Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað merkja setningarnar sem við höfum heyrt í dag?

Enn eru ótrúlegir fréttadagar að dynja á okkur, fréttir sem geta varðað svo margt í framtíð okkar. Kosningar vissulega framundan, fjölmörg verkefni sem sumum finnst kannski ekki öðrum treystandi fyrir en núverandi stjórnvöldum, en þau hafa einhvern veginn ekki alveg verið að byggja upp það sama traust meðal þjóðarinnar.

Allmargar setningar sem hafa fallið í dag, sem ég veit ekki hvernig ég á að túlka, en kannski verður það orðið dagljóst (eða kýrskýrt) þegar ég vakna í fyrramálið. Elti ekki orðréttar tilvitnanir, enda held ég fast við að líta á blogg sem ritað talmál. En efnislega eru þær á þessa leið:

  1. Það getur brugðið til beggja vona
  2. Ég hef enn þingrofsréttinn 
  3. Hef ekkert talað við vinstri græna
  4. Allir möguleikar opnir
  5. Þjóðstjórn er einn kosturinn
  6. Hef ekki leitt hugann að öðrum kostum
  7. Þessi kjördagur er ekkert heilagur
  8. Evrópumálin eru ekki uppi á borðinu nú - það á að kjósa um þau
  9. Ég hef ekkert lesið blogg í dag eða verið á netinu
  10. Ekkert merkilegt að segja af sér þegar stjórnin er hvort sem er fallin
  11. Afdrifaríkar pólitískar afleiðingar af frestun landsfundar Sjálfstæðisflokksins því þarf með er endurskoðun Evrópustefnu flokksins í nokkru uppnámi
  12. Skýrist á morgun
Mér finnst hver einasta setning sem fallið hefur í dag vera þannig að hægt sé að skilja hana og skýra á ýmsa vegu. Margir hafa sagt að ekki sé sjans að stjórnin lifi óbreytt úr því sem komið er, hafa þeir eitthvað fyrir sér í því. Eina sem er nokkuð ljóst er að Samfylkingin hefur sett skilyrði um að Davíð víki og það vefst fyrir Sjálfstæðismönnum. Allt annað tel ég að geti farið á hvern veg sem er. En kannski vitið þið betur.

Virðingarvert að axla ábyrgð - en hvers vegna núna?

Það er ekki hægt annað en bera fulla virðingu fyrir því þegar það hendir að menn axla ábyrgð. Og ég ætla ekki að draga neitt úr því að það er gerningur sem fær þann sem það gerir til þess að standa uppréttari en ella. Ég ætla líka að virða að það hafi verið hans ákvörðun, án þrýstings, fyrst hann segir það. Þótt ýmsar lygar hafi verið afhjúpaðar í því ferli sem á undan er gengið þarf ekkert að gefa sér að þetta sé ein þeirra, meira að segja alveg líklegt að Björgvin hafi komist að þessari niðurstöðu.

Það er bara eitt sem ég skil ekki segir í gömlu dægurlagi, við texta Ómars Ragnarssonar, ef mig misminnir ekki. Það sem ég skil ekki er: Af hverju núna? Af hverju ekki fyrr?

Og Fjármálaeftirlitið er sett af. Ingibjörg Sólrún segir að þetta sé þrýstingur á Seðlabankann, ég á eftir að sjá það ferli.


mbl.is Björgvin segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hófstillt stemmning en mjög sterk krafa um að nú þurfi að axla ábyrgð

Mótmælin í dag eru þau fyrstu í þessari viðburðaríku viku sem ég tek þátt í og mér fannst þau takast afskaplega vel. Mannfjöldinn sem mætti ætti að taka af öll tvímæli um að fólk hefur ekki fengið þá tilfinningu að einhverjir hafi, enn þá alla vega, verið látnir axla ábyrgð á því að rýra kjör og jafnvel rústa lífi heilla fjölskyldna.

CIMG4288

Margir voru merktir appelsínulit, flestir bara með smá merki í barminum, slaufu eða blóm, en aðrir með meira áberandi hætti.

Enn er ég á því að í bili sé þjóðstjórn besta úrræðið og kosningar haldnar sem fyrst. Það er kominn tími til þess í sögu lýðveldisins að unnt sé að kalla alla til ábyrgðar saman þar til nýtt þing verður kosið. Þetta má að mínu mati alveg vera biðleikur og útilokar ekki stjórnlagaþing og nýtt lýðveldi. Það var magnað að heyra uprifjun á því hvernig við gátum orðið fullvalda í miðri drepsótt, spönsku veikinni, 1918 og stofnað lýðveldi þrátt fyrir að heimsstyrjöld geysaði. Já, við getum endurreist tiltrúna á Íslandi - bæði gagnvart sjálfum okkur og umheiminum og það er ekkert því til fyrirstöðu að við hrindum í framkvæmd nýjum og ferskum hugmyndum sem tryggja meiri jöfnuð og lýðræði. Ekki veitir af. Látum ekki hræða okkur frá því góða verki.

CIMG4291


mbl.is Áfram mótmæli á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem maður getur ekki sagt verður maður að þegja um


Baráttusöngvar á Útvarpi Sögu uppúr eitt - laugardag

Um daginn var ég komin í þann gírinn að finna til baráttulög sem sárabætur fyrir að komast ekki í mótmælin - vegna pestar og smá ábyrgðartilfinningar vegna þess að heilsan mín var ekki í einkaeigu minni meðan ég var búin að skuldbinda mig til þess að keppa fyrir Álftanes í Útsvari. Á morgun trítla ég af stað uppúr hádegi með smá lagasafn og verð um 13:15 í þættinum hans Halldórs og félaga hans að spila nokkur sýnishorn. Þetta eru baráttusöngvar sem mér finnst eiga að syngja.

Ef ég verð ekki búin með útivistarkvótann ætla ég að skjótast á mótmælin á eftir, finnst nú eiginlega að ég eigi að hlusta á hann Guðmund Andra sveitunga minn og fleira gott fólk og svo finnst mér nauðsynlegt að vera með einmitt núna - mótmælin hafa borið einhvern árangur en enn er mikilvægt verk óunnið.

Búin að lesa umræðu á blogginu og í fréttum og er furðu lostin. Það er barnaskapur að blanda saman tilgangi mótmælanna og þeim einstaklingum sem eiga nú um sárt að binda vegna veikinda og eru í sviðsljósinu. Ég get ekki neitað því að ég tek veikindi fólks sem ég þekki nærri mér og því miður hefur verið talsvert af slíku í kringum mig seinustu 2-3 árin, fæst af því sem alþjóð hefur nokkuð haft spurnir af. En það breytir ekki sannfæringu minni.


Þjóðstjórnar þörf fram að kosningum

Það er ekki hægt að slíta hugann frá stöðunni sem upp er komin. Kosningar framundan, það er sannarlega heillaspor. Að stjórnin sitji áfram? Ekkert nýtt gerst sem styður það.

Ég kalla hér með á þjóðstjórn fram að kosningum. 


Lamandi fréttir

Nýjustu fréttir af veikindum Geirs eru lamandi og þótt gott sé að fá kosningar fljótlega þá þarf sannarlega hugsa næstu skref, ALLIR! Nú er kominn tími til að senda Geir baráttukveðjur í sínu veikindastríði. Efast ekki um að við gerum það öll, hvað sem líður skoðun okkar á aðgerðum stjórnarinnar. Á sama tíma berast gleðifréttir af heilsufari Ingibjargar Sólrúnar en ástandið í Samfylkingunni er á hinn bóginn undarlegt, svo ekki sé meira sagt. Í dag ætla ég að reyna að fókusera á verkefni kvöldsins, Útsvar, þar sem ég mæti ásamt Guðmundir Andra Thorssyni og Hilmari Erni Hilmarssyni og við gerum okkar besta. En ég verð að viðurkenna, það verður erfitt, mjög erfitt.

Gleðilega appelsínugula nótt - og skýra ákvörðun að morgni

Vona að friðurinn sem nú virðist vera farinn að færast yfir mótmælin fylgi þeim inn í nóttina. En á morgun viljum við áreiðanlega mörg fá aðeins skýrari sýn á hvað er framundan. Samfylkingin öll vill kosningar í vor - en hvað með Sjálfstæðisflokkinn? Og getur Samfylkingin haldið áfram með Sjöllunum ef þeir þrjóskast við? Siðferðilega, praktískt og þá hvernig? Sé það ekki, og sé heldur ekki að neinu tauti sé við Sjálfstæðisflokkinn komandi enn, þótt einstakir þingmenn og/eða ráðherrar segi annað.

Táragas 1971 - upplýsingar óskast

Tíminn í kringum árið 1971 var tími ýmissa átaka í samfélaginu, baráttu gegn Viet-Nam stríðinu, árin á undan hafði verið landflótti, meðal annars til Ástralíu, vegna atvinnuleysis. Vinstri sveiflan í samfélaginu felldi stjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins (forvera Samfylkingarinnar) - en svo vildi til að þetta var einmitt kosningaár.

Nú er staðan enn alvarlegri í samfélaginu, ástand sem fáir eða enginn hefur upplifað fyrr. Í nótt voru mikil átök og táragasi beitt, að því er sagt er í fyrsta sinn síðan 1971. Eftir smá flettingar um viðburði ársins 1971, sem var vissulega viðburða- og átakaár, þá get ég ekki fundið út af hvaða tilefni táragasi var beitt þá. Vitið þið betur?

Og svo segi ég bara: Til hamingju mótmælendur með árangurinn sem vonandi er að fara að koma í ljós!


Nýja Ísland í mótun - það sem þarf að gera og það sem þarf að varast

Fréttir berast um að Samfylkingin sé í raun öll horfin frá stuðningi við ríkisstjórnina, ef marka má þessar frétt á visir.is:

"Geir Haarde forsætisráðherra rangtúlkar skilaboð um framhald ríkisstjórnarsamstarfsins sem hann hefur fengið í samtölum við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra síðastliðna tvo daga. Þetta fullyrti Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarkona Ingibjargar, við nokkra samflokksmenn sína í gær.

Geir sagði í fjölmiðlum í gær að hann hefði talað við formann Samfylkingarinnar þann daginn og þau væru ekkert á þeim buxunum að slíta stjórnarsamstarfi eins og sakir stæðu."

Búast má við stjórnarslitum. Næstu skrefin eru mikilvæg. Sú stjórn sem situr fram að kosningum hefur að mínu mati skyldu og umboð til eftirfarandi verka:

  • að grípa til ráðstafana þegar í stað til að koma í veg fyrir gjaldþrot og aðrar hremmingar fjölskyldnanna í landingu
  • að koma atvinnulífinu af stað með verklegum, opinberum framkvæmdum og úr þeirri stöðunum sem það er nú- við óbreytt ástand verður atvinnuleysistryggingasjóður tómur í haust, eins og Steingrímur J. var að benda á
  • að tryggja landinu nauðsynlegt fjármagn á sanngjörnustu fáanlegum kjörum (fjárhagslegum og án íþyngjandi pólitískra ákvæða) og láta ekkert óskoðað í þeim efnum
  • að kortleggja kosti í gjaldmiðlismálum

Starfandi stjórn fram að kjördag hefur ekki umboð til eftirfarandi að mínu mati:

  • að hneppa þjóðina í skuldaklafa sem ekki er hægt að vinna sig útúr
  • að hefja aðildarviðræður við ESB
  • að ákveða gjaldmiðilsbreytingu án þess að leggja valkosti fyrir þjóðina

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband