láglaunafólks allt of mikill miðað við hlut annara í að skapa stöðugleika. En í stórum dráttum heppnaðist aðgerðin og kannski hefði úrvinnslan orðin góð ef ekki hefði verið mynduð Viðeyjarstjórnin árið 1991. Með henni var skattkerfið einfaldað og mikið rætt um hversu ,,stílhreint" það væri. Já, ég held það hafi einmitt verið ,,einfalt, stílhreint og óréttlátt." og lét það víst nokkuð oft í ljós við daufum eyrum. Skattleysismörkin hafa ekki megnað að vinna gegn óréttlætinu hjá millitekjufólki, en kannski fer því fækkandi nú.
Nýafstaðin (eða ekki afstaðin) búsáhaldabylting var að vissu leyti annars konar þjóðarsátt og nú hefur næstum öllum kröfum þorra fólks verið mætt. Ég er auðvitað visst bjartsýn á næstu 80 dagana þótt ég viti að ekki verður unnt að vinna kraftaverk, síst í þessu árferði. Ummæli um að hátekjuskattur væri nánast táknræn athöfn hafa verið dregin fram í dagsljósið, en mér finnst engu að síður að það sé rétt að setja hann á og mætti til dæmis miða mörkin við þingfararkaup. Enn betra kerfi væri það sem Norðmenn hafa verið með (veit ekki hvernig það er núna) þar sem skattþrep eru mörg og því ekki hætta á að með hærri tekjum geti útborguð laun lækkað til muna, eins og ef skattþrep eru fá. Það er mikill misskilningur að óréttlátur einfaldleiki sé til góða. Það er ekkert mál að vera með, eins og Norðmenn, skífu sem sýna nákvæmlega hvað háir skattar hver og einn er með, eftir tekju, og ég tala nú ekki um möguleikana sem tölvuforrit ættu að gefa.
Með allar mínar vonir, trú og væntingar til núverandi ríkisstjórnar, vonir sem sumir deila með mér og aðrir ekki, legg ég þetta inn í umræðuna á þessu stigi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.2.2009 kl. 03:14 | Slóð | Facebook
Kata rokkar
6.2.2009 | 00:00
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.2.2009 kl. 03:14 | Slóð | Facebook
Það mætti halda að veðurguðirnir hefðu tekið að sér að frysta eigur auðmanna (svo kalt er úti)
5.2.2009 | 02:43
Það mætti halda að veðurguðirnir hefðu tekið að sér að frysta eigur auðmanna, svo kalt er úti. Virði viljann fyrir verkið.
Og já, ég hlustaði á megnið af sjónvarpsumræðunum um stefnuræðu forsætisráðherra og er virkilega ánægð með nýju stjórnina og málflutning hennar - en ekki síður hversu hratt og vel hún virðist ætla að bretta upp ermarnar og láta til sín taka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:51 | Slóð | Facebook
Endurvakin bjartsýni og sjálfstraust þjóðar
2.2.2009 | 23:02
Erilsamur dagur en ég hef orðið vör við svo mikla gleði út um allt og aukið sjálfstraust, alla vega hluta þjóðarinnar. Þótt ég sé afskaplega hamingjusamlega vinstri græn, eins og ég hef fyrr getið um, þá átti ég ekki von á svona skörpum skilum og svona mikilli bjartsýni, eins og seinustu vikur hafa verið í sögu þessarar ágætu þjóðar okkar (nenni ekki að undanskilja útrásarvíkingana - það hlýtur að skiljast samt). Vissulega er fólk gætið, sparsamt, skynsamt, enginn að búast við kraftaverki, en það fer ekki á milli mála að vonin hefur kviknað, alla vega í mörgum hjörtum, og það er ekki bara notalegt, heldur mjög mikilvægt. Hinar raddirnar heyrast líka, en þær eru svo miklu, miklu færri. Viðbrögð almennings í fjölmiðlum lýsa sams konar upplifun og ég finn í kringum mig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.2.2009 kl. 03:15 | Slóð | Facebook
Tímamót - sjálfsagt mál - frétt - loksins
1.2.2009 | 19:54
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.2.2009 kl. 03:15 | Slóð | Facebook